11/21/12

Sanngjörn krafa hjúkrunarfræðinga

Hjúkrunarfræðingar standa nú frammi fyrir grafalvarlegri stöðu. Þrátt fyrir að kjarasamningur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við fjármálaráðherra (sem nær til 2000 hjúkrunarfræðinga) hafi verið undirritaður 4. júní 2011 kveði á um að stofnanasamningar séu hluti af kjarasamningi hafa stofnanasamningar FÍH á stofnunum ríkisins ekki verið endurnýjaðir á samningstímabilinu. Staða hjúkrunarfræðinga á Landsspítala (LSH) er enn verri, en þar hefur stofnanasamningur ekki verið endurnýjaður frá árinu 2007.

Hjúkrunarfræðingum er gefin sú skýring að vegna fjárskorts stofnana og LSH sé ekki hægt að endurnýja stofnanasamninga.

Mannekla í hjúkrun er yfirvofandi
Þetta er ótæk staða. Ljóst er að sá niðurskurður sem heilbrigðisstofnanir á öllu landinu hafa þurft að þola undanfarin ár er hluti af þessum vanda. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár er mjög mikilvægt tekið verði tillit til þessa vanda og heilbrigðisstofnunum verði tryggt fjármagn til að endurnýja stofnanasamninga.

Ef þetta ástand heldur áfram óbreytt er ljóst að í óefni stefnir á heilbrigðisstofnunum, sérstaklega á Landsspítalanum. Hjúkrunarfræðingar eru gríðarmikilvæg grunnstétt í heilbrigðisþjónustu. Ef ekki verður gripið til aðgerða nú við afgreiðslu fjárlaga er ljóst að stór hætta verður á að fjölmargir hjúkrunarfræðingar segi upp störfum sínum og leiti betri kjara annars staðar.

Slíkt myndi setja heilbrigðisþjónustu hér á landi í uppnám þar sem skortur á hjúkrunarfræðingum er nú viðvarandi vandamál og frekari skortur er yfirvofandi á næstu árum. Sem dæmi um það má nefna að fram til ársins 2020 er áætlað að um 950 hjúkrunarfræðingar fari á eftirlaun en aðeins tæplega 900 komi nýir til starfa á sama tíma. Mannekla í hjúkrun er því yfirvofandi.

Allir íslenskir hjúkrunarfræðingar geta fengið störf í Noregi
Nú þegar er orðið töluvert um að íslenskir hjúkrunarfræðingar séu í hlutastörfum í Noregi til að drýgja tekjurnar með því að afla þar norskra króna sem eru verðmætur gjaldeyrir á Íslandi. Það er ljóst að fleiri hjúkrunarfræðingar munu horfa til Noregs á næstunni ef stofnanir ríkisins fá ekki nauðsynlegt fjármagn til að endurnýja stofnanasamninga eins og kjarasamningar hjúkrunarfræðinga mæla fyrir um.

Í Noregi er skortur á hjúkrunarfræðingum svo mikill að allir íslenskir hjúkrunarfræðingar, um 2800 talsins, gætu fengið þar störf. Störf sem almennt eru mun betur launuð en hér á landi. Undanfarið hefur verið mjög virk eftirspurn eftir íslenskum hjúkrunarfræðingum til starfa í Noregi og ljóst að ef ekkert er gert til að bæta ástandið hér á landi munu nýútskrifaðir hjúkrunarfræðingar, sem og reynslumikið fólk sem nú starfar á stofnunum ríkisins, horfa alvarlega til þeirra kosta.

Nú þegar þykir líklegt að uppsagnir hjúkrunarfræðinga hefjist á Landsspítalanum um næstu mánaðarmót ef ekkert verður að gert. Reynslan sýnir að stór hluti þeirra sem taka þá ákvörðun að segja starfi sínu lausu skilar sér ekki aftur til baka þó að ástandið batni síðar.

Það er sanngjörn krafa að kjarasamningar séu virtir
Grunndagvinnulaun nýútskrifaðs hjúkrunarfræðings á Landsspítalanum eru nú 280 þúsund. Það er viðurkennd staðreynd að álag á hjúkrunarfræðinga og aðra opinbera starfsmenn hefur stóraukist undanfarin ár. Það er sanngjörn krafa að stofnanasamningar hjúkrunarfræðinga verði endurnýjaðir eins og mælt er fyrir um í kjarasamningum þeirra. Niðurskurður í heilbrigðiskerfinu má ekki verða til þess að við missum fleira hæft fólk úr þessum mikilvægu störfum.

11/17/12

Verkefni framtíðarinnar: Ræða á miðstjórnarfundi 17. nóvember 2012

Kæru félagar

Bestu þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til að mæta til þessa mikilvæga miðstjórnarfundar þrátt fyrir erfiða færð og veður.

Verkefni okkar er að undirbúa flokksþing og aðdraganda einhverra mikilvægustu þingkosninga sem fram hafa farið á Íslandi.

Kosningar eru alltaf mikilvægar og oft hefur verið tekist á um stór mál í alþingiskosningum.

En nú verður kosið um hvernig íslenskt samfélag eigi að þróast, ekki aðeins til næstu ára heldur áratuga og jafnvel allrar framtíðar.

Landið stendur núna samtímis frammi fyrir gríðarstórum efnahagslegum ógnum og stórkostlegum tækifærum.

Á næsta kjörtímabili ræðst hvort vandamálin verða leyst eða hvort þau verða óviðráðanleg. Hvort tækifærin verða nýtt eða þeim sólundað.

Við framsóknarmenn höfum að undanförnu lagt áherslu á að benda á tækifærin og hvernig megi nýta þau.

Á síðasta þingi fyrir kosningar hefur þingflokkurinn einbeitt sér að því að ræða hvernig rétt sé að gera hlutina í næstu ríkisstjórn fremur en að ræða mistök þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr.

Hér á síðasta miðstjórnarfundi fyrir kosningar er hins vegar óhjákvæmilegt að fara yfir kjörtímabilið sem er að klárast, gera upp framgöngu ríkisstjórnarinnar og ræða feril okkar í stjórnarandstöðu. – En jafnframt mun ég ræða hvernig við ætlum að nýta hin fjölmörgu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á næsta kjörtímabili.

Continue reading

08/3/12

Árangur hverra og fyrir hverja?

Umræða undanfarinna daga um stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði gefur tilefni til að benda á nokkrar staðreyndir. Umræðan er mikilvæg vegna þess að tækifæri Íslands eru líklega meiri en nokkurs annars lands en samt eigum við á hættu að glata þeim. Saga undanfarinna ára undirstrikar þetta.

Ríkisstjórnin, eða hluti hennar, leitast nú við að telja fólki trú um að stefna ríkisstjórnarinnar hafi skilað árangri í efnahagsmálum. Þetta hefur reyndar reynst mörgum ráðherrum nokkuð erfitt eftir að þeir hafa varið megninu af kjörtímabilinu í að reyna að sannfæra fólk um að Ísland ætti sér enga framtíð nema almenningur tæki á sig hundruð milljarða króna skuldir fallinna banka og landið gengi svo í Evrópusambandið.

Continue reading

07/19/12

Ríkisfjármálin: Ríkisstjórnin setur Evrópumet í skekkju.

Nú hefur komið í ljós að halli á rekstri ríkisins árið 2011 var tvöfalt meiri en gert var ráð fyrir í nýlegri áætlun. Ath! Hér er ekki um að ræða muninn á fjárlögum og raunveruleikanum heldur muninn á því sem áætlað var eftir árið 2011 og raunveruleikanum.

Samkvæmt fjárlögum ársins 2011 átti hallinn á rekstri ríkissjóðs að vera 36,4 milljarðar. Eftir árið komst fjármálaráðuneytið að þeirri niðurstöðu að hallinn hefði í raun verið 10 milljörðum hærri, eða 46,4 milljarðar. En nú hefur komið í ljós að hallinn var 89,4 milljarðar, semsagt 63 milljörðum meiri en kynnt var í fjárlögum. Það er 173% umfram áætlun. Það hlýtur að vera Evrópumet í skekkju í rekstri ríkis á síðasta ári.

Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin kynnir fjárlög og svo áætlun sem reynist vera algjörlega út úr kortinu. Það virðist vera orðin regla frekar en undantekning.

Gert var ráð fyrir 87,4 milljarða halla á fjárlögum ársins 2010. Þegar fjárlögin 2011 voru kynnt upplýsti fjármálaráðherra um að hallinn 2010 yrði líklega ekki nema 74,5 milljarðar (vegna þess að ríkið reiknaði sér hagnað af svo kölluðum Avens-samningi). Áætlunin var svo aftur kominn upp í 82 milljarða skömmu síðar og þegar ríkisreikningur birtist reyndist raunverulegur halli ársins 2010 vera 123,3 milljarðar!

 

Continue reading

05/29/12

Framtíðartækifæri Íslands og verkefni næstu ríkisstjórnar.

Ræða mín við eldhúsdagsumræður á Alþingi 29. 5. 2012:

Frú forseti, góðir landsmenn.

Nú við lokaumræður þingsins hefur ríkisstjórnin ekki enn lokið vinnslu forgangsmála sinna. – Mála sem varða undirstöðu – atvinnugreinar landsins og þá verðmætasköpunar sem á að standa undir lífskjörum í landinu. Þegar tillögur ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum birtust loks mörgum mánuðum á eftir áætlun voru þær þess eðlis að þær hefðu valdið stórtjóni fyrir allan almenning í landinu.

Það er mat flestra, ef ekki allra, sem lagt hafa faglegt mat á tillögurnar. Það sama á við um fleiri tillögur ríkisstjórnarinnar sem enn eru óunnar í nefnd nú þegar þingstörfum á að vera að ljúka. Það mun því þurfa að gera verulegar breytingar á mörgum málum og ljóst að ef á að gera það almennilega væri afar óábyrgt að reyna að keyra málin í gegn á þessu þingi.

Þrennt hefur haldið landinu á floti efnahagslega eftir bankahrunið. Í fyrsta lagi það að almenningur var ekki gerður ábyrgur fyrir skuldum einkabanka. Í öðru lagi aukinn útflutningur og hagvöxtur sem varð til með lækkun gjaldmiðilsins og í þriðja lagi sterkir innviðir sem byggðir voru upp á undanförnum áratugum.

Continue reading