Fjárhagsleg áhætta af dómsmáli nú er minni en samningarnir sem þau samþykktu síðast

Málflutningur stjórnarliða á þingi í Icesave málinu hefur alla tíð einkennst af ýmiss konar órökstuddum hræðsluáróðri. Í hvert skipti sem átt hefur að troða nýjum Icesave samningi upp á þjóðina hafa verið dregnar fram ýmsar vafasamar yfirlýsingar til að hræða almenning og þingmenn til hlýðni. Og aldrei hefur neitt af því staðist.

Í dag samþykktu stjórnarþingmenn og félagar þriðja Icesave samninginn. Og ekki stóð á því, þar var enn og aftur hnykkt á nýjustu útgáfu hræðsluáróðursins: Ef Íslendingar samþykki ekki þennan samning þá geti það haft skelfilegar fjárhagslegar afleiðingar. Fari svo að dómsmál tapist fyrir EFTA-dómstólnum og íslenskum dómstólum, með þeim hætti að íslenska ríkið verði dæmt til að ábyrgjast heilmiklar kröfur til viðbótar við þær kröfur sem ekki hefur fundist lagastoð fyrir, muni það hafa miklu meiri fjárútlát í för með sér fyrir skattgreiðendur en Icesave III.

Nú er það hins vegar þannig að sérfræðingar hafa reiknað út að bæði Icesave I, sem stjórnarliðar samþykktu í ágúst 2009, og Icesve II sem stjórnarliðar samþykktu í desember 2010 hefðu hvor um sig haft í för með sér miklu hærri fjárútlát fyrir íslenska ríkið heldur en hin fjarstæðukennda „skelfilega“ niðurstaða sem stjórnarliðar og félagar segjast nú óttast.

Semsagt: Fyrri Icesave samningar, sem stjórnarliðar samþykktu yfir þjóðina í tvígang, voru fjárhagslega mun verri fyrir Ísland en lang-versta niðurstaða úr mögulegum dómsmálum nú.

Ef það er rétt hjá stjórnarþingmönnum að dómstólar séu okkur mjög hættulegir, því þeir geti leitt af sér svo skelfilega fjárhagslega niðurstöðu, þá er einsýnt að það eina sem hefur verið okkur enn hættulegra í þessu máli eru stjórnarliðar sjálfir.