Þetta er löngu komið gott af stórfurðulegum árásum fáeinna talsmanna stórverslana á íslenska bændur. Kvartanirnar yfir því að fá ekki fullt vald yfir matvælaframleiðendum taka á sig ýmsar myndir en kaldhæðnin gæti varla orðið meiri en þegar stuðningur við innlenda matvælaframleiðslu er gagnrýndur með samanburði við Icesavesamningana.
Á aðalfundi Samtaka verslunar og þjónustu árið 2011 sagði þáverandi formaður samtakanna að brýnasta verkefni þjóðarinnar og stjórnvalda væri tryggja samþykkt Icesave-samninganna í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það átti að gera til að bæta rekstrarskilyrði fyrirtækja. ,,Ef Icesave verður fellt þá mun engin ríkisstjórn hjálpa okkur upp úr þeirri stöðu” sagði formaður samtaka sem nú bera búvörusamninga saman við Icesavesamninga.
Icesavesamningurinn fól í sér greiðslu hundruða milljarða króna úr landinu í erlendri mynt sem ekki var til. Nýverið var reiknað út að kostnaður skattgreiðenda af fyrsta samningnum væri orðinn vel á annan milljarð evra. Það er ómögulegt að segja hvað það væri mikið í krónum vegna þess ekki er hægt að segja til um hversu mikið gengið hefði hrunið við að taka ábyrgð á Icesavekröfunni. Upphæðin sem fallið hefði á skattgreiðendur næmi þó hæglega 300 milljörðum króna (á núverandi gengi er hún yfir 200 milljarðar) og um leið væri staða ríkisfjármála miklu lakari, vaxtakostnaður ríkissjóðs meiri, meiri verðbólga með veikara gengi, innfluttar vörur dýrari osfrv. osfrv.
Stuðningur við innlenda matvælaframleiðslu snýst hins vegar um að spara gjaldeyri. Nýta auðlindir landsins til að búa til gæðavöru og selja hana á samkeppnishæfu verði. Stuðninginn mætti allt eins kalla neytendastyrki enda er álagning stórverslana meiri á innfluttar vörur en þær innlendu.
Fyrir rúmum sjö árum höfðu menn áhyggjur af því hvort til væri gjaldeyrir til að flytja inn eldsneyti og lyf. Menn geta rétt ímyndað sér hver staðan hefði verið ef við hefðum ekki átt öfluga innlenda matvælaframleiðslu með þeim tugmilljarða gjaldeyrissparnaði sem hún skilar. Svo ekki sé einu sinni hugsað til þeirrar stöðu sem upp hefði komið ef við hefðum ekki haft innlenda matvælaframleiðslu og samþykkt Icesavesamninginn á sama tíma.
Að gagnrýna 13-14 milljarða stuðning við lægra vöruverð til neytenda og gjaldeyrissparnað upp á um 50 milljarða á ári með vísan til áforma um að greiða hundruð milljarða úr landi fyrir ekki neitt þegar enginn gjaldeyrir var til er vægast sagt furðulegt. En það er lýsandi fyrir hvað þeir sem það gera eru komnir langt út í haga í gagnrýni sinni á bændur og landbúnað, undirstöðuatvinnugrein á Íslandi í meira en 1100 ár.
Og allt til að geta eytt meiri gjaldeyri í að flytja inn meira af erlendum matvælum og selja þau með hærri álagningu.
One comment
Comments are closed.