Selt undan flugvellinum

Nú er liðið eitthvað á annan áratug frá því ég birti myndir af því í sjónvarpi hvernig verið væri að þrengja að Reykjavíkurflugvelli með því að sækja að honum úr öllum áttum og sneiða búta af landinu í kringum flugvöllinn jafnt og þétt. Áformað var að flytja götur og vegi nær flugvellinum og skipuleggja lóðir undir hina ýmsu starfsemi allt um kring. Loks yrði búð að byggja meðfram flugbrautunum og inn á milli þeirra og þá yrði loks bent á að það gengi ekki að vera með flugvöll inn á milli húsanna.

Samkvæmt áætlun

Smátt og smátt hefur þetta svo gengið eftir. Hringbrautin var færð þannig að nú er beinlínis ekið undir lendingarljós einnar flugbrautarinnar og lóðaúthlutanir hafa farið fram af meira kappi en forsjá. Valsmenn hf. hafa til dæmis búið við óvissu í meira en áratug vegna lóðasamkomulags við borgina. Stundum hefur virst sem borgaryfirvöldum þætti það bara ágætt ef hremmingar Valsmanna mættu verða til þess þrýsta á um lokun flugvallarins. Það er varla hægt annað en að hafa samúð með Valsmönnum vegna þeirra fyrirheita sem borgin hefur gefið byggingafélaginu og ætlað svo ríkinu að uppfylla.

Háskólinn í Reykjavík fékk líka að kynnast því að borgaryfirvöld eiga það til að fara fram úr sér þegar kemur að lóðaúthlutunum í kringum flugvöllinn. Þegar þau óttuðust að skólinn kynni að flytja í annað sveitarfélag fékk hann snarlega lóð við flugvöllinn. Eftir að skipulag uppbyggingarinnar var kynnt kom í ljós að borgin hafði óvart lofað að gefa skólanum hluta af landi ríkisins og land innan öryggisgirðingar flugvallarins. Það gerðist þrátt fyrir að nægt pláss hafi verið fyrir skólann og aðrar byggingar á landi borgarinnar og það utan flugvallargirðingar. Málið var svo leyst með því að sópa því undir veg sem lagður var inn á flugvallarsvæðið og með því að færa öryggisgirðinguna nær flugbrautinni. Þannig gerðist það að eitt af flugskýlum Reykjavíkurflugvallar stendur nú á umferðareyju utan flugvallargirðingarinnar.

Samkomulagið

Stærsti áfanginn í því að bola flugvellinum burt átti að vera lokun NA/SV-flugbrautarinnar sem í daglegu tali er kölluð neyðarbrautin vegna þess að flugvélar lenda þar þegar ekki er talið eins öruggt að lenda á hinum flugbrautunum tveimur.

Í október 2013 var þess farið á leit við mig sem forsætisráðherra að ég undirritaði samkomulag ríkisins, Reykjavíkurborgar og Flugfélags Íslands (eða Icelandair Group) um að gerð yrði enn ein úttekt á því hvar best væri að hafa Reykjavíkurflugvöll. Fyrir vikið sögðust fulltrúar borgarinnar til í að eyða óvissu um flugvöllinn af sinni hálfu a.m.k. til ársins 2022. Óvissuna höfðu þeir reyndar skapað sjálfir með því að leggja fram tillögu að aðalskipulagi þar sem gert var ráð fyrir að norður/suður-brautin, önnur af stóru brautum flugvallarins, viki árið 2016.

Í drögum að samkomulaginu var tekið fram að aðilar féllust á að NA/SV-brautinni yrði lokað. Þetta sagði ég vera fráleitt skilyrði sem ekki kæmi til greina að samþykkja. Auk þess sem ég gerði athugasemdir við fleiri atriði í drögunum. Ég kvaðst svo reiðubúinn að undirrita samkomulagið gegn því skilyrði að umrædd atriði yrðu tekin út og það væri á hreinu að ekki væri verið að samþykkja lokun NA/SV-brautarinnar. Þvert á móti væri ég að fallast á þátttöku í undirrituninni til að tryggja að ekki yrði samið um lokun brautarinnar.

Fallist var á þetta og samkomulagið undirritað í viðurvist ljósmyndara og blaðamanna. Það kom mér því mjög á óvart að dómstólar skyldu telja ríkið skuldbundið til að loka neyðarbraut flugvallarins þegar ég sem forsætisráðherra hafði beinlínis gert það að skilyrði fyrir undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um það.

Lokun neyðarbrautarinnar

Þeir sem annast sjúkraflug og ýmsir aðrir talsmenn íslenskra flugmanna og fyrirtækja í flugrekstri hafa varað við lokun neyðarbrautarinnar og bent á að ekki hafi verið rétt staðið að öryggismati sem lá þar til grundvallar. Nú síðast lýsti öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna yfir vonbrigðum með drög að samgönguáætlun meðal annars með vísan til lokunar brautarinnar. Bent er á að ekki sé hægt að lenda flugvél á suðvesturhorni landsins í stífri suðvestan átt eftir lokunina.

Brautin seld

Ég læt vera að fjalla um tæknilegar forsendur lokunarinnar þótt ærið tilefni sé til að leiða þá umræðu til lykta eins fljótt og auðið er. En á meðan sú umræða stendur enn berast þær óvæntu og óskemmtilegu fréttir að ríkið hafi selt Reykjavíkurborg rúmlega 110.000 fermetra land sem nú er undir suðurenda umræddrar neyðarbrautar fyrir 440 milljónir króna. Þetta er algjörlega óskiljanleg ráðstöfun eftir það sem á undan er gengið í átökum ríkisvaldsins við núverandi borgaryfirvöld um Reykjavíkurflugvöll og með hliðsjón af stöðunni sem uppi er í þeirri deilu.

Þar fyrir utan er verðið fáránlega lágt fyrir svo stórt og verðmætt land. Vandfundnar eru verðmætari lóðir í Reykjavík og ekki óvarlegt að ætla að verðmæti þessarar ríkiseignar nemi 8 til 10 milljörðum króna sé litið til söluverðs byggingarréttar annars staðar í borginni, m.a. verðlagningar borgarinnar sjálfrar á lóðum sem ekki eru jafnverðmætar og þær sem hér um ræðir.

Að vísu mun ríkið eiga að fá einhvern hlut í þeim tekjum sem fást af sölu byggingarréttar en ekki hefur komið fram hversu mikill sá hlutur verður að öðru leyti en því að tekið er fram að því meira sem fáist fyrir lóðirnar þeim mun stærri verði hlutdeild Reykjavíkurborgar.

Óheimil sala

Þessi sérkennilega sala, sem að óbreyttu mun kosta ríkið veikari stöðu í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og milljarða króna, er sögð gerð á grundvelli samnings sem tveir fyrrum varaformenn Samfylkingarinnar gerðu rétt fyrir kosningar 2013. Þ.e. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Katrín Júlíusdóttir þáverandi fjármálaráðherra. Vísað er í heimild í fjárlögum ársins 2013 til að réttlæta söluna nú.

Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar lýsti því reyndar yfir fyrir þremur árum að til stæði að vinda ofan af þessum gjörningi og heimildin var ekki endurnýjuð. Auk þess hafa lögmenn, þ.m.t. Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum Hæstaréttardómari, bent á að salan nú standist ekki lög. Jafnvel þótt fjallað hefði verið um málið í fjárlögum þessa árs (sem ekki var gert) dygði það ekki til. Samþykkja þyrfti sérstök lög um söluna.

Ljóst má vera að sala á flugvallarlandi ríkisins í Skerjafirði stenst hvorki lagalegar forsendur né fjárhagslegar forsendur og hún vinnur gegn því markmiði að standa vörð um Reykjavíkurflugvöll og öruggar flugsamgöngur milli höfuðborgarinnar og landsins alls. Annað getur því vart talist forsvaranlegt en að rifta hinum ólögmæta samningi. Sú riftun myndi vonandi marka viðsnúning í baráttunni um Reykjavíkurflugvöll og sýna að ríkisvaldið sé reiðubúið að gera það sem þarf til að stöðva tilraunir borgaryfirvalda til að fjarlægja flugvöllinn sneið fyrir sneið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. september 2016