Vegið að heiðursmanni

Aðför spunaliðs Samfylkingarinnar að Ögmundi Jónassyni er forkastanleg.
Ögmundur hefur á löngum tíma unnið sér inn mikið traust og sannað að hann er heiðvirður stjórnmálamaður sem tekur hagsmuni almennings fram yfir eigin hag og stöðu. Eins og ég fjallaði um í síðasta pistli hefur Ögmundur þorað að segja það sem segja þurfti þegar aðrir gerðu það ekki og benda á sannleika sem aðrir sáu ekki eða vildu ekki sjá.

Ögmundur Jónasson talaði skýrt um skoðanir sínar á Icesave fyrir kosningar. Hann hafði kynnt sér málið gaumgæfilega og gert sér grein fyrir þeim gríðarlegu hættum sem því fylgdu fyrir þjóðarhag.

Sem ráðherra hefur Ögmundur kynnst vel því erfiða verkefni sem við stöndum frammi fyrir við að verja velferð og öryggi þjóðarinnar. Hann veit að það borgar sig frekar að taka á vandanum nú en að íslensk stjórnvöld standi frammi fyrir því að skera niður um a.m.k. 100 milljónir á hverjum einasta degi til framtíðar (vextirnir sem leggjast á Icesave hvað sem líður endurheimtum).

Í stað þess að loka augunum fyrir staðreyndum og reyna að þvinga í gegn niðurstöðu sem öllum má vera ljóst að er ótæk reynir Ögmundur að leita lausna. Hann hvetur til þess að reynt sé að ná þeirri víðtæku samstöðu sem þjóðin þarf á að halda við þessar aðstæður, að stjórnmálamenn finni leið til að standa saman, allir sem einn, að því að verja hagsmuni Íslendinga.

Þetta tækifæri til að mynda breiðfylkingu til varnar hagsmunum þjóðarinnar virðast Samfylkingin og lagsmenn hennar ekki vilja nýta. Í staðinn er enn hert á áróðrinum fyrir hönd erlendra ríkja og rakalausum hræðsluáróðri gagnvart íslensku þjóðinni. Loks er allt sett af stað við að draga upp þá mynd að líf ríkisstjórnarinnar sé undir Icesave-málinu komið og Ögmundur hafi það í hendi sér.  Því er hótað að Ögmundur verði að víkja frá sannfæringu sinni, ella felli hann stjórnina.

Ef sú er raunin, um hvað er þessi ríkisstjórn þá mynduð? Er hún ekki mynduð um að reyna að bæta hag almennings í landinu og verja velferð í samræmi við það sem Alþingi ákveður. Hvað segir það um viðhorf ríkisstjórnarinnar til Alþingis ef þingmenn eiga ekki neinn annan kost en að fylgja skilyrðislaust (eða með málamyndaskilyrðum) því sem framkvæmdavaldið fer fram á?

Stjórnarandstaðan hefur engan áhuga á að  nota Icesave-málið til að fella ríkisstjórnina. Ég hef þegar heitið stjórninni liðsinni ef Icesave fer ekki í gegn og það sama hafa fulltrúar hinna stjórnarandstöðuflokkana gert.  Stjórnin fellur ekki nema hún ákveði sjálf að hætta. Ég vona að hún sýni ekki þjóðinni og þinginu þá lítilsvirðingu að telja þingið þess ekki umkomið að taka þær ákvarðanir sem því er ætlað samkvæmt stjórnarskrá.

Samfylkingin mun auk þess aldrei slíta stjórnarsamstarfinu á meðan Evrópusambandsumsókn er í vinnslu. Samningsstaða Samfylkingarinnar gagnvart samstarfsflokknum er heldur ekki sérlega sterk. Falli þessi ríkisstjórn blasir engin annar kostur við en þjóðstjórn. Lang-líklegast er að sú stjórn yrði undir forsæti Steingríms J. Sigfússonar …nema að hann vildi það ekki og kysi að sökkvað með Icesave-skipinu. Ef sú yrði raunin á Vinstri hreyfingin grænt framboð þó mann sem hefur sýnt að hann getur tekið forystu um að ná samstöðu.