Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem fylgist með umfjöllun um stjórnmál á hlutlægan hátt, að frá því að ég hóf þátttöku í stjórnmálum fyrir átta árum síðan hefur hópur starfsmanna og verktaka í Efstaleiti 1 haft eitt og annað við mig og Framsóknarflokkinn að athuga umfram flesta (alla) aðra stjórnmálamenn og -flokka.
Þegar ég vísa til Ríkisútvarpsins, eða RÚV hér að neðan, er það gert til einföldunar. Mikilvægt er að taka fram að með því er ég síður en svo að vísa til allra starfsmanna stofnunarinnar enda hefur RÚV á að skipa mörgu af besta fólki sem ég hef kynnst í störfum mínum, fyrst sem starfsmaður Ríkisútvarpsins og svo sem stjórnmálamaður.
Innan Ríkisútvarpsins er þó hópur sem hefur sterkar skoðanir á pólitík og samfélagsmálum almennt og er ófeiminn við að sýna það í störfum sínum. Það væri synd að segja að umræddur hópur hafi haft samúð með áherslumálum mínum í stjórnmálum, svo ekki sé meira sagt. Þennan hóp hef ég kallað SDG-RÚV-hópinn eftir áhugasviðinu en læt sem fyrr segir nægja að tala um RÚV til einföldunar.
Áður en ég kem að meginerindinu leyfi ég mér, samhengisins vegna, að rifja upp nokkur dæmi.
Fyrstu dagarnir
Eftir að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar féll í byrjun árs 2009 hófust viðræður um myndun minnihlutastjórnar Samfylkingar og Vg til bráðabirgða eða fram að kosningum þremur mánuðum seinna. Slík stjórnarmyndun var háð því skilyrði að stjórnin nýtti það einstaka tækifæri sem þá var til staðar til að lækka skuldir almennings (m.a. með því að yfirtaka kröfur bankanna á hrakvirði og færa þær niður).
Því er ekki að neita að Ríkisútvarpið hafði verið liðtækt við að fella ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en ætlaðist greinilega ekki til að Framsóknarflokkurinn eða nýr formaður hans (og fyrrverandi starfsmaður stofnunarinnar) hefðu miklu hlutverki að gegna í framhaldinu.
Það er að minnsta kosti ekki hægt að halda því fram að stofnunin hafi haft miklar áhyggjur af því hvort eða hvernig minnihlutastjórnin myndi uppfylla skilyrði um skuldaniðurfærslu. Þess í stað var lögð ofuráhersla á að þrýsta á um að stjórninni yrði komið á koppinn.
Á meðan ég var að reyna að knýja á um að forystumenn Samfylkingarinnar og Vg staðfestu með hvaða hætti þeir ætluðu að uppfylla skilyrðin var stöðugt þrýst á mig að lýsa því yfir að Framsókn myndi verja minnihlutastjórnina. Í tilfinningahitanum, sem þá ríkti, spurði grátandi fréttamaður mig hvað ég væri eiginlega að gera, hvort ég ætlaði ekki að fallast á myndun ríkisstjórnar áður en allt færi til fjandans?
Að bæta enn skuldum á almenning
Í Icesave-stríðunum bar ekki mikið á að Ríkisútvarpið sýndi samstöðu með íslenskum almenningi. Erfitt eða ómögulegt var að koma á framfæri fréttum af staðreyndum sem studdu réttarstöðu og vígstöðu Íslands. Hins vegar voru endalaust kallaðir til »fræðimenn« sem útskýrðu að Íslendingum bæri að taka kröfurnar á sig. Ýmist vegna þess að það væri lagaleg skylda, efnahagsleg nauðsyn eða jafnvel að Íslendingar hefðu bara gott af því að borga þetta. Þeir sem þar gengu harðast fram eru enn þann dag í dag fengnir til að leggja mat á mig og stöðu mína á RÚV.
Eftir að forsetinn synjaði Icesave-lögunum staðfestingar í fyrra skiptið fór ekki á milli mála að margir innan stofnunarinnar töldu ábyrgð mína mikla. Ég fékk t.d. skilaboð um að hringja í fréttamann á Útvarpinu til að svara spurningum um málið. Ég hringdi og þegar fréttamaðurinn svaraði heilsaði hann með því að segja: »Hvað segir þú skíthæll?« Svo var ég beðinn að koma í Efstaleiti í viðtal þar sem ég fékk ekki mikið betri móttökur. Æstur starfsmaður fréttastofunnar (sem greinilega trúði eigin áróðri) spurði mig: »Hvað ert þú eiginlega búinn að gera, nú hrynur allt!«
Þegar forsetinn synjaði svo í seinna skiptið var ég staddur erlendis en fékk símtal frá fréttastofu RÚV og ekki í þeim tilgangi að flytja mér hamingjuóskir. Eftir að ég hafði lýst því að þetta væri góð niðurstaða var skellt á mig.
Kosningar
Fyrir kosningar 2009 var enginn skortur á viðmælendum sem útskýrðu að skuldalækkun og forsendur hennar væru eintómur popúlismi. Það sama var upp á teningnum 2013. Þá fengu menn stöðugt að heyra að ég væri með óábyrgar og óframkvæmanlegar hugmyndir og væri að skapa óraunhæfar væntingar. Enginn skortur var á sérfræðingum til að útskýra hversu vitlaust þetta væri allt saman og reglulega var minnt á eignarrétt kröfuhafa.
Viðtekin venja
Að ofan hef ég aðeins nefnt örfá dæmi. Við þau bætast meðal annars ótal pistlar fastráðinna starfsmanna og verktaka, umfjöllun í umræðuþáttum og jafnvel barnaefni. Í viðtalsþáttum í útvarpi og sjónvarpi hef ég svo fengið sérstakar trakteringar, jafnvel frá þeim sem að öllu jöfnu gera út á að vera »laufléttir« og lausir við pólitík.
Það er svo sem ekki eins og viðhorf þessa fólks til mín og annarra stjórnmálamanna séu sérstakt leyndarmál. Um það bera vott yfirlýsingar á mannamótum og jafnvel í viðtölum. Svo ekki sé minnst á facebook, twitter og blogg þar sem sama fólk lýsir skoðunum sínum á mér og öðrum stjórnmálamönnum. Það eitt fyllir tvær þykkar möppur.
Vald án ábyrgðar
Ríkisútvarpinu er falið mikið vald í lögum en því valdi eiga líka að fylgja ábyrgð og skyldur. Það var göfug hugmynd að stofna ríkisútvarp til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að fróðleik, afþreyingu og hlutlægum fréttum. Þegar lögð er sú kvöð á almenning að hann greiði fyrir slíka þjónustu hvort sem mönnum líkar betur eða verr er sjálfsögð krafa að stofnunin fari að lögum. Það getur varla talist ásættanlegt að pólitískir aktívistar fái gagnrýnilaust að nota slíka ríkisstofnun til að reka eigin áróður.
Þrátt fyrir að vald lýðræðislega kjörinna fulltrúa fari stöðugt minnkandi er ætlast til að þeir taki allri gagnrýni, helst án þess að svara fyrir sig. Meðferð Ríkisútvarpsins á valdi virðist hins vegar hafin yfir gagnrýni, og ekki bara það, það er beinlínis talið óviðeigandi að gagnrýna stofnunina.
Það er reyndar nokkuð almenn regla á fjölmiðlum, og hefur lengi verið, að játa aldrei mistök og biðjast aldrei afsökunar (nema það snúi að einhverjum sem tilheyrir þóknanlegum og ógagnrýniverðum hópi fólks). Þetta var löngu orðið ríkjandi viðhorf á RÚV þegar ég starfaði þar. Nú er hins vegar svo komið að gagnrýni flokkast nánast sem afbrot.
Refsing við afbrotum
Þeir sem fremja slíkt brot eru gjarnan sagðir hafa vegið að starfsheiðri RÚV-arans. Það virðist hins vegar ekki vera til neitt sem kallast að vega að starfsheiðri stjórnmálamanna. Þó eiga þeir vinnu sína undir starfsheiðri sínum á fjögurra ára fresti, í mesta lagi.
Svo er það sem ætti að valda enn meiri áhyggjum: Í seinni tíð hefur stofnunin talið sér sæmandi að gerast allt í senn, ákærandi, rannsakandi, saksóknari, dómari og böðull í tilteknum málum. Í stað þess að segja fréttir og lýsa atburðarás eru fréttir búnar til og atburðarás hönnuð.
Fólk sem lendir í því að stofnunin taki afstöðu gegn því má sín yfirleitt ekki mikils. Það er ekki aðeins vegna þess að RÚV getur stýrt túlkuninni og mótað afstöðu með því að beita öllu frá fréttum að skemmtiefni. Þeir sem voga sér að gera athugasemd eiga líka á hættu að kalla yfir sig enn meiri neikvæða umfjöllun því viðbrögðin eru oft þau að bæta í til að reyna að réttlæta fyrri ásakanir og sýna að meðferðin á viðkomandi hafi ekki verið tilhæfulaus. Við þessar aðstæður er ekki að undra að margir veigri sér við því að standa á rétti sínum.
Erindið
Þrátt fyrir ofangreinda hættu á refsingum get ég ekki annað en gert athugasemdir við að Ríkisútvarpið skuli á árinu 2016 hafa stigið það skref að leita samráðs við utanaðkomandi og erlenda aðila um að steypa ríkisstjórn Íslands af stóli. Þar notast ég við skilgreiningu sænsks samstarfsmanns RÚV sem sagðist síðastliðið vor vera á leið til Íslands til að framkvæma „coup“.
Þátttaka RÚV í verkefninu tók á sig ýmsar myndir. Áður en dæmalaus Kastljóssþáttur var sýndur var til að mynda hringt í tvígang í þingmenn stjórnarflokkanna til að fá álit þeirra á stöðu minni og ríkisstjórnarinnar. Mér vitanlega var ekki birt ein frétt, ekki einn viðtalsbútur við þá sem vörðu forsætisráðherrann og ríkisstjórnina. Aðeins ef tókst að ná í setningar sem hægt var að túlka sem gagnrýni voru svörin birt. Einn þingmanna stjórnarliðsins sem lenti í slíku sá þann kostinn vænstan að senda frá sér tilkynningu til að reyna að leiðrétta túlkun RÚV.
Svo var það hinn ótrúlegi Kastljóssþáttur. Þáttur sem var auglýstur dagana á undan eins og glæpamynd. Eins og komið hefur fram voru væntingarnar það miklar eða samstarfið það gott að mótmæli voru undirbúin og skipulögð dagana áður en þátturinn var sýndur.
Ég mun síðar fjalla betur um þá atburðarás alla en helstu staðreyndir ættu að vera flestum kunnar, þ.m.t. útvarpsstjóra. Þátturinn byggðist að sögn þeirra sem að honum komu á margra mánaða undirbúningsvinnu og gögnum sem sjónvarpsmönnum var skammtað af einhverjum dularfullum mönnum í útlöndum. Með fylgdu spurningar sem átti að spyrja. Úr þessu var búin til óskiljanleg moðsuða sem gekk út á að gefa til kynna að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hefðu framið afbrot með því að fela eignir í skattaskjólum.
Ýmiss konar þvættingi öðrum var blandað inn í frásögnina og loks stuðst við falsað viðtal við mig. Viðtal sem menn höfðu beinlínis æft hvernig mætti láta koma sem verst út fyrir viðmælandann og rugla hann sem mest í ríminu um hvað verið væri að ræða. Viðtal sem var tekið á fölskum forsendum og í framhaldi af samskiptum sem að öllu leyti byggðust á hreinni lygi af hálfu starfsmanna og samstarfsmanna RÚV. Viðtal sem svo var klippt sundur og úr samhengi og svörtum fílter og öðrum tæknibrellum beitt í ofanálag. Á allan hátt óheiðarlega að verki staðið af hálfu samstarfsmanna Ríkisútvarpsins.
Á þessu byggði RÚV umfjöllun sína og eftirfylgni næstu daga og mánuði.
Skýringar og staðreyndir skiptu engu
Ekkert tillit var tekið til þeirra skýringa sem veittar höfðu verið. Vikum saman höfðum við hjón þó leitast við að svara öllu sem hægt var að svara og það blindandi því að sjónvarpsmennirnir vildu ekki sýna um hvaða gögn þeir voru að spyrja. Þess var reyndar getið í fréttum RÚV að ég og kona mín hefðum sent frá okkur greinargerð um málið en það sem þótti helst fréttnæmt var hversu löng greinargerðin var.
Allt sem ekki studdi við hina fyrir fram skrifuðu sögu var virt að vettugi. Þannig hringdu sjónvarpsmennirnir t.d. í bankamenn erlendis og fengu þar þau svör að skýringar okkar hjóna á tilurð fyrirtækisins væru líklega réttar. Bankamennirnir fengu að heyra að þetta væru ekki þau svör sem leitað væri eftir og að sjálfsögðu var ekkert með þau gert frekar en annað sem ekki studdi við handritið.
Ef tekið hefði verið tillit til skýringanna hefði líka fallið um sjálfa sig undarleg samsæriskenning um að ég hefði selt eiginkonu minni hundraða milljóna eignir til að komast hjá einhvers konar skráningu. Tilgáta sem sjónvarpsmennirnir höfðu bitið í sig vegna þess að þeir skildu ekki gögnin sem þeim voru send og gátu svo ekki hugsað sér að draga í land.
Framganga Ríkisútvarpsins var öll með mestu ólíkindum og á engan hátt skyld því sem mér var á sínum tímum kennt að væru grundvallarreglur fréttamennsku.
Eins og erlendis?
Nokkuð hefur borið á því að RÚV hafi reynt að afsaka framgöngu sína í málinu með því að vísa til þess að hún hafi verið í samræmi við umfjöllun erlendra fjölmiðla. Það er fjarri lagi.
Í fyrsta lagi byggðist umfjöllun erlendra miðla, að því leyti sem hún var á skjön við raunveruleikann, einkum á upplýsingum frá RÚV og samverkamönnum þess. Þannig bárust undarlegar fullyrðingar og fyrirspurnir frá allmörgum erlendum miðlum og þegar sýnt var fram á að fullyrðingarnar væru alrangar viðurkenndu sumir hinna erlendu fréttamanna að þeir hefðu fengið efnið sent frá Íslandi. Með öðrum orðum; RÚV og samverkamenn þess voru ekki að fylgja fordæmi erlendra miðla heldur að mata þá til að reyna að beita þeim fyrir sig í íslenskri pólitík.
Enda er ólíku saman að jafna þegar framganga RÚV er borin saman við erlenda miðla. Ég bendi útvarpsstjóra t.d. á að bera saman umfjöllun breskra miðla um forsætisráðherra Breta vegna Panama-skjalanna við það hvernig stofnunin sem hann stýrir vann úr því að finna nafn mitt í sömu skjölum.
Breska pressan er ekki rómuð fyrir miskunnsemi og sanngirni en umfjöllun um mál Camerons var þó á allan hátt yfirvegaðri en framganga RÚV hér heima. Breski forsætisráðherrann hafði þó ólíkt þeim íslenska hagnast á að hafa fjölskyldueignir í skattaskjóli. En auðvitað er það aukaatriði þegar markmiðið er að fella ríkisstjórn.
Breska dagblaðið Guardian, sem fylgir sömu pólitísku stefnu og RÚV og var hluti af þeim hópi fjölmiðla sem létu skammta sér Panama-upplýsingarnar, tók þó sérstaklega fram að blaðið hefði ekki séð neinar upplýsingar sem bentu til lögbrota eða óheiðarlegs ávinnings íslenska forsætisráðherrans eða konu hans.
Meira að segja sænska útgáfa Kastljóssþáttarins, sem stýrt var af samverkamanni RÚV, sem mér var síðar gert ljóst að þætti alræmdur “fauti” í sinni stétt, komst ekki í hálfkvisti við útgáfu RÚV. Fautinn hafði auk þess á orði að hann hefði haft efasemdir um hvort forsvaranlegt væri að ganga eins langt og gert var.
Eftirmálin
Eftir því sem frá leið þurfti enginn að efast um hvert væri megin skotmarkið. Þegar ég hafði stigið til hliðar hvarf skyndilega allur áhugi á Panama-skjölum og því hvaða nöfn hefðu birst þar og hvers vegna. Við tóku áhyggjur nokkurra RÚV-aktívista af því að ég kynni að halda áfram í stjórnmálum. Þær áhyggjur leyndu sér ekki á mannamótum og samfélagsmiðlum. Eftir fylgdu afar sérstæð afskipti af málefnum Framsóknarflokksins, köllum það einlægan áhuga. Sá áhugi birtist m.a. í beinum útsendingum frá hverjum Framsóknarfundinum á eftir öðrum auk reglubundinna viðtala við fólk sem menn vissu hvar þeir hefðu.
Meira að segja í kosningasjónvarpi RÚV sáu þáttastjórnendur ástæðu til að hefja þáttinn á geðvonskuathugasemdum um mig og spurningu um hvort ég ætlaði ekki að biðjast afsökunar. Það var svo sem ágætt að fá tækifæri til að svara hinum undarlegu athugasemdum en þó hefur ekki verið venjan á Íslandi að menn séu krafðir um afsökunarbeiðni fyrir að á þá hafi verið ráðist. Slíkt þekkist vissulega sums staðar í heiminum þar sem fólk er látið biðjast afsökunar, jafnvel refsað fyrir að á það hafi verið ráðist ef það tilheyrir ekki réttum þjóðfélagshópi. Í menningarbyltingunni í Kína var þetta t.d. viðtekin venja. En þetta hefur ekki verið siður á Íslandi.
Varla þarf að taka fram að áhugi Kosninga-RÚV á öðrum Panama-málum var svo gott sem enginn.
Staðreyndirnar
Víkur þá sögunni að nokkrum staðreyndum um málið sem RÚV nýtti á þann hátt sem ég lýsti hér að ofan.
1. Skattar greiddir eins fyrir íslenskt félag
Hvorki ég né eiginkona mín áttum eignir í skattaskjóli. Eignir eiginkonu minnar hafa verið í fjárstýringu hjá erlendum banka, frá því við vorum búsett erlendis. Erlent félag, sem þáverandi viðskiptabanki skráði og gaf nafnið Wintris, hélt utan um eignirnar. Því fyrirkomulagi var ekki á nokkurn hátt komið á til að draga úr skattgreiðslum á Íslandi. Enda hafa eignirnar í skattframtölum verið taldar fram sem eignir eiginkonu minnar og tekjur af þeim sem tekjur hennar. Kona mín sýndi þannig einbeittan vilja til að greiða til samfélagsins og enga tilburði til að nýta tækifæri til annars.
2. Aldrei reynt að fela það
Enda sá hún aldrei ástæðu til að fela tilvist félagsins eða skráningarlands þess. Það hefur birst á skattframtölum frá upphafi, nafn, skráningarland og eignir. Auk þess hafði ég löngu ákveðið með ríkisstjórninni að kaupa gögn um félög erlendis (sömu gögn og Ríkisútvarpið byggði umfjöllun sína á) og afhenda skattrannsóknarstjóra. Það skipti mig engu hvaða upplýsingar væri að finna í þeim “Panama-skjölum” enda aldrei reynt að fela tilvist félagsins.
3. Ekki bara samviskusöm heldur fórnfús
Ekki aðeins sýndi kona mín einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu og afþakkaði auk þess alla möguleika á að fresta eða draga úr skattlagningu á Íslandi. Hún sýndi líka að hún var reiðubúin til að fórna eins miklu og þurfa þætti svo að samfélagið gæti komist á réttan kjöl. Hún hafði átt eignir í hinum föllnu bönkunum í formi skuldabréfa sem lagalega voru eins og hverjar aðrar innistæður. Flestar af þessum eignum töpuðust eða voru teknar til að gera að fullu upp við þá sem áttu sams konar eignir skráðar sem innistæður eða í peningamarkaðssjóðum (sem eru skuldabréf). Samt studdi hún mig í þeirri baráttu að ganga enn á það sem eftir var af eignunum hennar svo hægt væri að koma til móts við skuldsett heimili og rétta af efnahagslíf landsins.
Ég hafði ekki kunnað við að stæra mig af þessu en Kastljós sneri því á hvolf og gaf í skyn að það væri stórkostlega grunsamlegt að vera reiðubúinn til að fórna eigin hagsmunum. Ekkert hefur farið fyrir umræðu um hagsmunatengsl þeirra sem tóku ákvörðun um að verja innistæður og eignir einstaklinga í peningamarkaðssjóðum upp á hundruð milljóna eða milljarða (og það á kostnað konu minnar og annarra).
Réttlæti RÚV felst í að níða þá í svaðið sem eru tilbúnir að fórna eigin hagsmunum en líta fram hjá því þegar menn verja eigin hagsmuni. Það er sitt hvað réttlæti og RÚV-læti
4. Nýtti ekki tækifæri til að hagnast á íslenskum aðstæðum
Efnaðasta fólk á Íslandi eru þeir sem áttu peninga erlendis eftir hrun og nýttu þá til að kaupa á brunaútsölunni á Íslandi. Þeim sem áttu fjármagn í útlöndum bauðst að kaupa íslenskar krónur af Seðlabankanum á afslætti. Vextir voru settir í hæstu hæðir, jafnvel þótt um verðtryggðar eignir væri að ræða. Eiginkona mín ákvað hins vegar að á meðan ég væri í stjórnmálum kæmi ekki til greina að nýta slík tækifæri til að hagnast á aðstæðum á Íslandi enda hætt við að það hefði þótt orka tvímælis.
Hvað ætli Kastljós hefði sagt ef eiginkona mín hefði keypt krónur á afslætti og ávaxtað þær á háum verðtryggðum vöxtum á Íslandi eða notað þær til að kaupa t.d. hlutabréf í Icelandair?
Niðurstaða
Þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á einbeittan vilja til að standa skil á öllu sínu gagnvart samfélaginu, þrátt fyrir að engu hafi verið haldið leyndu um hið erlenda félag og þrátt fyrir óþrjótandi vilja konu minnar til að fórna meiru fyrir samfélagið í stað þess að nýta sér neyð þess, hefur hún mátt þola að verða skotmark Ríkisútvarpsins og samverkamanna þess í þeim tilgangi að ná á mig höggi.
Við það var beitt aðferðum sem standast hvorki siðferðilegt, faglegt né lagalegt mat.
Því spyr ég útvarpsstjóra:
Eru þessi vinnubrögð samboðin þeirri stofnun sem þú stýrir og í samræmi við hlutverk hennar?
En ég spyr líka spurningarinnar sem við vitum líklega flest svarið við:
Ert þú reiðubúinn til að biðja mig afsökunar fyrir hönd Ríkisútvarpsins og ef ekki mig þá eiginkonu mína, konu sem átti svo sannarlega ekki skilið að fá þá meðferð sem hún hlaut af hálfu Ríkisútvarpsins á árinu 2016?
Textinn birtist fyrst í Morgunblaðinu 29.12.2016