Ofurhagfræðingur sammála Framsókn

Mark Flanagan starfsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafnaði hugmyndum um kerfisbundna 20% niðurfellingu skulda (eða því að skuldir allra verði miðaðar við verðlagsvísitölu fyrir upphaf fjármálakrísunnar og gengishrunsins) á fundi með blaðamönnum í gær.

Fyrir skömmu átti ég, ásamt þremur ráðgjöfum, fund með fulltrúum IMF þar sem við kynntum tillögur sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram í efnahagsmálum, einkum tillögu um flata 20% lánaafskrift. Á fundinum upplýsti fulltrúi sjóðsins að hann væri sammála okkur um allar forsendur sem og nauðsyn þess að fara í flatar (kerfisbundnar) lánaafskriftir.

Við ræddum það jafnframt að skoða bæri hvort finna mætti formúlu sem skilaði hagkvæmari dreifingu en flöt 20% enda lá fyrir vilji til að bæta tillöguna ef finna mætti enn hagkvæmari leiðir (en slíkt þarf að byggjast á mjög greinargóðum upplýsingum). Auk þess vorum við sammála um að ef mjög stór hluti þjóðarinnar teldist uppfylla skilyrði fyrir flatri skuldaniðurfellingu mundi vart borga sig að ætla að skilja hluta skuldara útundan.

Að yfirferð lokinni snéru áhyggjur fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins einkum að því að ef tillögurnar næðu fram að ganga kynnu kröfuhafar að gera sér von um töluvert MEIRI heimtur af lánum til íslenskra banka en ella. Það væri því æskilegt að semja við kröfuhafa áður en niðurfellingin (og þær auknu tekjur sem af henni gætu leitt) ættu sér stað.

Fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sló algjörlega út af borðinu tillögur á borð við þær sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir. Þ.e. sértækar aðgerðir þar sem hvert tilfelli fyrir sig yrði metið og aðstoð svo úthlutað. Fullyrt var að slíkar leiðir væru ófærar.

***

Yfirlýsingar Mark Flanagan í gær eru því mjög í andstöðu við það sem fram fór á fundinum. Flanagan gerði mér þó grein fyrir því að hlutverk hans væri fyrst og fremst að „bakka upp” þau stjórnvöld sem ríktu hverju sinni.

Forsætisráðuneytinu og þingmönnum Samfylkingarinnar hefur einhverra hluta vegna verið mikið í mun að kveða í kútinn tillöguna um að afskriftir af skuldum Íslendinga verði látnar ganga áfram til skuldaranna. Í þetta hefur verið eytt óvenju miklu púðri, eins og sést best á því að enn er vakið máls á hugmyndinni (sem var aðeins ein af 18 samhangandi aðgerðum í tillögunum) í því augnamiði að gera lítið úr henni. Í því skyni var m.a. sett færsla inná heimasíðu forsætisráðuneytisins. Færslan var svo fjarlægð af vefsíðunni skömmu síðar (væntanlega eftir að menn þar á bæ gerðu sér grein fyrir að athugasemdirnar hefðu verið vanhugsaðar).

Nú hefur hins vegar verið gengið skrefinu lengra og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins blandað í málið í von um að tryggja mætti endalok hugmynda um jafnræði skuldara. [ATH: Tillagan gengur í raun útá það sama og ef verðlagsvísitala yrði færð aftur til þess sem hún var fyrir upphaf fjármálakrísunnar og lán miðuð við það. Allir skuldarar væru þá í sömu stöðu og þeir hefðu verið ef ekki hefðu orðið þeir óvæntu atburður sem ekki var hægt að gera ráð fyrir þegar lánin voru tekin. Það væru því allir í þeirri stöðu sem þeir töldu sig standa undir (nema þeir sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi og þurfa viðbótaraðstoð). Auk þess mundu lánardrottnar innheimta MEIRA en ef kerfishruni yrði leyft að eiga sér stað.]

Þetta voru tillögur sem ráðgjafar okkar töldu raunhæfastar. Það er allt í lagi að vera ósammála þeim. Þegar stjórnmálamenn hafna tillögunum alfarið ættu þeir þó að geta bent á betri leið (tillögurnar má eflaust bæta eins og aðrar hugmyndir). En því var ekki að heilsa hjá stjórnarflokkunum. Þeir kepptust við að snúa útúr, t.d. með fullyrðingum um hvað tillögurnar mundu kosta mikið (þó að í raun snúist þær ekki um að auka útgjöld heldur að lágmarka tap).
Stjórvöld, sem þó hafa það hlutverk að koma með lausnir komu ekki með neitt á móti.
Öll áherslan var á að rífa niður. Semsagt „ef það kemur frá einhverjum öðrum getur það aldrei verið lausn, aðeins ógnun”.

***

Ég tók fyrst eftir hagfræðiprófessornum Nouriel Roubini um mitt ár 2007. Þar var loksins kominn maður sem þorði að gagnrýna ástandið og benda með sterkum rökum á hættuna vofði yfir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tók þó aðvörunum hans fálega þegar hann lýsti því fyrir fulltrúum sjóðsins árið 2006 hvernig hrunið mundi ganga fyrir sig.

Þrátt fyrir háð og spott gagnrýnenda hélt Roubini ótrauður áfram.
Loks kom í ljós að hann hafði rétt fyrir sér um allt. Fjölmiðlar fóru því að leita til hans í auknum mæli og frá því að krísan hófst hefur hann hvað eftir annað spáð rétt fyrir um þróun mála.

Prakash Loungani hagfræðingur AGS talar nú um Roubini sem „spámanninn”.
Roubini var í aðalhlutverki á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos í fyrra og ráðleggur nú ríkisstjórnum víða um heim.
Á þekktum lista yfir 100 mestu hugsuði heims (Prospect-listanum) er Roubini í öðru sæti fyrir að hafa stöðugt haft á réttu að standa, skref fyrir skref.

Roubini má því telja einn virtasta hagfræðing heims og áreiðanlega þann eftirsóttasta.

Eftirsóttasti hagfræðingur heims, hefur nú kveðið upp dóm í skuldalækkunarmálinu. Hann er fullkomnlega sammála Framsókn.
Ég hef verið sammála Roubini frá því að ég varð hans fyrst var. Það var því sérlega ánægjulegt að sjá að hann hefur nú komist að sömu niðurstöðu og ráðgjafar Framsóknar varðandi skuldavandann. Það gefur vonandi til kynna að hann muni hafa rétt fyrir sér hér eftir sem hingað til.

Við þurfum að líta á hagkerfið sem eina heild og meta hvernig best er að koma því aftur í gang þannig að bæði skuldarar og lánardrottnar fái sem mest útúr því. Þar er vænlegasta leiðin flöt hlutfallsleg niðurfelling svo að eitt gangi yfir alla (eins og við lækkun vísitölu) og ekki myndist neikvæðir hvatar í hagkerfinu.

So what can the government do? The easy part is lowering interest rates and buying toxic assets. The hard part, he says, will be tackling housing. Roubini says that the housing market, like a company restructuring in bankruptcy, needs to have “face value reduction of the debt.” Rather than go through mortgages one by one, he says reduction has to be “across the board…break every mortgage contract.”

Hvað getur þá ríkisstjórnin gert? Auðveldi hlutinn er sá að lækka vexti og kaupa eitraðar (óseljanlegar) eignir. Það erfiða, segir hann, er að fást við húsnæðismálin. Roubini segir að húsnæðismarkaðurinn, rétt eins og fyrirtæki sem endurskipulagt er við gjaldþrot, þurfi „nafnverðslækkun skulda” Fremur en að skoða húsnæðislán hvert fyrir sig þarf ,,flata niðurfellingu…rjúfið hvern einasta húsnæðislánasamning.”

Sjá viðtal og fleiri tilvitnanir hér:
http://www.cnbc.com/id/29598949

Hverjum ætlarðu að trúa?

Lágtsettum erindreka frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hefur helst það hlutverk að veita ríkjandi stjórnvöldum liðsinni eða eftirsóttasta hagfræðingi heims sem hefur áunnið sér traust með því að segja það sem aðrir þorðu ekki að segja síðast-liðin þrjú ár og hafa alltaf haft rétt fyrir sér?

Nánar um Roubini
http://en.wikipedia.org/wiki/Roubini#cite_note-Prospect-2