Heilbrigðismál hér og þar

Ég sá að pennavinur minn, Kári Stefánsson mannvinur, tók það óstinnt upp að ég væri sammála honum um mikilvægi stórfelldrar eflingar heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Eins og menn þekkja er Kára tamt að úthúða þeim sem eru ósammála honum en ég hafði ekki gert mér grein fyrir að það sama ætti við um þá sem tala máli hans (án þess þó að vera lögmenn). Líklega gerði það útslagið að ég lét fylgja vinsamlega ábendingu um að ef til vill væri ekki best að ná markmiðinu um eflda heilbrigðisþjónustu með því að einblína eingöngu á hlutfall heilbrigðisútgjalda af landsframleiðslu.

Kári virtist telja að með því hefði ég verið að gera grín að sér (reyna að vera fyndinn). Ég skal viðurkenna að ég þykist ekki skilja skilgreiningu Kára Stefánssonar á húmor en ég á bágt með að sjá að nokkuð í tölfræðinni sem ég benti á hafi verið til þess fallið að gera grín að Kára eða grín yfir höfuð.

Einnig virtist hinn miskunnsami samfélagsrýnir telja að ég hefði gert lítið úr fátækum ríkjum eins og Síerra Leóne með því að hafa í rökstuðningi mínum bent á að heilbrigðismál væru stærri hluti landsframleiðslu þar en á Norðurlöndum. Stjórnvöld í Síerra Leóne áttu að mati Kára hrós skilið fyrir að vera reiðubúin til að fórna hlutfallslega meiru en Íslendingar til að hlúa að þeim sem minna mega sín. Þetta sýndi að stjórnvöld í Síerra Leone væru, rétt eins og hann sjálfur, betri en annað fólk og þá auðvitað betri en íslensk stjórnvöld sem ættu að taka sér stjórnmálamenn í Síerra Leóne til fyrirmyndar.

Ætli sé ekki óhætt að gefa sér að Kári hafi ekki allt í einu tekið upp á því að kynna sér staðreyndir mála áður en hann útskýrði að Síerra Leóne stæði sig í raun betur í heilbrigðismálum en Ísland (hlutfallslega) og sannaði þannig að best væri að líta til hlutfalls af landsframleiðslu. Alþjóðlegu mannúðarsamtökin ODI gætu upplýst Kára um að stór hluti íbúa landsins nýtur ekki heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafa aðgang að þjónustu sem ætti að vera ókeypis eru oftast látnir borga fyrir hana þ.a. í raun greiðir almenningur hátt í 90% af kostnaðinum við heilbrigðiskerfið. Það er miklu hærra hlutfall en í grannríkjunum (sem þó verja lægra hlutfalli landsframleiðslu til heilbrigðismála).

Síerra leóne

Hið háa hlutfall heilbrigðisþjónustu í landsframleiðslu í fyrirmyndarríki VLF-leiðar Kára helgast því af lágri landsframleiðslu (fátækt) og heilbrigðiskerfi þar sem hinir fátæku íbúar landsins þurfa sjálfir að greiða óvenju mikinn kostnað vegna þjáninga sinna.

Það þarf ekki að skoða þróunarríki til að átta sig á því að varasamt getur verið að miða bara við hlutfall af landsframleiðslu. Hlutfall heilbrigðismála af landsframleiðslu er einna hæst í Bandaríkjunum (þrátt fyrir mikil hernaðarútgjöld). Ætli megi ekki gefa sér að jafnvel Kári Stefánsson væri tregur til að halda því fram að bandaríska heilbrigðiskerfið væri betra og og fæli í sér meiri manngæsku en það íslenska.

Ef litið er eingöngu til hlutfalls opinberra útgjalda til heilbrigðismála lítur dæmið öðruvísi út en sú mynd sem Kári dregur upp. Þá stendur Ísland enn betur í samanburðinum bæði fyrr og nú. Ísland var raunar efst allra landa fyrir fáeinum árum eins og sjá má af þessu súluriti fjármálaráðuneytisins frá 2006 (þá voru íslensk stjórnvöld, í kvalaþorsta sínum, búin að svelta heilbrigðiskerfið í a.m.k. fimmtán ár að mati Kára):

vlf h206

Þegar sýnt var fram á það í sjónvarpsþætti að Kári færi rangt með tölur og að bæði samanburðurinn og viðmiðin voru röng voru viðbrögðin hefðbundinn fúkyrðaflaumur með fullyrðingum um að fólki sem gagnrýndi hann væri sama um þá sem minna mega sín eða vildi viðhalda þjáningum.  Að lokum upplýsti hann þó að þetta byggðist ekkert á þessum prósentutölum.

Semsagt átak um að tiltekin prósenta af landsframleiðslu færi í heilbrigðismál byggðist ekki á tölum. Sjálfsagt er það rétt að átakið snúist ekki um prósentutölur. Enda má velta fyrir sér um hvað undirskriftasöfnun snýst þar sem fólki býðst að skrifa nafnið sitt undir gríðarstóra framboðsmynd af Kára Stefánssyni?

Líti menn hins vegar svo á að undirskriftasöfun Kára Stefánssonar snúist bara almennt um vilja til að efla heilbrigðiskerfið þá er hver slík undirskrift krafa um að menn finni bestu leiðina til að láta það gerast. Þá ættu menn að fagna umræðu um málið og jafnvel láta sig hafa það að fá ábendingar.

Hlutfall ríkisútgjalda til heilbrigðismála af landsframleiðslu rauk upp á Íslandi, sem hlutfall af VLF, við efnahagshrunið en hrundi svo vegna niðurskurðar.

Varla vilja menn þó halda því fram að besta leiðin til að bæta heilbrigðisþjónustu sé efnahagshrun. Í stað þess að sveiflast eftir landsframleiðslu þurfa heilbrigðisútgjöld að vera næg og nógu vel fjármögnuð til að veita nauðsynlega þjónustu óháð efnahagssveiflum.

Það þarf yfirvegaða umræðu og skynsamlegar ráðstafanir svo vel takist til við eflingu heilbrigðiskerfisins. Þá verða menn að þola umræðu um hvað snýr upp og niður og hvaða leiðir séu bestar til að halda áfram hinni miklu uppbyggingu síðustu ára.