Rétt hjá forsætiráðherra: Framkvæmd kosninganna brást. Og hver ber ábyrgð á því?

Í gær ógilti Hæstiréttur kosningarnar til stjórnlagaþings.Í ræðu sinni á Alþingi í kjölfarið benti forsætisráðherra ítrekað á eigin mistök. Jóhanna lagði þar fyrst og fremst áherslu á að ógildingin byggðist á framkvæmd kosninganna en ekki á lögunum um þau.

Og það er rétt hjá henni. Það var framkvæmd kosninganna sem brást. Og hver ber ábyrgð á framkvæmd kosninga á Íslandi? Er það ekki framkvæmdavaldið? Ríkisstjórnin?

Þessi hrakför er því miður ekkert einsdæmi heldur bara enn eitt klúðrið sem ríkisstjórnin hefur á samviskunni.  Skuldamál heimilanna, stofnun bankanna, sparisjóðirnir, salan á Sjóva, nýja einkavæðingin (t.d. Vestia og Icelandic Group), ólögmætu myntkörfulánin, Magmamálið … hvenær mun hætta að bætast í þessa upptalningu?

Eitt af því sem stöðvar framfarir í efnahags og atvinnulífinu eru áhyggjur erlendra fjárfesta af pólitískri áhættu á Íslandi. Ríkisstjórnin talar um að erlend fjárfesting sé nauðsynleg en er á sama tíma sjálf helsta hindrunin í þeim efnum. Fyrsta hreina vinstristjórnin sannar það betur og betur dag frá degi með eigin orðum og aðgerðum að hún er ófær um að stjórna landinu.

Alþingismenn verða að þora að leiða – ekki elta.

Varðandi stjórnlagaþingið þá getum við samt ekki leyft okkur að skella allri skuld á ríkisstjórnina. Við þingmenn verðum einnig að líta í eigin barm. Við verðum að spyrja okkur hvort við höfum tekið nógu gagnrýna umræðu við undirbúning málsins á sínum tíma? Var málið nægilega vel úr garði gert í upphafi?

Við verðum líka að spyrja okkur hvort við þorum ekki að ræða á gagnrýnin hátt um það sem við teljum að sé krafa tíðarandans? Erum við of upptekin við að elta frekar en að leiða? Ef alþingismenn horfa ætíð fyrst til almenningsálitsins og mynda sér skoðun og framkvæma í samræmi við það er hætta á slysum, jafnvel þegar ætlunin er að efla lýðræðið.

Aðeins um þriðjungur þjóðarinnar hafði áhuga á að taka þátt í kosningum til stjórnlagaþings. Hugsanlega voru það skilaboð um að þjóðin hefði meiri áhuga á öðrum málum, að önnur mál væru brýnni í huga fólks? Úrlausn skuldavanda heimilanna?Síhækkandi skattpíning velferðarstjórnarinnar? Óleyst atvinnuleysi tólf þúsund einstaklinga? Af nógu er að taka.

Við alþingismenn verðum að þora að ræða mál upp án nýtt þegar þörf krefur. Við verðum að þora að nýta það lýðræðislega umboð sem okkur er falið. Alþingi þarf að þora að taka ákvarðanir sem hjálpa fólki að leysa skuldavanda sinn, gefa því fleiri krónur í vasann eftir skatta og umfram allt skapa atvinnu. Einn grundvöllur þess er að framkvæmdavaldið sé tilbúið til að hlusta á og styðja hugmyndir frá fleirum en sjálfu sér. Því að á meðan stefnu ríkisstjórnarinnar er haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist munu þessi mál áfram verða óleyst. Klúðrunum mun fjölga.

Gefum okkur tíma – beinum sjónum að stærri vanda

Í málefnum stjórnlagaþings liggur ekkert á. Í kjölfar dóms Hæstaréttar er rétt að við gefum okkur tíma til að fara yfir málið af yfirvegun. Flumbrugangur gerir ekkert nema auka líkurnar á áframhaldandi mistökum. Í millitíðinni verðum við að beina kröftunum að atvinnumálum og kjörum almennings.

Tækifærið til að bæta stjórnarskrána fer ekki frá okkur. Það gerir hins vegar fólkið sem streymir úr landi í leit að mannsæmandi kjörum og tækifærum erlendis.

Í gær, sama dag og Hæstiréttur ógilti kosningar til stjórnlagaþings, sóttu 200 manns á Íslandi kynningu á strætóbílstjórastörfum í Noregi. Það er vandi sem verður að leysa strax.