Það er sláandi að sjá þróun skipulagsmála og framkvæmda í miðborg Reykjavíkur þessa dagana. Líklega hefur gamli bærinn í Reykjavík ekki staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og nú frá því fyrir deiluna um Bernhöftstorfuna fyrir hátt í hálfri öld.
Iðnaðarbankahúsið við Lækjargötu hefur í hugum margra verið nokkurs konar tákn um hugarfarið sem ríkti í skipulagsmálum hér á landi og víðar á fyrstu áratugunum eftir seinni heimsstyrjöld. Á því tímabili skorti ekki aðeins virðingu fyrir sögulegri byggð og sígildum arkitektúr heldur mætti slík byggð oft hreinum fjandskap og niðurlægingu. Svo kölluð fagurfræði, árþúsundagömul fræði í byggingarlist, varð bannorð og allt sem var lítið og gamalt átti að víkja fyrir hinu nýja og stóra.
Iðnaðarbankahúsið hefði hentað ágætlega sem skrifstofubygging við Ármúla en húsið gerir lítið til að styrkja heildarmynd gamla miðbæjarins. Um áratuga skeið höfðu margir velt því fyrir sér hvort ekki mætti gera eitthvað í málinu, það væri mikið til þess vinnandi að laga horn Lækjargötu og Vonarstrætis, hornið sem blasir við þegar fólk nálgast Kvosina frá Tjörninni.
Fyrir fáeinum árum var svo skipulagi reitsins breytt svo að hægt yrði að fjarlægja Iðnaðarbankahúsið og reisa í staðinn nýbyggingar sem féllu betur að umhverfinu eða væru jafnvel til þess fallnar að styrkja það. Til þess að stuðla að slíkri framkvæmd var byggingarmagn reitsins tvöfaldað, hvorki meira né minna, og leyft niðurrif gömlu brjóstsykursverksmiðjunnar sem átti að fá að standa samkvæmt gamla skipulaginu. Með því varð byggingarmagn reitsins meira en æskilegt hefði verið en það var talið þolanlegt svo hægt yrði að losna við bankakassann.
Ég og fleiri vorum reyndar þeirrar skoðunar að það gæfi augaleið að byggja fallegt turnhús sem færi vel við hlið Iðnaðarmannahússins (turnhússins á horninu). T.d. mætti endurreisa Hótel Ísland eða Uppsali á lóðinni eða byggja fallegt steinhús sem félli vel að öllum nálægum byggingum.
Þegar svo birtust teikningar af áformaðri nýbyggingu reyndust þær hrópandi dæmi um þá uggvænlegu þróun sem orðið hefur í skipulagsmálum borgarinnar á síðustu misserum. Gamla minnismerkið um skipulagshugmyndir eftirstríðsáranna átti að víkja fyrir enn stærri áminningu um að nú, árið 2015 væri ástandið allt í einu orðið verra en árið 1960. Það gerist eftir að við höfum öðlast meira en hálfrar aldar reynslu til að læra af og séð hvernig óheft sókn í fermetra og fjármagn getur farið með borgir.
Hinn endinn
Mörgum mun eflaust bregða í brún þegar þeir kynna sér byggingaráform við hinn enda Lækjargötunnar. Þar sem áður stóð aðlaðandi byggð fjölbreytilegra timburhúsa, sem tengdu Kvosina við sjóinn, stendur nú til að byggja gríðarstór skrifstofu- og verslunarhús sem gína munu yfir gamla bænum og leysa Esjuna af sem bakgrunnur miðborgarinnar.
Aftur til ´62
En stórbyggingaáformin eru ekki bundin við óbyggðar lóðir. Um allan miðbæ eru nú uppi áform, eða framkvæmdir hafnar við stórbyggingar í anda sjöunda áratugarins. Megin munurinn er sá að áformin eru nú töluvert stórkarlalegri.
Aðalskipulagið frá 1962 varð alræmt. Á grundvelli þess voru sum af fegurstu húsum bæjarins brotin niður. Sums staðar risu stórhýsi en annars staðar stóðu lóðir auðar áratugum saman.
Síldin hvarf og það dró úr framkvæmdum. Smám saman breyttust viðhorfin til hins betra þótt það gerðist hægar en í flestum löndum Evrópu. En í byrjun þessarar aldar var svo skipulag miðbæjarins endurskoðað á nýjan leik og með því var horfið fjörtíu ár aftur í tímann, aftur til 1962.
Áformin kynntu þensluna og „byggingarréttur“ gekk kaupum og sölu þar sem stöðugt var leitast við að auka byggingarmagnið þar til farið var að gera ráð fyrir hreint ótrúlegum framkvæmdum víða í gamla miðbænum. Gríðarstór og framúrstefnuleg hús áttu að ryðja gamalli byggð úr vegi. Hvergi tók efnahagsbólan á sig áþreifanlegri mynd en í skipulagsáformum í Reykjavík.
Áherslubreytingin í skipulagsmálum miðbæjarins vakti viðbrögð og umræðu um skipulagsmál og eftir efnahagslegar vendingar á árinu 2008 var horfið frá hinum miklu áformum…að sinni. Um tíma virtist vora á ný í skipulagsmálum á Íslandi. Virðing fyrir vernd og hófsemi, í bland við minni þrýstingi frá fjármagni í leit að fermetrum, veitti tækifæri til að skoða hlutina upp á nýtt. Möguleiki gafst á að vinda ofan af vitleysunni á meðan lóðir voru lágt metnar.
Sá möguleiki var ekki nýttur og nú blasir við að vorið breyttist skyndilega í ótíð. Ástæðan fyrir því að gamla byggðin í Reykjavík hefur líklega aldrei staðið frammi fyrir jafnmikilli ógn og nú er sú staðreynd að nú fara saman skeytingarleysi, stundum jafnvel andúð á því litla og gamla, og blind dýrkun á hinu nýja og stóra á sama tíma og ekki skortir fjármagn til að raungera það viðhorf. Allt er svo rökstutt með gömlum öfugmælum á borð við „borgir mega ekki staðna“ eða að miðbærinn megi ekki vera einhvers konar Disneyland.
Hættulegir hvatar
Allt það versta við skipulagsnálgun eftirstríðsáranna skýtur nú upp kollinum á ný. Eitt af því er sá neikvæði hvati sem skipulagið og framkvæmd þess fela í sér. Skilaboðin eru þessi: Eigendur gamalla húsa sem fjárfesta í húsunum sínum og gera þau fallega upp með ærnum tilkostnaði, fá ekkert fyrir það. En eigendur húsa sem láta þau drabbast niður og eyðileggjast geta vænst þess að fá leyfi til að rífa þau og byggja ný og stærri hús í staðinn. Því stærra sem húsið er, og því ódýrara, þeim mun meiri verður hagnaðurinn. Þess vegna eru kríaðir út eins margir fermetrar og mögulegt er og þar sem fæst leyfi fyrir nýbyggingum er iðulega öll lóðin grafin út og stundum jafnvel grafið undan garði nágrannans (eins og dæmi eru um). Svo er byggt alveg að lóðarmörkunum.
Afleiðingin er sú að sá sem fjárfesti í að fegra húsið sitt ber ekki aðeins kostnaðinn á meðan nágranninn hagnast á að rífa sitt hús, hann lendir auk þess í að umhverfisgæði hans eru skert og verðmæti eignarinnar rýrnar. Honum er með öðrum orðum refsað. Þetta er ákaflega hættulegt hvatakerfi sem hefur leikið margar borgir grátt og setur mark sitt á miðborg Reykjavíkur þessa dagana.
Sérstaða Reykjavíkur
Sívaxandi fjöldi ferðamanna kemur til Íslands ár frá ári og ekki hvað síst til Reykjavíkur. Flestir þessara ferðamanna koma hingað vegna þess að landið hefur sérstöðu, hér sjá þeir og upplifa eitthvað sem þeir upplifa ekki heima hjá sér. Það sama á við um borgina. Það er margt áhugavert við Reykjavík en það sem ferðamenn skoða yfirleitt helst er það sama og einkennir borgir umfram annað, þ.e. hin sögulega gamla byggð.
Nú er víða verið að byggja ný stórhýsi á Íslandi. Þau eru misvel hönnuð eins og gengur en flest eru þau þess eðlis að þau gætu verið byggð nánast hvar sem er í heiminum. Módernismi í arkitektúr er enda jöfnum höndum kallaður „internasionalismi“ (e. International Style) á mörgum tungumálum. Ástæðan er sú að söguleg eða svæðisbundin einkenni eiga ekki við.
Við getum ekki keppt við Dubai eða Shanghai eða bara Hannover og Lyon, eða hvaða meðalstóra borg sem er, í því að byggja hús samkvæmt nýjustu tísku úr gleri og stáli. Sérstaða okkar liggur í hinu sögulega og oftar en ekki smáa. Lítil hús geta verið merkilegri en þau stóru einmitt vegna þess að þau eru lítil.
Við munum að sjálfsögðu áfram byggja hús samkvæmt tísku hvers tíma, hér eins og annars staðar, en það eru ekki þau sem gera okkur sérstök. Þau koma okkur ekki á kortið. Það gerir byggðin sem er sérstæð og öðruvísi en annars staðar. Enda leggja menn víða mikið upp úr því að passa upp á menningararfinn, það sem gerir staði sérstaka.
Við Íslendingar eigum lægsta hlutfall allra Evrópuþjóða af sögulegri byggð. Auk þess erum við ein fámennasta þjóð Evrópu svo að við eigum ekki mikið af sérstæðum byggingum í samanburði við önnur lönd. Það er því sorgleg staðreynd að við höfum lengst af staðið nágrannaþjóðunum að baki hvað varðar vernd sögulegrar byggðar.
Sérkenni Reykjavíkur eru lítil hús, oft bárujárnsklædd, og rýmið milli húsanna. Þ.e. auk húsanna sjálfra eru það bakgarðarnir og það hvernig húsum er raðað á milli gatna sem gefa gamla bænum í Reykjavík sinn sérstaka og aðlaðandi blæ. En þessu er nú markvisst verið að eyða. Það er eins og að hvar sem finnst bil milli húsa vilji menn fylla í það og auka nýtingarhlutfallið. Byggja alveg út að lóðarmörkum og sem mest upp í loft þ.a. ef allir gerðu slíkt hið sama myndi byggðin samanstanda af samfelldum steypuklumpum sem næðu frá einni götu til annarrar.
Mikilvægi stefnunnar
Þetta er ógnvænleg þróun og hún á sér stað fyrir augum okkar í miðbæ Reykjavíkur. Að vísu er rétt að geta þess að eitt og annað hefur tekist vel á undanförnum árum en það er þá ýmist vegna þess að menn voru látnir standa frammi fyrir því að þannig ættu þeir að gera hlutina (stefnan myndaði jákvæða hvata) eða vegna þess að fjárfestarnir höfðu sjálfir nægan metnað til að sýna umhverfinu virðingu og leggja til þess í stað þess að rýra það.
Meðal dæma um það sem vel hefur tekist er endurbygging eftir brunann á horni Lækjargötu og Austurstrætis. Þótt það sé synd hvernig farið var með svokallaðan Hljómalindarreit, þar sem byggð margra fallegra timburhúsa og einn elsti steinbær landsins voru rifin, er ekki hægt að kvarta undan því hvernig framhliðar sumra húsanna hafa verið gerðar upp. Það er til fyrirmyndar. Einnig er til fyrirmyndar að til standi að endurgera tvö hús við Tryggvagötu og endurheimta turninn á Fiskhöllinni, þótt það sé synd ef menn telja nauðsynlegt að rífa húsin sem enn standa.
Áfram verða langflestar byggingar á Íslandi hannaðar í samtímastíl (módernisma). Það er hins vegar fráleitt að halda því fram að ekki megi byggja í hefðbundnum stíl þar sem það á við, t.d. til að styrkja heildarmyndina. Allt er þetta spurning um samhengi. Það væri jafnfráleitt að byggja bárujárnsklætt turnhús í Ármúla eins og það er að byggja gráa kassabyggingu í gamla bænum.
Það er hlutverk borgaryfirvalda að leggja línurnar í skipulagsmálum á þann hátt að það skapi jákvæða hvata en ekki neikvæða, ýti undir fegrun umhverfisins og vernd menningararfsins, þess sem tengir okkur við sögu borgarinnar og gerir gamla bæinn að sérstæðum og aðlaðandi stað. Yfirvöld þurfa að gæta jafnræðis og umfram allt forðast að menn séu verðlaunaðir fyrir að ganga á umhverfisgæði nágrannans en refsað fyrir að leggja til umhverfisins.
Ef borgaryfirvöld vanrækja það hlutverk þarf þar til gerð stofnun að grípa inn í á sama hátt og fjármálaeftirlitið á að passa upp á að menn fari ekki út af sporinu á fjármálamarkaði og heilbrigðiseftirlit fylgist með því að matur og umhverfi séu ekki hættuleg.
Fornleifar sem fundust á lóðinni við hlið Iðnaðarbankahússins verða friðaðar sem og hafnargarðurinn við hinn enda Lækjargötunnar. Það er mikilvægt að menn noti tækifærið sem í því felst til að skoða hvernig byggingaráform á þessum stöðum geta bætt umhverfið og aukið verðmæti þess.
Það má þó ljóst vera að áfram verður mikil þörf fyrir að þar til gerð stjórnvöld gæti þess að þau miklu verðmæti sem liggja í sögulegri byggð glatist ekki.