Þegar Jóhanna Sigurðardóttir rauf þann trúnað sem ríkisstjórnin hafði farið fram á að gilti um Icesavemálið og fór að tjá sig um niðurstöðu viðræðna gaf hún strax mjög villandi mynd af samningunum. Á blaðamannafundi sem formenn stjórnarflokkana héldu svo til að kynna samkomulagið var viðhöfð hrein og klár blekking.
Hagstæðir vextir:
Steingrímur J. Sigfússon telur 5,6% vexti í evrum og pundum vera afar hagstæða. Vextir Seðlabanka Englands eru nú 0,5%. Vextirnir sem Bretar bjóða Íslendingum eru því 11 sinnum hærri en það.
Hvaða vexti töldu bresk stjórnvöld sanngjarnt að greiða fyrir þá peninga sem þeir tóku með hryðjuverkalögum hjá Landsbankanum og lögðu inn í eigin banka?
Svar: 0 %
Betra en það sem hefði verið verra:
Þau rök að samkomulagið sé gott vegna þess að það sé betra en ef við hefðum greitt 6,7% vexti og byrjað að borga strax eru undarleg. Það eru ekki rök í málinu að fullkomlega óásættanleg niðurstaða sé ásættanleg þar sem verri niðurstaða hefði verið verri.
Skuldastaða ríkissjóðs:
Það að halda því fram að Icesave-skuldbindingarnar hafi ekki áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs, lánastöðu hans og lánshæfismat er með stökustu ólíkindum. Þótt ábyrgðirnar komi ekki til greiðslu fyrr en eftir sjö ár breytir það litlu um mat á stöðu ríkissjóðs. Erlendir lánveitendur og matsfyriritæki líta ekki framhjá mörghundruðmilljarða ábyrgðum vegna þess að þær koma ekki til greiðslu fyrr en eftir 7 ár þótt ríkisstjórnin geri það. Annað hvort eru formenn stjórnarflokkana vís vitandi að blekkja fólk með því að halda fram slíkri fásinnu eða þeir vita ekki betur. Það er spurning hvor kosturinn er verri:
a) Að þegar kallað er eftir heiðarleika í stjórnmálum viðhafi stjórnin alvarlegar blekkingar um stærsta hagsmunamál þjóðarinnar.
b) Að á tímum einhverra mestu efnahagsþrenginga í sögu þjóðarinnar hafi stjórnvöld ekki skilning á grunnatriðum efnahagsmála.
Áætlað tjón:
Álíka áhyggjuefni er sú fullyrðing formannana að á bilinu 33 til 170 milljarðar króna muni lenda á ríkinu eftir því hvað innheimtist fyrir eignir Landsbankans. Það reiknuðu þau þannig að ef heildarskuldbindingin væri 660 milljarðar og 75% innheimtust þá væri sá fjórðungur sem eftir stæði u.þ.b. 170 milljarðar. Ef 95% af 660 milljörðum innheimtust væru þau 5% sem útaf stæðu 33 milljarðar (0,05 x 660 = 33). Þau gleyma semsagt vaxtagreiðslunum sem einar og sér verða komnar yfir 33 milljarða strax á fyrsta árinu!
Gengið
Forsætisráðherra nefndi að staðan mundi batna ef gengi krónunnar styrktist. Það er hins vegar veruleg hætta á að svo miklar skuldbindingar í erlendri mynt veiki krónuna og haldi henni veikri árum og jafnvel áratugum saman. Fyrst vegna þess að hinar miklu skuldbindingar hanga yfir okkur og svo í framhaldinu vegna þess að stór hluti gjaldeyristekna þjóðarinnar fer beint í vaxtagreiðslur. Það þýðir að þeim mun minni gjaldeyrir er afgangs til að nota í aðra hluti. Af því leiðir að gjaldeyrir hækkar í verði, þ.e. krónan veikist.
Skjól í 7 ár:
Þótt ríkissjóður þurfi ekki að byrja að greiða af skuldbindingunum fyrr en eftir 7 ár veitir það ekki skjól í millitíðinni. Það að hafa slíkar skuldbindingar hangandi yfir sér, til viðbótar við allt hitt, hefur veruleg áhrif á alla efnahagsþróun.
Í málflutningi formannana birtist reyndar sama hugarfar og í nálgun þeirra við aðra þætti efnahagsvandans, ekki hvað síst skuldir heimila og fyrirtækja. Þar ganga allar ,,lausnir” út á að fresta vandanum. Hugsunin er sú að með því að fresta sem mestu af vandamálunum getum við tekist á við þau síðar þegar efnahagsástandið er orðið betra.
Slíkt hefur verið reynt oft áður og afleiðingarnar eru alltaf þær sömu. Skuldaklafinn leiðir til stöðnunar. Þ.e. hagkerfið kemst ekki í gang og það kemur í veg fyrir að efnahagsástandið batni. Þegar skuldirnar falla svo á ríkið veldur það áframhaldandi hnignun, enn meiri niðurskurði, samdrætti og nýrri kreppu.
Japan er eitt þekktasta dæmið um þessi áhrif. Eins afleitt og ástand efnahagsmála er þar í landi er það þó miklu skárra en það sem við horfum fram á því að skuldirnar Japana eru að mestu leyti í jenum.
Það er því með þessu verið að festa efnahagskrísuna í sessi til framtíðar, svo lengi að hætta er á að óheyrilegt og óbætanlegt tjón verði á íslensku samfélagi.
Hættan á efnahagslegri einangrun:
Formenn stjórnarflokkana sögðu samninginn mjög mikilvægan lið í endurreisn íslenska fjármálakerfisins. Það er mikil fásinna að halda að það að taka á sig gríðarlegar skuldbindingar geti styrkt efnahagsstöðu ríkis.
Þeir sem stóðu að samningnum halda því mjög á lofti að nauðsynlegt hafi verið að semja til að vera áfram hluti af alþjóðasamfélaginu. Með því er átt við að Íslendingar þurfi að taka á sig skuldaklafa til að geta áfram verið virkur þátttakandi í milliríkjaviðskiptum. Þetta er fullkomin þversögn. Það eru einmitt þau ríki sem skuldsetja sig um of í erlendri mynt sem einangrast og fá ekki notið góðs af milliríkjaviðskiptum.
Þegar stór hluti þess gjaldeyris sem ríki tekst að skrapa saman rennur beint í afborganir og vaxtagreiðslur veldur það því að ríkið og fyrirtæki þess fá ekki aðgang að fjármagni á samkeppnishæfum forsendum. Slík ríki einangrast. Þau geta ekki flutt inn erlendar vörur og þjónustu sem þarf til að vera virkur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu. Þau eru ekki samkeppnishæf um hæfasta starfsfólkið (sem getur unnið hvar sem er í heiminum). Þau festast í gildru fátæktar og einangrunar.
Þetta er vandi þriðja heims ríkja …og Íslands ef fram heldur sem horfir.
Kaldhæðnisleg niðurstaða
Stóra kaldhæðni þessa máls er sú að með Icesave-samningnum ætlar íslenska ríkið að gera nákvæmlega það sama og Landsbankinn gerði með stofnun Icesave-reikninganna.
Reikningarnir voru stofnaðir sem viðbrögð Landsbankans við fjármögnunarvanda. Menn vildu fresta vandanum í von um að ástandið mundi lagast og bankinn geta staðið undir skuldbindingum sínum í framtíðinni, þrátt fyrir háa vexti. Bankinn tók því á sig gríðarlega miklar nýjar skuldbindingar og stofnaði þannig til óforsvaranlegrar áhættu fyrir innistæðueigendur (en þó í þeirri trú að ástandið mundi lagast og eignir bankans hækka nóg í verði til að geta staðið undir skuldbindingunni). Það gerðist ekki og vandinn varð fyrir vikið margfalt meiri heldur en hann hefði verið ef örþrifaráðið hefði ekki verið reynt. Nú ætlar íslenska ríkið að endurtaka leikinn og skuldsetja sig verulega nema hvað í stað innistæðueigenda er verið að skuldsetja alla Íslendinga og setja efnahagslega framtíð þjóðarinnar í hættu.