Ræða á miðstjórnarfundi í Borgarnesi 26. nóvember 2011

Fundarstjórar, góðir miðstjórnarfulltrúar

Það er mjög ánægjulegt að sjá hversu margir eru mættir á miðstjórnarfund til að taka þátt í að undirbúa sóknina í vetur. Ekki veitir af. Þörfin fyrir breytingar á stjórn landsins er afar knýjandi og hefur verið lengi.

Fyrir ári síðan héldum við miðstjórnarfund á Húsavík. Þar fjallaði ég um þær miklu breytingar sem væru að eiga sér stað í Evrópu og heiminum öllum og ógnirnar og tækifærin sem því fylgdu.

Á því ári sem liðið er hefur ógnunum verið leyft að vaxa, hér á landi og erlendis, en tækifærin hafa enn ekki verið nýtt. Þvert á móti. Það er fullkomlega óþolandi hvernig haldið hefur verið á stjórn landsins undanfarin ár.

Íslendingar stenda enn frammi fyrir gríðarlegum tækifærum. Það eru tækifæri sem væri ekki bara gott að nýta. Það er nauðsynlegt og brýnt.

Þessa dagana stigmagnast dag frá degi sú þróun sem ég ræddi um að myndi eiga sér stað í Evrópu og víðar. Hér á eftir ætla ég að árétta hvers vegna sú þróun er liður í heimssögulegum breytingum sem við þurfum að búa okkur undir.

Við höfum allt sem við þurfum til að hraða uppbyggingu á Íslandi. Vandamálið er stefna stjórnvalda.
Ég hef að undanförnu haldið því fram að skattkerfið hafi verið flækt og skattar hækkaðir hundrað sinnum á undanförnum tveimur til þremur árum.

Ég var hins vegar upplýstur um það í vikunni að nýleg athugun hefði leitt í ljós að það stæðist ekki, ekki lengur. Skattkerfisbreytingarnar eru nú nærri 130.

Og enn stendur til að halda áfram. Það virðist vera að eina loforðið sem fjármálaráðherrann ætlar að standa við sé fyrirheitið sem hann gaf eftir að kvartað var undan því að skattastefna ríkisstjórnarinnar væri allt að drepa. Þá sagðist hann vera rétt að byrja.

Nú er boðaður sérstakur kolefnisskattur ofan á mengunarskattana sem fyrir voru.
Ljóst er að áformin setja í uppnám þær fyrirhuguðu framkvæmdir sem þó höfðu náð að komast yfir ótal hindranir fram að þessu.

Til stóð að bjóða út framkvæmdir vegna kísilvers í Helguvík í næstu viku eftir 2 ára undirbúningstíma. Þeim áformum hefur nú verið slegið á frest og verða að engu ef af skattlagningunni verður.
Jafnframt er starfsemi þeirra stóriðjufyrirtækja sem þegar eru starfandi í landinu í hættu.
Fyrir járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga næmi árlegt kolefnisgjald meira en tvöföldum meðalhagnaði fyrirtækisins undanfarinn áratug.

Augljóst er að fyrirtækið gæti ekki starfað áfram við þær aðstæður. Hundruð eða þúsundir manna gætu misst vinnuna í íslenskum iðnaði og ný fjárfestinga yrði lítil sem engin.
Fjármálaráðherra hafði hugsað sér að ná tveggja og hálfs milljarðs króna tekjum með skattinum.
Fyrir það hefði hann getað gert ýmislegt, t.d. borgað Icesavevexti í 2-3 vikur.
Hins vegar verður að teljast ólíklegt að tekjurnar hefðu skilað sér.
Þvert á móti það drægi enn úr fjárfestingu, skattgreiðslur minnkuðu og atvinnuleysi ykist með þeim kostnaði sem því fylgir.

Sem betur fer er nú útlit fyrir að klofningur í Samfylkingunni muni valda því að ekki verði meirihluti fyrir því að innleiða skattinn. Jafnvel þar á bæ er sumum nóg boðið.

Það var ekki seinna vænna því mælirinn er löngu fullur hjá öllum þeim sem lagt hafa mat á árangurinn af stefnu ríkisstjórnarinnar undanfarin ár. Hinar nýju skattahugmyndir hafa reyndar þegar valdið umtalsverðu tjóni.

Þær eru enn ein staðfesting á fjandsamlegu viðhorfi stjórnvalda í garð atvinnurekstrar. En fyrir það er landið nú orðið þekkt á alþjóðavettvangi.

Íslensk stjórnvöld eru líka orðin þekkt fyrir að þeim sé ekki treystandi.
Bæði launþegahreyfingin og atvinnurekendur hafa ítrekað kvartað undan svikum ríkisstjórnarinnar.
Kolefnisskatturinn er enn eitt dæmið um sviksemi ríkisstjórnarinnar.

Fjármálaráðherra hafði áður sent frá sér skriflega ítrekun á því að skattur á stóriðjufyrirtæki yrði ekki hækkaður eins og samið var um þegar fyrirtækin féllust á að fyrirframgreiða tekjuskatt í nokkur ár.
Hugsið ykkur það: Vinstri grænir tóku milljarða að láni hjá stóriðjunni. Eitthvað hefðu þeir hinir sömu nú sagt ef framsóknarmenn hefðu staðið að slíku.

Kosturinn við áformin um kolefnisskattinn og afleiðingar hans er sá að það sýnir svart á hvítu hvaða áhrif stefna ríkisstjórnarinnar hefur haft.

Hætt hefur verið við fjölmörg atvinnuskapandi verkefni og önnur hafa aldrei komist á teikniborðið fram að þessu vegna stefnunnar.
Hjá Fjárfestingastofu er að finna lista yfir tugi vænlegra verkefna sem hefðu getað orðið að veruleika á undanförnum árum ef skynsemi hefði fengið að ráða för í atvinnu og skattastefnu stjórnvalda.

Enn fleiri hefðu svo bæst á listann ef hér væri atvinnuskapandi stjórnvöld sem innleiddu hvata en ekki hindranir. Ekki ríkisstjórn sem hefur komið Íslandi á lista með Egyptalandi, Rússlandi og Suður-Ameríkulöndum vegna óstöðugs lagaumhverfis og pólitískrar áhættu.

Með réttri stefnu værum við búin að upplifa tvö ár hagvaxtar og atvinnusköpunar. Hér voru forsendurnar betri en víðast hvar annars staðar. Nægt hæft vinnuafl, umhverfisvæn orka, lágt skráður gjaldmiðill og sterkir innviðir. Staðsetning landsins er meira að segja að verða kostur frekar en galli.
En á meðan uppsveiflan sem oft fylgir snarpri kreppu gagnaðist mörgum öðrum löndum hefur hér verið rekin stefna sem er nánast til þess hönnuð að halda aftur af fjárfestingu. Fjárfesting á Íslandi er nú sú minnsta frá því mælingar hófust.

Nýr fjársýsluskattur á fjármálafyrirtæki er nánast jafnvitlaus og kolefnisskatturinn. Í stað þess að skattleggja hagnað bankanna hyggst ríkisstjórnin skattleggja laun bankastarfsmanna. Afleiðingin verður sú að sparisjóðirnir og lítil fjármálafyrirtæki munu standa mjög höllum fæti.

Þannig vinna áformin gegn samkeppni á fjármálamarkaði.

Varla þarf að taka fram að erlendum bönkum dettur ekki í hug að hefja starfsemi á Íslandi við þessar aðstæður. 1.800 bankastarfsmenn hafa misst vinnuna frá efnahagshruni, þar af eru 80% konur. Með því að skattleggja laun bankastarfsmanna er verið að senda bönkunum skýr skilaboð um að fækka starfsfólki, en þeir hafa fram að þessu haft fleira fólk í vinnu en þeir telja þörf fyrir.

Það mun líklega fyrst og fremst bitna á konum rétt eins og niðurskurðurinn í heilbrigðiskerfinu. Ég veit ekki hvort þetta er liður í hinni svo kölluðu kynjuðu hagstjórn en þetta er alla vega kynleg hagstjórn.

Það er nauðsynlegt að snúa þróuninni við.
Á Húsavík í fyrra talaði ég reyndar um að það mætti engan tíma missa vegna þess að krísan í Evrópu kæmi til með að magnast jafnt og þétt og því þyrfti að nýta tímann vel.
Evru-krísan hefur svo sannarlega magnast og það gerir aðstæður okkar erfiðari. Sem betur fer hefur það þó líka gengið eftir að sú sérstaða sem við njótum vegna auðlinda okkar hefur, eins og við ræddum á Húsavík, gagnast okkur mikið. Hagstofan upplýsti í fyrradag að helstu útflutningsvörur okkar hefðu haldið velli og seldust enn á ásættanlegu verði þrátt fyrir mikil efnahagsvandræði viðskiptalandanna. Við framleiðum enda vörur sem skortur er á í heiminum.

Framtíðarhorfur eru góðar ef vel er á málum haldið. Betri en víðast hvar annars staðar.

Í Evrópu stendur nú yfir efnahagslegt gjörningaveður sem ég óttast að sé upphafið að löngu hnignunarskeiði og samfélagsbreytingum.
Hér á landi verðum við þó ekki eins mikið vör við umfjöllun um þessi mál og tilefni er til.
Þegar maður fylgist með fréttum erlendis, eða á netinu eða erlendum sjónvarpsstöðvum, sér maður að umræðan er undirlögð af umfjöllun um evrukrísuna.
En jafnvel þar hafa menn ekki gert sér grein fyrir umfangi vandans, þeim heimssögulegu viðburðum sem nú magnast dag frá degi.

Í íslenskum stjórnmálum er ekki fjallað um þetta ástand að neinu ráði. Það tók fimm mánuði að fá opinn fund í utanríkismálanefnd til að ræða þessi mál við utanríkisráðherra.

Sá fundur fór fram síðast liðinn miðvikudag. Ráðherrann lýsti því þar yfir að menn væru búnir að finna lausn á evruvandanum og evran og ESB yrðu fljótlega sterkari en nokkru sinni fyrr en ítrekaði þó tilboð um að lána Evrópusambandinu Steingrím J. Sigfússon sem efnahagsráðgjafa.

Fyrst ráðherrann var á léttu nótunum gat ég ekki annað en sagt eins og satt var að í hvert sinn sem ég heyri hann lýsa stöðu Evrópusambandsins kemur upp í hugann mynd af hinum glaðlynda upplýsingamálaráðherra Íraks í Persaflóastríðinu.

Manninum sem hélt daglega blaðamannafundi og lýsti stórsókn sinna manna. Rétt fyrir lok stríðsins boðaði hann yfirvofandi stórsigur á meðan skriðdrekar bandamanna sáust nálgast á bakvið hann.

Í vikunni barst utanríkisráðherranum liðsstyrkur sem hann hafði kallað eftir frá Írlandi. Evrópumálaráðherra Írlands kom til landsins og var sendur í viðtöl við fjölmiðla, fenginn til að fræða háskólanema og boða fagnaðarerindið hjá Félagi kvenna í atvinnurekstri.

Írski ráðherrann sagðist hafa mikla trú á evrunni.
Eðlilega talaði hún vel um eigin gjaldmiðil. Það væri t.d. galið ef íslenskir ráðherrar færu að segja hverjum sem heyra vildi að krónan væri ónýt. Þannig geta ráðherrar að sjálfsögðu ekki talað um gjaldmiðil eigin lands.

En á meðan ráðherrann útskýrði sterka stöðu evrunnar fyrir Íslendingum var verið að segja nýjustu fréttir af stöðu gjaldmiðilsins í erlendum fjölmiðlum. Aðalfjármálamiðill Bandaríkjanna birti fyrirsögnina: „Evran á dauðavakt“. Í gær birti stærsta dagblað Bretlands, að götublöðunum frátöldum, fyrirsögnina „Dauði gjaldmiðils – ragnarök evrunnar nálgast.“

Krísan náði nefnilega nýju stigi í vikunni, stigi sem fáir bjuggust við að kæmi svo snemma. Það er alllangt um liðið síðan ljóst varð að Grikkland, Portúgal og Írland gætu ekki fjármagnað sig. Þótt þrætt hafi verið fyrir það fram á síðasta dag í hvert skipti.
Spánn og Ítalía borga nú hærri vexti en þau geta staðið undir og Belgía líka. Frakkland er ekki langt undan. En flestum að óvörum gerðist það svo í vikunni að Þjóðverjum tókst ekki að selja nema rúman helming þeirra ríkisskuldabréfa sem þeir buðu út.

Um síðustu helgi voru þýsk ríkisskuldabréf talin þau öruggustu í heimi. Nú borga Bretar, Svíar og Danir lægri vexti en Þjóðverjar, þjóðin átti að bjarga evrunni.

Staðan er nú þessi í Evrópu:
Evrópskir bankar fá ekki lengur fjármögnun á markaði. Bandarískir og breskir bankar hafa forðað sér. Eina leiðin er að leggja inn skuldabréf sem veð í evrópska seðlabankann, svo kölluð ástarbréf. Bankinn ver 20 milljörðum evra á viku til að reyna að halda uppi gengi verðbréfa og dugar ekki til. Eignir banka reynast minna virði en haldið hafði verið fram, ódýrt lánsfé hafði skapað loftbólur sem nú eru að springa. Hagsmuna og krosseignatengsl eru slík að vandræði í einu landi eða hjá einum banka láta allt kerfið leika á reiðiskjálfi. Meira að segja lánshæfismatsfyrirtækin sem sváfu lengi á verðinum fella nú hvert landið af öðru.

Í hverju skrefi krísunnar ríkir afneitun hjá stjórnmálamönnum sem þræta fyrir að vandinn sé jafn slæmur og sérfræðingar halda fram í fjölmiðlum.

Hljómar þetta kunnuglega?

Ef einhverjir ættu að gera sér grein fyrir því í hvað stefnir eru það Íslendingar. Það að íslensk stjórnvöld skuli ekki vera löngu byrjuð að bregðast við þessu ástandi, sérstakleg með því að endurreisa hér atvinnulífið á meðan menn hafa tækifæri til, eru stórkostleg afglöp. Íslendingar ættu líka að benda á þær hættur sem Evrópa, og þar af leiðandi hagkerfi heimsins alls, stendur frammi fyrir. En í staðin höfum við utanríkisráðherra sem segir að Ísland sé að veita Evrópusambandinu heilbrigðisvottorð með því að sækja þar um aðild.

Til lengri tíma litið stendur Ísland vel. Við erum búin að ganga í gegnum efnahagshrun. Nú blasir slíkt við Evrópusambandsríkjunum. En þar bætast við gríðarstór vandamál. Stjórnkerfi sem er ófært um að takast á við vandann, auðlindaskortur og of lítil framleiðslugeta og gífurlegar ríkisskuldir við upphaf krísunnar, ólíkt Íslandi sem var orðið nánast skuldlaust þegar hrunið reið yfir.

Svo er það hinn sameiginlegi gjaldmiðill sem veldur því að nauðsynleg úrræði eru óframkvæmanleg og hvert vandamál smitast samstundis um alla álfuna. Það er ekki að ástæðulausu að ástandið er kallað evrukrísan.

Það má vera að eftir nokkur ár verði enn til gjaldmiðill sem heitir evra og eitthvað sem heitir Evrópusambandið. En það verður allt annars konar Evrópusamband eða –sambönd en nú. Kanslari Þýskalands segir Evrópu nú vera að ganga í gegnum mestu ógöngur frá seinni heimsstyrjöld. Lausnin sem hún og forsprakkar Evrópusambandsins sjá fyrir sér er að stofna sambandsríki.

Það er í besta falli kaldhæðni að Íslendingar séu nú, eftir eigið efnahagshrun að sækja um að aðlagast Evrópusambandinu og verða þátttakendur í vandræðum þess.

Staða Íslands er allt önnur en flestra Evrópulanda. Hér er allt til alls svo byggja megi hratt upp velferð fyrir alla. Þetta blasir við okkur ef við lítum yfir síðast liðin 2-3 ár og metum, jafnvel af talsverðri varfærni, hvaða áhrif það hefði haft að fylgja skynsamlegri stefnu við stjórn landsins undanfarin ár. Ef aðeins brot af þeim atvinnuskapandi verkefnum sem stjórnvöld hafa fælt frá hefðu náð fram að ganga væri atvinnuleysi lítið og hagvöxtur með þeim hæsta á Vesturlöndum.
Ef bankarnir og fyrirtækin hefðu verið endurskipulögð með aðferðum sem við lögðum til fyrir tæpum þremur árum væru þau í aðstöðu til að fjárfesta og ráða fólk í vinnu.

Ef tækifærin til að taka á skuldavanda heimila og ríkisins hefðu verið nýtt væri kaupmáttur og framtíðarhorfur Íslendinga nógu góðar til að við gætum fengið fólk heim til Íslands í stað þess að missa árlega þúsundir ungs fólks úr landi.

Við bætast svo ómæld tækifæri framtíðarinnar. Auðlindir okkar samanstanda af þeim hlutum sem mestur skortur verður á í heiminum til framtíðar, orku, vatni, matvælum, landrými, sterkum samfélagslegum innviðum og öryggi.

Svo er það staðsetning landsins og þau gífurlegu áhrif sem hún getur haft eins og hef oft fjallað mikið um á undanförnum árum. Áhrif sem eru svo mikilvæg að rísandi stórveldi heimsins sýna Íslandi meiri áhuga en öðrum löndum.

Á Húsavík fjallaði ég um að mun styttra væri í að siglingaleiðir yfir norðurskautið opnuðust en áður var talið. Fyrir nokkrum vikum birtust svo fréttir um að miðað við núverandi þróun væru innan við 10 ár í að leiðirnar yrðu opnar. Þegar fram líða stundir verður Ísland hugsanlega í miðpunkti mestu flutningaleiða heims. Það er ekki seinna vænna að hefjast handa við að undirbúa það þótt menn greini á um hversu langt er í opnun siglingaleiðanna.
Við höfum ákveðið forskot í krafti staðsetningar en samkeppnin verður mikil. Í Kanada og Noregi er undirbúningur þegar kominn á fullan skrið.

Fyrir nokkrum dögum birtust niðurstöður rannsókna Norðmanna, í samstarfi við Orkustofnun, á hugsanlegum olíuauðlindum við Jan Mayen og á Drekasvæðinu. Það verður ekki annað sagt en að niðurstöðurnar hafi verið afar jákvæðar. Norska olíumálastofnunin sagði þær óvæntar og afar spennandi. Mikið var fjallað um málið í norskum fjölmiðlum enda þótt Norðmenn nýti nú þegar tugi olíulinda í Noregshafi og landið sé þriðji mesti olíuútflytjandi heims.

Hér á landi virtust sumir hafa meiri áhuga á boðskap írska evrópumálaráðherrans en niðurstöðunum af Drekasvæðinu. Stöð 2 gerði málinu þó góð skil og upplýsti að norskir sérfræðingar telji líkur á olíulindum sem geymi stjarnfræðileg verðmæti. Terje Hagevang helsti sérfræðingur um Jan Mayen-hrygginn telur að þar sé að finna álíka verðmæti í olíu og gasi og í Noregshafi, verðmæti sem nemi þjóðarframleiðslu Íslendinga í mörghundruð ár.

Ástæða er til að taka þessi mál föstum tökum. Ef vísbendingarnar reynast réttar mun það hafa jákvæð áhrif á stöðu landsins löngu áður en vinnsla hefst.

Olíuleit Norðmanna bar fyrst árangur 1969 og vinsla hófst á fyrsta borpallinum árið 1980. Síðan þá hefur tækninni fleytt fram og einfaldara er orðið að bora á miklu dýpi. Kanna ætti til hlítar stofnun íslensks ríkisolíufélags til að tryggja að sem mest af hugsanlegum ávinningi verði eftir hjá íslensku þjóðinni.
Stofnun slíks félags hefur verið til skoðunar hjá olíumálaskrifstofu iðnaðarráðuneytisins og ráðgjafafyrirtækinu PWC og þykir vænlegur kostur. Raunhæfar væntingar um olíuvinnslu hafa strax góð áhrif á stöðu landsins þótt vinnsla hefjist ekki strax.

Miðað við framtíðarhorfur Íslands annars vegar og í Evrópusambandsins hins vegar og með hliðsjón af því sem við höfum gengið í gegnum og það sem ESB stefnir í er í besta falli kaldhæðnislegt að við skulum vera að sækja um að aðlagast ESB og verða þátttakendur í sjálfsköpuðum vandamálum þess.

En auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta. Til að sætta ólík sjónarmið lagði ég fram tillögu sem ætti að henta öllum, hvar sem þeir standa gagnvart Evrópusambandinu. Hugmynd um að gera hlé á viðræðunum eins og Svisslendingar og Maltverjar gerðu á sínum tíma. Hléið gæti staðið í eitt og hálft eða 2 ár og að þeim tíma liðnum greiddu menn atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort haldið skyldi áfram.

Evrópusambandið er að yfirfara og breyta stefnu sinni í bæði sjávarútvegs og landbúnaðarmálum og getur því ekki klárað samninga við okkur um þau mál. Þeirri endurskoðun lýkur í fyrsta lagi 2013.

Skrifstofustjóri stækkunarstjóra ESB hefur bent Íslendingum á að ef þeir ákveða að gera hlé á viðræðunum muni sú vinna sem unnin hefur verið allaf nýtast ef menn ákveða að taka upp þráðinn síðar.

Með því að gera hlé á viðræðunum værum við í raun ekki að tapa neinum tíma en gætum einbeitt okkur að uppbyggingu innanlands í stað þess að pólitísk umræða og afstaða til allra mála tengist afstöðunni til Evrópusambandsins.

Við kæmumst að því hvernig sjávarútvegs og landbúnaðarstefnan verður og hvers konar samband ESB verður eða hvort það verður til sem slíkt.

Ef tveggja ríkja lausn ESB verður ofan á gætum við ákveðið hvort við vildum verða hluti af Evrópusambandi Bretlands, Danmerkur og Svíþjóðar eða Bandaríkjum Evrópu með Þýskalandi og Frakklandi. Við vissum betur hvar við stæðum og hvar Evrópusambandið stendur og gætum tekið afstöðu út frá því.

Sá málflutningur sem enn heyrist stundum á Íslandi að við getum ekki tekið afstöðu fyrr en við vitum hvaða samningur er í boði fær engan hljómgrunn hjá Evrópusambandinu. Þar reyna menn að útskýra fyrir okkur að þegar þjóð sækir um aðild að ESB feli það í sér vilja til að ganga í sambandið og fylgja lögum þess og skipulagi.

Þingmannanefnd Íslands og Evrópusambandsins, sem ég á sæti í, barst meira að segja bréf frá ESB þar sem varað var við því að tala um samningaviðræður vegna þess að það gæfi til kynna að verið væri að semja.

Fyrir nokkrum vikum komu fulltrúar úr utanríkismálanefnd Evrópuþingsins í kynnisferð til Íslands. Þeir vildu átta sig á því hvernig málið stæði á Íslandi og leituðust við að útskýra fyrir okkur Íslendingum hvað fælist í umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Okkur var gert ljóst að það þýddi ekkert að sækja um og bíða svo bara á hliðarlínunni þar til niðurstaða lægi fyrir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Umsókn þýddi að menn vildu inn og ætluðu að gera það sem þyrfti til að sú yrði niðurstaðan. Við lok heimsóknarinnar fór fulltrúi Bretlands, Sir Robert Atkins, sem er mikill ESB-sinni, yfir stöðuna.

Hann sagði að eftir vandlega íhugun hefði hann komist að þeirri niðurstöðu að það væri bara eitt fyrir Íslendinga að gera. Nú ættum við að gera hlé á viðræðum og ákveða að 18 eða 24 mánuðum liðnum hvort við vildum halda ferlinu áfram í þjóðaratkvæðagreiðslu. ESB myndi anda léttar og einbeita sér að sínum málum og Íslendingar gætu notað tíman til að koma sínum málum í lag.

Ef samþykkt yrði að halda umsókninni áfram hefði hún loksins það umboð þjóðarinnar sem hana hefur skort og hægt væri að taka hana alvarlega. Ef henni yrði hafnað hefðum við öll sparað okkur mikinn tíma, fjármagn og fyrirhöfn.

Þetta var skömmu eftir að ég skrifaði grein í Morgunblaðið þar sem ég komst að nákvæmlega sömu niðurstöðu. Robert Atkins hafði þó ekki lesið Morgunblaðið heldur komist að sömu niðurstöðu vegna þess að þetta er skynsamlegasta leiðin fyrir alla með hliðsjón af staðreyndunum.

Síðan hefur komið í ljós að þessi leið er svo mikil Framsóknar- og sáttaleið að hörðustu Evrópusambandssinnar og –andstæðingar í Sjálfstæðisflokknum gátu sammælst um að gera tillöguna að stefnu flokksins. Tillagan hefur einnig fengið mikinn hljómgrunn innan Vinstri grænna og víðar.

Harðir andstæðingar ESB gætu sagt að með þessu væri verið að taka nokkra áhættu enda auðveldara að fá fólk til að samþykkja að halda áfram umsóknarferli en að samþykkja aðild.
Ef ferlið hefði verið samþykkti í þjóðaratkvæðagreiðslu væru svo komnar auknar líkur á að samningur næði í gegn að lokum. En kosturinn við þessa leið er sá að hún gefur fólki tækifæri til að taka afstöðu á grundvelli betri yfirsýnar og upplýsinga.

Ef menn trúa því raunverulega, sem utanríkisráðherra heldur fram, að búið sé að finna lausnina á vanda Evrópusambandsins og staða þess og evrunnar verði senn betri en nokkru sinni fyrr þá hljóta menn að fallast á þessa leið því þá munum við taka ákvörðun þegar þetta hefur komið í ljós.
Ef menn telja hins vegar að atburðarásin nú sé aðeins upphafið að efnahagslegum hrunadansi og pólitískum hremmingum þurfa þeir varla að óttast að Íslendingar ákveði að halda umsókninni áfram. Leiðin hentar þannig öllum, sama hver afstaða þeirra er.

Versti kosturinn er að halda áfram við þessar aðstæður stefna í atkvæðagreiðslu þar sem Evrópusambandið mun gera hvað sem þarf til að ná réttri niðurstöðu. Niðurstöðu sem þó mun ekki nást.

Þar á bæ hafa menn lýst því yfir að þeir ætli ekki að tapa enn einni þjóðaratkvæðagreiðslunni. Allra síst mega þeir við því við núverandi aðstæður.
Pólitíkin hér á landi mun þá öll snúast um Evrópusambandið þar til samningar hafa verið undirritaðir og þá tekur við 6 mánaða stríð háð með áróðri. Icesavestríðið í fimmta veldi.

Þarf samfélagið á því að halda? Nei, svo sannarlega ekki.
Við þurfum á því að halda að fá frið til að nýta tækifæri þjóðarinnar. Stöðva fólksflóttann, byggja upp atvinnu, leysa skuldavandann og búa Ísland undir bjarta framtíð.

Ég heyrði einhverja halda því fram að það myndi skaða ímynd Íslands að gera hlé á viðræðum. Auðvitað ekki, við þessar aðstæður er það bara rökrétt. Það gæti að vísu skaðað ímynd Evrópusambandsins en slíkt er orðið daglegt brauð og ræður varla úrslitum um framtíð ESB.

Talandi um Icesave. Í vikunni barst tilkinning að lánshæfishorfur Íslands hefðu batnað hjá einu af matsfyrirtækjunum alræmdu, Standard og Poors. Muna menn eftir þeirri umræðu sem varð hér á landi í aðdraganda Icesave-atkvæðagreiðslanna? Hversu margir gengu ótrúlega langt í tilraunum til að hræða fólk til hlýðni? Því var haldið fram að landið yrði einangrað. Lánshæfismatsfyrirtækin myndu umsvifalaust lækka mat sitt á okkur og við fengjum hvergi fjármagn. Krónan myndi hrynja, Íslendingar yrðu fordæmdir af alþjóðasamfélaginu sem myndi beita okkur refsiaðgerðum, hér yrði einhvers konar efnahagslegur kjarnorkuvetur ef við létum okkur ekki hafa það að taka á okkur skuldir Landsbankans.

Allt var þetta bull.

Þeir sem héldu fram endalausri vitleysu í Icesave birtast þó hvað eftir annað í sjónvarpinu og ætla að fræða okkur um önnur mál. Nýjasta fórnarlambið er íslenskur landbúnaður, af öllum hlutum.

Það liðu ekki margir mánuðir frá því íslensk matvælaframleiðsla sannaði gildi sitt og hagkvæmni í kjölfar efnahagshrunsins áður en aftur var farið af stað með fráleitan áróður gegn íslenskum landbúnaði. Nú vilja hinir sömu og voru hvað ákafastir aðdáendur útrásarfyrirtækjanna og hins dásamlega frjálsa flæðis fjármagns innleiða sams konar frjálshyggju í landbúnaði.

Kenningar sem eru nú að falla á andlitið um allan heim á að innleiða í þessari grunnatvinnugrein þjóðarinnar. Og það einmitt á sama tíma og menn eru að átta sig á því að landbúnaður er eina af atvinnugreinum framtíðarinnar.

Meira að segja höfuðrit fjármála- og efnahagsmála, Wall Street Journal og Financial Times birta nú hvað eftir annað forsíðufréttir um landbúnað.

Íslenskur landbúnaður hefur sparað okkur tugi milljarða í gjaldeyri á hverju ári og haldið okkur á floti í ólgusjó. Nú er í fyrsta skipti í 150 ár orðinn varanlegur viðsnúningur þar sem gert er ráð fyrir að matvæli komi til með að hækka í verði jafnt og þétt. Þennan tímapunkt velur prófessor við háskólann og nokkrir gamlir andstæðingar landbúnaðar úr röðum krata til að skera upp herör gegn greininni.

Og þessi málflutningur er svo fráleitur að manni í raun fallast hendur. Hvernig á að svara því þegar að prófessor í hagfræði við háskóla skilur til dæmis ekki muninn á föstum og breytilegum kostnaði?

En því miður þá virðist þessi áróður eiga greiða leið í gegn um fjölmiðla. Við, og aðrir, sem vitum hvað þarf til að byggja upp raunverulega velferð á Íslandiþurfum að svara svona áróðri fullum hálsi.

Sama á við um sjávarútveginn. Það er orðið tímabært að menn fari að ræða þá hluti eins og þeir raunverulega eru, í stað þess að láta alla umræðuna stýrast af innihaldslausum frösum sem ríkisstjórnin dælir út á færibandi.

Og svo eru það auðvitað málefni heimilanna. Þar verðum við að ná árangri á einn eða annan hátt. Ég hef velt því mikið fyrir mér við aðstæður eins og eru uppi einmitt núna í ríkisstjórnarsamstarfinu, hvort að því sé jafnvel til fórnandi að taka þátt í breyttri ríkisstjórn ef það mætti verða til þess að bæta stöðu heimilanna.

Ég efast hins vegar um að það sé raunhæfur kostur á meðan þeir sem stýra stjórnarflokkunum nú fara með völdin. Þar er ekki til staðar neinn vilji til að breyta því sem gert hefur verið á undanförnum árum. Það þarf því kosningar.

Við þurfum kosningar sem fyrst til þess að geta innleitt breytta stefnu og komið til móts við íslensk heimili. Nú ber reyndar svo við að Sjálfstæðisflokkurinn, og raunar Vinstri hreyfingin grænt framboð einnig, hafa tekið upp stefnu okkar um leiðréttingu lána, þremur árum eftir að við lögðum hana til. Og það við aðstæður þegar það er orðið mun erfiðara en það var að innleiða þessar breytingar.

Við höldum að sjálfsögðu fast við okkar stefnu, enda byggist hún á þörf. Hún byggist á þörfinni fyrir leiðréttingu, og þegar þörfin er jafn knýjandi og raun ber vitni þá er það stjórnmálamanna að finna leiðirnar. Eitt af því sem þarf að gera er að reikna kostnaðinn af því að gera ekki neitt. Kostnaðinn við að halda óbreyttu ástandi. Hann er nefnilega aldrei reiknaður á móti þeim kostnaði sem færi í að ráðast í leiðréttingu lána.

Japan er skýrasta dæmið um þetta. Þar ruku lánin upp um 1990, lengt var í þeim í stað þess að skera af þeim og Japan hefur verið í efnahagslegri stöðnun alla tíð síðan, enginn hagvöxtur í 20 ár. Og það hefur kostað japanska ríkið gríðarlegar upphæðir. Svo að við verðum að huga að kostnaðinum við að gera ekki neitt.

Og við þurfum líka að leita nýrra leiða til viðbótar við hugsanlega höfuðstólsleið, og það höfum við verið að gera að undanförnu. Ein þeirra leiða sem er til skoðunar hjá þingflokknum er að nota skattkerfið til að koma til móts við fólk með miklar húsnæðisskuldir.

Hugmyndin er sú að sá hluti tekna fólks sem það notar til að borga niður lánin sín séu, í til dæmis þrjú ár, frádráttarbær frá skatti. Sambærilegir hlutir eru gerðir t.d. varðandi séreignarsparnað og oft kemur skattaafsláttur frá ríkinu til að stuðla að einhverju sem sóst er eftir, t.d. fjárfestingu í hlutabréfum.

Með þessu móti gæti fólk fengið hvata til að borga niður lánin sín þar sem skattaafslátturinn yrði lagður inn á höfuðstól lánanna. Þeir sem borga mánaðarlega 100 þúsund krónur í afborganir af húsnæðislánum fengju þannig hugsanlega um 30 þúsund króna skattaafslátt sem legðist beint inn á viðkomandi lán og höfuðstóll þess myndi því lækka hraðar en ella.

Þetta hefur ýmsa kosti í för með sér. Í fyrsta lagi tekur þetta á þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir eftir að húsnæðislán eru að stærstum hluta komin yfir til Íbúðalánasjóðs. Peningarnir fara því í raun í hring. Skatttekjur ríkissins lækka eitthvað en í staðinn rennur féð inn í Íbúðalánasjóð, sem er í eigu ríkisins. Lánin yrðu að einhverju leyti borguð hraðar niður, því að þeir sem tækifæri hafa til fengju hvata til að nýta stærri hluta tekna sinna til að greiða niður lánin. Þetta þýðir að meiri peningar myndu renna inn í íbúðalánasjóð en nú er gert ráð fyrir.

Þetta þýðir auðvitað að minna skilar sér í framtíðinni, en það getur verið að einmitt við þessar aðstæður þurfum við á því að halda að nýta svigrúmið. Samhliða þessu þyrftu lánastofnanir að færa húsnæðislán niður í raunvirði, 100% af fasteignamati. Saman myndu þessar aðgerðir leiða til heilbrigðari lánasafna lánastofnana og, sem mestu máli skiptir, létta á skuldavanda heimilanna. Ekki síst þeirra sem orðið hafa útundan í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til þessa.

Vonandi tekst okkur svo að snúa þróuninni við og koma hér í gang hagvexti. En ef að við gerum ekkert, ef staðan verður svona áfram og hagvöxtur kemst ekki af stað á Íslandi þá heldur ekki áfram stöðnun heldur tekur við hnignun. Þá missum við fleira fólk úr landi, skuldirnar halda áfram að vaxa og að verður sífellt erfiðara að snúa þróuninni við.

Við þessar aðstæður þarf róttækar aðgerðir, og við þurfum jafnvel að þora að taka dálitla áhættu. Og þó eru þær leiðir sem við höfum talað fyrir ekki sérlega áhættusamar. Þær snúast um að færa fjármagn til fólks sem þarf á því að halda og nýtir það til að halda hagkerfinu gangandi. Það er ekki um það að ræða að menn ætli að senda tugi milljarða úr landi í erlendri mynt.

Og þegar menn velta fyrir sér kostnaðinum við svona aðgerðir, má þá ekki setja það í samhengi við áform ríkisstjórnarinnar um að borga 40 milljarða á ári í erlendri mynt í vexti af Icesave? Menn efuðust ekki um í ríkisstjórninni að það væru til peningar til þess. Þeim þóttu áhyggjurnar fráleitar. Hagfræðiprófessorarnir fyrrnefndu komu hver á eftir öðrum í fréttir til að útskýra að nóg væri til af peningum til að standa undir þessu. Fjörtíu milljarðar í erlendri mynt jafngilda a.m.k. 80 milljörðum í íslenskum krónum, vegna þess að peningarnir sem ríkið notar hér innanlands skila sér til baka að miklu leyti og veltast áfram í hagkerfinu.

Ef við höfum ekki svigrúm til að koma til móts við íslensk heimili, til að halda fólkinu okkar í landinu, þá veit ég ekki hvaða von við höfum sem þjóð.

En við höfum svigrúm. Og við höfum mikla von. Við höfum gríðarleg framtíðartækifæri Íslendingar. Það þarf bara að rjúfa þessa kyrrstöðu, það þarf að skipta um ríkisstjórn, það þarf að láta stjórnmál og stjórnmálaumræðu snúast um stefnu, því að stefna skiptir máli. Stefna skiptir öllu máli.

Við höfum séð það á undanförnum þremur árum að hvernig ástandið gæti verið og hvernig ástandið því miður er, vegna rangrar stefnu.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að stefna Framsóknarflokksins, hin skynsama miðjustefna, nái í gegn. Og það er hún að gera smám saman. Nú ríður á að í vetur leggjumst við öll á eitt til að berjast fyrir hinni skynsömu miðjuleið, berjast fyrir sókn í atvinnumálum og vörn fyrir heimilin, og losum okkur helst við þessa ríkisstjórn. En takist það ekki, þá að hefja kosningabaráttuna strax, hvenær sem kosningar verða. Við megum ekki við fjórum árum í viðbót af ástandi eins og við höfum upplifað undanfarin ár.

Þess vegna er það skylda okkar sem Framsóknarmanna, ekki skylda við flokkinn, heldur skylda við þjóðina, að við náum árangri. Og þessi fundur hér leggur góðan grunn að mikilli sókn í vetur. Við skulum ræða málin hér áfram, skiptast á skoðunum og ræða mismunandi leiðir, og fara svo út af fundinum sem samhentur hópur sem ætlar að berjast fyrir bjartri framtíð Íslands.