Ísland þarf að búa sig undir Evrópukreppu

Wolfgang Munchau, einn þekktasti dálkahöfundur heims á sviði efnahagsmála og aðstoðarritstjóri Financial Times, skrifaði grein í byrjun vikunnar þar sem hann færir rök fyrir því að evrukrísan eigi enn eftir að versna til muna. Munchau bendir á hvað lönd evrusvæðisins þurfi að gera til að bregðast við vandanum. Hann heldur því fram að umfram allt þurfi Evrópuríki að hverfa samstundis frá aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum og sum þeirra verði að auka útgjöld til að verjast alvarlegri kreppu. Hann telur reyndar ekki víst að tillögur sínar dugi til og skipti líklega ekki máli því ESB muni hvort eð er ekki grípa til réttra ráðstafana. Kreppa muni því lenda á evrusvæðinu af fullum þunga og án varna. Þegar það gerist verði evrukrísan fyrst ljót.

Nafni og landi blaðamannsins, Wolfgang Schäuble fjármálaráðherra Þýskalands, skrifaði grein í sama blað þar sem hann færði rök fyrir því að það eina sem gæti bjargað evrunni væru aðhaldsaðgerðir í ríkisfjármálum.

Hvor hefur rétt fyrir sér?

Vandinn felst í því að þeir nafnar hafa báðir mikið til síns máls. Skuldastaða Evrópuríkja og vandi evrunnar er svo umfangsmikill að nauðsynlegt er að draga verulega úr ríkisútgjöldum. Efnahagsástandið er hins vegar svo veikt að niðurskurðurinn dýpkar kreppuna, dregur úr neyslu heima og útflutningi (þegar öll ríkin eru að spara samtímis) og minnkar þar með tekjur ríkjanna, tekjur sem þarf til að greiða niður skuldir.

Á sama tíma verður lánsfé stöðugt dýrara, veikari ríki þurfa að borga sífellt meira fyrir óhóflega lántöku og skuldabréf þeirra falla í verði. Evrópski seðlabankinn bregst við með því að kaupa ríkisskuldabréf í gríð og erg til að hækka verð bréfanna. Það er ekki í samræmi við lög og reglur Evrópusambandsins frekar en björgunarsjóðirnir, en látum það vera. Slíkt líkist því þegar fyrirtæki kaupa eigin hlutabréf til að halda verði þeirra uppi. Það getur reynst dýrt spaug eins og Íslendingar þekkja. Seðlabanki Evrópu safnar þannig bréfum sem aðrir vilja fyrir alla muni losna við. Þegar hann getur ekki lengur haldið uppi verðinu er viðbúið að hann sitji uppi með mun minni verðmæti en greitt var fyrir.

Heita kartaflan

Seðlabanki Evrópu bindur vonir við að ESB komi á laggirnar sjóði sem sérhæfir sig í að kaupa ríkisskuldir sem aðrir vilja ekki eiga. Það hefur gengið erfiðlega af ýmsum ástæðum og skiptir líklega ekki öllu máli því að í báðum tilvikum snúast viðskiptin um að færa skuldir frá þegnum eins lands til annars og tap frá fjármálafyrirtækjum til skattgreiðenda.

Bankar eru enn í vandræðum þrátt fyrir ríkisaðstoð og yfirfærslu bankataps á evrópska skattgreiðendur. Síðastliðinn mánudag flutti Josef Ackermann, forstjóri Deutsche Bank, ræðu sem skaut mörgum skelk í bringu. Hann sagði að margir evrópskir bankar myndu ekki lifa það af að þurfa að uppfæra verðmat á ríkisskuldum. Verði skuldir ríkja lækkaðar falla bankarnir og það yrði dýrt fyrir ríkin.

Sjálfhelda

Ástæðan fyrir þessari sjálfheldu er einföld. Evrópulönd skulda allt of mikið og skortir auðlindir og framleiðslugetu til að standa undir útgjöldum. Það breytist ekki með því að færa til pappíra. Með neyðarfundum og tilfæringum er e.t.v. hægt að fela vandann að einhverju leyti og fresta uppgjörinu en með hverri frestun eykst vandinn.

Alþjóðleg efnahagstengsl eru svo umfangsmikil að vandi Evrópu mun hafa mikil áhrif annars staðar eins og þegar hefur komið í ljós. Auk þess sitja mörg lönd utan Evrópu uppi með eigin vandamál en eru mörg hver betur í stakk búin til að ná sér aftur á strik en Evrópulöndin sem komin eru á sögulegt hnignunarskeið. Vonandi tekst að snúa þeirri þróun við en það verður ekki auðvelt.

Grímsstaðir á Fjöllum

Ísland stendur á margan hátt betur en flest Evrópulönd. Miklar auðlindir og náttúrugæði miðað við fólksfjölda, sterkir innviðir, framleiðsla verðmætra afurða og staðsetning landsins eru hlutir sem skipta sköpum. Við þurfum hins vegar að standa vörð um þau verðmæti en efla um leið viðskipti og önnur tengsl við þær þjóðir sem munu drífa hagvöxt 21. aldarinnar.

Áhugi kínversks manns á að kaupa stóra íslenska jörð er áminning um þetta tvennt. Sem betur fer getur farið vel saman að efla tengslin við fjarlægar þjóðir og standa vörð um hinar mikilvægu auðlindir sé rétt að verki staðið. Hinn mikli áhugi Kínverja á Íslandi hefur vakið athygli erlendra fjölmiðla og hann kemur þeim ekki á óvart. Kínverjar gera sér grein fyrir hinum gríðarmiklu framtíðartækifærum landsins. Það er tímabært að Íslendingar fari að gera það líka.

Ráðstafanir

Skýr framtíðarsýn er nauðsynleg og áríðandi. Við þurfum að búa okkur undir langvarandi stöðnun eða samdrátt í Evrópu með því að koma af stað fjárfestingum á meðan kostur er, einkum fjárfestingu í útflutningsgreinum, mennta fleiri vísindamenn og verkfræðinga, standa vörð um auðlindir landsins og hagsmuni okkar á norðurslóðum, efla samstarf við bæði grannþjóðir og fjarlæg lönd og búa landið undir að verða miðstöð vöruflutninga og tengdrar framleiðslu. Svo væri gott að finna dálitla olíu.

Gott en ekki nauðsynlegt.