Niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Geirs H. Haarde gegn íslenska ríkinu breytir í engu þeirri meginniðurstöðu að Geir vann landsdómsmálið og landsdómur staðfesti fáránleika þess að meirihluti Alþingis skyldi ákæra fyrrverandi ráðherra með það að markmiði að koma honum í fangelsi fyrir pólitísk störf.
Óánægja mín með aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar í efnahagsmálum og í samskiptum við erlend stjórnvöld var ástæða þess að ég hóf að skipta mér af stjórnmálum. Stefna og stefnuleysi stjórnarinnar var að mínu mati stórskaðlegt þ.a. þegar ég var orðinn formaður stjórnmálaflokks í stjórnarandstöðu leit ég á það sem fyrsta markmið mitt og flokksins að koma ríkisstjórninni frá völdum. Engu að síður þótti mér það í senn fráleitt og óhugnanlegt þegar ákveðið var að gera tilraun til að fá ráðherra þeirrar ríkisstjórnarinnar dæmda í fangelsi fyrir það með hvaða hætti þeir hefðu nálgast þau stóru viðfangsefni sem við var að eiga. Niðurstaðan varð pólitísk réttarhöld yfir einum ráðherranna.
Naumur meirihluti þingmanna samþykkti að ákæra fyrrverandi forsætisráðherra fyrir sex atriði. Tveimur vísaði landsdómur frá strax í upphafi og sýknaði í þremur þeirra sem eftir stóðu. Meirihluti dómara taldi þó rétt að dæma Geir fyrir léttvægustu og óljósustu sakargiftirnar, það að hafa ekki bókað í fundargerð ríkisstjórnarfunda umræðu um þær efnahagslegu hamfarir sem gengu yfir heiminn á sínum tíma og voru daglegt fréttaefni. Ekki taldi dómurinn þó brotið veigameira en svo að hann ákvað að refsingin yrði engin og ríkið skyldi auk þess greiða málskostnaðinn. Niðurstaðan sýndi að málatilbúnaður þingnefndarinnar átti engan rétt á sér.
Það er því fráleitt að halda því fram að með dómi mannréttindadómstólsins, þess efnis að mannréttindi Geirs hafi ekki verið brotin með niðurstöðunni um dagskrá ríkisstjórnarfunda, sé á einhvern hátt verið að samþykkja málsmeðferð Alþingis í landsdómsmálinu.
Undanfarin ár hefur jafnframt verið leitast við að stilla málinu þannig upp að þingmannanefndin sem lagði til ákæru hafi neyðst til þess því menn hafi setið uppi með hinn úrelta Landsdóm og að ef lögum um dóminn hefði verið breytt eða hann lagður niður hefði mátt komast hjá málinu. Meðal annars hefur verið vísað í þingsályktunartillögu Jóhönnu Sigurðardóttur um endurskoðun laga um Landsdóm frá 2001 og gefið í skyn að ef hún hefði verið samþykkti hefði mátt komast hjá þessu öllu.
Þetta er sérlega undarleg og villandi umræða. Geir Haarde var ekki ákærður fyrir brot á lögum um landsdóm. Hann var ákærður fyrir brot á lögum um ráðherraábyrgð og almennum hegningarlögum. Ef búið hefði verið að leggja niður landsdóm hefði málið einfaldlega verið rekið fyrir almennum dómstólum.
Og hvað með tillögu Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2001? Var hún til þess fallin að draga úr hættunni á pólitískum réttarhöldum? Öðru nær. Tillagan byggðist á því að fyrirkomulag þess að ákæra ráðherra væri of þungt í vöfum og að rétt væri að einfalda skipan mála og „skoða hvort jafnvel væri ástæða væri til að leggja niður landsdóm” og reka málin fyrir almennum dómstólum. Þó var sérstaklega tekið fram að ef sú yrði raunin ætti Alþingi áfram að fara með málshöfðunarréttinn og einnig mætti skoða breytingu á réttarfarslögum svo Alþingi gæti tilnefnt sérstaka meðdómendur þegar það höfðaði mál gegn ráðherrum. Sem sagt, Alþingi gæti bætt sínum eigin dómurum inn í hæstarétt þegar það væri að ákæra ráðherra. Brjálæðislegast af öllu var þó að samkvæmt tillögunni var gert ráð fyrir að minnihluti þingmanna („tiltekið hlutfall“) fengi málshöfðunarrétt gegn ráðherrum. Þannig hefðu þingmenn getað hefnt þess fyrir dómstólum sem hallaðist á Alþingi.
Tillagan um endurskoðun laga um landsdóm snerist því ekki um að draga úr hættunni á pólitískum réttarhöldum. Þvert á móti, hún gerði þau margfalt líklegri.
Niðurstaða mannréttindadómstólsins og tal um að lög um landsdóm séu gömul og þarfnist endurskoðunar breytir því ekki að efnt var til pólitískra réttarhalda á Íslandi. Það er mikilvægt að takast á við þá staðreynd.
Ég hef gert þrjár megintilraunir til að bregðast við áformum þingmannanefndarinnar um að ákæra ráðherra ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar ef frá er talin atkvæðagreiðsla um málið sjálft á Alþingi.
Áður en málið var tekið til atkvæðagreiðslu leitaði ég til pólitískra samherja og -andstæðinga til að reyna að mynda bandalag um tillögu þess efnis að málið yrði látið niður falla.
Eftir að Alþingi ákvað að ákæra Geir H. Haarde vann ég að tillögu um afturköllun ákærunnar en þá varð niðurstaðan sú, eftir samskipti við forystumenn hins stjórnarandstöðuflokksins, að Bjarni Benediktsson myndi flytja tillöguna.
Fyrr á þessu ári skrifaði ég svo þingsályktunartillögu, og fékk meðflutningsmenn, um að þingið ályktaði að rangt hefði verið að ákæra Geir H. Haarde. Ég féllst svo á beiðni hlutaðeigandi um að bíða með tillöguna þar til niðurstaða mannréttindadómstólsins lægi fyrir.
Nú liggur niðurstaða dómstólsins fyrir og ég mun því leggja tillöguna fram á nýju þingi.
Ekkert er að því að endurskoða lög um landsdóm og lög um ráðherraábyrgð. Það breytir þó engu um að þingmannanefnd lagði til að fjórir ráðherrar yrðu ákærðir vegna pólitískra starfa. Það er því mikilvægt að Alþingi fái tækifæri til að ákveða að slíkt sé rangt og að hin 1087 ára gamla stofnun árétti að pólitískar sakir skuli útkljáðar á Alþingi og í kosningum en ekki fyrir dómstólum.