Í viðtali við Morgunblaðið benti ég á að það stefndi í skipulagsslys (er hægt að tala um slys ef það sem gerist hefur beinlínis verið skipulagt?) við norðurenda Kvosarinnar í Reykjavík. Ég hafði lýst sömu viðhörfum þegar fyrst birtust teikningar af áformuðum byggingum. Reyndar hef ég gagnrýnt skipulagsáform á svæðinu í mörg ár, m.a. í viðtölum og skrifum fyrir meira en áratug, og það gerðu fleiri. Þessi vann t.d. hugmyndasamkeppni Landsbankans 2004 með tillögum sem fjölluðu um svæðið og ítrekaði svo afstöðu sína í grein fimm árum seinna: http://www.andrisnaer.is/frettir/2009/02/hvad-a-ad-gera-vid-midborgina/
Viðbrögð borgarstjórans vöru þau sömu og síðast þegar ég viðraði gagnrýni. Í stað þess að ræða innihald málsins hnýtti hann í mig og hélt því fram að ég hefði komið að því að samþykkja skipulagið sem varaformaður skipulagsráðs Reykjavíkur. Það er ekki satt. Skipulagið var samþykkt í maí 2006 undir stjórn þáverandi formanns skipulagsráðs, Dags B. Eggertssonar. Breytingar voru svo gerðar á skipulaginu í október 2010, eftir að ég fór úr ráðinu. Með breytingunum var þó dregið úr byggingarmagninu. Það er því heldur ekki rétt sem borgarstjórinn hélt fram að núverandi tillögur geri ráð fyrir minna byggingarmagni en upphaflega var áformað.
Upphafleg tillaga gerði ráð fyrir um 25.000 fermetrum. 2010 breytingin færði magnið niður í 22.700. Nú er verið að tala um 30.000. Það er aukning sem nemur nokkrum fjölbýlishúsum. Á þeim tíma sem ég sat í skipulagsráði ræddi ég áformin við höfnina oft og það gerði aðrir fulltrúar í ráðinu líka. Rúmum mánuði eftir að ég settist í ráðið hrundi fjármálakerfi landsins og almennt gerðu menn ráð fyrir að áformin væru úr sögunni.
Það er samt engin ástæða til að skammast út í þá sem samþykktu tilllöguna 2006. Í millitíðinni hefur margt komið í ljós, bæði um þensluhvetjandi skipulag og mikilvægi þess að huga að sögu og menningu í miðbænum. Ræðum því hvernig hægt er að finna sem besta lausn á málinu út frá staðreyndum.
Oft er auðveldara að meta hluti eftir á en fram í tímann. Þess vegna getur verið gagnlegt að ímynda sér að maður sé í framtíðinni að líta aftur. Telur einhver að ef fallið verður frá áformum um stóra tískukassa, anno 2015, í miðbæ Reykjavíkur muni menn eftir 50 ár segja: „Bara að menn hefðu nú byggt stóru fjölbýlis og skrifstofuhúsin í Kvosinni á sínum tíma.“
Fyrir nokkrum árum var ákveðið að rífa ráðhús Frankfurtborgar. Húsið var stór brútalistabygging frá áttunda áratugnum svo áformin mæltust vel fyrir meðal borgarbúa. Ætlunin var að færa meira líf í gamla miðbæinn en ráðhúsið hafði staðið steinsnar frá hinum gamla miðpunkti Frankfurt, Römertorgi. Þar höfðu nokkur bindingsverkshús verið endurreist í kringum 1984 og strax orðið helsta kennileiti borgarinnar. Haldin var arkitektasamkeppni um framkvæmdir á byggingareitnum. Myndin sem birtist efst í þessari grein er af sigurtillögunni auk fleiri mynda hér að neðan.
Borgarbúar voru hins vegar ekki sáttir. Hvers vegna mátti ekki byggja slíkar byggingar einhvers staðar annars staðar í þessari stórborg þar sem menn horfðu upp á sambærilegar framkvæmdir um allt? Það sem borgin þurfti á að halda var að styrkja gamla bæinn og yfirbragð hans. Fólk hafði séð hvað endurbyggingin við Römertorg hafði skipt miklu máli fyrir borgina og styrkt ímynd hennar. Í þeim efnum gátu bankaturnarnir í Frankfurt, hæstu byggingar Evrópu, ekki keppt við timburhúsin frá 1984.
Það varð úr að farið var að vilja íbúanna. Horfið var frá því að byggja samkvæmt tísku ársins 2005 og þess í stað ráðist í að endurheimta meira af hinni sögulegu, sérstæðu og fallegu Frankfurt. Framkvæmdir standa nú yfir en árangurinn hefur verið framar vonum, þ.a. ákveðið var að fjölga hinum „sögulegu“ húsum. Hér er hægt að kynna sér málið, skoða myndir og fylgjast með framkvæmdunum í vefmyndavélum: http://www.domroemer.de/
Íslendingar eiga minna af klassískum byggingum en aðrar Evrópuþjóðir, ekki bara í fjölda heldur hlutfallslega líka. Aðrar Evrópuþjóðir gerðu sér þó grein fyrir mikilvægi samhengisins og sögunnar fyrir mörgum áratugum síðan.
Það er mikið byggt á Íslandi þessa dagana og það er ekkert því til fyrirstöðu að tíska ársins 2016 og næstu ára fái að njóta sín í þúsundum bygginga. En þegar kemur að því að nýta mikilvægasta byggingarreit í elstu byggð Reykjavíkur gæti þá ekki verið ráð að huga að samhenginu?