Fjárkúgun?

Framkoma Gordons Brown í garð Íslendinga hefur verið með stökustu ólíkindum. Hún er ekki bara óþægileg vegna þeirra gríðarlegu áhrifa sem stjórn hans hefur haft á ímynd landsins. Efnahagslegt tjón af aðgerðum ríkisstjórnar Browns, og umræðunni um Ísland og Íslendinga er líka óheyrilegt.

Fyrir skömmu hitti ég og hópur fólks sem unnið hefur að því að gæta hagsmuna Íslendinga erlendis (oft kallað InDefence-hópurinn) fulltrúa breskra stjórnvalda til að afhenda rúmlega 83.000 undirskriftir gegn beitingu hryðjuverkalaganna. Við héldum auk þess fundi með breskum þingmönnum og fulltrúa utanríkisráðuneytisins.

Fulltrúum þingsins og utanríkisráðuneytisins reyndist erfitt að svara fyrir gjörðir bresku ríkisstjórnarinnar en lögðu mikla áherslu á að litið yrði til framtíðar fremur en að dvelja við það sem væri búið og gert. Við vorum því sammála að leggja ætti áherslu á að framtíðarsamskipti yrðu betri en bentum á að þá hlyti að vera eðlilegt að aflétta beitingu hryðjuverkalaganna.

Lögunum var upphaflega beitt gegn íslenska seðlabankanum og um leið ríkinu og Landsbanka Íslands. Landsbankinn var þá, og er enn, ríkisbanki. Það að íslenskt ríkisfyrirtæki skuli enn vera á slíkum lista hefur veruleg áhrif á möguleika okkar á að endurreisa fjármálakerfið, svo ekki sé minnst á ímynd landsins.

Fulltrúi utanríkisráðuneytisins gerði okkur grein fyrir því að hryðjuverkalögunum yrði ekki aflétt fyrr en endanlega hefði verið gengið frá greiðslu vegna Icesave. Einn í hópnum gerðist þá svo ósvífinn að spurja hvort ekki mætti kalla þetta fjárkúgun. Þá varð fátt um svör og umræðunni var beint á aðra braut (umræðu um að Bretar kynnu að aðstoða okkur við inngöngu í Evrópusambandiðí framtíðinni).

Ekkert vestrænt ríki annað en Ísland mundi sætta sig við að vera beitt hryðjuverkalögum. Beiting laganna hefði enda aldrei komið til greina gagnvart stærra ríki. Breskir lögmenn bentu á það (m.a. í Financial Times) fljótlega eftir beitingu laganna að þau rök breskra stjórnvalda að löginn tækju til fleiri þatta en hryðjuverka hefðu ekkert að segja enda væri hlutverk laganna að vinna gegn hryðjuverkum. Fjármálahluti þeirra er settur í þeim tilgangi og felur af þeim sökum í sér miklu víðtækari heimildir en finna má í öðrum lögum.

Nú verða íslensk stjórnvöld að tala hreint út við bresk stjórnvöld og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau þurfa að fara fram á að gerð sé grein fyrir því hversu mikil afskipti bresk stjórnvöld hafi haft af AGS vegna Íslands, fara fram á að árásum Brown-stjórnarinnar linni og hryðjuverkalögunum verði aflétt.

Ísland getur ekki unað þeirri stöðu að vera látið semja um greiðslu hundruða milljarða króna undir ógnunum og hugsanlegri misbeitingu alþjóðastofnana.

Ég hvet alls ekki til þess að stjórnmálasambandi við Bretlandi verði slitið nú, enda er best að reyna til þrautar að leysa deiluna eftir diplómatískum leiðum. Hins vegar hljóta menn að velta því fyrir sér hvort eðlilegt sé að viðhalda óbreyttum diplómatískum samskiptum við ríkisstjórn Gordons Brown ef hún hyggst þvinga okkur til að taka á okkur gríðarlegar fjárhagslegar skuldbindingar og beita til þess hryðjuverkalögum, árásum í fjölmiðlum og á þinginu og jafnvel að hindra möguleika okkar á efnahagslegri endurreisn með afskiptum af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.