Á Vesturlöndum er rík áhersla lögð á sjálfstæði Seðlabanka. Á Íslandi gripu stjórnvöld hins vegar inní starfsemi bankans með afgerandi hætti. Það var réttlætt á grundvelli alvarlegs ástands í efnahagsmálum. Vissulega var alvarlegt ástand í efnahagsmálum en maður veltir því fyrir sér hvaða árangur varð af breytingunum.
Hinir nýskipuðu fulltrúar stjórnvalda í Seðlabankanum tilkynntu í morgun um 1% vaxtalækkun, úr 18% í 17%. Þessi ákvörðun jaðrar við að vera kvikindisleg.
Við þær aðstæður sem nú eru ríkjandi í hagkerfinu er fráleitt að halda vöxtum svo háum. Réttlæting Seðlabankans er enn sem fyrr verðbólga og gengi krónunnar.
Gengi krónunnar er stýrt með gjaldeyrishöftum. Þeir sem Seðlabankinn er hræddur um að selji krónurnar sínar ef vextir lækka meira geta ekki selt krónurnar sínar. Þeim er bannað það með lögum. Á meðan vextirnir eru svona háir njóta þessir sömu krónubréfaeigendur, sem læstir eru inni með eignir sínar, hins vegar hárra vaxta sem Íslendingar þurfa að miklu leyti að borga. Vaxtatekjunum fá þeir reyndar að skipta úr krónum þ.a. hinir háu vextir þýða í raun meira útstreymi en lægri vextir.
Verðbólga er enn síður áhyggjuefni en áhrif á gengi krónunnar. Þegar atvinnuleysi er komið yfir 10%, kaupmáttur minnkar hratt, verslun og viðskipti dragast hraðar saman en dæmi eru um áður og því er spáð að að meðaltali fara hátt í 10 fyrirtæki í þrot á dag er verðbólga ekki áhyggjuefni. Sú verðbólga sem nú mælist er afleiðing af atburðum sem búnir eru að gerast. Engin merki eru um áframhaldandi verðbólgu.
Um allan heim hafa seðlabankar lækkað vexti hratt og mikið til að reyna að koma hagkerfinu í gang. Ísland, sem þarf öðrum fremur á því að halda að endurræsa hagkerfið, býr hins vegar við kæfandi okurvexti.
Vextir breska seðlabankans eru nú 0,5% þrátt fyrir að verðbólga mælist sexfalt hærri, 3%. Seðlabanki Bandaríkjanna er nú með rétt-rúmlega 0% vexti. Vaxtastig á Íslandi eru því í hróplegu ósamræmi við það sem gengur og gerist annars staðar.
Íslensk stjórnvöld þurfa að lýsa því yfir að það sé eindreginn vilji þeirra að vextir verði lækkaðir verulega og hinir nýju stjórnendur Seðlabankans verða að sýna að ráðning þeirra hafi verið til einhvers.