Spjallsíðan Mumsnet er ein vinsælasta vefsíða Bretlands. Síðunni var ætlað að gera mæðrum kleift að skiptast á ráðum um barnauppeldi. Hún varð svo að vettvangi þar sem konur (fyrst og fremst) deila reynslu sinni og ráða ráðum sínum um hin ýmsu mál. Eitt af þúsundum nýlegra umræðuefna á síðunni var spjall um hvort eðlilegt væri að karlar sem skilgreina sig sem konur fengju aðgang að búningsklefum kvenna. Auk þess gerði einn notandi síðunnar athugasemd við að leikskólabörn væru hvött til að efast um eigið kyn.
Smjörlíkisklípan
Það hefur þótt eftirsóknarvert að auglýsa á síðunni. Meðal helstu auglýsenda voru framleiðendur Flora smjörlíkis. Kona sem rekist hafði á spjallþráðinn um búningsklefana skrifaði eftirfarandi á twitter: „Mér þykir Flora gott en það er útilokað að ég kaupi það á meðan það vinnur með Mumsnet sem býður upp á vettvang fyrir trans-fjandsamlegar færslur á vefsíðunni sinni.“
Innan við tveimur klukkustundum síðar var markaðsdeild smjörlíkisframleiðandans búin að sjóða saman svo hljóðandi tíst: „Við höfum rannsakað málið. Við stöndum alfarið með gildum okkar, meðal þeirra er að koma jafnt fram við alla, því höfum við ákveðið að vinna ekki lengur með Mumsnet. #DiversityMatters.“
Viðbrögð notenda síðunnar voru þau að bindast samtökum um að hætta að kaupa Flora-smjörlíki. Fyrirtækið missti þannig þúsundir viðskiptavina til að halda í einn.
Pólitísk fyrirtæki
Þetta er aðeins eitt af mörgum dæmum um þróun sem hefur vakið mikla athygli og umræðu austan hafs og vestan. Þ.e. tilhneiging stórfyrirtækja til að elta ráðandi rétttrúnað. Oft birtist þetta í hefðbundnu dygðamonti þar sem fyrirtækin leitast við að skreyta sig með þeim málstað sem hæst ber hverju sinni. Stundum gengur það þó svo langt að stjórnendur fyrirtækjanna taka að beita þeim í baráttu aktívista. Þótt málstaðurinn sé oft góður eru aðferðirnar það ekki alltaf (enda skipta þær ekki máli í heimi ímyndarstjórnmálanna).
Ýmsar kenningar eru uppi um hvað veldur. Sumir benda á að stjórnendur stórfyrirtækja, auglýsingastofa o.fl. myndi samkvæmisklúbb sem er ekki í tengslum við restina af samfélaginu. Aðrir telja þetta afleiðingu af auknum áhrifum fólks sem er nýkomið úr innrætingarumhverfinu sem tröllríður mörgum háskólum. Sumt markaðsfólk telji ekki nógu merkilegt að selja bara vörur og vilji því vinna að öðrum markmiðum í krafti stöðu sinnar.
Afleiðingin er að minnsta kosti sú að meginmarkmið sumra fyrirtækja er ekki lengur að bjóða upp á sem besta vöru og þjónustu á samkeppnishæfu verði heldur að fylgja og ýta undir ráðandi rétttrúnað hverju sinni. Stundum virðist þeim jafnvel vera sama um viðhorf hefðbundinna viðskiptavina sinna. Markhópurinn er fyrst og fremst rétttrúnaðarpostularnir sem lengst ganga í opinberri umræðu.
Viðskiptavinirnir skammaðir
Fyrir nokkru datt einhverjum markaðsmönnum í hug að besta leiðin til að auglýsa Gillette-rakvélar væri að leita í stikkorðabók rétttrúnaðarsafnaðarins og hverfa frá „karllægum“ auglýsingum. Um leið skyldi iðrast með því að birta auglýsingar til að vara við „eitraðri karlmennsku“.
Á skömmum tíma dró svo mjög úr sölunni að eigandi Gillette varð að færa niður verðmæti vörumerkisins um 8 milljarða dollara. Fyrirtækið bar því þó við að þetta 1.000 milljarða króna tap væri líka afleiðing af því að skeggjuðum körlum hefði fjölgað. Sú tíska hlýtur að vera afleiðing eitraðrar karlmennsku.
Til Íslands
Það var líklega bara tímaspursmál hvenær þessi þróun bærist til Íslands. Áform Íslandsbanka um að fjársvelta fjölmiðla sem ekki laga sig að kröfum bankastjórnenda hafa vakið athygli.
Óljóst var hvort bankinn vildi áfram eiga viðskipti við vinnustaði þar sem karlar væru í miklum meirihluta, t.d. bifreiðaverkstæði. Það var sagt til skoðunar í rekstrardeild bankans. Nú virðist þó liggja fyrir að bankinn muni áfram vera viljugur til að taka við peningum frá karlavinnustöðum. Hann vilji bara ekki borga slíkum vinnustöðum.
Bankinn mun hafa ráðist í rannsóknir á vinnuafli og dagskrá fjölmiðla til að kanna hverjir séu þess verðugir að fá greitt fyrir auglýsingar. Þegar þetta vakti viðbrögð var bent á að óþarfi væri að taka þessu illa. Gefinn yrði frestur á meðan rannsókn færi fram og stjórnendum fyrirtækja gefið tækifæri til að verða við kröfum bankans.
Þvingunaraðgerðirnar munu þó einungis ná til vinnustaða þar sem starfa of margir karlar. Ekki verður beitt refsingum ef hlutfallið er á hinn veginn.
Georg og félagar
En bankanum er umhugað um fleira en kynjahlutföll. Hann ætlast líka til þess að fyrirtæki fylgi stefnu bankans í umhverfismálum. Íslandsbanki hefur áhyggjur af plastmengun í hafi og mun bregðast við m.a. með því að framleiða sparibauka úr pappa fremur en plasti. Ég vissi ekki af þeim vanda að fólk hendi sparibaukum í sjóinn. Hugsanlega eru mörgæsin Georg, Trölli, Sammi og aðrir sparibaukar á ferð um heimshöfin. Þó virðist líklegra að þetta sé tilraun til dygðamonts með því að tengja sig við eðlilegar áhyggjur af plastmengun í hafi.
Íslenskur banki sem vill sýna samfélagslega ábyrgð gerir það best með því að lækka vexti og gjöld kvenna og karla. Af nógu er að taka. Í verðskrá Íslandsbanka eru hundruð gjalda og gjaldflokka.
Það ætti svo að vera almenn samfélagsleg skylda að gæta jafnræðis gagnvart öllum einstaklingum en skilgreina þá ekki út frá kyni, aldri eða öðrum einkennum sem okkur er úthlutað.