Vandi Íslands er skuldavandi og skortur á atvinnusköpun (fjárfestingu). Það verður ekki leyst með endalausum skattahækkunum sem bæta jafnt og þétt á skuldabyrðina og halda niðri fjárfestingu.
Undanfarin 2 ár hafa sýnt að tilraunir til að leysa vanda ríkissjóðs fyrst og fremst með skattahækkunum hafa haft neikvæð áhrif. Hærri skattar hafa aukið á vandann en ekki skilað auknum tekjum. Það er með ólíkindum að stjórnvöld skuli láta sér detta í hug, við þessar aðstæður, að hækka skatt á matvæli úr 7% í yfir 20%.
Með því að hækka skatta á neysluvörur er verið að auka á skuldavandann og gefa til kynna að eingöngu verðtryggðar eignir verði varðar. Þar með verður staða almennings enn verri en nú er og heimilin verða ekki í aðstöðu til að halda uppi eðlilegri neyslu, fyrirtæki segja þá upp fólki frekar en að ráða nýtt og frumkvöðlar í atvinnusköpun halda að sér höndum, landflóttinn eykst og keðjuverkandi samdráttur heldur áfram.
Í þensluástandi geta skattahækkanir verið eðlilegar og jafnvel æskilegar. Í kreppu eru skattahækkanir, svo ekki sé minnst á viðvarandi óvissu og sífellt meiri kerfisflækjur, til þess fallnar að dýpka kreppuna. Tveggja ára reynsla ætti að vera nægur tími til að minna á lögmál sem hafa verið þekkt í alla vega 80 ár.
Eina leiðin úr vandanum er atvinnusköpun, aðhaldssemi og forgangsröðun í ríkisfjármálum og langtímaáætlanir sem taka mið af heildaráhrifum af útgjöldum, sparnaði og lagasetningu ríkisins. Það er ekki hægt að leysa vandann með endalausum skammtímareddingum þar sem ríkið nær sér í fjármagn til skamms tíma með aðgerðum sem skerða tekjur þess til lengri tíma litið, sker niður í útgjöldum sem valda þeim mun meiri kostnaði eða tekjutapi til lengri tíma litið og fjárfestir ekki á hagkvæman hátt.
Stjórnvöld þurfa að setja fram trúverðuga áætlun til 5 og 10 ára þar sem tekið er mið af heildaráhrifum og langtímaáhrifum í fjármálum ríkisins, lögum breytt þannig að þau hvetji til fjárfestingar og atvinnusköpunnar í stað samdráttar og ráðist er í samræmdar og markvissar aðgerðir til að taka á skuldavanda heimila og fyrirtækja.
Með því móti má sýna fram á að langtímahorfur séu góðar á Íslandi. Það er þó lykilatriði að stjórnvöld gefi fyrirheit um að staðið verði við áætlunina til að skapa stöðugleika í stað þess að viðhalda varanlegri óvissu. Viðvarandi og vaxandi óvissa er fóðrið sem kreppur nærast á.
Með langtíma-/heildaráætlun, skuldbindingu um að staðið verði við áætlunina, aðgerðum til atvinnusköpunar og aðgerðum í skuldamálum skapast aðstæður þar sem fyrirtæki þora að fjárfesta og ráða fólk, fólk sér framtíð í því að búa og starfa á Íslandi.
Tækifærin eru til staðar á Íslandi. Það sem vantar er trúverðug framtíðarsýn.