Almannahagsmunir

Það er furðulegt hvað þeir sem síst skyldu atast mikið og lengi í bændum.

Afstaða heildsala sem vilja fá að flytja meira inn á kostnað innlendrar framleiðslu og leggja meira á vörurnar kemur ekki á óvart. En hvernig stendur á því að þeir sem tala mest um sérhagsmuni líta á það sem sérhagsmunagæslu að samið sé um kjör við stóra stétt fólks sem leikur gríðarlega mikilvægt hlutverk í samfélaginu á meðan þeir sem reka beinlínis samtök um fákeppnisrekstur og berjast fyrir auknum innflutningi og hærri álagningu til sín eru ekki taldir vera í sérhagsmunagæslu? Nei, þeir eru kallaðir til sem álitlegir álitsgjafar um sérhagsmunagæsluna sem felst í því að samið sé við stóra stétt fólks um starfsaðstæður og kjör. Kjör sem eru sannarlega ekki betri en það sem samið er um við margar aðrar stéttir.

Svo birtist forseti ASÍ og skammast yfir því að hafa ekki fengið að skipta sér nógu mikið af samningum við bændur. Á þá formaður Bændasamtakanna að troða sér að samningaborðinu hjá öðrum stéttarfélögum og mæla fyrir um hversu mikið megi greiða hinum og þessum stéttum og með hvaða hætti?  Ætti formaður Bændasamtakanna að bölsótast yfir því að það sé ómögulegt að menn séu bundnir af þessum íslensku kjarasamningum þegar erlent vinnuafl sé til í að vinna sömu vinnu á lægra verði?

Væri svo talið eðlilegt að kalla hagfræðing Bændasamtakanna í sjónvarpsviðtöl til að útskýra, sem fulltrúi almannahagsmuna, að það eigi ekki að semja á þennan hátt? Launahækkanir iðnaðarmanna séu of miklar og alveg ómögulegt að enn sé verið að verja hindranir gegn innflutningi á ódýru vinnuafli. Svo væri útskýrt að þetta snerist um að verja hagsmuni almennings gegn sérhagsmunum ákveðinna stétta.

Hagfræðingurinn gæti farið yfir hversu gamaldags þetta væri og óhagkvæmt fyrir neytendur. Ef menn fengju bara að senda peninga úr landi til erlendra starfsmannaleiga væri hægt að fá góða iðnaðarmenn, t.d. frá Indónesíu á spottprís. Nútíminn væri þannig að menn gætu bara sent ákveðna greiðslu úr landi og þá kæmi hópur fólks og kláraði verkið á nótæm. Á endanum yrði þetta bara gott fyrir íslenska iðnaðarmenn því það myndi halda þeim á tánum og þeir myndu aðlaga sig að samkeppninni. Í raun væri það bara synd fyrir þá að þeir fengju ekki að njóta samkeppninnar. Það héldi aftur af greininni. Svona aðgangshindranir væru því slæmar fyrir neytendur og fyrir iðnaðarmenn.

Auðvitað myndu formaður og hagfræðingur Bændasamtakanna aldrei tala svona og mér þætti fráleitt að heimilað yrði að vega að kjörum og starfsöryggi íslenskra iðnaðarmanna á þennan hátt.  En hvers vegna má tala svona um bændur og aðra sem starfa í íslenskum matvælaiðnaði?

Hvernig ætli vinnuaðstæður og kjör séu í mörgum þeirra verksmiðjubúa sem ráða verðlagningunni á matvælamarkaði erlendis og okkur er sagt að það sé gamaldags og óhagkvæmt að setja hindranir á?

Hver telur forseti ASÍ að séu kjör þeirra sem starfa við framleiðsluna sem hann vill að fái betri tækifæri til að keppa við framleiðslu þeirra sem starfa í greininni á Íslandi? Telur hann að þeir sem starfa þar á lægstu töxtum búi við betri, jafngóðar eða verri aðstæður og kjör en fólk sem við myndum á Íslandi kalla fórnarlömb mansals? Það væri auðvitað hægt að ná sama markmiði með því að hafa bara nokkur risabú á Íslandi með vinnuafli sem fengi greitt samkvæmt kjarasamningum í Bangladesh.

Þetta snýst ekki bara um að verja bændur. Þetta snýst um að verja samvinnu ólíkra stétta. Hvar endar það ef við sættum okkur við að vegið sé að einni stétt í einu til að bæta kjör hinna? Reyndar er það ekki einu sinni svo að það að hætta stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu bæti kjör annarra hópa. Á endanum myndi það þýða aukið gjaldeyristap og hærri álagningu á hinum innfluttu matvælum eins og menn hafa kynnst í löndum sem gert hafa tilraunir í þessa veru.

Þegar öllu eru á botninn hvolft er samvinna og samstaða ólíkra stétta best fyrir alla. Það eru almannahagsmunir.