Þau gífurlegu umskipti sem urðu á efnahagslegri stöðu Íslands með aðgerðum ríkisstjórnar áranna 2013 til 2016 náðust ekki af sjálfum sér. Þar var beitt markvissum en óhefðbundnum aðgerðum sem mættu gríðarlega harðri mótspyrnu frá fólki sem var að verja hagsmuni sem voru álíka miklir og verðmæti allra fasteigna á Íslandi samanlagt. En við ruddum hindrununum úr vegi og tryggðum mesta og hraðasta efnahagslega viðsnúning nokkurs ríkis í seinni tíð. Á þeim árangri viljum við byggja, ljúka við endurskipulagningu fjármálakerfisins, leggja grunn að blómlegu mannlífi um land allt og fjárfesta í framtíðinni.
Samhengið
Efnahagslegur viðsnúningur Íslands er staðreynd. Ýmislegt hjálpaði til, meðal annars mikil fjölgun ferðamanna. Það vakti athygli nýverið þegar út kom skýrsla Deloitte sem sýndi að nettótekjur ríkisins af ferðamönnum á einu ári hefðu numið 28 millj- örðum króna (2015). Þarna er allt tekið með í reikninginn, allt frá eldsneytisgjöldum og virðisaukaskatti á vörur að gistináttaskatti. Þetta reyndist vera hærri upphæð en flestir höfðu gert sér í hugarlund og undirstrikaði gríðarlegt mikilvægi greinarinnar fyrir íslenska ríkið.
Nú er orðið ljóst að þær upphæðir sem við náðum að skila ríkinu með aðgerðum okkar gagnvart fjármálakerfinu munu jafngilda öllum þessum tekjum af ferðamönnum í nærri 30 ár.
Þá er ekki talið með það sem sparaðist með vörn okkar í Icesave-málunum og öðrum tilraunum til að láta íslenskan almenning sitja uppi með hundraða milljarða vaxtagreiðslur af ólögmætum kröfum. Í þessu samhengi hefur verið rætt um þúsund milljarða mun.
Það sem við gerðum og munum gera
Það sem við gerðum og munum gera: Árangurinn sem náðist var vegna að- gerða sem hefðbundnir stjórnmálamenn og íslenskir fjölmiðlar og álitsgjafar töldu óraunhæfar í kosningabaráttunni 2013. Flestir efuðust en við fylgdum okkar skýru sýn og stóðum við loforðin. Um leið lögðum við áherslu á festu og skynsemi við stjórn annarra mála. Afleiðingin var snaraukinn hagvöxtur, kaupmáttur og framlög til velferðarmála.
Hreina vinstristjórnin afhenti erlendum vogunarsjóðum bankana. Við endurheimtum þá fyrir íslenskan almenning. Svo tók við stjórn sem var langt komin með að missa Arion banka aftur í fang vogunarsjóð- anna. Við munum endurheimta bankann í annað sinn. Okkur finnst betri kostur að nýta umfram eigið fé bankans til að byggja nýjan Landspítala á Íslandi en að það fari í bónusa vogunarsjóðsstjóra í New York og London. Hlutabréf í bankanum verða svo afhent hinum raunverulegu eigendum þeirra, Íslendingum öllum, til jafns.
Við munum líka nýta það einstaka tækifæri sem árangurinn af vinnu undanfarinna ára hefur skilað til að endurskipuleggja fjármálakerfið og tryggja lægri vexti til framtíðar, standa við fyrirheitin gagnvart eldri borgurum og öðrum hópum sem hafa dregist aftur úr í kjörum og fjárfesta í framtíð- inni, ekki síst með verkefninu ÍSLAND ALLT.
Við höfum kynnt heildaráætlun um hvernig við ætlum að gera þetta og með stuðningi þínum munum við nú sem fyrr standa við það sem við lofum og klára verkið.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu á kjördag, 28. október 2017