Fátt orðið sem minnir á merkan tíma

Viðtal í Morgunblaðinu 7. júlí 2011.

Mér finnst áhyggjuefni hve stríðsminjar á Íslandi hafa oft verið brotnar. Í raun er orðið fátt sem minnir á þennan merka tíma í sögu íslensku þjóðarinnar,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, alþingismaður og formaður Framsóknarflokksins. Á Alþingi skömmu fyrir þinglok snemmsumars svaraði menntamálaráðherra fyrirspurn þingmannsins um um hvort ástæða væri til að gera ráðstafanir til varðveislu minja um síðari heimsstyrjöldina. Í svari ráðherra segir að fornleifar 100 ára og eldri njóti verndunar. Yngri minjar séu utan verndunarákvæða þjóðminjalaga enda þótt þær megi friðlýsa ef svo ber undir.

Þó að ekki hafi verið ráðist í markvissa skráningu stríðsminja hafa verið gerðar ýmsar ráðstafanir til verndunar. Fornleifavernd ríkisins hafi friðlýst sérstaklega flugvélaflak úr seinni heimsstyrjöld af gerðinni Northorp N-3PB Torpedo bomber á botni Skerjafjarðar sem var friðlýst árið 2002. Þá hefur ráðherra samþykkt tillögu húsafriðunarnefndar um að friða gamla flugturninn á Reykjavíkurflugvelli. Á minjasöfnum landsins er nokkuð varðveitt af gripum sem tengjast síðari heimsstyrjöldinni og Íslenska stríðsminjasafnið, er á Reyðarfirði. Þá hefur Þróunarfélagi Keflavíkur verið falið að setja á stofn hersetusafn á gamla varnarsvæðinu og kynna þar sögu bandarísks herliðs á Íslandi.

„Landið er áhugaverðara þar sem sjá má minjar frá gamalli tíð, svo sem yst á Seltjarnarnesi þar sem er gamalt fallbyssuhreiður. Því finnst mér mjög miður hve víða stríðsminjar hafa þurft að víkja til dæmis í Kaldaðarnesi í Flóa þar sem gamall flugturn var rifinn og raunar flest sem minnir á að það var stór herstöð á sínum tíma. Og raunar þarf ekki að búa til söfn úr öllum minjum, heldur bara halda hlutum við og halda í sæmilegu horfi,“ segir Sigmundur Davíð sem segist hafa lagt fyrirspurnina fram fyrst og síðast sakir áhuga síns á sögu lands og þjóðar.