Virðulegi forseti, góðir Íslendingar.
Bjartsýni, kjarkur og þor eru forsendur framfara og árangurs. Fátt sýnir það betur en saga íslensku þjóðarinnar.
Það er ekki langt síðan Íslendingar bjuggu við þröngan kost. En þrátt fyrir það var þjóðin stórhuga og horfði til framfara og uppbyggingar.
Sjálfstæðisbaráttan snerist um framfarir, um það hvernig hægt væri að sækja fram með heill þjóðarinnar að leiðarljósi og byggja upp á grundvelli nýrra og skynsamlegra hugmynda í þágu allra íbúa landsins.
Drifkrafturinn var trúin á að Ísland hefði að geyma vannýtt tækifæri, ótalin verðmæti, sem gætu bætt lífskjör fólks og byggt upp innviði samfélagsins.
Baráttan snerist um að Íslendingar fengju frelsi til að nýta þessi tækifæri og virkja þann ómælda kraft sem blundaði með þjóðinni.
Þegar heimskreppan skall á var Ísland nýlega orðið fullvalda ríki. Hér ríkti andi framfara og sannfæringar um tækifærin sem væri að finna á Íslandi. Menn brugðust því við kreppunni með því að sækja fram.
Samgöngur voru stórefldar og brýr sameinuðu aðskilda landshluta, hafnarmannvirki voru bætt og vitar byggðir.
Skip og önnur atvinnutæki voru keypt og smíðuð hér heima, byggingaframkvæmdir veittu fólki atvinnu, verksmiðjur voru reistar og innlend framleiðsla varð betri og fjölbreyttari en áður hafði þekkst.
Menntun þjóðarinnar var stórefld með byggingu héraðsskóla og barnaskóla um land allt, Landsspítalinn tók til starfa og sjúkrahús risu á landsbyggðinni. Þjóðleikhús var byggt, ríkisútvarp stofnað og Þingvellir gerðir að þjóðgarði.
Allt þetta tókust Íslendingar á hendur á krepputímum, þrátt fyrir erfiðleika líðandi stundar, því að þeir skildu mikilvægi þess að horfa til framtíðar og nýta þau tækifæri sem fyrir hendi voru.
Framfarir koma ekki af sjálfum sér.
Framfarir verða vegna þess að fólk horfir markvisst til framtíðar, leitar skynsamlegra lausna með samvinnu og rökræðu, tekst á við erfið úrlausnarefni í sameiningu og vinnur á þeim bug.
Þar er hlutverk stjórnvalda að varða leiðina til árangurs. Framfarir og bætt lífskjör á Íslandi hafa ætíð byggst á samvinnu og samheldni og við verðum að halda áfram að leysa helstu verkefni þjóðfélagsins af hendi í sameiningu, með óbilandi trú á þjóðina og sóknarfæri okkar í fyrirrúmi.
Framfarir byggja á því að í sameiningu vinnum við að því að nýta auðlindirnar og tækifærin á skynsamlegan hátt, virkja þekkinguna og mannauðinn til að byggja upp samfélag velferðar, atvinnu og réttlætis.
Samfélag þar sem enginn á að þurfa að líða skort.
Það hefur verið ánægjulegt að heyra forystumenn stjórnarandstöðuflokka tala um mikilvægi breyttra vinnubragða í stjórnmálum og tækifærin sem felast í samvinnu.
Þótt hart hafi verið tekist á um úrlausnir í skuldamálum heimilanna í kosningabaráttunni hafa nokkrir af forystumönnum stjórnarandstöðuflokkanna lýst sig viljuga til að greiða fyrir því að þær lausnir sem ríkisstjórnin hefur boðað nái- fram – að ganga.
Bent er á að það sé eðlileg afleiðing af niðurstöðu kosninganna og að hin nýja stjórnarandstaða muni ekki standa í vegi fyrir því að sú stefna nái fram að ganga, þvert á móti, hún muni greiða götu ríkisstjórnarinnar í þessu efni.
Það er ástæða til að fagna þessu viðhorfi og nýta sumarþingið til að setja strax af stað vinnu við lausn þeirra stóru mála sem settu svip sinn á kosningabaráttuna.
Þótt sumarþing standi ekki lengi og sé fyrst og fremst til þess ætlað að þingmenn taki formlega til starfa, skipti með sér verkum og ljúki málum sem þarfnast ekki mikillar umræðu eða langvarandi vinnu í nefndum, er engu að síður mikilvægt að nýta þetta sumarþing til að setja af stað vinnu við þau stóru mál sem tekin verða fyrir á haustþingi.
Það á alveg sérstaklega við um skuldamál heimilanna og annað sem varðar beint hag fjölskyldnanna í landinu. Þess vegna var sérstakt fagnaðarefni að þingmenn stjórnarandstöðu skyldu strax, áður en þing var sett, lýsa sig viljuga til að greiða götu þeirra mála.
Í ljósi þessa mikla vilja til að veita málum sem varða stöðu heimilanna brautargengi, munum við fara þá óhefðbundnu leið að biðja þingið að fela ríkisstjórninni að -hefja formlega vinnu- við úrlausn á skuldavanda heimilanna.
Í því skyni mun ég leggja fram þingsályktunartillögu sem inniheldur aðgerðaáætlun í 10 liðum sem varða nauðsynlegar aðgerðir vegna stöðu heimilanna.
Í aðgerðaáætluninni verður fjallað um undirbúning almennrar skuldaleiðréttingar, höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána, möguleikann á stofnun sérstaks leiðréttingarsjóðs ef önnur fjármögnun gengur of hægt og setningu svokallaðra lyklalaga.
Sérfræðihópur um afnám verðtryggingar af neytendalánum tekur til starfa, sem og verkefnisstjórn um endurskipulagningu húsnæðislánamarkaðarins.
Meðal annarra aðgerða sem ríkisstjórnin leggur til í áætluninni er að lögfest verði flýtimeðferð dómsmála sem tengjast skuldvanda heimilanna. Innanríkisráðherra hefur þegar lagt fram frumvarp þar að lútandi.
Kannaðir verða möguleikar á að sekta fjármálafyrirtæki vegna umtalsverðra tafa á endurútreikningi lána.
Einnig er miðað að því að afnema stimpilgjöld vegna húsnæðiskaupa einstaklinga, til eigin nota, og fella niður eða aðstoða við fjármögnun kostnaðar vegna gjaldþrotaskipta.
Framlagning frumvarps um skýrar heimildir fyrir Hagstofu Íslands til að afla upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um fjárhagsstöðu heimila og fyrirtækja er einnig hluti af áætluninni.
Kveðið er á um að tillögur sérfræðingahópa og frumvörp samkvæmt aðgerðaáætluninni verði lögð fram þegar á haustþingi.
Allar þessar aðgerðir eru nauðsynlegar og skynsamlegar, og það er einlæg von mín að þingmenn jafnt stjórnar og stjórnarandstöðu muni styðja tillöguna af heilum hug og sýni þjóðinni þannig í verki að þegar kemur að heill heimilanna í landinu sé fullur samhugur á Alþingi Íslendinga.
Þótt mikil áhersla verði lögð á skuldamálin eru úrlausnarefni nýrrar ríkisstjórnar mörg og viðamikil.
Eins og ég hef þegar nefnt eru horfurnar í rekstri ríkissjóðs miklum mun verri en haldið hefur verið fram. Ríkisstjórnin mun á næstu dögum kynna upplýsingar um raunverulega stöðu ríkisfjármála og horfur eins og þær líta út að óbreyttu.
Það er ekki fögur mynd og mjög ólík þeim spám sem stjórnvöld hafa birt á undanförnum árum. En sem betur fer er hægt að snúa þessari þróun til betri vegar með því að innleiða skynsemisstefnu í rekstri ríkisins og nýta þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir.
Skapist til dæmis stöðugt rekstrarumhverfi fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar mun það að öllum líkindum leysa úr læðingi mikla fjárfestingagetu.
Sem betur fer lítur auk þess út fyrir að hægt verði að auka veiðar þegar á næsta fiskveiðiári og auka þar með útflutningstekjur þjóðarinnar umtalsvert.
Fái fólk tækifæri til að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd mun nýjum fyrirtækjum og nýjum störfum fjölga hratt á næstu árum.
Ríkisstjórnin mun vinna að því að skapa aðstæður til að hægt verði að afnema fjármagnshöft.
Nauðsynlegt er að greina efnahagsstöðu þjóðarbúsins og útfæra áætlun um afnám hafta. Í núverandi áætlun, frá árinu 2011, er umfang vandans mjög vanmetið, eins og komið hefur í ljós.
Ný áætlun þarf að tryggja trausta umgjörð um gjaldeyrismarkaðinn til framtíðar og sjá til þess að skuldaskil fallinna fjármálafyrirtækja ógni ekki efnahagslegum stöðugleika.
Forsendan fyrir afnámi hafta er sú að heildstæð lausn liggi fyrir um uppgjör gömlu bankanna og aðra þætti snjóhengjunnar, erlenda fjármögnunarþörf íslenskra fyrirtækja og sveitarfélaga og annað hugsanlegt útstreymi fjármagns.
Ljóst er að fullveldisrétturinn veitir íslenskum stjórnvöldum öflugar heimildir til að verja efnahagslegt sjálfstæði landsins, en jafnframt er ljóst að það eru sameiginlegir hagsmunir Íslendinga og erlendra kröfuhafa að skapa aðstæður sem leyfa afnám hafta.
Íslenska krónan mun verða gjaldmiðill Íslands um fyrirsjáanlega framtíð.
Þessa staðreynd voru fulltrúar allra stjórnmálaflokka, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnurekenda sammála um í skýrslu þverpólitískrar nefndar um gjaldmiðlamál sem út kom síðastliðið haust.
Til þess að styrkja krónuna verðum við að auka framleiðslu, ná tökum á verðbólgunni, greiða niður skuldir og efla íslenskt efnahagslíf.
Umræða íslenskra stjórnmála um gjaldmiðilsmál hefur verið tengd stærra máli.
Áframhaldandi viðræður um aðild að Evrópusambandinu fælu í sér skýra yfirlýsingu Íslands um vilja til að ganga í ESB og taka upp allt regluverk sambandsins.
Pólitískur stuðningur fyrri ríkisstjórnar við umsóknina var byggður á mjög veikum grunni og kannanir sýna ítrekað að meirihluti þjóðarinnar er andvígur aðild.
Því verður nú gert hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins.
Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni.
Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Gott samstarf Íslands og ríkja Evrópusambandsins og EFTA verður að sjálfsögðu áfram grunnþáttur í utanríkisstefnu Íslands og áfram verður lögð áhersla á uppbyggileg samskipti við Evrópusambandið á fjölmörgum sviðum eins og hingað til.
Að auki verður lagt kapp á að efla tengsl Íslands við lönd um allan heim, ekki hvað síst þau lönd sem eru í örum vexti og sækjast eftir viðskiptum við Ísland.
Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnvalda er að örva atvinnulíf og veita aðstæður fyrir aukna verðmætasköpun.
Skattaumhverfi þarf að fela í sér jákvæða hvata til að fjölga störfum og bæta afkomu.
Gerð verður úttekt á skattkerfinu og tillögur gerðar til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna og draga úr undanskotum.
Stöðugt og skynsamlegt skattkerfi hvetur einstaklinga til að nýta starfskrafta sína og fyrirtækin til að fjölga störfum og fjárfesta. Íslenskt efnahagslíf þarfnast sárlega aukinnar fjárfestingar, bæði innlendrar og erlendrar.
Grundvallaraðstæður fyrir fjárfestingar eru stöðugleiki og fyrirsjáanlegt viðskiptaumhverfi.
Með einföldun skattkerfisins og innleiðingu jákvæðra hvata verður rekstur fyrirtækja einfaldari og skilvirkari.
Með lækkun skatta á tekjur, vörur og þjónustu má ná fram mikilvægum kjarabótum sem útfærðar verða nánar í samráði við hreyfingar launþega og atvinnurekenda og með hliðsjón af öðrum efnahagsaðgerðum, svo sem afnámi gjaldeyrishafta.
Nauðsynlegt er að stjórnvöld taki höndum saman við aðila vinnumarkaðarins um að skapa grundvöll fyrir víðtæka sátt sem orðið getur undirstaða stöðugleika á vinnumarkaði og stuðlað að langtíma hagvexti og sterkara efnahagslífi á komandi árum.
Öflugt atvinnulíf er forsenda vaxtar og velferðar.
Sérstök áhersla verður lögð á lítil og meðalstór fyrirtæki, vöxt útflutningsgreina, umhverfi sem hvetur til nýsköpunar og nýtingu vaxtartækifæra framtíðarinnar.
Eitt af vaxtartækifærunum er aukinn áhugi erlendra ferðamanna á Íslandi.
Nauðsynlegt er að halda áfram kröftugu markaðsstarfi, meðal annars til að jafna ferðamannastrauminn yfir árið.
Þá þarf að leggja í markvissa uppbyggingu á helstu ferðamannastöðum og meta í samstarfi við ferðaþjónustuna hvernig gjaldtöku af ferðamönnum skuli háttað.
Lítil þjóð, sem mikill fjöldi ferðamanna sækir heim, verður að leggja áherslu á að þar haldist uppbygging, virðing fyrir náttúrunni og aukin arðsemi í hendur.
Á sama hátt þarf að búa að öðrum grunn atvinnugreinum.
Almenn sátt ríkir um að sjávarauðlindin er sameign allrar þjóðarinnar.
Um nýtingu auðlindarinnar þarf einnig að ríkja víðtæk sátt.
Því verður unnið áfram á grunni sáttanefndarinnar að því að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun.
Eðlilegt er að sjávarútvegurinn leggi sitt af mörkum til samfélagsins í formi skatta og gjalda í skiptum fyrir nýtingarréttinn, sem orðinn er verðmætur vegna þess að íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið hefur gert hann verðmætan.
Íslenskur sjávarútvegur er í senn sjálfbær og hagkvæmur en hann keppir við sjávarútveg í löndum sem stunda ríkisstyrkta ofveiði.
Unnið verður að því að endurskoða lög um veiðigjald þannig að almennt veiðigjald endurspegli afkomu útgerðarinnar í heild, en sérstakt gjald taki mið af afkomu einstakra fyrirtækja og fisktegunda.
Mikilvægi matvælaframleiðslu á norðurslóðum mun aukast umtalsvert í framtíðinni. Þar eiga Íslendingar ónýtt tækifæri, til dæmis með nýsköpun í landnýtingu, auknu fiskeldi og ylrækt.
Sífellt vaxandi eftirspurn eftir mat í heiminum mun skapa íslenskum landbúnaði ótal sóknarfæri.
Framleiðsluaukning í landbúnaði getur bæði minnkað gjaldeyrisþörf vegna innflutnings matvæla og gefið aukin tækifæri til útflutnings ef unnið verður kröftuglega að markaðssetningu íslenskra afurða erlendis á næstu árum og áratugum.
En til að geta nýtt tækifæri Íslands á morgun verðum við að hugsa til framtíðar í dag.
Þar þurfum við meðal annars að horfa til aukinnar áherslu á samstarf við aðrar þjóðir varðandi nýtingu nýrra tækifæra sem tengjast breyttu loftslagi, nýjum auðlindum og breyttum aðstæðum í heiminum á næstu áratugum.
Ísland þarf að leggja áherslu á að vera í fararbroddi í norðurslóðasamstarfi, með tilliti til nýtingar auðlinda á svæðinu, umhverfisverndar og opnunar nýrra siglingaleiða um norðurhöf.
Mikilvægt er að hefja strax vinnu við að fá til Íslands verkefni tengd hinni hröðu í þessum heimshlula.
Sérstök áherslu verður lögð á eflingu samstarfs og samvinnu við frændþjóðir okkar á Norðurlöndum.
Í því skyni hef ég þegar átt tvíhliða fundi með forsætisráðherrum Noregs, Finnlands og Grænlands, og mun eiga slíka fundi með forsætisráðherrum Svíðþjóðar, Danmerkur og Færeyja á næstu vikum.
Umhverfisvernd og barátta gegn loftslagsbreytingum er eitt af helstu sameiginlegu viðfangsefnum heimsbyggðarinnar.
Þar getur Ísland lagt mikið af mörkum og gert betur.
Aukin uppbygging og endurheimt gróður- og jarðvegsauðlinda og efling skógræktar og landgræðslu mun auka kolefnisbindingu. Mikilvægt er að skipuleggja þær aðgerðir vel og stuðla um leið að nýtingu innlendra vistvænna orkugjafa.
Umhverfisvernd snýr að framtíðinni.
Auðlindir og hrein náttúra eru verðmæti sem skila þarf áfram til komandi kynslóða þannig að sómi sé að.
Því verður að horfa sérstaklega til þess hvernig saman geti farið á faglegan og skynsamlegan hátt vernd náttúrunnar og nýting auðlinda lands og sjávar.
Góðir landsmenn
Bjartsýni, kjarkur og þor eru forsendur framfara og árangurs.
Mikilvægt er að við sýnum nú að við búum við úthald og kjark og leitum allra mögulegra leiða til að leiðrétta skuldir heimilanna og bæta hag þeirra.
Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess, við eigum að veita fyrirtækjum hvata til að skapa störf, styðja nauðsynleg fjárfestingaverkefni, auka umhverfisvæna orkunýtingu til að byggja upp atvinnu og aflétta fjármagnshöftum.
Við eigum að standa með fólkinu í landinu og taka ákvarðanir sem leysa raunveruleg vandamál þess frá degi til dags.
Til þess erum við kjörin.
Í stjórnmálum hefur lengi skort samráð og sameiginlegar tilraunir til að leita bestu lausnanna.
Á Alþingi eiga sæti flokkar með mjög mismunandi stefnur. Það er einlæg von mín að samstarf okkar verði samt með betra horfi en undanfarin ár.
Það er ekki síst með það í huga sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa veitt stjórnarandstöðunni aukna hlutdeild í nefndaskipan Alþingis. Það er von okkar að slík tilhögun megi leiða til aukins og betra samstarfs í störfum þingsins.
Stjórnvöldum ber að vinna að öryggi, réttindum og lífsgæðum almennings í landinu. Ráðast þarf í umbætur á innviðum og skilvirkni í stjórnsýslunni og efla enn frekar lýðræði þannig að almenningur fái fleiri og betri tækifæri til þess að hafa áhrif.
Löggæsla verður efld og niðurstaða nefndar um löggæslumál verður leiðarljós í því verkefni.
Heilbrigðismál og öruggar samgöngur eru einnig grundvallaratriði þegar kemur að uppbyggingu öruggs samfélags.
Íslenskt heilbrigðiskerfi verður að vera samkeppnisfært við nágrannalönd og landsmenn þurfa að njóta aðgengis að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu.
Heilsugæsluna verður að styrkja og auka þarf almenn lífsgæði með eflingu forvarna, lýðheilsustarfs og slysavarna.
Þannig má draga úr beinum kostnaði fyrir samfélagið til framtíðar.
Landsmenn eiga að búa við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins. Á þeim grunni er nauðsynlegt að leggja í heildarendurskoðun á húsnæðiskerfinu.
Mikilvægt er að aldraðir njóti jafnræðis og sanngirni í samfélaginu, og virkni þeirra sé tryggð.
Stuðla þarf að sveigjanlegum starfslokum og lífeyristökualdri.
Fyrirhugaðar breytingar á almannatryggingum verða endurmetnar og skerðingar á frítekjumarki vegna atvinnutekna og fjármagnstekna aldraðra og öryrkja, sem tóku gildi um mitt ár 2009, verða afnumdar.
Unnið verður að samgöngubótum með áherslu á tengingu byggða.
Allir íbúar landsins eiga að fá notið grunnþjónustu sem eðlileg er í þróuðu nútímasamfélagi.
Jafnrétti til búsetu byggir meðal annars á því að stuðlað sé að fjölbreyttum atvinnutækifærum um allt land, t.d. með dreifingu opinberra starfa og uppbyggingu öflugs fjarskiptanets.
Ríkisstjórnin mun leggja áherslu á að efla menntakerfið með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi.
Öflugt samstarf stjórnvalda við hagsmunaaðila í menntamálum um þróun menntakerfisins og aukin gæði menntunar er lykillinn að uppbyggingu þekkingarsamfélags til framtíðar.
Áhersla verður lögð á málvernd, vernd sögulegra minja og nýtingu nýrrar tækni til að skrá Íslandssöguna og vernda fyrir komandi kynslóðir, auk rannsókna og fræðslu.
Ríkisstjórnin mun vinna að því að auka virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu, innan lands sem utan.
Góðir Íslendingar
Vöxtur byggir á því að samfélagið framleiði verðmæti. Til þess þarf fólk að hafa atvinnu og fyrirtæki að búa við stöðugt umhverfi.
Sameiginlegt markmið okkar hlýtur að vera að byggja upp það velferðarsamfélag sem við viljum búa í. Velferð byggir á verðmætasköpun og verðmætasköpun byggir á vinnu.
Við háttvirta þingmenn vil ég segja þetta: Til hamingju með að vera lýðræðislega kjörnir fulltrúar íslensku þjóðarinnar.
Ábyrgð okkar er mikil. Allt okkar starf verður að grundvallast á því að við séum að að vinna að velferð fólksins í landinu.
Tilgangurinn með starfi okkar verður alltaf fyrst og fremst að vera að hafa áhrif á samfélagið til framfara.
Að byggja upp til framtíðar. Þau gildi sem ríkisstjórn Íslands mun leggja áherslu á við lausn viðfangsefna næstu ára og uppbyggingu samfélagsins á kjörtímabilinu mótast af þessari sýn.
Bjartsýni, kjarkur og þor eru forsendur framfara og árangurs.
Með skynsemi og rökhyggju, samvinnu, staðfestu og óbilandi trú á máttinn, sem býr í íslensku þjóðinni, eru Íslandi allir vegir færir.
Látum þetta þing marka upphaf nýs tíma í íslensku þjóðlífi, tíma samvinnu og kjarks, tíma bjartsýni og vonar, og hefjum á þeim grunni ræktun lýðs og lands.
Horfum til framtíðar. Hugsum til framfara.
Þá munum við uppskera eins og við sáum.