Árás uppgötvast

Það er undarlegt að fylgjast með þingmönnum núverandi ríkisstjórnar, og þeirrar síðustu, kveða sér hljóðs á Alþingi til að hneykslast á því framferði sem Bretar hafi sýnt með beitingu hryðjuverkalaga, nú hálfu ári eftir atburðinn.

Þingmennirnir treysta sér til að mótmæla árás á þjóð sína núna meira en sex mánuðum eftir að árásin var gerð vegna þess að þeir lásu í breskri skýrslu að það að beita Íslendinga hryðjuverkalögum hefði verið óviðeigandi. -Skýrslu frá breska þinginu, sama þingi og beitti lögunum. Það er því ekki nóg með að stjórnvöld hafi ekki gripið til varna gegn árás erlends ríkis, kvalarinn sjálfur þurfti að segjast hafa gengið of langt til þess að þingmennirnir íslensku þyrðu að taka undir.

Þingmenn Framsóknarflokksins fordæmdu árásina strax og hún var gerð og kröfðust þess að ríkisstjórnin brygðist við. Ræða Guðna Ágústssonar að því tilefni var ein af þeim eftirminnilegustu á þinginu í seinni tíð (sjá neðsta á síðunni sem opnas hért: http://www.althingi.is/altext/hlusta.php?raeda=rad20081015T142028&horfa=1). Ríkisstjórnin hafði hins vegar ekki fyrir því að mótmæla árás á þjóðina. Ráðherrar Sjálfstæðisflokks tóku ekki einu sinni upp símann til að mótmæla aðgerðunum og Samfylkyngin lagðist flöt. Þar á bæ þykir enda óviðeigandi að andmæla útlendingum. Sama fólk mótmælir nú í heilagri reiði eftir að hafa lesið í bresku skýrslunni að það sé í lagi.

Mér og fleira fólki ofbauð svo viðbrögð, eða viðbragðaleysi, stjórnvalda á sínum tíma að við hófum okkar eigin baráttu gegn beitingu hryðjuverkalaganna. Með því hófust afskipti mín af stjórnmálum. Það var þó sama hversu hart við lögðum að ríkisstjórninni að bregðast til varna fyrir þjóðina. Lítið sem ekkert gerðist. Í millitíðinni var allt gefið eftir í samningaviðræðum um Icesave þrátt fyrir sterka stöðu okkar á þeim vettvangi. Það verður forvitnilegt að sjá viðbrögð Samfylkingarinnar í framtíðinni þegar á fjörur okkar rekur skýrsla um að óréttmætt hafi verið að þvinga Íslendinga til að ábyrgjast Icesave skilyrðislaust.

Nýlega fór ég og hópurinn sem barðist gegn beitingu hryðjuverkalaganna (www.indefence.is) til fundar við breska þingmenn og fulltrúa utanríkisráðuneytisins þar í landi til að mótmæla valdbeitingunni. Þar kom fram að við gætum ekki vænst þess að hryðjuverkalögunum yrði aflétt fyrr en við hefðum fallist á að taka á okkur Icesave-skuldbindingarnar. Þegar einn fundarmanna gerðist svo djarfur að spurja hvort ekki mætti kalla þetta fjárkúgun varð fátt um svör.

Ríkisstjórn Íslands hefur enn ekki mótmælt því að þjóðinni sé stillt upp við vegg með þessum hætt. Það hefur reyndar ekki einu sinni verið greint frá því opinberlega að þessi sé raunin.

Þegar við reyndum á sínum tíma að vekja þingið og ráðuneytin af dróma var ekkert sem þingmönnum Samfylkingarinnar mislíkaði jafn-mikið og að við skyldum tengja saman umræðuna um beitingu hryðjuverkalaganna og Icesave. Þessu yrði að halda aðskildu. Nú er hins vegar mikil áhersla lögð á að skýrsla breska þingsins um beitingu hryðjuverkalaganna muni styrkja samningsstöðu okkar í Icesave-deilunni.

Erlendir fræðimenn hafa nú bent á að skuldaleiðrétting sé óumflýjanleg. Bæði hér og í löndum sem eru ekki í nærri jafn-góðri stöðu til að framkvæma slíkt og Íslendingar. Til landsins komu menn sem hvöttu íslensk stjórnvöld til að verja þjóð sína fyrir efnahagslegu hruni með skuldaniðurfellingu. Sumir þeirra ganga reyndar miklu lengra í þeim efnum en Framsókn sem aðeins hefur talað fyrir skuldaleiðréttingu sem nemur áhrifum verðbólgu frá upphafi krísunnar (með því að afskriftir séu að hluta látnar ganga áfram til skuldaranna). Málflutningur hagfræðingana virðist þó ekki duga til að hreyfa við stjórnvöldum og gera þeim ljóst hversu alvarlegt ástandið er. Við verðum bara að vona að fljótlega berist til landsins skýrsla um málið.