Á undanförnum árum hefur mannfjöldi á Íslandi aukist hraðar en nokkru sinni áður í sögu landsins. Íslendingum hefur þó lítið fjölgað, raunar allt of lítið. Viðbótin hefur fyrst og fremst orðið með flutningi erlendra ríkisborgara til landsins.
Þessu hefur fylgt gríðarlegt aukið álag á innviði landsins á skömmum tíma. Hvort sem litið er til heilbrigðiskerfisins, menntamála, löggæslu, húsnæðismarkaðar eða ótal annarra þátta hefur mikilvægasta þjónusta samfélagsins orðið fyrir gríðarlegu raski. Þótt beinn árlegur kostnaður við utanumhald hælisleitendakerfisins nemi hátt í 30 milljörðum króna er kostnaðurinn sem fylgir svo miklu auknu álagi á lítið samfélag miklu meiri.
Þá eru ekki talin langtímaáhrifin af því ef samfélag sundrast og glatar því sem sameinar það. Slíkt tjón er ómælanlegt í peningum og verður aldrei bætt.
Hraðar breytingar
Allt er þetta sérstakt áhyggjuefni og krefst mikillar varfærni þegar þjóðin sem á í hlut er agnarsmá. Þá geta stórar breytingar gerst mjög hratt. Á örfáum síðastliðnum árum meira en tvöfaldaðist fjöldi og hlutfall innflytjenda í landinu (þá eru íslenskir ríkisborgarar af erlendum uppruna ekki meðtaldir). Skyndilega er hlutfallið hér orðið það sama og í Svíþjóð.
Á árstímabili frá 2022-2023 fjölgaði erlendum ríkisborgurum í landinu um 15,6 fyrir hvern einn Íslending sem bættist við. Miðað við þá þróun hefðu Íslendingar lent í minnihluta í landinu á u.þ.b. 15 árum. Á árinu sem nú er að líða verður straumurinn sá þriðji mesti í sögunni. Sé miðað við það bætist dálítill tími við en niðurstaðan verður sú sama.
Sömu stjórnvöld og hafa fylgst með þróuninni nánast aðgerðalaus og stundum ýtt undir hana halda því nú fram að þetta sé ekki lengur áhyggjuefni því talsverð fækkun hafi orðið milli ára. Það að halda slíku fram ber fyrst og fremst vott um hversu blindir menn eru orðnir á ástandið. Land sem áratugum saman tók á móti að meðaltali 24 flóttamönnum á ári og vildi gera það vel þolir ekki mörg hundruð, hvað þá þúsundir árlega.
Hver var breytingin?
Sú fækkun sem varð kom fyrst og fremst til af því að úrskurðarnefnd útlendingamála breytti niðurstöðu sinni varðandi Venesúela. Lögin eru þó óbreytt og hvenær sem er gæti verið tekin ákvörðun um að allir sem koma frá tilteknum löndum (sem mörg eru ekki síður illa stödd en mun fjölmennari en Venesúela) eigi rétt á hæli á Íslandi.
Einnig hafði það mikil áhrif að lögreglustjórinn á Suðurnesjum ákvað að eigin frumkvæði að grípa í taumana og hefja brottvísanir á landamærunum. Það sem af er ári hafði 724 verið brottvísað við landamærin síðast þegar tölur birtust. En nú hefur það spurst hratt út að ef þeir sem eru stöðvaðir biðja um hæli fara þeir inn í óhemju þungt og dýrt hælisleitendakerfi með allri þeirri þjónustu, aðstoð og áfrýjunarúrræðum sem hið óraunhæfa íslenska kerfi býður upp á.
Vissulega eru ekki allir sem sótt hafa um landvist hælisleitendur. Hlutfallið er þó miklu hærra en ranglega hefur verið haldið fram í stjórnmálaumræðu að undanförnu. Árið 2022 fjölgaði íbúum landsins um 8.670. Það ár sóttu 4.520 um hæli á Íslandi. Árið 2023 fjölgaði um 6.790. Það ár voru hælisumsækjendur 4.164.
Hverjir koma?
Evrópulögreglan áætlar að a.m.k. 95% þeirra sem koma til álfunnar í leit að hæli geri það á vegum glæpasamtaka sem smygla fólki til álfunnar. Það fólk hefur yfirleitt greitt háar upphæðir (oft um 10.000 evrur) eða sett sig í skuld við smyglarana til að kaupa væntingar um betra líf í nýju landi.
Ísland er orðið söluvara glæpagengja. Á sama tíma og önnur norræn lönd hafa keppst við að verða síður aðlaðandi kostur fyrir þá sem skipuleggja fólksflutninga hefur Ísland farið í þveröfuga átt. Enda hlutfall umsókna orðið langmest hér á landi. Ekki alls fyrir löngu komu fleiri einstaklingar til Íslands að sækja um hæli en til Danmerkur.
Þetta er ótrúleg breyting frá því sem var fyrir fáeinum árum þegar það heyrði til undantekninga að fólk kæmi alla leið til Íslands til að sækja um hæli. Nú er fólk hins vegar farið að leita til Íslands jafnvel eftir að hafa fengið hæli í öðrum löndum.
Á meðan önnur Evrópulönd víkja frá viðmiðum Schengen-samningsins til að verja landamæri sín og hafa stjórn á því hverjir koma til landsins virðast íslensk stjórnvöld hikandi við að gera slíkt hið sama þótt aðstæður og tilefni til þess séu hvergi meiri.
Afleiðingarnar
Allt gerir þetta okkur ókleift að vernda velferðarkerfið og samfélagið og láta það virka sem skyldi. En það gerir okkur líka ókleift að nýta þau úrræði sem við höfum til að hjálpa margfalt fleirum og þá fyrst og fremst þeim sem eru í mestri neyð. Það gerum við aðeins með því að hafa stjórn á því hverjum boðið er til landsins. Þannig getum við líka aukið aðstoð á nærsvæðunum þar sem hjálpa má allt að hundraðfalt fleirum fyrir sama fjármagn og fer í móttöku hér.
Meðal þeirra sem hafa gert sér grein fyrir þessu eru jafnaðarmenn í Danmörku. Eftir 40 ár af mistökum gerði flokkurinn sér grein fyrir því að reynslan kallaði á gjörbreytta stefnu. Ólíkt öðrum flokkum á Íslandi hefur Miðflokkurinn lært af reynslu nágrannaþjóðanna og ekki hvað síst stefnu dönsku kratanna.
Stefnan
Enginn ætti að mæta til Íslands til að sækja um hæli. Geri menn það skal þeim strax vísað aftur til þeirra öruggu landa sem þeir komu í gegnum. Ólíkt mörgum Evrópuþjóðum höfum við litla þörf fyrir að senda fólk í móttökustöðvar utan álfunnar. Enginn kemur til Íslands öðruvísi en að hafa farið í gegnum önnur örugg lönd og því beitum við einfaldlega rétti okkar gagnvart m.a. Dyflinnarsáttmálanum og mannréttindasáttmála Evrópu.
Flugfélög skulu skila farþegalistum í samræmi við lög og reglur, ella fljúga þau ekki til Íslands.
Þeir sem „týna“ skilríkjum á leiðinni skulu fara strax til baka með næsta flugi á ábyrgð flugfélagsins.
Þetta eitt og sér fer langleiðina með að leysa vandann og gera okkur kleift að ná stjórn en fleira þarf þá að fylgja og enn er litið til dönsku kratanna:
Þeir sem vilja verða hluti af samfélaginu þurfa að sýna vilja til að aðlagast. Fremji þeir alvarleg brot eða brjóti ítrekað af sér skal þeim vísað úr landi.
Fullur aðgangur að velferðarkerfinu fæst ekki nema með a.m.k. sömu kvöðum og lagðar hafa verið á Íslendinga sem búið hafa lengi erlendis og flytja heim.
Þeir sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt þurfa að sýna fram á grunnþekkingu á íslenskri tungu og samfélaginu.
Nú er ögurstund
Miðflokkurinn hefur lengi bent á í hvað stefndi og oft fengið bágt fyrir. Oftar en ekki var reynt að þagga niður umræðuna með því að kasta fram verstu stimplum sem hægt var að finna til að hræða fólk frá umræðunni. Við létum það ekki stoppa okkur því við erum ekki í þessu til að elta tíðarandann heldur til að berjast fyrir því sem við trúum að sé rétt.
Aðrir flokkar hafa að undanförnu þóst hafa öðlast meðvitund um ástandið þótt þeir virðist nú smeykir við að ræða málið af nokkurri alvöru í kosningabaráttunni.
Hvort sem fólki líkar það betur eða verr þarf að leiða þessi mál til lykta í komandi kosningum. Þessu verður ekki skotið á frest því áframhaldandi mistök á þessu sviði verða aldrei tekin aftur. 1150 ára saga og öll framtíð þessa litla samfélags er undir.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20.11.2024