Niðurstaða greiningar: Svart er hvítt

Í dag fer fram þriðja umræða um Icesave III. Helsta útspil Icesave-sinna í tilefni dagsins er að Greining(ardeild) Íslandsbanka hafi sent frá sér álit þess efnis að samþykkt Icesave-samkomulagsins marki tímamót í endurreisn íslensks efnahagslífs. Það muni bæta lánstraust Íslendinga til muna, m.a. að mati Moody´s.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Greining Íslandsbanka fjallar um Icesave. Þar á bæ hafa menn áður talið einsýnt að gríðarmiklar auknar skuldir í erlendri mynd væru til þess fallnar að bæta lánstraust landsins og jafnvel styrkja gjaldmiðilinn. Slík „rök“, eins þversagnakennd og þau eru, áttu einnig að vera helsta réttlætingin fyrir því að samþykkja Icesave I og Icesave II.

Reynslan hefur hins vegar sýnt allt annað. Reynslan hefur sýnt það sem allir gátu sagt sér með einfaldri rökhugsun. Það kom á daginn að þegar þjóðin ákvað að samþykkja EKKI að taka á sig aukna skuldabyrði þá BATNAÐI lánstraust Íslands til mikilla muna, en ekki öfugt eins og haldið hafði verið fram.

Hér að neðan er mynd sem sýnir þróun skuldatryggingaálags Íslands samanborðið við fjögur önnur lönd. Skuldatryggingaálag er hinn raunverulegi mælikvarði á lánstraust ríkja og fyrirtækja. Það byggist ekki á pólitík heldur raunverulegu mati markaðarins, þ.e. hvar menn vilja raunverulega fjárfesta. Álag Íslands hafði verið hærra en hjá flestum löndum frá efnahagshruninu en sveiflast í takt við sveiflur annarra Evrópulanda. En þegar Icesave var fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu varð allt í einu viðskilnaður. Lánstraust Íslands tók að styrkjast jafnt og þétt jafnvel þótt vantraust á öðrum löndum ryki upp úr öllu valdi (sjá mynd hér að neðan).