Íslenski kúrinn – Gengur vel þótt gangi lítið

Enn berast mér uppskriftir og aðrar ábendingar sem koma að góðum notum í fæðuátakinu. Auk þess hef ég fengið heilmikla fræðslu um svo kallaða „heimafæðukenningu“ (e. local food theory). Kostir þess að borða innlenda fæðu munu vera fjölmargir.

Það er ótrúlegt hvað hægt er að búa til fjölbreyttan og góðan mat úr íslenskum náttúruafurðum. En það berast ekki bara góð ráð. Þegar ég mætti á skrifstofuna í fyrradag beið mín kassi af þorskalifur. Hún virðist hafa svipuð áhrif og spínatið hans Stjána bláa. Sá sem sendi mér kassann sagði mér svo að hann væri að velta fyrir sér að gefa öllumþingmönnum þorskalifur til að greiða fyrir þingstörfum. Ég er ekki frá því að það gæti aukið afköst og gæði.

Fyrir nokkrum dögum gerði ég tilraun til að veiða mér fisk í matinn en það beit ekkert á. Það kom þó ekki í veg fyrir að ég borðaði þríréttað þann daginn. Krækiber í forrétt, bláber í aðalrétt og aðalbláber í eftirmat og gönguferðir inn á milli. Að vísu hef ég ekki náð að komast í gönguferð daglega eins og til stóð. Líklega verð ég að taka frá klukkutíma á hverjum degi og laga dagskrána að því.

Á betri fundum stendur valið stundum á milli þess að borða súkkulaði og kexkökur eða ávexti með kaffinu. Ég hef því ekki farið alveg á mis við sælgæti og kex.

Einn af kostum íslenska kúrsins er enda sá að geta áfram borðað fjölbreytta fæðu (þótt mikilvægt sé að gæta hófs). Þetta leiðir þó hugann að mikilvægi þess að auka framleiðslu íslenskra ávaxta. Ég er búinn að fá aðgang að kirsuberjatré og íslenskum vínberjum og á Akranesi mun vera eplatré sem gaf af sér 800 epli í fyrrahaust. Hvatafélagið Á-vöxtur beitir sér fyrir aukinni ávaxtarækt á Íslandi og hefur plantað eplatrjám í almenningsgörðum m.a. á Klambratúni.

Bæti Klambratúni í gönguprógrammið.