Skattheimtan brýtur niður vonina

Á þeim tíma sem Steingrímur J. Sigfúson hefur gengt embætti fjármálaráðherra hafa orðið gífurlegar hækkanir á sköttum og gjöldum sem einstaklingum og fyrirtækjum er gert að greiða til hins opinbera. Skattahækkanir eru réttlættar með því að verið sé að bregðast við hallarekstri ríkisjóðs auk þess að færa skattheimtu hér á landi til samræmis við þá skattastefnu sem rekin er  á Norðurlöndum. Enginn ætti þó að velkjast í vafa um, að gríðarlegar skattahækkanir fjármálaráðherra eru fyrst og fremst pólitísk aðgerð sem sprottin er af þeirri trú að skattahækkanir leiði af sér einhvers konar „félagslegt réttlæti“.

Hugtakið „félagslegt réttlæti“ í hugmyndafræði sósíalista byggir á að jafna tekjur niður á við í stað þess að hjálpa þeim sem hafa minna handa á milli að afla meiri tekna. Fjármálaráðherra virðist trúa því, að  sama sé hversu mikið skattar eru hækkaðir, hækkunin muni ætíð leiða af sér hækkandi tekjur ríkissjóðs. Reynsla fyrri ára hefur þó sýnt svo ekki verður um villst að lækkun skatta hefur aukið skatttekjur ríkissjóðs og verið hvati á atvinnulíf og einstaklinga til frekari tekjuöflunar. Það hafa aldrei þótt góðir búskaparhættir að blóðmjólka fólkið og fyrirtækin í landinu eins og nú er verið að gera.

Listinn er langur og ljótur

Það er ekki auðvelt fyrir fólk að átta sig fullkomlega á öllum skattahækkunum sem innleiddar hafa verið í tíð núverandi fjármálaráðherra, svo miklar og flóknar eru þær. Hér er því rétt að nefna helstu hækkanir beinna og óbeinna skatta s.l. tvö ár og er þá stuðst við samantekt frá KPMG og fleiri fagaðilum. Auk þeirra skattahækkana sem hér eru nefndar hafa orðið gífurlegar hækkanir á óbeinum sköttum og gjöldum, oftast langt umfram almennar verðlagshækkanir. Má í þessu sambandi nefna hækkanir sem koma sérlega illa við fjölskyldufólk svo sem bensíngjald, áfengisgjald, tóbaksgjald, vörugjöld og bifreiðagjöld.

Listinn yfir skattahækkanir velferðarstjórnarinnar er enginn skemmtilestur en helstu breytingar á sköttum sem gerðar hafa verið á síðustu tveimur árum eru:

• Tekjuskattur lögaðila hefur verið hækkaður úr 15% í 20%.

• Tryggingagjald hækkað úr 5,34% í 8,65%.

• Tekinn upp afdráttarskattur af vaxtagreiðslum til erlendra skuldareigenda.

• Skilyrði fyrir frádráttarbærni móttekins arðs hjá lögaðilum er að yfirfæranleg töp hafi verið jöfnuð. Frá og með álagningu 2012 verður frádráttur tiltekinna félaga vegna móttekins arðs og hagnaðar af sölu hlutafjár bundinn við 10% eignarhald í viðkomandi félagi. Ákvæði þetta gengur þvert á yfirlýst markmið um dreifða eignaraðild að félögum.

• Fjármagnstekjuskattur einstaklinga hækkaður um 100%, úr 10% af fjármagnstekjum í 20%.

• Þrepaskiptur tekjuskattur einstaklinga tekinn upp. Skatthlutfall einstaklinga (tekjuskattur og útsvar) hefur hækkað úr 37,2% í 46,21% ef miðað er við hæsta skattþrep. Í lægsta skattþrepi, af tekjum lægri en 209.400 kr. á mánuði, er tekjuskattsprósenta 37,31%.

• Auðlegðarskattur (eignarskattur) lagður á í fyrsta sinn í álagningu 2010. Skatturinn hefur enn verið aukinn, fríeignamark lækkað og skatthlutfall hækkað úr 1,25% af stofni í 1,5%. Þetta er skattur sem kemur sérlega illa við eldra fólk sem situr uppi með stórar íbúðir, hefur sýnt sparnað og ráðdeild alla tíð en hefur litlar tekjur á efri árum.

• Virðisaukaskattur hefur verið hækkaður úr 24,5% í 25,5% í hærra þrepi.

• Arður sem greiddur er hluthöfum sem ber að reikna sér endurgjald og er umfram 20% af eigin fé félags í lok viðmiðunarárs telst að hálfu til launatekna. Hér er verið að skattleggja réttilega úthlutaðan arð sem laun. Það kemur sérstaklega illa við frumkvöðla í nýsköpunarfyrirtækjum, sem oft eru stofnsett af takmörkuðum efnum með litlu eiginfé en geta skilað góðum arði ef vel tekst til.

Sú hækkun sem hefur neikvæðust áhrif á atvinnurekstur og fjölgun starfa er hækkun tryggingagjalds, sem greiðist af launum óháð rekstrarafkomu. Hækkun tryggingargjalds eykur kostnað fyrirtækja við að hafa fólk í vinnu og leiðir til þess að fyrirtæki vilja losna við að ráða fólk eða spara með því að segja upp starfsfólki. Hækkun tryggingargjalds dregur einnig verulega úr getu fyrirtækja til að hækka beinar launagreiðslur til starfsmanna og torveldar gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Fólk verður að eiga von

Ofan á allt þetta er rétt að muna að allar þessar skattahækkanir norrænu velferðarstjórnarinnar hafa hvergi skilað sér til almennings í formi betri eða aukinnar þjónustu ríkisins, heldur þvert á móti. Því skyldi engan undra að fjöldi Íslendinga leitar nú betra lífs á hinum Norðurlöndunum. Þar býðst þeim bæði mannlegri skattheimta og betri þjónusta af hendi ríkisins fyrir þá skatta sem innheimtir eru. Til að byggja Ísland upp úr rústum efnahagshrunsins verður fólkið að eygja von fyrir sig og fjölskyldur sínar. Skattastefna fjármálaráðherra gerir sitt besta til að slökkva þá von. Því verður að breyta.