Icesavelán eða 15.400-30.000 störf?

Frá upphafi hefur umræðan um Icesave-skuldbindingarnar verið mér mikið áhyggjuefni. Um er að ræða stærstu skuldbindingu í sögu þjóðarinnar en stjórnvöld hafa hvorki gert sér grein fyrir mikilvægustu staðreyndum málsins né haft hugmynd um hvernig best er að taka á því.

Staðreyndin er sú að mjög sterk rök íslenskra og erlendra lögfræðinga þess efnis að Íslendingum beri ekki að ábyrgjast Icesave-reikningana hafa ekki verið hrakin. Auk þess hefur sterk samningsstaða okkar í þessu gríðarlega hagsmunamáli lítið verið notuð (vonandi breytist það með nýju samninganefndinni).

Því hefur mjög verið haldið á lofti að við eigum ekki annan kost en að gefa eftir í málinu til að móðga ekki erlendar þjóðir. Sama fólk talar svo yfirleitt um að svo og svo mikið muni innheimtast og skaðinn verði e.t.v. ekki svo ýkja mikill. Við það bætist ýmiss konar órökstudd umræða um stöðu mála. Í flestum tilvikum virðast stjórnmálamenn og aðrir sem um málið fjalla ekki átta sig á því hvað snýr upp né niður.

Nýjasta dæmið eru viðbrögðin við fréttum af stöðu Heritable bankans í London, en hann var í eigu Landsbankans. Menn voru fljótir að rugla þessu breska dótturfélagi Landsbankans saman við Icesave og álykta sem svo að miklu meira fengist upp í Icesaveskuldirnar en áætlað var.

Á Vísi birtist frétt undir fyrirsögninni:

,,Fjármálaráðherra: Gott að það séu til verðmæti fyrir Icesave”:

„Það er gott að þarna séu verðmæti til staðar en það skiptir miklu hvernig þeim er ráðstafað í þágu þjóðarinnar,” segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, um óvænta stöðu sem er komin upp í Icesave-málinu. Hann segir samningaferlið viðkvæmt.

Í fyrsta lagi eru peningar breska bankans Heritable Bank því miður ekki til ráðstöfunar fyrir Íslendinga og í öðru lagi hafa þessar innistæður ekkert með Icesave að gera. Reyndar hef ég grun um að Steingrímur hafi í raun ekki sagt að sú væri raunin.

Áður hafa þó þingmenn Samfylkingarinnar, sem talað hafa mikið fyrir  Icesave-samningunum, gengið ótrúlega langt í að halda því fram að lítið muni standa eftir af skuldum þegar eignir Landsbankans hafa verið seldar. Þeir hafa ekki mátt heyra minnst á að Íslendingar hafi samningsstöðu í málinu og sýndu ofsafengin viðbrögð ef staðan í Icesave-deilunni var tengd við beitingu hryðjuverkalaga. Það breyttist þó skyndilega þegar skýrsla barst frá breska þinginu þar sem fram kom að beiting hryðjuverkalaga hefði verið óeðlileg.

Rétt er að árétta að Heritablebankinn var gamall banki í Mayfair í London sem sérhæfði sig í að þjónusta tiltölulega vel stæða viðskiptavini. Icesave stendur hins vegar til að fjármagna með eignasafni Landsbankans sem er töluvert annað. Reyndar virðast stjórnvöld ætla að halda mati á eignum bankans leyndu, en birtingu skýrslu um eignasafn bankans var óvænt frestað. Niðurstaðan mun enda vera enn verri en menn óttuðust og bendir þá væntanlega til þess að hin óhóflega bjartsýni um Icesave hafi ekki verið á rökum reist.

Þá eru þó eftir tvær mikilvægar staðreyndir í málinu:

Í fyrsta lagi eru verulegar líkur á að neyðarlögin sem Icesave-uppgjörið á að byggja á verði dæmd ólögmæt. Við þær aðstæður gæti ríkið orðið ábyrgt gagnvart öðrum kröfuhöfum vegna þess sem sett var í Icesave.

Í öðru lagi má ekki gleyma því að jafnvel þótt neyðalögin héldu og sala á eignum Landsbankans færi fram úr björtustu vonum eru vextir af láninu, sem til stendur að taka til að standa undir skuldbindingunni þar til eignir verða seldar, gíkantískir:

Ef vextir af Icesave-láninu verða 6,7% mun einungis vaxtakostnaðurinn nema hátt í 50 milljörðum ári (miðað við varfærnislega áætlað gengi breska pundsins). Ef skatttekjur eru meðteknar mundu 50 milljarðar nægja til að standa undir meðallaunum fyrir 15.400 manns á Íslandi. Fjöldi afleiddra starfa gæti verið álíka mikill.

Hvernig sem á málið er litið er ljóst að hagsmunirnir eru slíkir að það er með öllu óásættanlegt að fulltrúar ríkisstjórnarinnar skuli fremur hafa talað máli breskra stjórnvalda en íslensks almennings. Þótt orðið landráð hafi e.t.v. verið ofnotað í umræðu að undanförnu hafa menn líklega hvergi komist janf-nálægt því og í deilunni um Icesave og hryðjuverkalögin.