Óhefðbundið viðtal

Þetta eru áhugaverðir dagar og maður kynnist ýmsu nýju.

Hin góðkunna Samfylkingarkona Sigríður Dögg Auðunsdóttir, blaðamaður og ritstjóri á Fréttatímanum, var fengin til að vera álitsgjafi um stjórnmál í útvarpsþættinum Sprengisandi fyrir skömmu. Þar vandaði hún Framsóknarflokknum og stefnu hans í skulda- og verðtryggingamálum ekki kveðjurnar. Þegar Sigríður Dögg sóttist svo eftir því skömmu síðar að taka við mig viðtal um stefnu flokksins þótti mér það gott tækifæri til að fara yfir málin með henni. Ég hef áður farið í viðtöl hjá blaðamönnum sem eru á öndverðri skoðun í pólitík án þess að það hafi verið vandamál.

Viðtalið var tekið með óhefðbundnum og mjög skemmtilegum hætti. Við fórum í bíltúr, röltum um Þingvelli í blíðskaparveðri og ræddum málin í leiðinni. Ákaflega vel til fundið. Eftir að ég fékk send drög að viðtalinu sendi ég til baka ábendingar um eitt og annað sem var ekki rétt haft eftir eða á einhvern hátt villandi. Staðfesting barst svo þess efnis að búið væri að taka inn allar athugasemdirnar.

Þegar viðtalið svo birtist í blaðinu kom hins vegar í ljós að ekkert hafði verið leiðrétt. Enn voru hafðir eftir mér hlutir sem ég kannaðist ekkert við. Það sem var hins vegar merkilegra var að viðtalið hafði lengst til mikilla muna og snerist að miklu leyti um hugrenningar blaðamannsins og skoðanir hans á þeim hlutum sem ég hafði nefnt (eða átti að hafa nefnt). Sums staðar er jafnvel óljóst hvar verið er að vitna í mig og hvar blaðamaðurinn vitnar í sjálfan sig. Loks var bætt við alls konar rangfærslum um mig og annað fólk. Viðtalið var eins og bent var á í frétt á Vísi „í óvenjulegri kantinum“.

Icesavemálið var eitt af því sem blaðamaðurinn velti fyrir sér án þess að spyrja mig út í það. Þar var bæði málinu sjálfu og afstöðu minni snúið á haus. Blaðamaðurinn virtist telja að vegna þess að þrotabú Landsbankans myndi standa straum af greiðslunum hefði ekkert tjón orðið af Icesave-samningunum þótt þeir hefðu verið samþykktir. Einnig var því haldið fram að ég hefði ekki áttað mig á þessu með þrotabúið. Þarna þótti mér nokkuð langt seilst í ljósi þess að allt frá því að ég fór fyrst í viðtal um Icesavemálið, áður en ég hóf þátttöku í stjórnmálum, hef ég haldið því fram að þrotabúið ætti að standa undir greiðslunum. Kostnaður ríkisins lá hins vegar fyrst og fremst í vöxtunum (þrotabúið hefði ekki bætt þá) eins og flestir landsmenn hafa gert sér grein fyrir eftir hátt í 20.000 fréttir um málið.

Á óskiljanlegan hátt tókst svo blaðamanninum að draga þá ályktun að það sem stæði upp úr eftir ísbíltúrinn,þar sem spjallið snerist nánast alfarið um málefni heimilanna og atvinnumál, væri að ég vildi ráðast í niðurskurð og að ekki yrði kosið um ESB aðild næstu árin. Að vísu nefndi ég að það væri mikilvægt að forgangsraða og það gæti kallað á niðurskurð á ákveðnum sviðum samhliða auknum útgjöldum annars staðar. Um ESB talaði ég sáralítið og var alls ekki afdráttarlaus um tímasetningu þjóðaratkvæðagreiðslu til eða frá.

Svona óhefðbundin hugmynd var vel þegin tilbreyting, enda fátt fallegra en Þingvellir í góðu veðri. Það gengur svo bara vonandi betur næst að vinna úr spjallinu.

 

One comment

Comments are closed.