Endurbygging Frankfurt

Fyrir nokkrum árum, þegar ég var að fjalla um endurbyggingu hinnar gömlu Dresden í Þýskalandi og fleiri slíkar framkvæmdir, sagði ég frá því að íbúar Frankfurt vildu endurheimta meira af gamla miðbænum sínum. Það hefur dregist um nokkur ár en nú eru framkvæmdir loksins hafnar.

Miðbær Frankfurt eftir 1944 (frá dómkirkjunni að Römertorgi) Líkan: Borgarminjasafnið í Frankfurt Mynd: Katharina Surhoff http://creativecommons.org/licenses/by-sa/3.0/deed.en

Fyrir stríð var gamli bærinn í Frankfurt einn stærsti og heillegasti miðaldabær í Evrópu og ásýnd hans um margt einstæð. Miðborgin var þurrkuð út í loftárásum árið 1944 og eftir stríð var mjög lítið af hinu gamla endurbyggt. Byggt var samkvæmt tísku eftirstríðsárana og á áttunda áratugnum var farið að reisa gríðarháa skýjakljúfa í borginni.

Frankfurt am Main Mynd: Thomas Wolf http://creativecommons.org/licenses/by/3.0/deed.en

Það var ekki fyrr en 1983-1984 að endurreist voru nokkur bindingsverkshús við Römer-torg. Húsin og torgið sem þau standa við urðu nánast samstundis helsta tákn borgarinnar enda þótt Frankfurt væri þá þegar orðin þekkt sem „Manhattan Evrópu“ vegna skýjakljúfanna.

Endurbygging við Römertorg Mynd: Kurt Liese Harald-Reportagen (1983) http://creativecommons.org/licenses/by-sa/3.0/deed.en
Römertorg Mynd: Pedelecs http://creativecommons.org/licenses/by-sa/3.0/deed.en

Fyrir nokkrum árum var ákveðið að rífa stjórnsýsluhús borgarinnar frá árinu 1974 og halda samkeppni um skipulag svæðisins (á milli dómkirkjunnar og Römertorgs – sjá efstu myndina). Tillagan sem vann var stílhrein og nútímaleg en íbúar borgarinnar vildu flestir nota tækifærið til að endurheimta meira af gamla miðbænum. Meðal annars var vísað til Dresden þar sem endurbygging gengur vonum framar.

Stjórnsýsluhúsið (Technisches Rathaus) Mynd: Michael König http://creativecommons.org/licenses/by-sa/3.0/deed.en
Verðlaunatillagan Mynd: KSP Architekten / Herr Engel und Herr Zimmermann

Það varð úr að borgaryfirvöld sáu þann kostinn vænstan að kaupa aftur stjórnsýsluhúsið, sem þau höfðu selt nokkrum árum áður, svo að hægt yrði að ráðast í endurbyggingu á hluta gamla bæjarins. Einhverjir settu sig þó upp á móti áformunum þrátt fyrir hin augljósu áhrif af endurbyggingunni við Römertorg og í fjölmörgum þýskum borgum. Af þeim sökum, og öðrum, tafðist verkefnið um nokkur ár. En nú er búið að rífa stjórnsýsluhúsið og framkvæmdir eru loksins hafnar. Að vísu var gerð málamiðlun sem fól í sér að allsérstæðum húsum sem blanda saman gamla stílnum og módernisma var raðað inn á milli. Það olli mörgum vonbrigðum en eftirspurn eftir endurgerðu húsunum fór fram úr væntingum þ.a. það stefnir í að þau verði a.m.k. tvöfalt fleiri en upphaflega var ráðgert.

Frankfurt 2015 Myndir: DomRömer GmbH

Myndbandið hér að neðan sýnir hina áformuðu uppbyggingu. Allt sem sýnt er eftir myndirnar frá Römertorgi, í byrjun myndbandsins, er tölvuteiknað.

http://vimeo.com/37795144