11/17/12

Verkefni framtíðarinnar: Ræða á miðstjórnarfundi 17. nóvember 2012

Kæru félagar

Bestu þakkir fyrir að gefa ykkur tíma til að mæta til þessa mikilvæga miðstjórnarfundar þrátt fyrir erfiða færð og veður.

Verkefni okkar er að undirbúa flokksþing og aðdraganda einhverra mikilvægustu þingkosninga sem fram hafa farið á Íslandi.

Kosningar eru alltaf mikilvægar og oft hefur verið tekist á um stór mál í alþingiskosningum.

En nú verður kosið um hvernig íslenskt samfélag eigi að þróast, ekki aðeins til næstu ára heldur áratuga og jafnvel allrar framtíðar.

Landið stendur núna samtímis frammi fyrir gríðarstórum efnahagslegum ógnum og stórkostlegum tækifærum.

Á næsta kjörtímabili ræðst hvort vandamálin verða leyst eða hvort þau verða óviðráðanleg. Hvort tækifærin verða nýtt eða þeim sólundað.

Við framsóknarmenn höfum að undanförnu lagt áherslu á að benda á tækifærin og hvernig megi nýta þau.

Á síðasta þingi fyrir kosningar hefur þingflokkurinn einbeitt sér að því að ræða hvernig rétt sé að gera hlutina í næstu ríkisstjórn fremur en að ræða mistök þeirrar ríkisstjórnar sem enn situr.

Hér á síðasta miðstjórnarfundi fyrir kosningar er hins vegar óhjákvæmilegt að fara yfir kjörtímabilið sem er að klárast, gera upp framgöngu ríkisstjórnarinnar og ræða feril okkar í stjórnarandstöðu. – En jafnframt mun ég ræða hvernig við ætlum að nýta hin fjölmörgu tækifæri sem Íslendingar standa frammi fyrir á næsta kjörtímabili.

Continue reading

10/3/11

Er eitthvað að marka stefnuræðu forsætisráðherra?

Í kvöld flytur Jóhanna Sigurðardóttir stefnuræðu sína. Flestir muna hvernig ástandið var á Austurvelli við sama tilefni fyrir ári síðan. Í ljósi fjöldamótmæla gat ríkisstjórnin ekki annað en brugðist við. Yfirlýsingar voru gefnar um að tekið yrði mynduglega á skuldum heimilanna. Skipuð var nefnd. Niðurstaðan var ekki almenn leiðrétting skulda heldur að búin yrðu til flókin, sértæk úrræði. Reynslan sýnir að fáir hafa getað nýtt sér úrræðin, þau hafa skilað litlu og að fólki er mismunað eftir því við hvaða banka eða lánastofnun það hefur viðskipti.

Hver verða skilaboð forsætisráðherra til þjóðarinnar í kvöld?
Það er því miður ekki flókið að spá fyrir um málflutning forsætisráðherra í kvöld. Hún mun tala um hversu hratt og vel hefur gengið að endurreisa íslenskt efnahagslíf og að á Íslandi hafi mælst næstmesti hagvöxtur OECD ríkja á 2. ársfjórðungi 2011. Að auki má búast við endurteknu efni; að ríkisstjórnin hafi lagt grunn að 7.000 störfum sem verði til „á næstu misserum“; að verðbólga hafi lækkað og að slakað hafi verið á heljargreipum verðtryggingarinnar með því að bjóða upp á óverðtryggð lán hjá bönkum og Íbúðalánasjóði; að 150 milljarðar hafi verið afskrifaðir af skuldum heimilanna og að „allir hafi fengið eitthvað“ eins hún orðaði það í Kastljósi. Að lokum er ekki ólíklegt að forsætisráðherra hreyki sér af því að árangur ríkisstjórnarinnar veki nú alþjóðlega athygli.

Continue reading

08/9/11

Við þurfum Plan B – Ekki meira af því sama

Vandi Íslands er skuldavandi og skortur á atvinnusköpun (fjárfestingu). Það verður ekki leyst með endalausum skattahækkunum sem bæta jafnt og þétt á skuldabyrðina og halda niðri fjárfestingu.

Undanfarin 2 ár hafa sýnt að tilraunir til að leysa vanda ríkissjóðs fyrst og fremst með skattahækkunum hafa haft neikvæð áhrif. Hærri skattar hafa aukið á vandann en ekki skilað auknum tekjum. Það er með ólíkindum að stjórnvöld skuli láta sér detta í hug, við þessar aðstæður, að hækka skatt á matvæli úr 7% í yfir 20%.

Með því að hækka skatta á neysluvörur er verið að auka á skuldavandann og gefa til kynna að eingöngu verðtryggðar eignir verði varðar. Þar með verður staða almennings enn verri en nú er og heimilin verða ekki í aðstöðu til að halda uppi eðlilegri neyslu, fyrirtæki segja þá upp fólki frekar en að ráða nýtt og frumkvöðlar í atvinnusköpun halda að sér höndum, landflóttinn eykst og keðjuverkandi samdráttur heldur áfram.

Í þensluástandi geta skattahækkanir verið eðlilegar og jafnvel æskilegar. Í kreppu eru skattahækkanir, svo ekki sé minnst á viðvarandi óvissu og sífellt meiri kerfisflækjur, til þess fallnar að dýpka kreppuna. Tveggja ára reynsla ætti að vera nægur tími til að minna á lögmál sem hafa verið þekkt í alla vega 80 ár.

Eina leiðin úr vandanum er atvinnusköpun, aðhaldssemi og forgangsröðun í ríkisfjármálum og langtímaáætlanir sem taka mið af heildaráhrifum af útgjöldum, sparnaði og lagasetningu ríkisins. Það er ekki hægt að leysa vandann með endalausum skammtímareddingum þar sem ríkið nær sér í fjármagn til skamms tíma með aðgerðum sem skerða tekjur þess til lengri tíma litið, sker niður í útgjöldum sem valda þeim mun meiri kostnaði eða tekjutapi til lengri tíma litið og fjárfestir ekki á hagkvæman hátt.

Stjórnvöld þurfa að setja fram trúverðuga áætlun til 5 og 10 ára þar sem tekið er mið af heildaráhrifum og langtímaáhrifum í fjármálum ríkisins, lögum breytt þannig að þau hvetji til fjárfestingar og atvinnusköpunnar í stað samdráttar og ráðist er í samræmdar og markvissar aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja.

Með því móti má sýna fram á að langtímahorfur séu góðar á Íslandi. Það er þó lykilatriði að stjórnvöld gefi fyrirheit um að staðið verði við áætlunina til að skapa stöðugleika í stað þess að viðhalda varanlegri óvissu. Viðvarandi og vaxandi óvissa er fóðrið sem kreppur nærast á.

Með langtíma-/heildaráætlun, skuldbindingu um að staðið verði við áætlunina, aðgerðum til atvinnusköpunar  og aðgerðum í skuldamálum skapast aðstæður þar sem fyrirtæki þora að fjárfesta og ráða fólk, fólk sér framtíð í því að búa og starfa á Íslandi.

Tækifærin eru til staðar á Íslandi. Það sem vantar er trúverðug framtíðarsýn.

08/1/11

VIÐVÖRUN

Hvað sem líður staðhæfingum evrópskra stjórnmála- og embættismanna er evru- og ríkisskuldakrísan í Evrópu rétt að byrja. Það er reyndar ótrúlega margt við þróunina og umræðuna á evrusvæðinu sem minnir á Ísland 2007 og 2008. Reynsla Íslands ætti að nýtast öðrum þjóðum við að leggja mat á stöðuna í Evrópu og Bandaríkjunum og hún ætti sérstaklega að nýtast Íslendingum til að gera ráðstafanir í tæka tíð.

Þegar ekki verður lengur hægt að fela vandann og fresta hinu óumflýjanlega uppgjöri verða afleiðingarnar miklar um allan heim. Með réttum undirbúningi getum við þó komist hjá því að framhald fjármálakrísunnar valdi öðru stóru áfalli á Íslandi.

Tvö og hálft ár hafa að miklu leyti farið til spillis. Eins og margir bentu á gat Ísland sem var fyrst til að taka höggið orðið fyrst til að vinna sig út úr kreppunni. Tækifærin hafa hins vegar ekki verið nýtt, þvert á móti. Skuldamál heimila og fyrirtækja eru enn óleyst, stöðugt er verið að hækka skatta og gjöld og flækja skattkerfið og fjárfestingu er haldið niðri á öllum vígstöðvum.

Staða ríkissjóðs

Nýbirtar tölur um afkomu ríkisins á síðasta ári sýna, eins og tölurnar fyrir 2009, hversu skaðleg þessi stefna hefur verið. Þrátt fyrir síendurteknar skattahækkanir og ný gjöld hafa tekjur ríkisins lítið aukist. Á sama tíma reynist erfiðara fyrir heimili og fyrirtæki að standa undir útgjöldum og fjárfesting dregst enn saman.

Hallinn á rekstri ríkisins nam á síðasta ári 8 prósentum af landsframleiðslu. Til samanburðar var hallinn í Grikklandi 10,5%, Á Spáni, þar sem atvinnuleysi er vel yfir 20%, var hallinn 9,2% og 4,6% á Ítalínu. Sé litið til tekna ríkisins nam hallinn á ríkissjóði Íslands 26% af tekjum ríkisins.

Hver er staðan í raun?

Meira en 20 krónur af hverjum 100 krónum sem ríkið eyddi í fyrra voru teknar að láni og 14% af tekjum ríkisins fóru í vexti og afborganir. Þar með er ekki öll sagan sögð því að tekjurnar sem ríkið hefur áætlað á undanförnum árum hafa ekki allar skilað sér. Í svari við fyrirspurn minni til fjármálaráðherra um skatta í vanskilum kemur fram að við síðustu áramót námu skattar í vanskilum rúmum 127 milljörðum króna, þar af var hátt í helmingur vörsluskattar. Það hafði með öðrum orðum ekki tekist að innheimta skatta sem nema meira en fjórðungi af árstekjum ríkisins.

Hættuleg keðjuverkun

Flestir Íslendingar eru sammála um að ríki og sveitarfélög eigi að stefna að því að tryggja velferð allra landsmanna. Það þarf hins vegar verðmætasköpun til að standa undir þeim útgjöldum sem því fylgja. Skattahækkanir búa ekki til ný verðmæti. Í kreppu halda skattahækkanir verðmætasköpun niðri. Það á sérstaklega við stöðuna eins og hún er á Íslandi þar sem heimili og fyrirtæki nota stóran hluta tekna sinna til að standa undir afborgunum af lánum. Svigrúmið er því lítið. Auk þess valda skattahækkanirnar aukinni verðbólgu og verðtryggingin leiðir svo til þess að skattahækkanirnar auka enn á skuldabyrðina.

Við þetta bætist að fjárfesting er nú í sögulegu lágmarki á Íslandi. Hlutfallið þyrfti að hækka um helming bara til að halda í horfinu. Þrátt fyrir það standa stjórnvöld í vegi fyrir fjárfestingu og skapa sterka öfuga hvata og óvissu um skattkerfið, en fátt er betur til þess fallið að fæla frá fjárfesta.

Kjörlendi fjárfestingar

Eftir efnahagshrunið varð Ísland á margan hátt kjörlendi fjárfestingar. Gjaldmiðillinn er ódýr, laun afar samkeppnishæf, nægt laust vinnuafl, sterkir innviðir, fríverslunarsamningar við lönd um allan heim, næg umhverfisvæn orka (samanber áætlun Landsvirkjunar um umhverfisvæna orkuvinnslu) og auk þess er staðsetning landsins nú að verða kostur frekar en galli í framleiðslu á útflutningsvörum. Erlendir og innlendir fjárfestar komu snemma auga á þetta og margir töldu að Ísland yrði fyrsta landið til að vinna sig út úr kreppunni.

Kolröng efnahagsstefna og pólitísk óvissa hefur hins vegar valdið því að tvö og hálft ár hafa farið til spillis. Fjölmörg stór verkefni og þúsundir starfa eru enn í biðstöðu eða hafa verið slegin af vegna þess að stjórnvöld viðhalda varanlegri óvissu um lagasetningu, skattastefnu og orkuframleiðslu. Það segir þó sína sögu um þá möguleika sem eru til staðar að erlendir fjárfestar hafa að undanförnu keypt fasteignir á Íslandi vegna þess hvað gjaldmiðillinn er ódýr. Fáir þora hins vegar að fjárfesta í atvinnusköpun á meðan pólitísk óvissa og aðgerðaleysi er jafn mikið og raun ber vitni.

Viðsnúningurinn

Hægt er að snúa þróuninni við og það þarf að gerast hratt því að þegar fjármálakrísan hefst aftur fyrir alvöru í Evrópusambandslöndunum, og líklega í Bandaríkjunum, getur staða okkar orðið mjög erfið.

Leysa þarf úr skuldamálunum með almennum og skýrum reglum. Einfalda þarf skattkerfið og taka upp lagasetningu og skattkerfi sem hvetur til fjárfestingar og atvinnusköpunar. Hefja þarf umhverfisvæna orkusköpun.

Ef búið verður að ganga frá skuldamálunum og setja af stað stór fjárfestingaverkefni áður en evru- og ríkisskuldakrísan fer úr böndunum  verðum við í stakk búin til að sigla í gegnum fjárhagslegt óveður, annars stöndum við frammi fyrir mikilli hættu.

(Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. júlí 2011)