Löggæslumál

Einn af kostum íslensks samfélags eru þeir sterku innviðir sem hér hafa verið byggðir upp á heilli öld. Hvað sem líður efnahagslegum þrengingum er mikilvægt að verja og efla þá innviði enda eru þeir stoðin sem farsælt samfélag byggist á. Það er erfitt að skapa velferð í samfélagi þar sem skortur er á öryggi, menntun og heilbrigðisþjónustu. Þetta er það fyrsta sem fátæk og vanþróuð lönd þurfa að koma í lag og því forsenda efnahagslegrar uppbyggingar.

Í ljósi mikilvægisins er í raun furðulegt hvað undirstöðustéttir á borð við heilbrigðisstarfsfólk, kennara, slökkvilið og lögreglu búa við hlutfallslega lök kjör á Íslandi. Úr þessu þarf að bæta. Á slíkum sviðum þarf að liggja fyrir skýr framtíðarsýn til margra ára, þ.e. hvernig við viljum sjá umrædda málaflokka þróast næsta áratuginn hið minnsta og hvernig sú þróun verði fjármögnuð. Í ljósi þess hve hallar á undirstöðustéttirnar í launakjörum þarf framtíðarsýnin að fela í sér áform um að bæta jafnt og þétt kjör þeirra sem starfa við þessar greinar.

Ungt fólk sem gæti hugsað sér að skrá sig í lögregluskólann á t.d. að vita hvernig stjórnvöld sjá fyrir sér að starfssvið lögreglumanna komi til með að þróast og sjá fram á að forsvaranlegt sé að velja sér löggæslu sem starfsvettvang, þ.e. að hægt sé að búa við sæmileg kjör og sjá fyrir fjölskyldu á launum lögreglumanns. Þeir sem þegar starfa í lögreglunni þurfa að sjá framtíð í því að starfa þar áfram svo að samfélagið fari ekki á mis við þá reynslu og þekkingu sem reyndir lögregluþjónar hafa byggt upp.

Lögreglan þarf fjármagn og framtíðarsýn.
Á síðasta þingi lagði þingflokkur framsóknarmanna fram þingsályktunartillögu um „grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland“. Þar var lagt til að skilgreint yrði 1. öryggisstig á Íslandi, 2. þjónustustig lögreglu, 3. mannaflaþörf lögreglu og 4. þörf lögreglunnar fyrir fjármagn.

Slík vinna hefur lengi verið aðkallandi. En í stað framtíðarsýnar býr lögreglan við endurtekinn niðurskurð og viðvarandi óvissu. Við hljótum að spyrja okkur hvort slíkur niðurskurður feli í sér raunverulegan sparnað eða hvort hann valdi jafnvel samfélagslegu og efnahagslegu tjóni til lengri tíma litið.

Það hlýtur að vera hægt að finna fjármagn til að verja grunnstoðir samfélagsins í ljósi ýmissa annarra útgjalda sem stjórnvöld hafa talið forsvaranleg á undanförnum árum. Ríkisstjórnin og ótal álitsgjafar töldu til dæmis að samfélagið hefði vel efni á að greiða árlega 40 milljarða í vexti af Icesave-samningunum. Það voru rúmar 100 milljónir á dag sem hefðu farið út úr landinu í erlendri mynt. Kostnaður ríkisins vegna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu nemur 3,1 milljarði á ári. Gera má ráð fyrir að alla vega helmingur þess skili sér aftur til ríkisins í beinum og óbeinum sköttum (tekjuskatti, virðisaukaskatti, tekjuskatti fyrirtækja o.s.frv.).

Allur nettókostnaður ríkisins vegna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu er því álíka mikill og tveggja vikna vaxtakostnaður af Icesave-samningunum. Fyrir 36 klukkustunda vaxtakostnað mætti auka nettóútgjöld til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um 20% og bæta starfskjör og vinnuaðstöðu. Það sama á við um löggæslu á landsbyggðinni þar sem fólk býr nú sums staðar í margra klukkutíma fjarlægð frá lögreglu. Það er því erfitt að halda því fram að samfélagið hafi ekki efni á að standa sómasamlega að því að umbuna undirstöðustéttum fyrir mikla og erfiða vinnu og verja öryggi íbúanna.

Fjármagni sem varið er í að styrkja grunnstoðir samfélagsins er vel varið. Með lögum skal land byggja.