Lýðræðið er versta hugsanlega stjórnkerfið…

Einn höfuðvandi stjórnmálanna í dag er að finna jafnvægi milli fulltrúalýðræðis og beins lýðræðis. Frá hruni hefur verið mikið talað um mikilvægi þess að vægi beins lýðræðis sé aukið í stjórnskipan landsins. Ýmsar leiðir hafa verið nefndar til þess.

Þessi krafa um að fólk fái að hafa eitthvað um mikilvæg mál að segja á milli kosninga er réttmæt krafa og við eigum að gera meira að því að gefa fólki tækifæri til að greiða atkvæði beint um mikilvæg mál.

Icesave málið er ágætt dæmi. Það var á sínum tíma tekið úr þeim farvegi sem hingað til hefur verið hefðbundinn á Íslandi og sett í hendur þjóðarinnar, sem tók mjög mikilvæga og hugrakka ákvörðun. Síðan þá hefur komið skýrar og skýrar í ljós að það var rétt ákvörðun.

Þess vegna tel ég að þjóðin eigi að eiga síðasta atkvæðið í Icesave málinu. Alþingi mun fjalla um og afgreiða málið fyrir sitt leyti og á þeim tíma gefst gott tækifæri til umræðna og til að greina möguleikana sem fyrir liggja. Þjóðin hefur þar gott tækifæri til að kynna sér stöðuna í málinu eins og hún er nú. Kjarninn er að þjóðin fékk málið í hendur og stjórnmálamenn eiga ekki að kippa því til sín aftur.

Sérstaklega á þetta við ef niðurstaða Alþingis er að almenningur taki á sig þessar tugmilljarða skuldbindingar, sem geta hugsanlega í framtíðinni vaxið í hundruð milljarða, t.d. við fall krónunnar. Ef það á að biðja þjóðina um að axla þessa ábyrgð, sem nú virðist loks vera samstaða um að ekki sé lagastoð fyrir, þá  hlýtur að vera grunnskilyrði að um það ríki sem mest sátt  meðal þjóðarinnar.

Nú má auðvitað gagnrýna þessa afstöðu, jafnvel segja að stjórnmálamenn verði að taka ábyrgð á afgreiðslu þessa máls, að þingmenn megi ekki skýla sér bak við þjóðina eða eitthvað slíkt.

Við búum vissulega við fulltrúalýðræði, en því fylgja bæði kostir og gallar. Winston Churchill orðaði það svo að lýðræðið væri versta hugsanlega stjórnkerfið, fyrir utan öll hin. Og eins og í svo mörgu öðru þurfum við því að finna hinn gullna meðalveg. Það er skynsamur meðalvegur að kjörnir fulltrúar fari daglega með ákvarðanavaldið, en að þjóðin geti með skýrum og ákveðnum hætti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál þegar þörf krefur. Tekið þau til sín

Icesave málið er þegar komið til þjóðarinnar og það hefur sýnt sig að sú leið varð til góðs. Því finnst mér eðlilegt að málið verði klárað með sama hætti.