Fréttirnar af því að áætlað sé að afskrifa meira af lánum til fyrirtækja og heimila en áætlað var felur í sér mikið tækifæri. Það sýnir fram á mikla getu bankanna til að afskrifa lán og um leið þörfina fyrir slíkt því að matsfyrirtækin byggja áætlun sína á því að meta undir hverju lántakendur standi. Aðalatriðið er að afskriftirnar séu látnar að einhverju leyti ganga áfram til fólks og fyrirtækja til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot og halda hagkerfinu gangandi. Til þess er nú mjög mikið svigrúm, enn meira en áætlað var.
Þörfin
Viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra hafa andmælt ályktunum sem ég hef dregið út frá áætlun erlendra matsfyritækja um stöðu lánasafna íslensku bankana. Þeir telja matið ekki sýna fram á hættu á öðru hruni og að ekki sé þörf á að afskriftirnar sem munu eiga sér stað séu að einhverju leyti látnar ganga áfram til þeirra sem skulda. Í mati Wyman frá því í janúar (og matið hefur versnað síðan þá) segir þó:
“En núverandi staða Íslands er alvarlegri en nokkur krísa sem nokkur einstök þjóð hefur lent í frá því í kreppunni miklu.”
“However, Iceland’s current situation is more severe than any crisis suffered by an individual nation since the Great Depression.”
Það er spurning hvað ráðherrarnir telja að þurfi til að ástandið teljist nógu hættulegt til að ráðist sé í róttækar aðgerðir.
Tækifæri okkar til aðgerða er meira en hjá nokkurri þjóð en þörfin fyrir aðgerðir er líka meiri en nokkurs staðar annars staðar.
Tökum dæmi af 10 manna fyrirtæki sem skuldar 100 milljónir sem það stendur ekki undir. Nýi bankinn kaupir lán fyrirtækisins á 50 milljónir af þeim gamla (afskriftirnar sem nú er gert ráð fyrir eru að jafnaði enn meiri). Ef bankinn heldur svo samt áfram að reyna að innheimta 100 milljónir stendur fyrirtækið ekki undir því og fer í þrot. Það getur gerst smátt og smátt með því að fyrst sé 3 sagt upp til að spara en svo dregst veltan enn saman og fleirum er sagt upp. Bankinn tekur svo fyrirtækið en söluvirði þess er nánast ekki neitt (fyrirtæki eru illseljanleg núna, hvað þá fyrirtæki sem búið er að keyra í þrot).
Bankinn tapar því 50 milljónunum.
En ef bankinn gefur eftir 30 milljónir og innheimtir 70 helst fyrirtækið í rekstri. 10 manns halda vinnunni og bankinn innheimtir 70 milljónir (fyrir lánið sem hann keypti á 50 milljónir) og hefur þá meira uppá að hlaupa vegan fyrirtækjanna sem alls ekki er hægt að bjarga.
Hið mikla afskriftamat Wyman gerir nýju bönkunum kleift að ganga mjög langt í því að koma til móts við heimilin og fyrirtækin. Í því felst hið stórkostlega tækifæri Íslands. Við getum orðið fyrst til að ráðast í þá skuldaleiðréttingu sem öll vestræn ríki þurfa að fara í gegnum. Við verðum líka að vera fyrst því að við höfum minnstan tíma til stefnu.
Wymanskýrsluna var búið að lofa að birta í síðasta lagi fyrir miðnætti þann 15. apríl. Það var ekki gert og nú orðið ljóst að ,,vonir” stjórnvalda um að hægt yrði að birta hana fyrir kosningar ganga ekki eftir.
Það er þó til bótað að eftir því sem leið á gærdaginn kannaðist fjármálaráðherra betur við tilvist skýrslunnar og féllst svo á að hún væri komin í fjármálaráðuneytið. Þar væri hún hins vegar geymd í læstu herbergi sem einungis dulkóðaðir menn fengju aðgang að og aðeins einn maður hefði notið þeirra forréttinda til þessa.
Svona tala fulltrúar flokka sem hafa farið hamförum í umræðunni um að allt ætti að vera uppi á borði. Það á semsagt allt að vera upp a borði en borðið er í læstu leyniherbergi í fjármálaráðuneytinu sem þarf sérstaka dulkóðun til að komast inn í.
Grundvallarplagg um stöðu efnahagslífsins er læst inni í leyniherbergi fram yfir kosningar. Rökin um viðkvæma viðskiptahagsmuni standast ekki því skýrslan er tvískipt. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að birta heildarmyndina án þess að sýna stöðu einstaka fyrirtækja.
Fjármálaráðherra hefur skammast mikið yfir því hvernig allir brugðust í aðdraganda bankahrunsins með því að vara ekki við þróuninni. Núna fer hann mikinn í umræðu um að það sé mikill ábyrgðarhlutur að tala um að hætta sé á öðru hruni. Nú má semsagt ekki „tala markaðinn niður”. Sá sem varar við þróuninni og því að allt sé ekki í lagi má eiga von á persónulegum árásum og ofsafengnum viðbrögðum ráðamanna.
Aðalatriðið hér er að með því að gera sér grein fyrir ástandinu og taka á því má koma í veg fyrir hrun og breyta stöðu Íslands úr því að vera sú alvarlegasta sem nokkuð þjóð hefur verið í frá því í kreppunni miklu í að vera mun betri betri en í öðrum ríkjum. Menn verða bara að viðurkenna vandann og viðurkenna að við höfum lausnirnar.
Hér að neðan er fjallað um stöðu málsins í heild
Um hvað snýst málið.
Mat á eignum gömlu bankanna er grundvallargagn í því að átta sig á stöðu fyrirtækja og heimila á Íslandi. Aðferðafræðin við matið hefur verið kynnt og jafnframt hafa komið fram bráðabirgðaniðurstöður sem voru lagðar til grundvallar við stofnun Nýju bankanna.
Vegna stærðar hinna þriggja stóru banka er óhætt að segja að mat á eignunum segi til um áætlaða greiðslugetu íslensku þjóðarinnar hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða heimili. Framsóknarflokkurinn hóf umræðu um staðreyndir málsins strax í upphafi árs og kynnti tillögur til að bregðast við vandanum. Á þeim tíma vörðust stjórnarflokkarnir með því að benda í sífellu á að endanlegir efnahagsreikningar bankanna lægju ekki fyrir þar sem mat á eignunum væri ekki fullunnið. Núverandi stjórnarflokkar hafa reynt að gera lítið úr ástandinu og viðskiptaráðherra hefur m.a. komið fram í fjölmiðlum og haldið fram að vandamál íslensku þjóðarinnar séu einhvers konar misskilningur. Það er vandamál að svo er komið að þjóðin, í merkingunni heimili og fyrirtæki, getur ekki greitt nema hluta af sínum skuldum samkvæmt mati virtra sérfræðinga. Þetta finna flestir Íslendingar á eigin skinni og ábyrgðarleysi að flokka undir misskilning.
Staðreyndir, ályktanir og aðgerðir.
Í þessu máli er lykilatriði að menn geri greinarmun á staðreyndum, ályktunum og aðgerðum. Nauðsynlegt er að ávallt séu uppi á borðum eins nákvæmar upplýsingar og mögulegt er. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að þjóðin fái að vita mat á sinni eigin greiðslustöðu. Meðan þetta liggur ekki fyrir munu menn koma fram með mismunandi ályktanir varðandi staðreyndirnar. Samfylkingin og Vinstri grænir hafa neitað að horfast í augu við vandann. Þeirra ályktun er að 100-200 heimili þurfi á greiðsluaðlögun að halda og aðgerðir í gegnum fjármálakerfið til handa fyrirtækjunum hafa ekki sést ennþá.
Staðreyndir eru eftirfarandi:
Í október kom fram að áætlaður efnahagsreikningur nýju bankanna ( hér er lykilatriði að tala um nýju og gömlu bankanna) yrði ríflega 3000 milljarðar. Að baki þessari tölu lá bráðabirgðamat sem unnið var af bönkunum og ráðgjöfum þeirra. Staðfest hefur verið að áætlaðar eignir sem keyptar voru á 3000 milljarða voru u.þ.b. 50% af nafnvirði eignanna (6000 milljarðar). Skilanefndir bankanna hafa allar kynnt áætlaðar heimtur og þar hefur komið fram staðfesting á áætluðum viðskiptum gömlu og nýju bankanna og á hvaða forsendum þau hafa verið byggð. Aðrar eignir gömlu bankanna voru ekki keyptar af nýju bönkunum og eru því enn á hendi skilanefna. Á móti þessum eignum gerði ríkið ráð fyrir að þurfa að leggja fram 385 milljarða eiginfjárframlag.
Nú liggja fyrir upplýsingar um að niðurstaða Deloitte og Wyman sé heldur verri en í fyrstu var talið. Sem fyrr vill ríkisstjórnin gera lítið úr vandanum og lætur í raun ekki svo lítið sem að kynna helstu niðurstöður nú fyrir kosningar. Viðskiptaráðherra hefur þó látið uppi að eiginfjárframlag ríkisins til bankanna verður umtalsvert minna en ráð var fyrir gert sem staðfestir í raun að efnahagur bankanna verður mun minni. Sú þróun verður aðeins skýrð með því að eignir hafi rýrnað eða þær færðar aftur yfir í gömlu bankanna.
Samkvæmt mínum upplýsingum er það þannig að gert er ráð fyrir að efnahagsreikningar bankanna verði undir 2000 milljörðum og að baki því liggi eignir að nafnvirði 4000 milljarðar. Mismunur á upphaflegu 6000 milljörðunum og 4000 milljörðum er skýrður með því að eignir hafa verið færðar aftur í gamla bankann þar sem mikil óvissa ríkti um virði þeirra eða þær hafi hreinlega rýrnað mjög í verði.
Þetta þýðir í stuttu máli að efnhagur bankanna er metinn ríflega 30% af þeim upphaflegu eignum sem lágu til grundvallar. Vegna þess að um er að ræða Nýja banka standa þessar eignir á kaupverði inni í bönkunum. Viðskiptaráðherra hefur staðfest og gerir það enn á ný í misskilningsyfirlýsingum sínum í MBL í dag að staðfesta þessa mynd.
Hvaða ályktanir má draga af þessari stöðu?
Miðað við greiðslumat liggur fyrir að með því að rukka að fullu mun fara af stað ferli sem erfitt verður að stöðva nema með róttækum aðgerðum. Framsóknarmenn gerðu sér grein fyrir þessu strax í upphafi ársins og lögðu fram viðamiklar og róttækar hugmyndir í efnahagsmálum sem nú eru orðnar vel þekktar.
Svo virðist sem aðrir flokkar (S, V og D) dragi aðrar ályktanir miðað við þær tillögur eða aðgerðaleysi sem þeir leggja fram.
Upplýsingastreymi / gagnsæi og heiðarleiki
Framsóknarflokkurinn hefur lagt höfuðáherslu á málefni heimila og fyrirtækja í þessari kosningabaráttu og reyndar allt þetta ár. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa eftir fremsta megni reynt að komast hjá þessari umræðu og dregið aðra þætti fram í sviðsljósið. Þegar svo í ljós kemur að mikilivægar staðreyndir varðandi stöðu heimila og fyrirtækja liggja á borðum stjórnarflokkanna virðist sem svo að annað hvort séu flokkarnir vísvitandi að halda til hliðar hlutum sem gætu mótað umræðuna eða flokkarnir hreinlega ákveða að taka ekki mark á staðreyndum og telja aðra hluti mikilvægari.
Fyrir okkur hina sem teljum mikilvægt að sem ítarlegastar upplýsingar liggi fyrir til að hægt sé að beita markvissum aðgerðum teljast það gríðarleg vonbrigði að ekki skyldi upplýst um helstu niðurstöður skýrslu Deloitte og Wyman. Sérstaklega verður að teljast í því ljósi að ríkisstjórnin var sett saman með stuðningi Framsóknarflokksins með upplýsingagjöf, gagnsæi og heiðarleika að leiðarljósi.
Raunveruleg staða og viðfangsefni
Niðurstaða kosninganna á morgun mun að stórum hluta ráðast af þeim aðstæðum sem við erum í. Raunveruleg staða heimila og fyrirtækja skiptir þar miklu máli. Nú er staðan sú að sérhvert heimili er upptekið af sinni stöðu og menn gera sér kannski ekki grein fyrir stöðu annarra heimila. Staðreyndirnar tala sínu máli.
Spurningar sem forystumenn stjórnarflokkana hafa ekki svarað
Komið hefur fram að ríkisstjórnarflokkarnir sitja á gögnum varðandi mat á á greiðslugetu Íslendinga sem gefur til kynna verri stöðu en áður var talið. Hvaða ályktanir draga ríkisstjórnarflokkarnir af því að útlit er fyrir að Nýju bankarnir kaupi útlán til Íslendinga af gömlu bönkunum á ríflega helmingsafslætti og hvaða aðgerðum verður beitt?
Munu flokkarnir beita sér fyrir því að ríkisbankarnir kaupi eignasöfn af gömlu bönkunum á hærra virði en sem nemur mati á raunvirði frá Deloitte og Wyman?
Munu ríkisbankarnir freista þess að innheimta helmingi hærri fjárhæð af Íslendingum heldur en mat á greiðslugetu segir til um?
Hvernig mun ESB leysa þann vanda sem lýsir sér í því að mat á gæðum upphaflega eignasafnins gerir ráð fyrir að einungis 30% af lánunum innheimtist að lokum?
Munu flokkarnir gera almenningi grein fyrir niðurstöðum sérfræðinganna á stöðu eignasafnsins fyrir kosningarnar þ.e. umsvifalaust eða telja þeir að upplýsingarnar séu ekki þess virði að upplýsa kjósendur?
Hingað til hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar gefið lítið fyrir þær forsendur sem Framsóknarflokkurinn hefur lagt til grundvallar sínum efnahagstillögum. Eru flokkarnir reiðubúnir að staðfesta að í mati á eignum gömlu bankanna sé ekki gert ráð fyrir afskriftum á móti íslenskum eignum? Hvernig má þá skýra þær upplýsingar sem borist hafa frá skilanefndum um að áætlaðar endurheimtur verði hjá Glitni á bilinu 25-40%, hjá Kaupþing í kringum 20-25% og ekkert hjá LAIS?