21. janúar bauðst Framsóknarflokkurinn til að verja minnihlutastjórn Vinstri-grænna og Samfylkingarinnar vantrausti ef með því mætti svara kröfu samfélagsins um kosningar og koma strax til móts við skuldsett heimili og bæta rekstrarskilyrði atvinnulífs.
„Strax” er hér lykilorð.
Í tilboðinu um að veita minnihlutavernd sagði:
„Þetta er háð því að kosningar fari fram eigi seinna en 25. apríl næstkomandi og að strax verði ráðist í aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili í landinu og bæta rekstrarskilyrði íslensks atvinnulífs. Í því felist meðal annars að mörkuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar. Jafnframt verði komið á stjórnlagaþingi sem semji nýja stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.”
Því var lýst yfir strax við myndun stjórnarinnar að okkur, mér og þingflokknum, og ráðgjöfum okkar þætti vanta mikið uppá trúverðugar aðgerðir til að koma til móts við skuldsett heimili og bæta rekstrarskilyrði atvinnulífs. Það varð þó úr að stjórninni var hleypt af stokkunum í trausti þess að strax yrði ráðin bót á lausnaskortinum. Það fylgdi sögunni að stjórnarflokkarnir hygðust þiggja tillögur af ráðgjöfum Framsóknar ef ekki þætti nóg að gert.
Áhersla var lögð á þröngt umboð stjórnarinnar sem var eingöngu mynduð um að ljúka afmörkuðum verkefnum sem ekki máttu bíða þær vikur sem óhjákvæmilega þyrftu að líða fram að kosningum. Bráðabirgðastjórn sem er mynduð í 80 daga, og er til-komin vegna kröfunnar um að Alþingi endurnýi umboð sitt áður en lengra er haldið, á varla að ráðast í mörg umdeild mál. Við það bætist sú staðreynd að það er eðli minnihlutastjórnar að hún þarf að semja við þingið til að koma málum í gegn. Það er því ljóst að stjórninni veitir ekki af að leggja áherslu á bráðaaðgerðir til bjargar heimilum og fyrirtækjum og undirbúa nýtt og betra fyrirkomulag stjórnmála með stjórnlagaþingi.
Tugþúsundir Íslendinga eru nú fullir örvæntingar vegna fjárhagsstöðu sinnar og eigið-fé íslenskra fyrirtækja er ýmist á þrotum eða við það að klárast. Á meðan ver ríkisstjórnin tímanum í hin ýmsu mál sem ekki voru innan þess umboðs sem áhersla var lögð á við myndun stjórnarinnar.
Við þessar aðstæður kynnti Framsóknarflokkurinn tillögur í efnahagsmálum í samræmi við fyrirvara við myndun stjórnarinnar.
Um var að ræða u.þ.b. 20 tillögur til að bregðast við því efnahagslega neyðarástandi sem þjóðin er í. Þetta voru ekki kosningatillögur flokksins heldur lausnir sem fjöldi sérfræðinga taldi æskilegastar. Fæstir þeirra eru flokksmenn enda er það stefna okkar að leita til færustu manna á hverju sviði í stað þess að einskorða ráðgjöf við flokkinn.
Sú tillaga sem mesta athygli vakti var tillagan um 20% skuldaafskrift.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sló tillöguna útaf borðinu með þeim orðum að hún mundi setja Íbúðalánasjóð á hausinn og kosta 400-500 milljarða króna. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra bætti svo um betur og giskaði á að tillagan mundi kosta 1.200 milljarða. Hvorugt þeirra skildi tillöguna eða hafði haft fyrir því að kynna sér efni hennar. Það verður þó að virða þeim það til vorkunnar að þau voru upptekin við annað mál sem átt hug þeirra allan.
Reyndar hafa fleiri verið reiðubúnir til að gagnrýna tillöguna án þess að kynna sér út á hvað hún gengur, þar með talið tveir eða þrír hagfræðingar. Viðbrögð hagfræðingana skil ég reyndar ágætlega enda bregðast þeir við á sama hátt og ég gerði fyrst þegar afskriftaleiðin var kynnt fyrir mér sem eina raunhæfa lausnin. Það tók mig 10 mínútur að átta mig á eðli málsins. Vonandi geta aðrir gefið sér 10 mínútur til að setja sig inní hluti sem varða afkomu þjóðarinnar allrar.
20% tillöguna og aðrar munum ég og fleiri skýra nánar á næstu dögum til að leiðrétta allan misskilning. Það má þó byrja á að benda á fáránleika þess að þegar bankarnir afskrifa 6.000.000.000.000 kr. (sex milljón milljónir króna) skuli ríkið áfram ætla að rukka skuldarana sem afskrifað var hjá upp í topp. Þ.e. að undanskyldum þeim sem fara alveg á hausinn. -Jú, svo eiga víst sérskipaðir ríkisfulltrúar að meta hverjir eigi að fá afskrift og hversu mikla og hverjir ekki.
Það er annars ekkert að því að tillögur séu ræddar og gagnrýndar. Vandamálið er þegar stjórnmálamenn slá tillögur út af borðinu án þess að kynna sér þær og án þess að bjóða uppá lausnir. Enginn hafði fyrir því að spurja Jónhönnu eða Steingrím hverjar tillögur þeirra væru. Pólitíkin hefur verið mjög fær um að rífa niður hugmyndir og tillögur. Það hefur hins vegar vantað mikið uppá faglega umræðu og lausnir.
Efnahagsleg framtíð þjóðarinnar og samfélagið sjálft eru í hættu. Sú hætta magnast dag frá degi og er skammt frá því að verða óbærileg. Við svo óvenjulegar aðstæður duga ekki venjulegar lausnir. Það verður engin lausn auðveld eða gallalaus. Allar munu þær kalla á áræðni og þor. Við þessar aðstæður þarf stjórnvöld sem þora að taka umdeildar ákvarðanir.
Nú þarf þessi ríkisstjórn að fara að taka sér tak og skila því sem henni var ætlað og hún var mynduð um. Geri hún það ekki er hún ekki bara að bregðast almenningi heldur hættir hún á að fyrir kosningar gleymist sú hætta sem stafar af efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins.
Hver af skilyrðunum fyrir tilvist sinni hefur ríkisstjórnin uppfyllt? Hún hefur dregið lappirnar í stjórnlagaþingsmálinu, hún hefur ekki komið með lausnir til að bregðast við vanda heimilana og atvinnulífs og nú hefur komið í ljós að kjördagurinn hefur ekki einu sinni verið kynntur formlega.
Nú ætti þingið að ákveða að þingrof fari fram 12. mars í samræmi við ákvörðun um að kosningar verði haldnar 25. apríl og sammælast um að fram að þeim degi verði tíminn nýttur til að gera ráðstafanir svo að efnahagslíf þjóðarinnar verði ekki rjúkandi rúst þegar nýtt þing tekur til starfa.
Tölum í lausnum, ekki vandamálum.