Eftir atkvæðagreiðslu á Alþingi var höfðað mál fyrir landsdómi á hendur einum ráðherra, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra. Sú niðurstaða var í samræmi við vilja einungis 2 af 63 þingmönnum. Niðurstaðan var því annað hvort tilviljanakennd eða þaulskipulögð af hálfu þingmanna sem greiddu atkvæði sitt á hvað svo að niðurstaðan yrði sú að aðeins pólitískur andstæðingur þeirra yrði ákærður. Meirihluti þingmannanefndar sem skipuð var til að meta viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis lagði til að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir. Enginn nefndarmanna lagði til að Geir H. Haarde yrði einn ákærður.
Í grein í Morgunblaðinu síðastliðinn þriðjudag fór Stefán Már Stefánsson, lagaprófessor, ágætlega yfir að ákvörðun um málsókn mætti ekki ráðast af tilviljun eða einhverju öðru en því að líkur standi til sakfellingar fyrir lögbrot þar sem eitt er látið yfir alla ganga. Í sama blaði birtist grein eftir Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, þar sem hann færir rök fyrir því að það hvernig staðið var að atkvæðagreiðslu um landsdómsmálið hefði breytt eðli málsins. Það hefði tekið á sig „afskræmda flokkspólitíska mynd”. Ég er sammála mati prófessorsins og ráðherrans.
Eðlilegra hefði verið að greiða atkvæði um tillögu þingmannanefndarinnar í heild og hugsanlegar breytingatillögur. Ólíklegt er að niðurstaðan hefði þá orðið sú sem raun varð.
Það þarf því ekki að koma á óvart ef margir þeirra þingmanna sem studdu tillögu nefndarinnar styðja ekki hina tilviljanakenndu (eða pólitísku-) niðurstöðu og telja rétt að endurskoða hana. Við það bætist að margt nýtt hefur komið í ljós varðandi málið frá því að Alþingi tók ákvörðun um málshöfðun. Landsdómur hefur þegar vísað frá veigamestu ákæruatriðunum.
Afskipti af dómstólum
Nokkrir þingmenn hafa haldið því fram að tillaga um að falla frá málshöfðuninni gegn Geir H. Haarde sé ekki þingtækt eða borið fyrir sig að málið sé komið úr höndum Alþingis og Alþingi eigi ekki að skipta sér af störfum dómstóla. Það á ekki hvað síst við um þingmenn sem beittu sér fyrir því að Alþingi gerði einmitt það í öðrum málum (þar sem það var afar óviðeigandi).
Málið er augljóslega þingtækt eins og fram kemur í mati lögfræðings Alþingis og annarra sérfræðinga sem um það hafa fjallað. Jafnframt er umræðan um að Alþingi megi ekki skipta sér af málinu fráleit. Í fyrsta lagi er Alþingi ákærandinn í málinu og eðli málsins samkvæmt aðili þess frá upphafi til enda. Í öðru lagi er sérstaklega kveðið á um það í lögum um landsdóm að saksóknari og þingið skuli hafa samráð um framgang málsins.
„Orðræði”
Við bætist hin ríkjandi tilhneiging til að stjórna þjóðfélaginu í krafti orðræðunnar fremur en staðreynda. Á undanförnum árum hefur kveðið svo rammt að þessu að heita má að í landinu hafi ríkt „orðræði” í stað lýðræðis. Allt gengur út á að stýra umræðunni og beita þeim orðum og frösum sem hafa jákvæðasta og neikvæðasta merkingu í ríkjandi tíðaranda. Þannig eiga þeir sem gagnrýna tíðarandann á hættu að vera sakaðir um að „vilja ekki gera upp hrunið” eða að „verja samtryggingu flokkanna”. Það eitt að vera sakaður um slíkt nægir til að vera stimplaður andbyltingarsinni. Þeir sem duglegastir eru að bera upp slíkar ásakanir telja að með því upphefji þeir sjálfa sig og sanni sig sem réttsýna verði byltingarinnar. Stundum er þetta meira að segja sama fólk og áður var duglegast að tala máli þess fallna tíðaranda sem það fordæmir nú. Það getur verið auðvelt að sveiflast öfganna á milli en erfiðara að halda sig á miðjunni.
Jafnræði
Þeir ákæruliðir sem eftir standa í landsdómsmálinu varða samráð og fundahöld, það að ekki hafi verið stuðlað að minnkun bankakerfisins á árinu 2008 og að ekki hafi verið nóg gert til að reyna að flytja Icesave-reikningana í dótturfélag í Bretlandi. Það er athygli vert að á öllum þessum sviðum virðast núverandi stjórnvöld hafa brotið meira af sér en Geir H. Haarde er sakaður um að hafa gert samkvæmt ákærunni. Er eðlilegt að fyrrverandi forsætisráðherra sé ákærður en núverandi valdhafar sleppi? Núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur lýst því yfir að hún telji lög um landsdóm úrelt fyrirbæri og þau beri að afnema sem fyrst. Með öðrum orðum, fyrst á að nota lögin til að ákæra pólitískan andstæðing en afnema þau að því búnu svo að þau nái ekki yfir þá sem á eftir komu. Jón Bjarnason fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur spyr hvers vegna Jóhanna sleppi og minnir á hversu rík ábyrgð hennar var í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar þar sem hún sat í sérstakri ríkisfjármálanefnd fjögurra ráðherra.
Pólitísk ábyrgð
Andstaða við málshöfðun á hendur Geir H. Haarde og annarra ráðherra felur ekki í sér neina réttlætingu á störfum þeirrar ríkisstjórnar. Fyrir liggur að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar hélt illa á málum í aðdraganda efnahagshrunsins. Stjórnin hafði enda fært það í stjórnarsáttmála, að kröfu annars stjórnarflokksins, að ekki yrðu settar hindranir í veg útrásarinnar og bankanna. Ljóst mátti vera þegar vorið 2007 að í óefni stefndi og var það rætt ítrekað, m.a. á Alþingi. Bankarnir þöndust hins vegar áfram hratt út og það gerðu ríkisútgjöldin líka í hápunkti þenslunnar. Stefna ríkisstjórnarinnar var röng. En svo að sanngirni sé gætt ber þó að hafa í huga að sama ríkisstjórn stóð að setningu neyðarlaganna sem var afrek sem bjargaði í raun landinu frá algjöru hruni. Ráðherrar ríkistjórnarinnar bera pólitíska ábyrgð á góðum og slæmum ákvörðunum. Það virðist hins vegar ríkja mikill misskilningur, jafnvel hjá sumum þingmönnum, um að réttarhöld yfir fyrrverandi forsætisráðherra snúist um pólitíska ábyrgð. Spurningin á að snúast um hvort til staðar sé refsiábyrgð. Þegar menn telja hins vegar að pólitísk ábyrgð sé það sama og refsiábyrgð boða þeir pólitísk réttarhöld.
Stefna hefur áhrif
Menn verða að gera sér grein fyrir því að ólík pólitísk stefna hefur áhrif til góðs eða ills. Þau áhrif geta m.a. verið fólgin í miklu efnahagslegu tjóni eða miklum ávinningi. En ef það ætti að sækja stjórnmálamenn til saka fyrir það eitt að hafa rekið skaðlega stefnu þyrfti stöðugt að vera að rétta yfir hægri- og vinstrimönnum á víxl.
Félag Vinstri grænna í Reykjavík lítur á rétthöld yfir Geir H. Haarde sem uppgjör við frjálshyggjuna. Ef sú er raunin má þá eiga von á því að þegar núverandi ríkisstjórn fer loks frá völdum verði efnt til réttarhalda yfir ráðherrum hennar til að gera upp sósíalismann og það gríðarlega tjón sem hann hefur valdið samfélaginu á undanförnum árum? Hvar endar slíkt?
Flokkarnir
Strax í upphafi lýstu forystumenn stjórnmálaflokkanna því yfir að landsdómsmálið væri ekki flokkspólitískt. Það þyrfti hver og einn að gera upp við sjálfan sig. Þannig hefur það verið í mínum flokki. Nú berast hins vegar tilkynningar frá flokksfélögum stjórnarflokkanna á höfuðborgarsvæðinu þess efnis að fulltrúar flokkanna á þingi skuli allir sem einn greiða atkvæði gegn því að fallið verði frá landsdómsmálinu og tryggja að málaferlum verði haldið áfram.
Á hverju byggist sú afstaða að fulltrúum flokkana á þingi beri að fylgja ákveðinni flokkslínu um að halda málarekstrinum áfram? Hversu vel hafa félagsmenn í þessum flokksfélögum kynnt sér gögn málsins? Reyndar má sjá á yfirlýsingunum að afstaðan byggist ekki á gögnum málsins heldur því að réttarhöldin séu liður í að ,,gera upp hrunið” eða bregðast við ,,kröfu þjóðarinnar”. Stjórn Samfylkingarfélagsins í Reykjavík gekk raunar svo langt að hóta því að þingmönnum yrði skipt út við val á framboðslistum ef þeir hlýddu ekki skipunum Reykjavíkursellunnar.
Reyndar hafði forsætisráðherra riðið á vaðið í þessu efni. Þegar niðurstaða þingmannanefndarinnar um að ákæra bæri fjóra ráðherra lá fyrir spurðu fréttamenn Jóhönnu Sigurðardóttur hvort hún teldi að niðurstaðan myndi róa almenning. Hún svaraði: „Ég vona það. Til þess var þetta sett á laggirnar”
Eins og innanríkisráðherra hefur bent á er það hins vegar kolröng nálgun. Ég efast líka um að margir fulltrúar í þingmannanefndinni hafi verið sáttir við skilgreiningu forsætisráðherrans. Það er raunar móðgun við það fólk sem tók að sér að fara yfir málsgögn mánuðum saman að skilgreina það sem einhvers konar byltingarráð. Það er grundvallarmunur á því hvort menn byggja ákæru á því að það sé hið eina rétta samkvæmt lögunum eða á því að það sé vinsælt eða nauðsynlegur liður í byltingu. Hið fyrra snýst um að verja réttarríkið en hið síðara um að vega að því.
Í sögunni eru mörg dæmi um að fólk hafi verið dæmdir „til að róa almenning“. Maximilien Robespierre, kallaður „hinn óspillanlegi“, stýrði ógnarstjórn frönsku byltingarinnar eftir að Lúðvík XVI var settur af sem konungur. Hann sýndi ekki á sér mikið hik þegar kom að því að „gera upp við fortíðina“ og fáir hafa byggt vald sitt jafnrækilega á orðræðu tíðarandans. Frægt varð þegar hann sagðist lýsa því yfir með sorg í hjarta að dauðans alvaran væri sú að Lúðvík þyrfti að deyja svo að þjóðin gæti lifað.
Telji ráðherrar að landsdómsmálið snúist um að róa almenning ættu þeir þó e.t.v. frekar að hafa í huga aðra fræga setningu Robespierres sem komst að raun um að „byltingin át börnin sín“
(Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. janúar 2012)