Stefnan tekin í Norðaustur

Eftir flokksþing Framsóknarmanna og atburði sem því tengdust lýsti ég því yfir að ég myndi helga mig málefnum Norðausturkjördæmis og því að kjördæmið fengi notið þeirra tækifæra sem þar liggja. Það er enda hagur landsins alls að Norðausturkjördæmi gangi vel.

Eins og flestum má vera ljóst gramdist mér mjög að menn skyldu taka þá ákvörðun að flýta kosningum og hætta við að leggja fram fjárlög. Mér mislíkaði þetta af mörgum ástæðum. Ein var sú að ég hafði vikið úr embætti forsætisráðherra um tíma, á meðan mál væru að skýrast, einmitt svo að ríkisstjórnin gæti komist hjá slíkum útspilum. Þess í stað gæti hún þá einbeitt sér að því að klára þau verkefni sem útaf stóðu. Önnur ástæða er sú að með þessum ákvörðunum varð lítið úr þeirri sókn sem ég hafði boðað í byggðamálum enda þótt tekist hefði að skapa þær efnahagslegu aðstæður sem voru forsenda slíkrar sóknar.

Allt er til reiðu

Aðalatriðið er þó það að grunnurinn hefur verið lagður. Með blöndu hefðbundinna en oft erfiðra aðgerða í ríkisrekstrinum og óhefðbundinna aðgerða sem hvergi höfðu verið reyndar áður tókst að gjörbylta stöðu og framtíðarhorfum ríkissjóðs til hins betra. Það er því allt til reiðu svo ráðast megi í þær aðgerðir sem taldar verða upp hér að neðan. Það þarf að gera bæði með hefðbundnum og óhefðbundnum aðgerðum.

Veiðigjöldunum skilað

Engin ríkisstjórn hefur skilað jafnmiklum veiðigjöldum í ríkiskassann og stjórnin sem starfaði frá 2013-2016. Það er nauðsynlegt að þessi gjöld og önnur auðlindagjöld sem kunna að vera lögð á skili sér aftur í byggðir landsins. Núverandi fyrirkomulag er í raun nánast hreinn landsbyggðarskattur. Tugir milljarða eru teknir út úr samfélögum hringinn í kringum landið. Þessu þarf að breyta.

Þriðjungur veiðigjaldanna ætti að renna til sveitarfélaganna utan höfuðborgarsvæðisins, þriðjungur í þróunarverkefni hringinn í kringum landið, einkum nýsköpun á sviði atvinnumála og þriðjungur í sérstök sóknarverkefni sem gera byggðir landsins að eftirsóknarverðari stöðum til að búa, starfa og fjárfesta. Það á t.d. við um menningarmál og fegrun byggða m.a. í gegnum verkefnið „verndarsvæði í byggð“.

Dreifing ferðamanna um landið

Sú áætlun sem lýst er að ofan mun gera byggðir landsins, ekki hvað síst hina fögru bæi og náttúru Norðausturkjördæmis, að enn eftirsóknarverðari ferðamannastöðum. En til viðbótar þarf sértækar aðgerðir til að dreifa ferðamönnum betur um landið og nýta þar með betur þá auðlind sem í landinu liggur.

Bæta þarf samgöngumannvirki, t.d. með malbikun Dettifossvegar til að klára „demantshringinn“ sem yrði gríðarlega sterk söluvara í ferðaþjónustu. Flugþróunarsjóðurinn sem forsætisráðuneytið vann að því að koma á fyrr á kjörtímabilinu skiptir sköpum við að opna nýjar fluggáttir til landsins á Akureyri og Egilsstöðum. En meira þarf að koma til. Bæta þarf aðstöðu á flugvöllunum (fjárfesting í Keflavík nemur tugum milljarða) og jöfnun flutningskostnaðar á eldsneyti er nauðsynleg til að gera þessa flugvelli betur samkeppnishæfa við Keflavíkurvöll.
Sátt virðist hægt að ná um hækkun komugjalda. Rétt er að a.m.k. hluti þeirrar gjaldheimtu renni til sveitarfélaga. Á sama tíma og við hækkum komugjöld í Keflavík mætti halda komugjöldum á Akureyri og Egilsstöðum umtalsvert lægri til að skapa aukinn hvata fyrir flugfélög að nýta þá flugvelli.

Tekjustofnar sveitarfélaga

Sveitarfélög bera að miklu leyti hitann og þungann af fjölgun ferðamanna. Þau hafa ekki fengið auknar tekjur til samræmis við það. Að hluta til koma endurheimtur auðlindagjalda til móts við þann vanda en einnig þarf að færa sveitarfélögum auknar beinar tekjur af vaxandi ferðaþjónustu. Þar þarf þó að huga að því að megnið af kostnaðinum við innviðauppbyggingu fellur til utan Reykjavíkur en megnið af tekjunum, t.d. gistináttagjöld, eru lögð á í borginni. Þess vegna þurfa komugjöld að renna til sveitarfélaganna svo að þau geti staðið straum af nauðsynlegri innviðauppbyggingu. Hlutdeild í fjármagnstekjuskatti er líka eðlileg krafa í ljósi þess hversu mikið hallar á sveitarfélögin hvað varðar tekjuskiptingu.

Skattalegir hvatar

Lengi hefur verið rætt um að æskilegt gæti verið að veita skattalegar ívilnanir til fólks og fyrirtækja utan höfuðborgarsvæðisins. Í því sambandi hefur m.a. verið litið til Noregs. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að innleiða slíka stefnu. Í henni felst að tryggingargjald verður lægra því fjær sem reksturinn er frá Reykjavík en einnig búsetustyrkir, þ.m.t. ferðastyrkir til þeirra sem þurfa að ferðast langa vegalengd til og frá vinnu. Einnig er ástæða til að líta til fyrirmynda í Noregi varðandi endurgreiðslu námslána þar sem fólk sem starfar utan höfuðborgarsvæðisins fær sérstaka niðurfærslu námslána.

Opinber störf

Við munum innleiða í stjórnkerfið hvata til að ný störf hjá hinu opinbera verði til á landsbyggðinni. Setja ætti reglu um að störfum hjá opinberum stofnunum fjölgi ekki á höfuðborgarsvæðinu. Vilji opinberar stofnanir, ráðuneyti osfrv. fjölga starfsfólki þurfa þær að búa til, eða auka við, starfsaðstöðu á landsbyggðinni og ráða fólk þar.

Innviðir

Fjölgun íbúa og starfa og aukin fjárfesting utan höfuðborgarsvæðisins er háð því að innviðirnir séu samkeppnishæfir. Ljósleiðaravæðing landsins alls verður forgangsverkefni á nýju kjörtímabili. Gagnrýni á að ekki skuli hafa verið gengið lengra í þeim efnum á kjörtímabilinu er réttmæt. Hins vegar er nú allt til reiðu, skipulag og fjármagn til að ráðast í ljósleiðaravæðingu landsins.
Samgöngumál hafa setið á hakanum í meira en áratug, fyrst vegna þenslu og svo vegna kreppu. Nú er tímabært og mögulegt að hefja átak í samgöngumálum. Losna við einbreiðar brýr af þjóðveginum, laga hættulega vegaspotta og ráðast í Fjarðarheiðargöng og fleiri mikilvægar samgönguúrbætur í kjördæminu.

Innanlandsflug

Fullreynt er að hægt sé að ná samstarfi við núverandi borgaryfirvöld um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Flugvöllurinn er þjóðareign og megnið af landinu sem hann stendur á í eigu ríkisins. Afsal ríkisins á landi undir þriðju flugbrautinni (neyðarflugbrautinni) stenst ekki lög.
Fullt tilefni er til að greiða niður ferðir íbúa landsbyggðarinnar í innanlandsflugi. Fordæmi frá Skotlandi munu reynast vel í því efni. Hins vegar þarf að tryggja aukið opinbert eftirlit, með fulltingi samkeppnisyfirvalda, til að tryggja að niðurgreiðslan nýtist í raun til verðlækkunar. Álagning á ákveðnum flugleiðum innanlands er nú þegar of mikil og nauðsynlegt að tryggja að niðurgreiðsla ríkisins hverfi ekki með enn aukinni álagningu.

Heilbrigðisþjónusta
Á kjörtímabilinu hefur tugum milljarða verið bætt í heilbrigðismálin. Að mestu leyti hefur sú aukning fallið til á Landspítalanum. Á sama tíma hafa heilbrigðisstofnanir víða á landsbyggðinni ekki enn náð fyrri styrk. Þetta þarf að leiðrétta með því að hverfa frá áformum um aukna samþjöppun í heilbrigðisþjónustu. Byggja skal nýjan 21. aldar landspítala við Vífilsstaði en viðhalda um leið spítalarekstri í grennd við Reykjavíkurflugvöll í Fossvogi eða í nýrri húsum spítalans við Hringbraut. Um leið þarf að nýta betur innviði heilbrigðisþjónustunnar utan Reykjavíkur, stækka Sjúkrahúsið á Akureyri og veita heilbrigðisstarfsfólki hvata til að starfa á landsbyggðinni, annars vegar með betri starfsaðstöðu og hins vegar með fjárhagslegum hvötum á borð við niðurfærslu námslána.
Við fyrstu sýn virðist kosta meira að halda úti heilbrigðisþjónustu víða um land í stað þess að hafa hana á einum stað. En við mat á hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu hefur iðulega verið litið framhjá stórum hluta þess kostnaðar sem hlýst af slíkri breytingu. Það á m.a. við um ferðakostnað sjúklinga og vandamanna þeirra, dvalarkostnað, vinnutap og svo stærsta kostnaðarliðinn af öllum: Hann fellst í því að þegar heilbrigðisþjónusta er skert á einum stað skerðir það möguleika samfélagsins á að halda í fólk og fyrirtæki eða að laða að nýja íbúa og fjárfestingu. Fátt hefur meiri áhrif á ákvarðanir um staðarval en spurningin um hvort boðið sé upp á viðunandi heilbrigðisþjónustu.
Ekki má gleyma því að víða eru samgöngur mikilvægur hluti af heilbrigðiskerfinu. Samgönguhindranir eins og Víkurskarð geta komið í veg fyrir að fólk geti nýtt þá heilbrigðisþjónustu sem því er ætlað. Það er ein af mörgum ástæðum fyrir því að losna þarf við slíkar hindranir á Norður- og Austurlandi með framkvæmdum eins og Vaðlaheiðargöngum. Reyndar er álitamál hvort það sé forsvaranlegt að láta íbúa Norðausturlands greiða sérstaklega fyrir að komast leiðar sinnar innan sama atvinnu- og þjónustusvæðis.

Menntamál

Kostnaður á hvern nemanda í minni framhaldsskólum verður óhjákvæmilega meiri en í stóru framhaldsskólunum á höfuðborgarsvæðinu. Ávinningurinn af því að gera nemendum kleift að ljúka framhaldsnámi í, eða nærri, heimabyggð er þó miklu meiri en nemur kostnaði af því að reka framhaldsskóla hringinn í kringum landið. Það er því mikilvægt að fjárveitingar séu nægar til að gera skólunum kleift að rækja hlutverk sitt til fulls. Það á ekki hvað síst við um verkmenntaskólana.
Mikilvægi Háskólans á Akureyri er ótvírætt. Skólinn hefur sannað svo ekki verður um villst mikilvægi þess að taka stórar ákvarðanir um uppbyggingu utan höfuðborgarsvæðisins og gera það með hliðsjón af heildaráhrifum og langtímaáhrifum en ekki bara kostnaði til eins árs. Með samkomulagi ríkisins við HA er hægt að gera skólanum kleift að auka við framboð á mikilvægum sérsviðum, t.d. nám í tæknigreinum, sem svo mun nýtast við vöxt atvinnulífs og verðmætasköpunar um allt land.

Sjávarútvegur

Samhliða þeirri nýsköpun sem ég hef lýst verður starfsumhverfi hefðbundinna undirstöðuatvinnugreina kjördæmisins styrkt. Einstakur árangur íslensks sjávarútvegs byggist á kerfi sem gerir honum kleift að gera langtímaáætlanir. Eigi sjávarútvegur áfram að geta skilað samfélaginu verulegum fjárhagslegum ávinningi, verið burðarstólpi í atvinnulífi byggðarlaga og staðið undir fjárfestingu og nýsköpun þarf greinin að búa við starfsöryggi. En einnig þarf að auka öryggi byggðarlaga sem hafa reitt sig á sjávarútveg. Það má gera með aukinni byggðatengingu.

Landbúnaður

Landbúnaður verður áfram ein af undirstöðuatvinnugreinum kjördæmisins. Fallandi afurðaverð kallar á aðlögun af hálfu stjórnvalda. Sé litið til heildaráhrifa er stuðningur við innlenda matvælaframleiðendur og þar með neytendur mikilvæg efnahagsleg aðgerð en einnig byggða- menningar- og lýðheilsumál.
Með stuðningi við landbúnað tryggjum við undirstöðu byggðar um allt land, leggjum grunn að uppbyggingu annarra greina á borð við ferðaþjónustu, viðhöldum þúsundum starfa, tryggjum heilnæm og góð íslensk matvæli og spörum sem nemur um 50 milljörðum króna í gjaldeyri á ári. Framsókn-NA mun standa með íslenskri matvælaframleiðslu.

Iðnaður 

Mikilvægt er að stjórnvöld hlutist til um að uppbygging á sviði iðnaðar eigi sér stað sem víðast á landinu. Eigi markaðurinn einn að ráða för mun slík uppbygging fyrst og fremst verða í kringum höfuðborgarsvæðið þar sem mest framboð er af vinnuafli og veðhæfi fasteigna mest. En þegar verkefni eru komin af stað annars staðar hafa þau þeim mun meiri margfeldisáhrif og styrkja byggð og alla starfsemi til muna. Á slíkum stöðum er iðnaðaruppbygging til þess fallin að styðja við alla aðra starfsemi á atvinnusvæðinu.
Stjórnmálamenn þurfa því að hafa þor til að beita sér fyrir því að ríkisvaldið liðki fyrir uppbyggingu á sviði iðnaðar utan höfuðborgarsvæðisins. Slíkan hvata skortir ekki aðeins hjá hinum frjálsa markaði heldur líka í stjórnkerfinu. Þess vegna þurfa kjörnir fulltrúar almennings að vera óhræddir við að beita sér til að rétta þá skekkju af. Nýleg dæmi sýna að ekki aðeins hefur kerfið tilhneigingu til að þvælast fyrir því að slík verkefni fari af stað, það getur jafnvel gripið inn í til að stöðva stór og mikilvæg verkefni sem eru þegar farin af stað. Ríkisstjórnin þarf strax í þessari viku að setja bráðabirgðalög svo hægt sé að halda áfram vinnu við að tengja Þeistareiki við Kröflu og uppbygginguna á Bakka. Ella geta getur því mikilvæga verkefni verið stefnt í óvissu mánuðum saman og það jafnvel sett í uppnám fyrir vikið.

Forsendurnar – er þetta hægt?

Öll þau verkefni sem ég hef rakið í greinunum tveimur um Norðausturstefnu Framsóknarflokksins snúast um að tryggja heildarhagsmuni samfélagsins og gera það með því að líta til heildaráhrifa og langtímaáhrifa af þeirri stefnu sem unnið er eftir fremur en að horfa bara kostnaðar til eins árs.

Allt er þetta framkvæmanlegt og raunar nauðsynlegt. Á þremur árum höfum við gjörbreytt stöðu og horfum í rekstri ríkisins til hins betra. Grunnurinn hefur aldrei verið jafnsterkur. Nú þegar við hefjumst handa við að byggja ofan á þann grunn er grundvallaratriði að við fjárfestum í landinu öllu. Stórsókn í byggðamálum er einmitt það, fjárfesting til framtíðar. Þetta snýst ekki um eyðslu heldur fjárfestingu sem skila mun samfélaginu ávinningi til langrar framtíðar. Fyrir því mun ég nú berjast af sama krafti og ég barðist fyrir þeim breytingum sem gera sóknina nú mögulega.

Vegna árangurs stjórnarmeirihlutans á kjörtímabilinu erum við nú í stöðu til hverfa frá þeirri vörn sem staðið hefur áratugum saman og hefja sókn fyrir Ísland allt.

 

Greinarnar “Stefnan tekin í Norðaustur” og “Áfram í Norðaustur” birtust í Morgunblaðinu 15. og 24. október 2016