Í viðtali sem birtist við mig á Eyjunni fyrir nokkrum dögum lét ég þess getið að staða og horfur í ríkisfjármálum væru verri en haldið hefði verið fram í aðdraganda kosninga. Í fréttinni sagði:
„Að óbreyttu er útlitið miklu verra en haldið var fram í aðdraganda kosninga. Í því felst þó fyrst og fremst áminning um mikilvægi þess að ný ríkisstjórn breyti stefnunni í efnahagsmálum og skapi aðstæður til að verðmætasköpun geti aukist og þar með tekjur ríkisins. Næsta ríkisstjórn mun þurfa að takast á við gríðarstór úrlausnarefni en sem betur fer eru tækifærin líka gríðarlega mikil.“
Hann harðneitar því þó að þessar nýju upplýsingar leiði til þess að hann ætli að draga í land með loforð um leiðréttingar fyrir skuldsett heimili í landinu.
„Nei, nýjar upplýsingar um stöðu ríkisfjármála hafa ekki áhrif á stefnu okkar í skuldamálunum enda eru þær til þess fallnar að bæta stöðu þjóðarbúsins með því að bæta stöðu heimilanna,“ svarar hann.
Allir fyrrverandi og fráfarandi fjármálaráðherrar síðasta kjörtímabils hafa að undanförnu brugðist við þessu á mjög undarlegan hátt.
Eins og flestir muna hamraði fráfarandi ríkisstjórn á því fyrir kosningar að tekist hefði að koma ríkisfjármálunum í lag, eyða fjárlagahallanum og svo framvegis. Skömmu fyrir kosningar var t.d. boðuð stórsókn í velferðarmálum vegna þess hversu góð staðan væri orðin í ríkisfjármálum. Nú segja hinir sömu að það eigi ekki að koma neinum á óvart að staðan sé slæm.
Reyndar kom það ekki á óvart, ég og margir aðrir höfum bent á það alveg frá því að fjárlagafrumvarp ársins 2013 var lagt fram að það stæðist ekki. Nú hefur verið staðfest að hvorki fjárlagafrumvarpið né áætlun til næstu ára stenst ef litið er til fyrirsjáanlegra tekna og útgjalda, langt frá því.
Enginn fjármálaráðherranna fyrrverandi virðist hafa haft fyrir því að lesa viðtalið við mig áður en þeir fóru að bölsótast yfir því. Þeir endurtaka hver um annan þveran að það sem ég hafi sagt um horfurnar í ríkisfármálum hljóti að snúast um að til standi að hverfa frá þeirri stefnu sem boðuð var fyrir kosningar. Þó sagði ég í fyrrgreindu viðtali og mörgum viðtölum eftir það að staðan og horfurnar séu þvert á móti áminning um mikilvægi þess að standa við fyrirheitin og breyta stefnu stjórnvalda. Augljóst er að dagsskipunin í hópi fráfarandi ráðherra er sú að byrja strax að halda því fram að ekki verði staðið við kosningastefnu Framsóknar sama hvað líður raunveruleikanum.
Furðulegast var þó viðtal við lektor við Háskólann í Reykjavík sem var fenginn til að segja frá því í fréttum að staða ríkissjóðs ætti ekki að koma mér á óvart enda kæmi hún fram í fjárlögum.
Semsagt: Þegar fjárlögin voru lögð fram gagnrýndu ég og fleiri að þau gæfu ekki rétta mynd. Síðan kemur í ljós að sú var raunin og ekki bara það heldur standist spá um þróun næstu ára (sem var birt samhliða fjárlögum) engan veginn. Þá er svarið að fá lektor til að segja að staða ríkisins eigi ekki að koma mér á óvart enda komi hún fram í fjárlögum!
Þetta er einfalt mál. Ríkisstjórnin lagði fram fjárlög sem ekki munu standast. Það hefur verið ljóst frá upphafi. Ríkisstjórnin lagði líka fram áætlun um þróun ríkisfjármála til ársins 2016 þar sem gert var ráð fyrir talsverðum afgangi af rekstri ríkisins frá árinu 2014. Steingrímur J. Sigfússon vísaði í þessa áætlun í viðtali fyrir nokkrum dögum. Sú áætlun stenst engan vegin ef litið er til þróunar tekna og þeirra útgjalda sem fráfarandi ríkisstjórn hefur þegar lögfest eða gefið fyrirheit um. Með öðrum orðum þeirra eigin spá tók ekki mið af þeirra eigin útgjöldum.
Ég hvet fjármálaráðuneytið til að birta fyrirliggjandi upplýsingar um stöðu ríkisfjármála og hvernig þau muni þróast að óbreyttu. Það góða við að gera sér grein fyrir stöðunni er að þá er hægt að gera ráðstafanir til að bæta horfurnar með breyttri stefnu og nýtingu sóknarfæra. Það styttist í það.