Plan B – tillögur Framsóknar í atvinnu- og efnahagsmálum

Vikan er búin að vera hlaðin skemmtilegum verkefnum. Eftir heimsóknir á góð kjördæmaþing Framsóknarfólks í Norð-Austur og Norð-Vestur kjördæmum um helgina byrjaði mánudagurinn á því að vefurinn www.planb.is var formlega opnaður á blaðamannafundi þingflokksins í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar.

Á þessum nýja vef getur fólk kynnt sér Plan B – tillögur okkar Framsóknarmanna í atvinnumálum, efnahagsmálum og sjávarútvegsmálum. Vefurinn er settur upp til að auðvelt sé að finna það sem fólk leitar að. Einnig eru þar stutt myndbönd, þar sem þingmennirnir segja stuttlega frá tillögunum, t.d. þetta hér:

Segja má að opnun www.planb.is sé næsta skref í þeirri viðleitni okkar að auka bein samskipti þingflokksins og almennings, sem hófst fyrir alvöru með opnun “Græna símans” í vor. Græni síminn (563-0755) er opinn öllum og geta landsmenn því hringt inn og fengið beint samband við þingflokkinn, lagt inn tillögur og ábendingar um það sem vel er gert eða betur má fara og jafnvel fengið mál tekin fyrir á þingflokksfundum.

Fréttir og viðtöl hafa svo fylgt í kjölfarið eins og við er að búast. Á mánudag ræddi ég um Plan B við Heimi og Kollu í Bítið á Bylgjunni sem hlusta má á hér.

Í morgun spjallaði ég við þá Markús og Erling í morgunútvarpi Sögu sem nálgast má hér.

Í gær var rætt við mig Bjarna Benediktsson saman í síðdegisútvarpi Rásar 2, sem gjarnan hefði mátt vera lengra svo betur hefði mátt bera saman Plani B og tillögur sjálfstæðismanna. Það er annars ánægjulegt að sjá hversu mikið af tillögum þeirra er líkt því sem Framsókn hefur lagt fram og stutt undanfarin þrjú ár. Margar tillagna þeirra nú var að finna í efnahagstillögum Framsóknar frá árinu 2009, t.d. um afnám stimpilgjalda og uppboðsmarkað með krónur. Tillögurnar voru enda byggðar á traustum grunni og því eðlilegt að þær sanni gildi sitt með tíð og tíma þótt helst vildi maður að það gerðist hraðar, ekki hvað síst hjá stjórnarflokkunum sem enn fylgja allt annarri stefnu.

Deginum lauk svo með skemmtilegri heimsókn til Kristófers og Þorgeirs í Reykjavík síðdegis þar sem ég fékk, auk viðtals, tækifæri til að svara spurningum hlustenda, sem er alltaf skemmtilegt. Það er í tveimur hlutum, viðtalið hér og spurningar hlustenda hér. Og nú eru útvarpsviðtölin meira að segja tekin upp og birt í sjónvarpi svo það er hægt að horfa á þessi útvarpsviðtöl! Tæknin lætur ekki að sér hæða.

Í gærmorgun tók svo við áhugaverður fundur með Stefan Füle, stækkunarstjóra ESB og í dag og á morgun er kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi.