Undanfarna mánuði hef ég lagt áherslu á það í ræðum og greinum að álag á opinbera starfsmenn hafi aukist mjög síðustu ár. Þar hef ég stundum sérstaklega bent á heilbrigðisstarfsmenn og starfsfólk í skólakerfinu. Að sjálfsögðu gildir það hins vegar jafnt um alla starfsmenn í slíkum opinberum þjónustustörfum að á tímum svo mikils niðurskurðar á ríkisútgjöldum eins og þeim sem íslenskt samfélag hefur þurft að þola undanfarin ár verður álagið á köflum ómannlegt.
Skiptir þar engu hvort litið er til lögreglumanna, kennara, slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, hjúkrunarfræðinga, þroskaþjálfa, sjúkraliða eða annarra stétta sem vinna óeigingjarnt starf (við oft á tíðum ómögulegar aðstæður og slakan aðbúnað) við að veita okkur hinum ómissandi þjónustu. Allar þessar stéttir hafa þurft að taka á sig kjaraskerðingar í ýmsu formi frá hruni, eins og aðrir í samfélaginu. Stökkbreytt húsnæðislán, stórminnkaðir möguleikar á yfirvinnu, fækkun starfsfólks og þar með mun meira álag á þá sem eftir eru og svo mætti lengi telja.
Alls kyns dæmi má telja til í þessu samhengi. Lögreglumenn eru í þeirri stöðu að geta ekki sinnt lögbundnum grunnverkefnum löggæslunnar ef þróuninni verður ekki snúið við strax. Það er grafalvarleg staða fyrir samfélagið allt. Fækkun lögreglumanna á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni hefur í senn sett gífurlegt álag á þá sem eftir eru og stofnað öryggi borgaranna í hættu. Það er algerlega ótækt að á mesta ferðamannatímanum yfir sumartímann hafi lögreglan aðeins ráð á að hafa handfylli lögreglumana á vakt til að sinna löggæslu um stóran hluta landsins.
Hjúkrunarfræðingar og fleiri stéttir innan Landsspítalans standa frammi fyrir því að ekki er til fjármagn til að endurnýja stofnanasamninga þrátt fyrir að mælt sé fyrir um það í kjarasamningum. Við þingmenn höfum tekið vel eftir ákalli hjúkrunarfræðinga þar, sem undanfarinn mánuð hafa sent okkur ótal bréf um aðstæður sínar. Í þeim fer ekki á milli mála að starfsfólk LSH er margt komið að þolmörkum. Framsóknarmenn vöktu athygli á þessu máli á Alþingi síðastliðinn miðvikudag í kjölfar fundar með forystumönnum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem voru ómyrkir í máli varðandi yfirvofandi uppsagnir hjúkrunarfræðinga sem nú horfa til Noregs í von um betri kjör og aðstæður. Margir þeirra eru raunar nú þegar í hlutastörfum í Noregi, eins og ég benti á í pistli um þetta mál fyrir skömmu.
Kennarar á öllum skólastigum hafa einnig þurft að aðlagast stórauknu álagi. Skólakerfið er búið að skera inn að beini í sparnaðaraðgerðum undanfarinna ára. Á krepputímum, þar sem viðurkennt er að uppbygging menntakerfisins er eitt mikilvægasta verkefni samfélagsins, hefur frekar verið rifið niður með allt of miklum niðurskurði. Því miður er það svo að það sem fyrst lendir undir hnífnum eru þær greinar sem stjórnmálamenn tala mest um að þurfi að styrkja, verk- og listgreinar, sérkennsla, tæknigreinar o.fl. Hér er sama staðan uppi hjá þeim sem ekki hafa fengið uppsagnarbréf, álagið í starfinu hefur stóraukist en kjörin ekki batnað. Í raun þvert á móti.
Hér ber að athuga sérstaklega að þær stéttir sem hér hafa verið nefndar, og fleiri, starfa fyrst og fremst við að þjónusta fólk í samfélaginu. Frá hruni hafa aðstæður fjölmargra íslenskra fjölskyldna breyst mjög til hins verra. Atvinnuleysi og fjárhagsvandamál hafa sett ótal fjölskyldur úr skorðum á margvíslegan hátt. Heilbrigðisstarfsfólk, kennarar, lögreglan og fleiri stéttir eru í því hlutverki að vinna með fólki og létta á vandanum eins og hægt er. Hér er um gríðarlega mikilvægt samfélagslegt hlutverk að ræða.
Fólk í opinberri þjónustu hefur frá hruni tekið faglega á auknu álagi og í raun sýnt ótrúlega þolinmæði gagnvart sífellt erfiðari starfsaðstæðum. En allir hafa sín þolmörk. Það verður að vera eitt af forgangsverkefnum næstu ríkisstjórnar að snúa þessari þróun við. Annars er stórhætta á því að fólk hrökklist úr þessum mikilvægu störfum og leiti betri lífskjara annarsstaðar. Og í raun er ekki hægt að bíða kosninga og nýrrar ríkisstjórnar. Það er nauðsynlegt að grípa til aðgerða strax. Því að þessi þróun er því miður þegar hafin.