Fundarstjórar og góðir miðstjórnarfulltrúar.
Við hittumst nú á miðstjórnarfundi þegar ár er í kosningar, -eitt ár í mesta lagi. Sá tími er fljótur að líða. Það er því mikilvægt að við höldum vel á málum næsta árið.
Öll framtíð Íslands veltur á því að eftir næstu kosningar taki við allt annars konar stjórnarfar en ríkt hefur hér á landi undanfarin ár. Rökhyggja og skynsemisstefna verða að taka við af ráðaleysi og öfgum.
Takist það eru allar forsendur til að hagur Íslendinga vænkist hraðar en nokkurs staðar annars staðar. En ef það tekst ekki, og öfgarnar halda velli, er framtíð landsins hætta búin.
Mannkynssagan sýnir að þegar harðnar á dalnum efnahagslega aukast áhrif öfgahreyfinga og rökræða víkur oft fyrir innihaldslausri orðræðu. Ísland er því miður engin undantekning.
Við aðstæður eins og þær sem nú ríkja hvílir mikil ábyrgð og vandasamt verkefni á flokki sem boðar skynsemisstefnu. Það getur verið erfitt fyrir miðjuflokk sem byggir á rökhyggju að láta rödd sína heyrast hátt og skírt í því ölduróti orðræðu og öfga sem harðindin skapa. En frá upphafi hafa Framsóknarmenn búið að stafestu og baráttuanda, bjartsýni og von, og óbilandi trú á framtíð Íslands.
Framsóknarflokkurinn var stofnaður í krafti þeirrar vissu að íslensku þjóðinni væru allir vegir færir og það á jafn vel við í dag. Aðrir geta haldið áfram að velta sér upp úr fortíðinni og jafnvel reynt að gera lítið úr íslensku samfélagi. En við ætlum að horfa til framtíðar með kjark og trú á eigin mátt og bjarta framtíð Íslands að vopni.
Á síðasta flokksþingi vitnaði ég í lýsingu dansks fræðimanns á Íslendingum úr fyrsta hefti Fjölnis, frá árinu 1835. Hann lýsti Íslendingum þannig að þeir líkist landinu sem þeir byggja, þeir standi óumbreyttir í blíðu og stríðu, eins og kletturinn, hvort sem hann er roðinn af sól eða laminn af regni.
Þannig á Framsóknarflokkurinn að vera. Það er hlutverk okkar að vera kletturinn í hafinu. Viti skynsemi og rökhyggju í ólgusjó hugmyndafræðilegra öfga.
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að öfgarnar sem við þurfum að berjast gegn verða ekki réttlættar á þann hátt að það þurfi meiri öfgar.
Nú, eins og áður, eru öfgar réttlættar með fögrum orðum, með vísan til réttlætis, lýðræðis, jafnræðis, hagsmuna almennings og sanngirni. Og um leið keppast menn við að draga upp dökka mynd af fortíðinni til að réttlæta öfgafullar skoðanir og aðgerðir samtímans.
Engin ein pólitísk hugmyndafræði til hægri eða vinstri hefur lausnina við öllum raunverulegum úrlausnarefnum. Eina leiðin til að finna lausnir sem virka er að aðlaga sig að raunveruleikanum, leysa hvert vandamál fyrir sig út frá því sem er bæði skynsamt og rökrétt. Það er kjarninn í Framsóknarstefnunni.
Þess vegna horfa Framsóknarmenn hvorki til hægri né vinstri, heldur beint af augum, inn í framtíðina.
Við íslendingar þurfum að horfa í gegnum orðræðuna og líta til raunverulegra afleiðinga til að finna skynsamlegustu stefnuna. Stefnu sem leiðir til raunverulegrar velferðar, raunverulegs jafnræðis og raunverulegs réttlætis, ekki bara innantómra orða.
Íslendingar búa nú við stjórnvöld sem í öllu tekst að setja fram öfuga hvata og ala stöðugt á sundrung í samfélaginu, ýta undir tortryggni og vega að undirstöðum velferðar í landinu. Stjórnvöld sem á sama tíma bæta í orðræðuna innantómum frösum um samráð, traust og velferð.
Það er sérstakt áhyggjuefni hvernig stjórnvöld og hjálparkokkar þeirra leitast við að deila og drottna, skipta þjóðinni niður í stríðandi fylkingar sem svo er drottnað yfir.
Forsætisráðherra uppnefnir þá sem starfa í sjávarútvegi og notar um þá orðbragð sem minnir helst á málflutning íslenskra kommúnista á millistríðsárunum.
Bændur hafa sætt ótrúlegum árásum, útúrsnúningum og rangfærslum.
Íslenskur iðnaður er flokkaður sem óhrein grein og raunar má stundum ætla af ríkjandi orðræðu að atvinnurekstur sé almennt vafasöm iðja.
Langt er síðan íslensku vinstriflokkarnir gleymdu verkamönnum og konum.
Slík störf virðast vera orðin of gamaldags fyrir hina nýju vinstriflokka.
Það er dapurlegt að nú þegar baráttudagur verkalýðsins nálgast hóti vinstriflokkarnir að kippa stoðunum undan lífsviðurværi þúsunda starfsmanna í sjávarútvegi og hinum fjölmörgu greinum sem honum tengjast.
—
Við verðum að gera okkur grein fyrir því að íslenskt samfélag er samvinnuverkefni. Á Íslandi eiga hagsmunir ólíkra stétta að fara saman. Ef hagur bænda er skertur til að vænka hag annara líður ekki á löngu áður en hagur allra skerðist.
Það er íslensku samfélagi í hag að framleiða sem mest af íslenskum matvælum. Könnun tölfræðistofnunar Evrópusambandsins á matvælaverði sýnir að það er nú einna lægst á Íslandi, einkum þegar litið er til innlendra landbúnaðarvara. Ef íslensk matvælaframleiðsla minnkar hækkar kostnaður við innflutning, og sá kostnaður fer allur úr landi.
Ef flytja þyrfti inn öll matvæli myndi gjaldeyrisútstreymi aukast um tugi milljarða á ári. Það væri kostnaður fyrir samfélagið allt. Og það á tímum þar sem gjaldeyrisskortur er eitt helsta vandamál þjóðarinnar.
Árásir á íslenskan landbúnað og íslenska matvælaframleiðslu eru því árásir á velferð íslensks almennings. Það hlýtur að vera skylda okkar sem byggjum á skynsemisstefnu að standa fast gegn slíkum árásum á velferð samfélagsins. Það er skylda okkar að hugsa fram í tímann og treysta undirstöður samfélagsins og heill þjóðarinnar til langrar framtíðar. Það verður best gert með því að treysta undirstöður íslenskrar framleiðslu.
—
En nú búa Íslendingar við stjórnvöld sem reyna að telja einum hópi trú um að hann geti bætt stöðu sína með því að fórna öðrum. Slíkar tilraunir til atkvæðaveiða vega ekki aðeins að þeim sem skal fórnað. Þær skaða samfélagið allt.
Stjórnvöldum ber að vinna að því að bæta stöðu allra hópa samfélagsins, námsmanna og kennara, sjúklinga og hjúkrunarfræðinga, verkamanna og atvinnurekenda, eldriborgara, bænda og sjómanna. Það verður aðeins gert með því að styrkja innlenda framleiðslu, styðja við sprotafyrirtæki og nýsköpun, skapa jákvæða hvata til að atvinnulíf geti blómstrað, lyfta hlekkjum skulda af íslenskum fölskyldum og sjá til þess að Ísland sé aðlaðandi kostur fyrir innlenda og erlenda fjárfestingu. Svo þarf að tryggja að allir hópar samfélagsins fái notið ávaxtanna.
Nú búa Íslendingar við stjórnvöld sem hefur mistekist allt þetta. Núverandi stjórnvöld vega að íslenskri framleiðslu og halda niðri fjárfestingu með pólitískum óstöðugleika og endalausum skattkerfisbreytingum.
Atvinnuvegum er haldið í óvissu í stað þess að skapa nauðsynlegan stöðugleika fyrir fjárfestingar og uppbyggingu. Hlutfall fjárfestingar hefur að undanförnu verið það lægsta frá því að mælingar hófust. Þó voru allar aðstæður til að byggja hratt upp og skapa fjölda starfa á undanförnum árum.
Verstu afglöpin voru þó að varpa fyrir róða gullnu tækifæri til að rétta skuldastöðu ríkisins og bæta stöðu íslenskra heimila um hundruð milljarða.
Göran Persson, fyrrverandi forsætisráðherra Svía, varaði Íslendinga við því að viðbrögð við efnahagsáfalli valdi oft meira tjóni en áfallið sjálft. Því hafa Íslendingar nú kynnst því að tjónið af völdum núverandi ríkisstjórnar er þegar orðið meira en tjónið af sjálfu efnahagshruninu. Og það hefði orðið umtalsvert meira ef ekki væri fyrir staðfasta og ókvikandi baráttu Framsóknarmanna.
En það er enn hægt að snúa þróuninni til betri vegar. Á Íslandi höfum við allt sem þarf ef tekin verður upp skynsamleg stefna í stjórnmálum.
Tækifærin eru óteljandi, bæði stór og smá, og auðlindir landsins eru svo miklar að enginn Íslendingur á að þurfa að líða skort. Hið stórkostlega land okkar býr yfir nægum gæðum fyrir okkur öll.
Við þurfum bara að grípa tækifærin, nýta auðlindirnar skynsamlega og tryggja að allir þegnar samfélagsins fái að njóta afrakstursins.
Íslendingar eru stolt þjóð. En það er smánarblettur á okkar góða landi að atvinnuleysi og fátækt fái að viðgangast vegna þess að tækifærin sem eru til staðar eru ekki nýtt til fulls. Íslendingar þurfa að standa saman í baráttunni fyrir því að allir hafi atvinnu og jöfn tækifæri. Við þurfum að standa saman í baráttunni gegn fátækt og atvinnuleysi.
Íslendingar hafa margsinnis sýnt að þeir kunna að bíta á jaxlinn og þétta raðirnar þegar hættur steðja að samfélaginu utan frá. Um það höfum við bæði gömul dæmi og ný, þorskastríð, makrílstríð og þjóðaratkvæðagreiðslur gegn erlendum þvingunum.
En við Íslendingar verðum líka að standa saman þegar hættur steðja að samfélaginu innan lands. Því miður hefur það ekki tekist sem skyldi. Svo að það megi takast er nauðsynlegt að samvinnuhugsjónin verði grundvallarþáttur í stjórn landsins.
Framsókn hefur á síðustu árum sýnt að flokknum er treystandi til að setja fram raunhæfar lausnir og standa við þær. Í dag er orðið almennt viðurkennt að margar þeirra lausna sem Framsóknarmenn lögðu fram um endurreisn efnahagslífsins og skuldavanda heimilanna hefðu skilað miklu betri árangri en náðst hefur í raun. Lausnir Framsóknarflokksins eru jafnvel orðnar að yfirlýstri stefnu annarra flokka. Margir vildu nú Lilju kveðið hafa eins og sagt er.
—
En við ætlum ekki að staðnæmast við það sem liðið er, heldur horfa björtum augum inn í framtíðina. Á næstu mánuðum munu fjölmörg málefni verða í brennidepli stjórnmálanna. Mig langar að minnast hér stuttlega á fjögur þeirra sem eiga það sameiginlegt að krefjast tafarlausrar stefnubreytingar frá því sem nú er.
Í fyrsta lagi eru það gjaldmiðilsmálin. Umræðan um það hvaða gjaldmiðil Ísland á að hafa til framtíðar hefur sem betur fer tekið kipp eftir ráðstefnu Framsóknarfélags Reykjavíkur sem vakti alþjóðlega athygli.
En við megum ekki gleyma því að hver sem framtíðarlausnin verður munum við í öllum tilvikum þurfa að taka á sömu þáttum í efnahagsstjórn landsins. Það verður að auka fjárfestingu, koma böndum á verðbólgu, lækka skuldir og hallarekstur ríkissjóðs og lækka vexti.
Eftir þriggja ára efnahagsstefnu vinstri flokkanna hefur Ísland fjarlægst þessi markmið og mun halda áfram að fjarlægjast þau nema afdráttarlaus breyting verði á stefnunni.
Verðbólga og vextir hækka og halli ríkissjóðs sveiflast í takt við skyndiákvarðanir ráðherra án þess að fjárveitingavaldið, sjálft Alþingi, fái að koma þar að til að rækja eftirlitshlutverk sitt.
Framsókn hefur talað fyrir því að allir möguleikar í gjaldmiðlamálum séu skoðaðir af alvöru, því að hver þeirra hefur sína kosti og galla. En það sem við þurfum að gera strax er að breyta um stefnu við efnahagsstjórnina.
—
Í öðru lagi eru það atvinnumálin. Í gær voru rúmlega tólf þúsund og þrjú hundruð manns skráðir atvinnulausir og þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um annað þá hefur störfum ekki fjölgað.
Hér þarf einnig tafarlausa stefnubreytingu. það þarf að skapa jákvæða hvata, jákvætt umhverfi fyrir fyrirtækin í landinu til að vaxa og dafna. Það þarf að einfalda skattkerfið sem nú sligar lítil og meðalstór fyrirtæki, eyða óvissu um grunnatvinnugreinar þjóðarinnar og hvetja þar til uppbyggingar og koma á pólitískum stöðugleika til að innlendir og erlendir fjárfestar sjái sér hag í að leggja fé í atvinnuskapandi verkefni á Íslandi. Allt þetta er hægt að gera. allt þetta er mun Framsókn gera.
Það þarf líka að vera auðveldara að reka lítil fyrirtæki á Íslandi. Stjórnkerfisflækjurnar mega ekki vera slíkar að framtakssömu fólkis sé gert ómögulegt að hefja rekstur án þess að ráða starfsmann í það eitt að fást við kerfið.
Framsókn lagði í haust fram ítarlegar tillögur undir nafninu Plan B þar sem hvatt var til þess að blásið yrði til stórsóknar í atvinnumálum. Með aukinni atvinnuþátttöku mun verðmætasköpun aukast og það er grundvöllur aukinnar velferðar.
Framsóknarmenn vita að vinna, vöxtur og velferð tengjast órjúfanlegum böndum og hafa vilja og getu til að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd.
—
Í þriðja lagi eru það skuldamál heimilanna. Undanfarin þrjú ár hafa Framsóknarmenn ítrekað lagt fram tillögur til hjálpar heimilum í skuldavanda. Á þær tillögur hefur ekki verið hlustað. Þess í stað reka stjórnvöld stefnu sem gengur út á að engum sé hjálpað nema viðkomandi sé kominn í þrot. Afleiðingin er sú að gríðarleg verðmæti hafa farið til spillis.
Ef enn dregst að tekið verði á þessum vanda af festu þá er hætta á að mikill fjöldi Íslendinga hreinlega missi vonina, missi trúna á að þau geti búið börnunum sínum góða framtíð á Íslandi.
Varaþingmaður okkar Sindri Sigurgeirsson sagði mér að hann hefði farið í margar fermingarveislur að undanförnu og að í hverri þeirra hefði fólk verið að kveðja fjölskyldu sem er að flytja til Noregs. Lítil þjóð má ekki við slíkri blóðtöku til lengdar.
Það er ljóst að það þarf stefnubreytingu í skuldamálum. Framsókn hefur sýnt að flokkurinn er trúverðugur í þeim efnum. Eitt af því sem við höfum lagt til er að nýta skattkerfið til að hjálpa heimilunum og skapa jákvæða hvata til að taka á skuldavandanum.
En ég er því miður orðinn svartsýnn á að hægt verði að koma á breytingum fyrir kosningar. Samfylkingin talar nú reyndar fjálglega um stefnubreytingu en við höfum séð slíkar æfingar áður þegar sá flokkur nálgast kosningar. Íslenskt samfélag þarf trúverðugan flokk til að taka að sér lausn skuldamálanna. Flokk sem leggur fram raunverulegar lausnir byggðar á skynsemi og rökhyggju.
—
Fjórða atriðið varðar málefni sem ég hef miklar áhyggjur af, en það eru glæpir og staða löggæslumála. Íslendingar hafa á undanförnum árum horft upp á ýmiss konar glæpagengi skjóta rótum í landinu. Sumir þessara hópa hafa þegar gerst sekir um mjög alvarleg afbrot og erlendir löggæslusérfræðingar segja að miðað við reynslu nágrannaríkjanna muni þeir stækka og styrkjast hratt.
Það er óhugnanleg framtíðarsýn en á sama tíma og hún blasir við okkur hefur lögreglan verið sett í fjársvelti.
Framsóknarflokkurinn hefur, einn stjórnmálaflokka, talað skýrt og ákveðið fyrir því að löggæslumál verði tekin fastari tökum. Þingmenn flokksins hafa lagt fram tillögu um að gerð verði sérstök löggæsluáætlun fyrir Ísland, þar sem mannafla- og fjárþörf lögreglunnar til framtíðar verði sérstaklega metin. Við höfum einnig lagt fram tillögu um að félagasamtök sem falla undir alþjóðlegar skilgreiningar um skipulögð glæpasamtök verði bönnuð á Íslandi, og að lögregla fái auknar rannsóknarheimildir sem geta nýst í baráttunni skipulögðum glæpum.
Það er fyrsta skylda stjórnvalda í hverju ríki að tryggja öryggi borgaranna. Það er bráðnauðsynlegt að þetta gríðarlega mikilvæga verkefni verði tekið mun fastari tökum en gert hefur verið hingað til.
Í rúmlega 300.000 manna samfélagi á eyju í Norður-Atlantshafi ætti skipulögð glæpastarfsemi ekki að fá þrifist. Á Íslandi á öllum að finnast þeir öruggir, hvar sem er og hvenær sem er.
—
Kæru félagar.
Ef okkur tekst skapa aðstæður sem gera Íslendingum kleift að nýta þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir verður hvergi betra að búa en á Íslandi. Eins og ég hef rakið í fyrri ræðum eru tækifæri Íslands til framtíðar meiri en flestra, hugsanlega allra, annarra þjóða. Það er hins vegar ástæða til að árétta það enda kemur sífellt betur í ljós að bjartsýnin var síður en svo óhófleg.
Helstu auðlindir Íslands samanstanda af því sem mestur skortur er á í veröldinni. Sá skortur verður sífellt augljósari.
Bráðnun íss á norðurskautinu gengur hraðar fyrir sig en nokkurn óraði fyrir. Þegar vöruflutningar hefjast yfir norðurskautið getur Ísland orðið í miðpunkti mestu flutningaleiða heims. Það skapar ekki aðeins möguleika á umskipunarhöfnum heldur einnig því að flytja aðföng úr öllum áttum til Íslands, framleiða fullunnar vörur hér á landi og flytja þær svo til allra átta. Þar nýtast sterkir innviðir landsins og fríverslunarsamningar við lönd um allan heim.
Íslendingar sem hafa efasemdir um mikilvægi þessara tækifæra ættu að spyrja Kínverja, sem hafa sýnt Íslandi mjög mikinn áhuga á undanförnum árum.
Í síðustu viku heimsótti forsætisráðherra Kína Ísland ásamt stóru föruneyti. Við það tækifæri tilkynntu Kínverjar um áform sem hafa gríðarlega mikið táknrænt gildi. Þeir ætla á næsta ári að sigla skipi frá Kína, yfir norðurskautið, og til Íslands. Jafnframt lýstu Kínverjarnir því yfir að stefnt væri að því að ganga frá fríverslunarsamningi milli landanna á næsta ári, en þjóðir heims bíða í röðum eftir að ræða fríverslun við Kínverja.
—
Ég hef oft rætt um olíuleit og mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld taki þau mál föstum tökum. Helsti sérfræðingur Norðmanna í olíumálum á Jan Mayen-hryggnum hafði lýst því yfir að hann teldi líkur á að á þeim slóðum, og einkum á Drekasvæðinu, væri að finna álíka magn af olíu og gasi og í Noregshafi.
Nú hafa nýjar rannsóknir staðfest forsendur norsku vísindamannanna. Það er olíu að finna á Drekasvæðinu og rannsóknirnar benda auk þess til að þar séu góðar aðstæður fyrir olíulindir.
Það vildi Íslendingum til happs að norsk og bresk olíuleitarfyrirtæki sem voru á leið til leitar við Grænland buðust til að kanna Drekasvæðið í leiðinni. Hinar jákvæðu niðurstöður bárust seint með tilliti til olíuleitarútboðs.
Það hefði óneitanlega verið skynsamlegra ef íslensk stjórnvöld hefðu verið búin að undirbúa útboðið með rannsóknum í tæka tíð.
Það virðist þó ljóst að tilraunaboranir fari fram seinna á þessu ári eða því næsta. Þrír hópar buðu í leitarleyfi í íslenskri lögsögu og Norðmenn hafa þegar leigt borskip til að hefja tilraunaboranir á næsta ári.
Norðmenn hófu olíuleit í Norðursjó árið 1966. Þremur árum seinna fundu þeir gríðarstóra olíulind og hófu strax að dæla olíu í skip. Innan tveggja ára, þegar aðstaðan hafði verið byggð upp skilaði olíuútflutningur stórum hluta af gjaldeyristekjum Noregs.
Framfarir í olíuiðnaði hafa verið gríðarlegar frá því á 7. áratugnum. Dýpið á Drekasvæðinu er ekki lengur tiltökumál og veðurfar þar er betra en í Noregshafi, svo ekki sé minnst á Mexíkóflóa.
Það eru því góðar vonir um að innan fárra ára verði Ísland orðið að olíuríki. Það myndi muna um það fyrir rúmlega 300.000 manna þjóð.
Íslendingar hafa ótal ástæður til að vera bjartsýnir. Tækifærin blasa við. Við þurfum stjórnvöld sem hafa kjark og vilja til að nýta þau tækifæri almenningi til heilla.
—
Kæru samherjar
Til þess að ná markmiðunum um lífsgæði fyrir alla Íslendinga, í krafti öflugrar atvinnu-uppbyggingar, þarf Framsóknarflokkurinn að ná forystu í þeim átökum sem nú standa um hvert Ísland skuli stefna.
Samvinnustefnan, raunhæfar lausnir byggðar á skynsemi og rökhyggju, trúin á eigin mátt og framtíð þjóðarinnar, samfélag sem byggir á frjálslyndi og jöfnum tækifærum allra og öryggisnet sem styður og grípur þá sem á því þurfa að halda. Þetta er það sem Framsóknarstefnan byggir á.
Ísland þarf ekki kommúnisma sem tryggir að allir hafi það jafn slæmt, öllum til tjóns nema valdhöfunum.
Ísland þarf ekki frumskógarlögmál frjálshyggjunnar, öllum til tjóns nema þeim sem verða efstir í lífsbaráttunni.
Ísland þarf stöðugleika Framsóknarstefnunnar á viðsjárverðum tímum pólitískra öfga, stefnu sem gengur óhrædd og staðföst inn í framtíðina með óbilandi trú á Ísland að leiðarljósi.