Það verður að stöðva fjármálaráðherra

Undanfarin tvö ár hefur flausturslega hefur verið staðið að breytingum á skattkerfinu. Sumar þessara breytinga eru beinlínis þjóðhagslega óhagkvæmar.

Á árinu 2009 var gerð sú breyting að áfallinn gengismunur á innlánsreikningum sem bundnir eru í erlendum gjaldmiðlum skyldu skattleggjast í staðgreiðslu. Við meðferð málsins bentu fjármálafyrirtæki á að þessi háttur á skattheimtu sé óframkvæmanlegur en á það var ekki hlustað. Að því kom þó að fjármálaráðherra varð að viðurkenna mistökin og í árslok  2010 var lögum breytt þannig  að nú skal innleystur gengishagnaður skattlagður í stað áfallins áður. Ekki tókst betur til en svo að það gleymdist að taka til baka eldri reglu sem gilti á árinu 2010 og því er enn óljóst hvort gengishagnaður á árinu 2010 verði skattlagður tvisvar.

Í lok árs 2010 var samþykkt ákvæði um meðferð á skattlagningu á eftirgjöf skulda hjá fyrirtækjum fram til ársins 2014. Um leið og rýmkað var fyrir fyrirtækjum í vanda sem fá eftirgjöf skulda voru settar inn reglur um að sömu fyrirtækjum er gert að nýta að fullu allar frádráttarheimildir í skattalögum til að lækka skattstofn sem frestað er til ársloka 2014. Í þessu felst m.a. að fastafjármunir sem fyrirtæki kaupa á umræddu tímabili skulu afskrifaðir niður í 10% þ.e. 90% á kaupári.

Afleiðingin er óvissa og stöðnun.

Framangreindar reglur leiða til þess að í samfélagi þar sem mikil þörf er fyrir aukna fjárfestingu svo umsvif aukist í hagkerfinu er ekki nokkurt vit í því fyrir fyrirtæki sem eru í þeirri stöðu sem lýst er hér að framan að fjárfesta í fastafjármunum til ársins 2014.  Þessi fyrirtæki munu því flest bíða með fjárfestingar ef mögulegt er og þannig vinnur skattkerfið beint gegn fjárfestingu. En þar er fleira sem hamlar.

Á árinu 2009 var að frumkvæði fjármálaráðherra lögfest að vaxtagreiðslur til erlendra aðila skuli sæta afdráttarskatti án tillits til kostnaðar hjá lánveitanda. Í greinargerð með frumvarpi um þessa skattlagningu er áréttað að ekki sé verið að leggja skatt á þá sem greiða vextina heldur þá sem móttaka vaxtagreiðslur.

En hverjir munu svo bera skattgreiðslu vaxtatekna þegar upp er staðið? Ef fjármálaráðuneytið hefði kynnt sér gerð og efni erlendra lánasamninga mátti  ljóst vera að yfirleitt eru svonefnd „gross-up“ ákvæði í lánasamningum þess efnis að lántakandi skuli greiða allan kostnað lánveitanda vegna lánveitingarinnar. Það er því nokkuð ljóst að þegar upp er staðið munu það því verða sömu íslensku fyrirtækin sem greiða vextina og skattinn á hinn erlenda lánveitanda.

Dreift eignarhald fyrirtækja hefur mörgum þótt eftirsóknarvert og hafa ýmsir stuðningsmenn VG haft hátt um þá kröfu á undanförnum árum. En vinstri höndin hjá ríkisstjórninni veit ekki hvað sú hægri gerir. Sett hefur verið í lög að frá og með árinu 2011 ( álagningu 2012 ) er frádráttur fyrirtækja vegna móttekins arðs og hagnaður af sölu hlutafjár bundinn við a.m.k. 10% eignarhald í viðkomandi fyrirtæki.

Þetta ákvæði hefur tvo stóra ágalla. Í fyrsta lagi verður móttekinn arður og söluhagnaður að fullu skattlagður eins og rekstrartekjur ef hlutabréfaeign er undir 10% og arður kann því að verða margskattaður. Í öðru lagi hefur ákvæðið þau áhrif að þjappa mjög saman eignarhaldi fyrirtækja þar sem mjög óhagkvæmt verður fyrir fyrirtæki að eiga minna en 10% hlut í öðru fyrirtæki.

Afleiðingin er sú að erfitt verður fyrir fyrirtæki að auka hlutafé sitt með því að selja hluti til nýrra hluthafa. Fjármálaráðherra hefur með þessu ákvæði lagt sitt að mörkum til þess að auka á samþjöppun í eignarhaldi fyrirtækja og að uppbygging þeirra og vöxtur byggist fremur á lánsfé en eigin fé. Þetta er gert á sama tíma og rætt er um að koma stórum fyrirtækjum sem nú eru á forræði banka yfir í dreift eignarhald.

Ríkisstjórnin er stærsta vandamálið.

Undanfarna viku hef ég í nokkrum blaðagreinum rakið fáein dæmi um það fúsk sem viðgengist hefur í skattabreytingum í fjármálaráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar. Skattkerfið hefur verið flækt að óþörfu, ekki er hlustað á álit sérfræðinga, óframkvæmanlegar og óútreiknanlegar skattareglur hafa verið lögfestar og fúsk og flýtir einkennir setningu skattalaga. Frekar er jafnað niður á við svo fólkið í landinu hefur úr minna að spila og komið er aftan að fólki með álagningu umfram staðgreiðslu.

Glórulausar hækkanir á skatta á fyrirtæki hefta nýsköpun, hrekja frumkvöðlafyrirtæki úr landi og letja innlenda og erlenda fjárfestingu. Hækkun tryggingagjalds og tekjuskatts á fyrirtæki viðheldur atvinnuleysi og hvetur til svartrar atvinnustarfsemi. Í kjölfar tekjuskattshækkana hafa erlend fyrirtæki hafa verið leyst upp, með um 3 milljarða beinu tekjutapi ríkissjóðs.

Listinn er langur og ljótur. Skattstefna ríkisstjórnarinnar vinnur gegn hagsmunum þjóðarinnar með beinum og augljósum hætti. Fjármálaráðherra má ekki fá að halda áfram á þessari braut óáreittur. Hann hefur þegar valdið nógu miklum skaða.

One comment

  1. No wonder why Christian Dillstrom briefed me with a link to this web page – so you must be doing an awesome job as mobile & social media marketing guru provides a link to you!

Comments are closed.