Við höldum nú flokksþing á miklum örlagatímum í íslenskum stjórnmálum. Á slíkum tímum er mikilvægt að sem flestir láti sig stjórnmál og framtíð landsins varða.
En í landi sem skipar merkan sess í lýðræðissögu heimsins eru stjórnmálaflokkar og önnur helstu verkfæri lýðræðis nú litin hornauga og þjóð sem hefur í meira en þúsund ár mætt þrautum sínum djörf og sterk býr nú við stjórnvöld sem draga úr henni þrótt og kjark.
En þið sem hér eruð mætt eruð hingað komin vegna þess að þið viljið snúa vörn í sókn, þið hafið trú á framtíð Íslands og eruð reiðubúin til að leggja á ykkur ólaunað starf og kostnað til að vinna samfélaginu gagn.
Þið eigið þakkir skildar fyrir fórnfýsi ykkar. Ég þakka ykkur innilega fyrir að mæta til þessa þings og vinnuna fyrir flokkinn og þjóðina, en ég veit þó að það sem framsóknarmenn vilja helst fá fyrir vinnu sína er árangur. Farsælla líf fyrir samborgarana – betra Ísland.
Og nú er lag!
Á okkar tíma í sögu landsins stöndum við samtímis frammi fyrir ógnum og ómældum tækifærum.
Á þessu flokksþingi meitlum við áform um að leggja ógnirnar að velli og nýta tækifærin.
Yfirskrift flokksþingsins, Ísland í vonanna birtu, vísar til hinna ómældu sóknarfæra þjóðarinnar nú og til þess anda sem ríkti þegar Framsóknarflokkurinn var stofnaður fyrir 95 árum.
Þess baráttuanda sem skóp framsókn Íslands á tuttugustu öldinni, endurheimt fullveldis, stofnun ungmennafélaganna og Alþingishátíðina, stofnun lýðveldis og baráttuna fyrir auðlindum og velferð þjóðarinnar á seinni hluta tuttugustu aldar.
Það er hin óbilandi sannfæring um að Íslendingum séu allir vegir færir.
Margt hefur gerst á þeim tveimur árum sem liðin eru frá síðasta flokksþingi. sem var haldið í skugga mikillar ólgu í samfélaginu. Sú ólga stigmagnaðist þegar leið að lokum janúarmánaðar. Ríkisstjórnin var lömuð. Lífi og limum lögreglumanna og annars fólks var stefnt í stórhættu og raunveruleg hætta á algjöru upplausnarástandi.
Aðeins rúmri viku eftir flokksþingið gripum við inní þessa atburðarás til að koma á starfhæfri bráðabirgðastjórn fram að kosningum. Við fórum ekki fram á ráðuneyti eða önnur embætti í þeirri ríkistjórn.
Við töldum enda að við þær aðstæður sem þá ríktu, og ríkja að miklu leyti enn, hlytu allir að vinna saman, hvar í flokki sem þeir stæðu, að sameiginlegum og augljósum markmiðum.
Reyndar sýndi sagan að efast mætti um að flokkarnir tveir lengst til vinstri réðu við verkefnið án jarðtengingar frá miðjunni og við áttum allt eins von á því að það kæmi fljótlega í ljós.
Sú varð raunin og áður en kom að kosningum vöruðu framsóknarmenn við þeirri ríkisstjórn sem þá þegar hafði sýnt hvers eðlis hún væri. En með nánast alla stjórnmálaumræðuna meira eða minna á sínu bandi tókst þó flokkunum tveimur að ná meirihluta í frjálsum kosningum.
Ríkisstjórnin sem nú situr sækir umboð sitt til þeirra kosninga en ekki Framsóknarflokksins sem vildi fara allt aðrar leiðir en þessi stjórn hefur fylgt.
Þeir voru til sem töldu að það mætti nýta kosningarnar sem í hönd fóru til að brjóta Framsóknarflokkinn á bak aftur. Hart var sótt að okkur af þeim sem við höfðum sýnt svo mikið traust tæpum þremur mánuðum áður.
En árásinni var hrundið og Framsóknarflokkurinn treysti stöðu sína.
Strax í febrúar 2009 kynntum við heildartillögur okkar í efnahagsmálum og með hliðsjón af reynslunni hafa flestir nú gert sér grein fyrir gildi þeirra tillagna.
Þekkt eru stefnumál okkar í skuldamálum og við höfum beitt okkur fyrir tillögum á öllum þeim sviðum sem mest hefur mætt á. Nánast allar hafa þær sannað sig með tíð og tíma. Enda voru þær byggðar á rökhugsun og unnar í samvinnu við þá sem best þekktu til á hverju sviði.
Þær voru unnar eftir framsóknarleiðinni.
Við sjáum nú á nýjum tölum um tugmilljarða hagnað bankanna að ábendingar um að lengra ætti að ganga í því að leiðrétta skuldir almennings reyndust réttmætar.
Ég fullyrði og get rökstutt með lagalegum og tölfræðilegum staðreyndum að ef þeirri stefnu sem við hófum baráttu fyrir strax að loknu síðasta flokksþingi hefði verið fylgt væri staða þjóðarinnar allt önnur og betri nú.
Stórkostleg tækifæri gengu úr greipum Íslendinga á síðustu tveimur árum en eftir standa þó ómæld tækifæri framtíðarinnar. Þeim má ekki glata og ekkert er því til fyrirstöðu að hefja nú framsókn á ný með íslenska baráttuandann að vopni.
Okkur skortir ekkert nema stjórnvöld sem hafa viljann, getuna og kjarkinn til að nýta tækifærin.
…
Stjórnvöld eiga að stuðla að samkennd, framtakssemi, heilbrigði og öllu því sem gerir líf okkar og samfélagið betra.
En núverandi stjórnvöld líta á sig sem byltingarstjórn og byltingarstjórn þrífst ekki án óvina og ógna. Þess vegna er alið á tortryggni, reiði og hræðslu.
Þeim mun verr sem gengur að fást við vandann þeim mun meiri verður þörfin fyrir að kenna öðrum um. En stærsti glæpur valdhafans og þeirra sem að meira eða minna leyti ráða umræðu í samfélaginu er sá að draga úr trú þjóðarinnar á sjálfa sig.
Á þessu ári eru liðin 200 ár frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta. Það er ólíku saman að jafna aðstæðum Íslendinga þegar hann hóf baráttu sína fyrir sjálfstæði þjóðarinnar og því sem nú er við að fást.
Á fyrri hluta 19. aldar, þegar voru innan við 20 sjálfstæð ríki í öllum heiminum trúði 50.000 manna þjóð á eyju í Norður-Atlantshafi því að hún ætti að vera sjálfstæð og hafa sama rétt og milljónaþjóðirnar, nýlendu- og herveldin sem réðu heimunum.
Á meðan Íslendingar, fátækasta þjóð Evrópu, höfðu liðið hungursneið og náttúruhamfarir og dregið fram lífið við þröngan kost í sex aldir, voru þeir sannfærðir um að þeir væru ekki minni menn en kóngar og aðalsmenn stórþjóðanna.
Og að dalir og firðir landsins tækju fram stórborgum sem byggðar voru fyrir ómældan auð af nýlendum, verslun og iðnaði.
Saga þjóðarinnar fyllti Íslendinga þá stolti og þrótti á erfiðum tímum.
En nú reyna áhrifamenn að endurskrifa söguna.
Leiddar eru að því líkur að allt sem gerðist hafi verið nær óhjákvæmilegt. Afrek hafi verið ýkt og vesæld ekki gert nógu hátt undir höfði. Jafnvel hefur verið reynt að gera lítið úr atburðum sem eru í fersku minni fólks sem enn er í fullu fjöri.
Þannig hefur því til dæmis verið haldið fram að þorskastríðin hafi ekki falið í sér þann kjark og þor sem talið hefur verið augljóst. En það er nóg að lesa dagblöð þess tíma eða ræða við þá sem muna atburðina til að sannfærast um hversu innantómur slíkur málflutningur er.
En það hefur áður þurft að andæfa þeim sem skorti trú á landið og þjóðina.Sem betur fer búum við að ágætum rituðum heimildum sem takmarka möguleika úrtölu manna samtímans á að gera lítið úr afrekum þjóðarinnar.
Í fyrsta hefti Fjölnis sem kom út árið 1835 birtist lýsing á Íslendingum eftir danska fræðimanninn Ludvik Muller.
Hann lýsir Íslendingum þannig að þeir líkist landinu sem þeir byggja, og standi óumbreyttir í blíðu og stríðu, eins og kletturinn, hvort sem hann er roðinn af sól eða laminn af regni.
Hann skrifar:
,,Eins og þeir eru stöðugir og þolgóðir, hvort sem þeir eiga að liggja á sjónum tvö eða þrjú dægur, og smakka ekki annað enn blöndu, ellegar ferðast yfir fjöll og ár í bleytu og stormi; eins geyma þeir með sama þreki sérhvert áhrif, og sleppa naumast nokkru fyrirtæki, meðan einhver úrræði eru.”
Muller segir Íslendinga glögga og eftirtektarsama. Þeir deili tíðum hver við annan en séu fljótir að sameina sig móti utanaðkomandi ógn.
Muller segir Íslendinga afar áhugasama um nýjungar og fræði og ekki hirðulausa um neina vísindagrein. Landafræðin fylgi sagnfræðinni, og þekking hinna fornu mála sé miklu algengari hjá Íslendingum en nokkurri annarri þjóð. Raunar séu margir bændur ekki síður vel að sér en hinir hálærðu prestar.
Í afskekktum fjörðum bjuggu Íslendingar í torfhúsum, unnu erfiðisvinnu til að draga fram lífið en kunnu latínu betur en páfinn í Róm.
…
Eitt af markmiðum forvígismanna sjálfstæðisbaráttunnar var að vekja andann í þjóðinni og benda á þau fjölmörgu vannýttu tækifæri sem biðu Íslendinga.
Fjölnismenn vildu að Íslendingar efldu eigin sérkenni og kosti en lærðu einnig af öðrum þjóðum, reynslu þeirra og þekkingu. Þeir voru talsmenn þess að nýta nýja tækni, beisla krafta náttúrunnar, auka framleiðslu og umfram allt að tryggja að Íslendingar fengju að nýta eigin auðlindir því að á því byggðist framtíðar velferð þjóðarinnar.
Þeir bentu á mikilvægi þess að færa verslun í hendur Íslendinga svo að þeir gætu átt viðskipti við ólíkar þjóðir.
Samgöngur vildu þeir bæta ekki hvað síst til að auðvelda flutning upplýsinga rétt eins og við leggjum nú áherslu á fjarskipti.
Fjölnismenn lögðu áherslu á mikilvægi samvinnu og félagshyggju en jafnframt á frelsi hvers og eins til að fá notið sín. Þeir lögðu áherslu á að framfarir og farsæld mannanna væru til komin með mannlegu félagi.
Umfram allt vildu Fjölnismenn vekja andann í þjóðinni þannig að hún hefði trú á sjálfri sér og ynni sameinuð að velferð allra Íslendinga.
Ávarpi í fyrsta riti Fjölnis lýkur á þessum orðum:
“Óskandi væri Íslendingar færu að sjá, … að það er aumt líf og vesælt, að sitja sinn í hverju horni, og hugsa um ekkert nema sjálfan sig, og slíta svo sundur felag sitt, og skipta sundur afli sínu í svo marga parta sem orðið getur
— í stað þess að halda saman og draga allir einn taum, og hugsa fyrst og fremst um heiður og velgengni landsins, sem öllum góðum Íslendingum ætti þó að vera í fyrirrúmi.”
Þótt Framsóknarflokkurinn sé ekki nema 95 ára er grundvöllur framsóknarstefnunnar miklu eldri og á alltaf við, jafnt á dögum Fjölnismanna sem nú og í framtíðinni.
Grundvöllurinn er óbilandi trú á þjóðina og sóknarfæri hennar og mikilvægi þess að efla með Íslendingum þann uppbyggingar- og framfaraanda sem þarf til að nýta tækifærinn og auka lífsgæði allra.
Framsóknarstefnan á rætur í trú á tækifæri, kjark og dugnað íslensku þjóðarinnar.
…
Þessi andi ríkti þegar heimskreppan mikla skall á Íslandi í byrjun fjórða áratugarins. Þá sat hér allt annars konar ríkisstjórn en nú. Þá sat ríkisstjórn Framsóknarflokksins eins undir forsæti Tryggva Þórhallssonar.
Og með óbilandi trú á Ísland og íslensku þjóðina að vopni lagði þessi ríkisstjórn kreppuáranna grunn að því samfélagi sem byggt var upp á Íslandi á 20.öld.
Lagt var ofurkapp á að byggja upp innviði samfélagsins. Lengd vega margfaldaðist á fáum árum.
Brýr sameinuðu landshluta sem höfðu verið aðskildir frá landnámi.
Hafnarmannvirki voru bætt og vitar byggðir til að vísa sjómönnum leið.
Landhelgisgæslan var efld til að verja sjávarauðlindina.
Átak var gert í að byggja upp atvinnutæki, bátar smíðaðir um allt land og þegar gjaldeyrisskortur svarf alvarlega að leigði landsstjórnin skip til að flytja út ísaðan fisk því þannig fékkst meira fyrir vöruna.
Verksmiðjur risu og innlend framleiðsla varð fjölbreytilegri og betri en nokkru sinni.
Til að auka atvinnu var lagt í byggingaframkvæmdir og á þessum árum risu mörg af glæsilegustu húsum landsins, bæði meistaraverk hinnar íslensku steinsteypuklassíkur og fúnksjónalisma.
En umfram allt lögðu framsóknarmenn þó grunn að framtíðinni með áherslu á menntun. Héraðsskólar voru reistir víða um land auk grunnskóla, þeirra á meðal best-búni grunnskóli norðurlanda, Austurbæjarskólinn í Reykjavík.
Heilbrigðismál nutu líka forgangs. Landsspítalinn tók til starfa eftir mikið söfnunarátak kvenfélaga og sjúkrahús voru reist á landsbyggðinni.
Lög um verkamannabústaði voru samþykkt og hugað var að menningu landsins, m.a. með byggingu þjóðleikhúss.
Náttúran og sagan gleymdust ekki heldur, því Þingvellir voru verndaðir og gerðir að þjóðgarði.
Til að efla lýðræðisumræðu og fræða þjóðina var Ríkisútvarpið stofnað.
Og allt þetta var gert á aðeins 5 árum.
Samanburðurinn á kreppuárastjórn framsóknarmanna og þeirri stjórn sem nú situr er sláandi. Það er tímabært að hefja aftur framsókn íslensks samfélags. Það eru aðeins tvær hindranir í vegi.
Sú fyrri er ríkisstjórnin og sú niðurrifsstefna sem hún rekur og sú seinni er skuldavandinn, skuldir heimilanna, fyrirtækjanna, sveitarfélaganna og skuldir ríkisins.
Báðum þessum hindrunum munu Framsóknarmenn ryðja úr vegi!
…
Allt mælti með því að Ísland ynni sig hraðar úr kreppunni nú en önnur lönd, en stefna stjórnvalda hefur verið nánast eins og hönnuð til að viðhalda kreppu og fæla frá fjárfestingu.
Allt er gert öfugt við það sem telst skynsamlegt á krepputímum.
Því ríkir hér enn algjör stöðnun, og raunar samdráttur, einu og hálfu ári eftir að uppsveiflan átti að hefjast samkvæmt spám.
Skattar eru hækkaðir aftur og aftur, skattkerfið flækt og skuldamál einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga eru enn í ólestri, tveimur og hálfu ári eftir hrun.
Komið er í veg fyrir orkuvinnslu með öllum tiltækum ráðum og ríkisstjórnin hefur komið Íslandi á blað með löndum þar sem fjárfestar þurfa að óttast pólitíska óvissu og eignarnám.
Ráðherrar skipta sér reglulega af störfum dómstóla og þegar ráðherrar eru sjálfir dæmdir fyrir að brjóta lög er því svarað á þeim nótum að pólitískar hugsjónir séu ofar lögum.
Undirstöðuatvinnugreinum, sem hefðu átt að draga vagninn út úr kreppunni, er haldið í varanlegri óvissu og fyrir vikið fara sóknarfærin forgörðum – því enginn þorir að fjárfesta.
Ráðamenn lýsa því í erlendum fjölmiðlum að gjaldmiðill landsins sé ónýtur og Ísland ekki sjálfbjarga og að enginn muni vilja fjárfesta í landinu í fyrirsjáanlegri framtíð. Í öðrum löndum hefðu slíkir menn ekki enst í embætti út daginn.
Í landinu eru í gildi ströngustu gjaldeyrishöft sem sést hafa í Evrópu frá því að austur-þýska alþýðulýðveldið leið undir lok.
Og til viðbótar við alla þessa óáran dregur ríkisstjórnin fram hvert einasta mál sem er til þess fallið að sundra þjóðinni fremur en að sameina hana.
Svo þykjast menn hissa á því að hér ríki stöðnun!
Mikilvægasta atvinnumálið er að leyfa þeim fyrirtækjum sem enn eru starfandi að lifa. Nú eru fjölmörg lítil fyrirtæki að deyja kerfisdauða, í óvissu með allt sitt og samtímis skattlögð til ólífis.
Þessu verður að breyta. Gefa fólki tækifæri til að vinna sig úr vandanum og fyrirtækjum möguleika á að fjárfesta og ráða fólk. Þar þarf ekki annað en breytta stefnu. Nýja ríkisstjórn sem setur lög og reglur sem skapa jákvæða hvata en ekki öfuga.
Þá stendur eftir hitt vandamálið. Skuldavandinn, en án hans þyrftum við ekki að hafa miklar áhyggjur. Við erum ekki nema rúmlega 300.000 manna þjóð sem ræður yfir gífurlegum auðlindum, sennilega þeim mestu í heimi miðað við fólksfjölda.
Við flytjum út miklu meira en við flytjum inn.
Fjölskyldufyrirtækið Ísland er rekið með miklum hagnaði. Það ætti að vera nóg til skiptanna. En því miður fer allur afgangurinn, og gott betur í að greiða afborganir og vexti.
Það er þess vegna sem við höfum lagt slíkt ofurkapp á skuldamálin. Mikilvægi þess að komið yrði til móts við heimilin og fyrirtækin og mikilvægi þess að ríkið taki ekki á sig enn meiri skuldir umfram greiðslugetu.
Það er hægt að leysa skuldamálin en til þess þarf að taka upp nýja og betri hagstjórn:
Gera þarf fjórar veigamiklar breytingar á því hvernig ríkið er rekið svo að vinna megi bug á skuldavanda landsins og gera Ísland að ríki viðvarandi hagsældar og velferðar.
Í fyrsta lagi þarf að taka þarf upp heimilisbókhald í rekstri ríkisins, í öðru lagi að aðgreina fjárfestingu og útgjöld og í þriðja og fjórða lagi að meta annars vegar langtímaáhrif og hins vegar heildaráhrif fjárlaga.
Fyrsta atriðið byggist á þeirri staðreynd að Ísland er eins og stórt heimili, staða þess veltur á sköpun verðmæta innan ríkisins og muninum á því sem kemur inn og fer út.
Krónu sem skipt er í erlenda mynt og fer út úr hagkerfinu er ekki hægt að leggja að jöfnu við krónu sem gengur áfram manna á milli og skapar margfeldisáhrif. Við ákvarðanatöku í efnahagsmálum þarf að taka mið af þessu svo að hægt sé að meta hinn raunverulega kostnað.
Annað atriðið snýst um aðgreiningu fjárfestingar og eyðslu. Við áætlanagerð ríkisins hefur ekki verið gerður sá greinarmunur á fjárfestingu og hreinum útgjöldum sem æskilegt væri.
Þegar ríkið fjárfestir í verkefnum sem spara meiri peninga eða skapa meiri tekjur en nemur útgjöldunum má ekki leggja það að jöfnu við útgjöld sem skila engum tekjum.
Í þriðja lagi er nauðsynlegt er að gera fjárlög til lengri tíma enn nú tíðkast, t.d. til 5 eða 10 ára, svo að meta megi langtímaáhrifin af ríkisútgjöldum.
Aðeins þá er hægt taka skynsamlegar ákvarðanir um fjárfestingu og útgjöld. Á meðan aðeins er hugsað til eins árs í senn er litið framhjá því að sparnaður til skamms tíma getur falið í sér tap til lengri tíma litið.
Loks þarf að huga að heildaráhrifum til að komast hjá misráðnum ákvörðunum eins og áformunum um niðurskurð í heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.
Til þessa hafa stjórnvöld leyft sér að leggja fram fjárlög þar sem ekki er gert ráð fyrir að niðurskurður leiði af sér eina einustu krónu í auknum kostnaði annars staðar.
Þessu þarf að breyta.
Við þurfum að fara að reka ríkið meira eins og heimili, svo að taka megi skynsamlegar ákvarðanir um nýtingu verðmæta. Verði það gert vinnum við hratt á skuldavandanum og getum farið að njóta í sameiningu afraksturs hinnar miklu verðmætasköpunar.
…
Við komum nú saman til flokksþings á miklum umbrotatímum, ekki aðeins á Íslandi heldur víða um heim. Daglega berast fregnir af miklum mótmælum og átökum í norðanverðri Afríku og Miðausturlöndum.
Ástæðurnar eru ýmsar en stærsta ástæðan er án efa sú að ekki hefur tekist að skapa atvinnu í þessum löndum fyrir þann mikla fjölda fólks sem nú er á tvítugs og þrítugsaldri.
Það þarf hins vegar ekki að leita suður fyrir Miðjarðarhaf til að finna lönd sem standa frammi fyrir miklum erfiðleikum.
Á miðstjórnarfundi á Húsavík síðast liðið haust fjallaði ég töluvert um framtíðarvanda Vesturlanda og ekki síður þá sérstöðu sem veitti Íslandi ómæld tækifæri til framtíðar.
Víðast hvar á Vesturlöndum hafa menn lifað um efni fram um áratuga skeið. Velferð hefur verið haldið uppi með lántökum í stað verðmætasköpunar.
Í fyrrakvöld bættist Portúgal í þann hóp ríkja sem leitað hafa eftir efnahagslegri neyðaraðstoð og við blasir langvarandi alvarlegur vandi ríkja austan hafs og vestan.
En þrátt fyrir hina miklu óvissu um framtíðarhorfur í efnahagsmálum telja menn að þrennt muni halda verðgildi sínu. Þrennt mun heimsbyggðina skorta, matvæli, vatn og orku. Þær vörur sem eru mikilvægustu náttúruauðlindir Íslands.
Í fyrsta skipti frá árinu 1861 er að verða varanlegur viðsnúningur í þróun matvælaverðs í heiminum. Í 150 ár hafa menn verið að auka ræktarland, tækninni hefur fleygt fram og orka orðið aðgengilegri og ódýrari.
En nú er því spáð að um fyrirsjáanlega framtíð muni matvælaverð hækka því landrými skortir undir matvælaframleiðslu, orkan verður stöðugt dýrari og á sama tíma eykst eftirspurn óhemju hratt.
Sífellt stærri hluti mannkyns býr í borgum og fólk sem áður bjó í sveitum og lifði á hrísgrjónum og grænmeti býr nú í stórborgum, ferðast á eigin bíl, á þvottavél og ísskáp og borðar kjöt.
Umfjöllun erlendra fjölmiðla hefur breyst mikið frá því sem var fyrir fjármálakrísuna. Það rifjaðist upp fyrir mönnum að að baki öllum afleiðusamningunum, yfirtökunum, hlutafjárútboðunum og öðrum millifærslum á blaði þarf raunveruleg verðmæti.
Nú er því litið til þeirra sem vöruðu við fjármálabólunni sem sprakk árið 2007. Og hver eru skilaboð þessara forsjálu manna nú?: Landbúnaður er framtíðin.
Vatn er hin nýja olía segja menn og vatnsskorturinn tengist hinni hröðu fólksfjölgun og samfélagsbeytingum. Nú fer um 70 prósent af nýtanlegu ferskvatni í heiminum í landbúnað. Það þarf gífurlegt vatnsmagn til ræktunar.
Víða þarf að vökva linnulaust. Eitt þúsund tonn af vatni þarf til að rækta eitt tonn af korni. Það má af fullri alvöru halda því fram að íslenska rigningin sé auðlind.
Hinar stækkandi borgir þurfa sífellt meira vatn. Vatn sem nú fer í að vökva akra mun í auknum mæli renna inn í borgirnar. Á sama tíma spillist ræktarland vegna veðurfarsbreytinga. Erfiðara verður að stunda landbúnað sunnar á hnettinum en auðveldara og hagkvæmara norðar.
Framsóknarflokkurinn má aldrei snúa baki við íslenskum landbúnaði. Við verðum að vernda og efla íslenskan landbúnað, ekki bara af sögulegum ástæðum heldur vegna þess að hann skiptir sköpum fyrir velferð þjóðarinnar allrar til framtíðar.
Sterkur íslenskur landbúnaður snýst bæði um fæðuöryggi og efnahagslegt öryggi.
Hinar fyrirséðu veðurfarsbreytingar munu hafa áhrif á fleira en jarðrækt. Með bráðnun norðurskauts-íshellunnar, sem nú gerist mun hraðar en nokkurn óraði fyrir, er að opnast flutningaleið á milli risamarkaðanna þriggja, Austur-Asíu, Vestur-Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna.
Ísland verður þá í miðpunkti þessarar flutningaleiðar, á krossgötum heimsviðskipta. Það mun því liggja beint við að á Íslandi verði komið upp umskipunarhöfnum. Á slíkum stöðum er tilvalið að framleiða vörur til útflutnings eða setja upp samsetningarverksmiðjur.
Hráefni er þá flutt úr öllum áttum að miðpunktinum. Þar er unnið úr því og fullunnin vara svo send til allra átta.
Til að nýta þessa stöðu þurfum við áfram að huga vel að milliríkjasamningum um viðskipti, þótt við stöndum vel að vígi á því sviði nú. Í alþjóðlegum samanburði á viðskiptum milli landa kemur fram að Ísland er eitt þeirra ríkja sem leyfir hvað mest og frjálsust milliríkjaviðskipti.
Ísland er þar t.d. langt fyrir ofan útflutningsrisana Þýskaland og Japan.
Saga mannkyns sýnir okkur svo ekki verður um villst að þeir staðir sem liggja vel við samgöngu- og flutningsleiðum blómgast og vaxa. Á slíkum stöðum rísa stórborgir og heimsveldi.
Verði Ísland á krossgötum mestu vöruflutninga heimsins er erfitt að gera sér í hugarlund hversu mikil verslun, framleiðsla og samfélagsleg áhrif gætu fylgt því.
Við þurfum að búa okkur undir þróunina. Vandi fylgir vegsemd hverri.
Við þurfum líka að standa vörð um rétt okkar til náttúruauðlinda á norðurslóðum. Á næstu áratugum munu skapast möguleikar á nýtingu gríðarmikilla auðlinda. Íslendingar eiga sterka kröfu til áhrifa á norðurslóðum.
Og hvort sem við viljum leggja áherslu á verndun eða nýtingu verðum við að treysta stöðu okkar í hópi þjóða við heimskautsbaug.
Ísland á að vera leiðandi í þróun og nýtingu umhverfisvænna orkugjafa. Eftirspurn eftir orku eykst svo hratt í veröldinni að hvað sem líður þróun nýrrar tækni er ljóst að eftirspurn eftir kolum, olíu og gasi mun aukast áfram og aukast mikið.
Innan efnahagslögsögu okkar eru svæði sem teljast líkleg til að gefa af sér olíu og gas í vinnanlegu magni og við eigum að leggja áherslu á að hefja fyrir alvöru leit þar, því að fámenn þjóð sem á slíkar auðlindir, hvort sem hún er byrjuð að nýta þær eða ekki, þarf ekki að óttast lánshæfismatsfyrirtæki eða vaxtakjör.
Eftir sem áður leggjum við áherslu á nýtingu endurnýtanlegrar og umhverfisvænnar orku og ættum að stefna að því að Ísland verði því sem næst sjálfbært um orku svo að hvergi þurfi að kynda með olíu og bílar, traktorar og skip gangi fyrir innlendri orku.
Innlend og umhverfisvæn orka mun líka bæta samkeppnisstöðu íslensks iðnaðar og ýta undir fjárfestingu hér á landi en ofan á hækkandi orkuverð erlendis bætast nýir orkuskattar og losunarkvótar sem valda því að þeim mun hagkvæmara verður að framleiða vörur með íslenskri orku.
Hvernig sem heimurinn þróast virðist ljóst að það mun skorta þær vörur sem mynda undirstöðuauðlindir Íslands. Í umtalaðri nýrri bók um heiminn árið 2050 er Ísland nefnt sem eitt af þeim 8 löndum sem muni farnast best vegna fyrirsjáanlegra breytinga á veröldinni.
Ísland er eitt af löndum framtíðarinnar!
…
Kæru félagar.
Mér hefur orðið tíðrætt um efnahagsmál og aðgerðir til að koma þjóðarbúinu á réttan kjöl. En þó efnahagsmál kalli á athygli um þessar mundir megum við samt ekki gleyma því að huga að manneskjunni sjálfri.
Viðleitni til að skapa sterkara hagkerfi og betra samfélag verður að grundvallast á því að við séum að vinna að velferð almennings, ella er til lítils unnið.
Ef við gleymum velferð og hamingju einstaklingsins, mun okkur bera af leið.
Áherslan á verðmætasköpun má aldrei verða til þess, að við gleymum því mannlega og að öll eigum við rétt á að vera sýnd virðing og nærgætni.
Við sem í sameiningu myndum Framsókn megum aldrei gleyma að tilgangurinn með baráttunni er fyrst og síðast að hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Við viljum öll sjá betra samfélag, stéttlaust samfélag sem gleymir ekki þeim sem eiga um sárt að binda eða standa höllum fæti.
Við viljum búa í samfélagi þar sem allir eru jafnir fyrir lögum, samfélagi þar sem ekki ríkir sundurþykkja eða öfund, samfélagi þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín en jafnframt samfélagi þar sem menn eru ábyrgir gjörða sinna.
Eitt af því besta við íslenskt samfélag í gegnum tíðina hefur verið trúin á réttmæti boðskaparins um að allir einstaklingar séu fæddir jafnir.
Í Íslandslýsingu Ludviks Muller í Fjölni segir hann um Íslendinga:
,,Allar stéttir eru viðlíka menntaðar, og komast eíns að orði, og hver fer með annan eins og jafníngja sinn, svo það er eingin nýjung, að bóndi sé við sama borð og efstu embættismenn, eða vinnufólk heilsi höfðingjum í Iandinu, eins og sínum jafningja.”
Þetta var á tíma þegar flest samfélög heims einkenndust af strangri stéttskiptingu.
En hvað sem líður þeirri réttlætiskennd að öll séum við fædd jöfn vitum við að raunveruleikinn er annar.
Í öllum þjóðfélögum er fólk sem stendur höllum fæti og þarfnast stuðnings, fólk sem hefur orðið fyrir áföllum í lífinu, fátækt fólk, veikt fólk, öryrkjar, börn og aldraðir. Þegar við stöndum frami fyrir erfiðum aðstæðum þessara einstaklinga reynir fyrst á hvað við meinum með fögrum orðum um jöfnuð og mannréttindi.
Framsóknarflokkurinn hefur á stefnuskrá sinni að setja manngildi ofar auðgildi. En hvernig hefur okkur tekist til? Hefur tekist að létta svo undir með þeim sem standa höllum fæti að við getum sagt við eigin samvisku að við séum sátt ?
Þessari spurningu verður hver að svara fyrir sig, ég get bara talað fyrir mig.
Ég er ekki sáttur.
Við skulum ekki gleyma því að fjölmargt hefur áunnist til batnaðar á liðnum áratugum og margt af því fyrir tilstuðlan Framsóknarflokksins en það er engu að síður gríðarlegt verk óunnið og þar eigum við sem fyrr hlutverki að gegna.
Að létta lífsbaráttu þeirra sem standa höllum fæti á að vera mál sem flokkurinn tekur föstum tökum. Ég vil vinna þannig og ég veit að þið kæru flokksmenn styðjið þá viðleitni til að skapa betra og mannlegra samfélag.
Sýnum svo viljann í verki.
Ég vil búa í samfélagi sem byggir á væntumþykju gagnvart öðru fólki þar sem samhjálp er sjálfsagður hlutur. Við eigum að geta lifað í sátt og samlyndi, laus við yfirgang og ofbeldi.
Við eigum að vera óhrædd við að sýna hvert öðru kærleika og umburðarlyndi.
Við eigum að virða og meta drifkraft og frelsi einstaklingsins til að móta eigið líf en um leið að byggja upp samfélag þar sem enginn er skilinn eftir.
Við eigum að bera virðingu fyrir mannréttindindum og vera tilbúinn til að standa fast gegn kúgun og valdníðslu.
Þetta eru og verða þau grunngildi sem ég hef að leiðarljósi og ég veit að þið kæru félagar eruð mér sammála um að það er sameiginleg trú okkar á slík grunngildi sem öðru fremur gerir okkur að þeirri heild sem við erum.
En það eru ekki bara þeir sem minna mega sín sem eru í vanda. Gengið hefur verið ótrúlega langt í því að skerða kjör eldriborgara, meðal annars með tekjutengingum sem engin hefði getað gert sér í hugarlund þegar hann hann var að leggja fyrir til efri áranna.
Þegar litið er yfir sögu Íslands á 20 öldinni, einhverja mestu uppbyggingar- og framfarasögu veraldar er það skammarlegt að þeir sem byggðu upp landið skuli fá slíka meðferð nú.
Ein af fyrstu æskuminningum mínum er frá útiskemmtun á gamla Melavellinum þar sem ég fylgdist með eldri manni panta ís fyrir barnabarn sitt. Þegar kom að því að greiða fyrir ísinn leitaði gamli maðurinn í veskinu sínu en fann ekki peninga og varð að afþakka ísinn.
Vel má vera að maðurinn hafi átt peninga sem hann gleymdi að taka með sér þann daginn en ég man enn eftir vonbrigðunum sem birtust í andliti hans.
Við eigum að geta tryggt öllum sem komast á eftirlaunaaldur kjör sem nægja til þess að fólk geti áfram verið virkir þátttakendur í samfélaginu og átt áhyggjulausar, góðar stundir með sínum nánustu.
…
Mörgum finnst vafalaust að miklum tíma sé varið í umfjöllun um efnahagsmál en sá efnahagslegi rammi sem stjórnvöld setja atvinnulífinu er grundvöllur allrar atvinnusköpunar. Og atvinna er grundvöllur allrar velferðar.
Þjóðin glímir nú við meira atvinnuleysi en við höfum séð áratugum saman og þegar við bætast þær efnahagslegu hörmungar sem dunið hafa á heimilum vegna mikillar skuldaaukningar er engin furða að víða gæti örvæntingar og kvíða.
Við undirbúning þessa þings hefur verið lagt í mikla vinnu við gerð tillagna og ályktana um atvinnumál og það er von þeirra sem að undirbúningnum komu að þingið geti sent frá sér kröftugar tillögur til viðreisnar atvinnulífinu.
Það hefur áður komið í okkar hlut að skapa aðstæður fyrir nýja sókn í atvinnulífinu, sú sókn tókst vel og leiddi af sér þúsundir nýrra starfa.
Nú er þörfin fyrir nýjar hugmyndir, kraft og þor í atvinnnumálum síst minni og Framsóknarflokkurinn mun leggja sitt af mörkum í þeim efnum eins og áður.
Þegar fólk hefur ekki möguleika til að afla tekna og sjá sér og sínum farborða getur verið erfitt að halda mannlegri reisn og oft er stutt í örvæntingu við slíkar aðstæður.
Það hefur verið skelfing í vetur að horfa upp á þann fjölda fólks sem hefur þurft að leita á náðir hjálparsamtaka og kirkjunnar til að afla sér nauðsynja. Aðstæður sem þessar eru alls ekki í samræmi við það hvernig við viljum hafa samfélag okkar.
Ég ætla ekki ríkisstjórninni það að vilja þeim ekki vel sem standa höllum fæti en það er svo grátlegt, að hvað eftir annað hefur ríkisstjórnin tekið ákvarðanir sem leitt hafa til þess að kreppan hefur dýpkað og atvinnuleysið aukist.
Hvaða áhrif hefur það á sálarlíf barna að horfa upp á það vonleysi foreldra sinna sem oftar en ekki er fylgifiskur atvinnuleysis.
Að baki hvers einstaklings sem er atvinnulaus er fjölskylda og oft á tíðum börn sem ekki skilja hvað er að gerast, upplifa bara angistina og hræðsluna sem foreldrarnir búa við.
Atvinnuleysi er böl sem við meigum aldrei sætta okkur við. Það verður að vera eitt af meginbaráttumálum Framsóknarflokksins að koma efnahagslífi þjóðarinnar af stað aftur þannig að fólki séu skapaðar aðstæður til sjálfsbjargar.
Stjórnmálaflokkar búa ekki til störf, en þeir geta skapað þær þjóðfélagslegu og efnahagslegu aðstæður sem gera gæfumuninn svo að störfin verði til.
Við eigum því ærið verk að vinna framsóknarmenn, að boða raunhæfar tillögur í atvinnumálum, tillögur sem verka hvetjandi á atvinnulífið og skapa það andrúmsloft í þjóðfélaginu að fólk og fyrirtæki eigi samleið.
Það er forgangsmál að koma atvinnulífinu aftur af stað. Eftir að okkur hefur tekist að endurreisa atvinnulífið og vinna bug á atvinnuleysinu getum snúið okkur að öðrum málum.
…
Framtíðin er björt fyrir hina fámennu þjóð okkar ef það tekst að nýta sóknarfærin.
Styrkur þjóðarinnar liggur að miklu leyti í smæð hennar. Við erum í raun ein stór fjölskylda sem ætti að hafa nóg til skiptanna.
Þess vegna á Ísland á að geta orðið land án fátæktar.
Við eigum að geta veitt öllum fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu. En fyrst og fremst eigum við að leggja áherslu á forvarnir, það er hagkvæmasta fjárfestingin.
Það á líka að vera hægt að tryggja öllum færni í að forðast hvers konar hættur. Framsóknarmenn beittu sér fyrir því að öll íslensk ungmenni lærðu að synda.
Það ætti líka að gera alla synda á öðrum sviðum eins og í fjármálum svo að allir sem lokið hafa grunnámi séu í stakk búnir til að varast hættur á því sviði.
Hvert líf er dýrmætt. Það þarf að leggja ofurkapp á að forða slysum, m.a. í umferðinni. Kortleggja þarf mestu hætturnar og eyða þeim skipulega, bæði á sjó og landi.
Öll íslensk ungmenni eiga að vera það vel að sér í skyndihjálp þegar þau ljúka grunnnámi að þau geti brugðist við þegar með þarf vegna slysa eða heilsubrests.
Framsóknarflokkurinn hefur alltaf lagt áherslu á að allir gætu notið menntunar óháð efnahag. Leggja þarf sérstaka áherslu á að mennta fólk í heilbrigðis- og raungreinum til að mæta þörfum framtíðarinnar.
Næst þegar Framsóknarflokkurinn tekur þátt í myndun ríkisstjórnar skulum við leggja áherslu á að flokkurinn fari með menntamálaráðuneytið.
Við eigum að efla og bera virðingu fyrir merkri sögu landsins, menningu þess og tungumálinu. Tungumáli einhverra merkustu bókmennta mannkynssögunnar.
Á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu liggja gífurleg vannýtt tækifæri.
Ferðaþjónustu má efla og um leið fjárfestingu og lífsgæði Íslendinga með því að gera átak í að fegra hið manngerða umhverfi, borgir og bæi. Lönd Austur-Evrópu notuðu tækifærið á meðan þau voru að byggja sig upp efnahagslega eftir fall kommúnismans og huguðu að fegrun umhverfisins.
Margar fallegar borgir í þessum löndum laða nú að sér ferðamenn, fyrirtæki og íbúa.
Framsóknarflokkurinn þarf að endurheimta stöðu sína sem flokkur umhverfismála. Landgræðslu má ekki vanrækja og leggja þarf áherslu á mengunarvarnir.
Ísland á að vera fjölskylduvænt land þar sem gott er að ala upp börn í öryggi. Í því skyni þarf að tryggja rétt barna ekki síður en foreldra.
Á Íslandi á að stefna að því að ná raunverulegu jafnrétti fyrir alla. Rétt er að endurmeta forgangsröðun í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna.
Í stað þess að leggja ofurkapp á að ná jöfnum kynjahlutföllum í öllum starfsstéttum ætti að vinna að því að bæta launakjör í þeim stéttum þar sem konur eru í miklum meirihluta, svo sem í kennarastétt og í umönnunarstéttum.
Við eigum líka að vinna að búsetujafnrétti, því að aðstæður fólks séu sambærilegar óháð búsetu. Gleymum því ekki að á landsbyggðinni verður til megnið af þeim gjaldeyristekjum sem við notum til uppbyggingar samfélagsins.
Þær tekjur renna í sameiginlega sjóði en fyrir vikið er líka eðlilegt að allir njóti þar góðs af.
Frá fyrsta degi hefur Framsóknarflokkurinn lagt áherslu á mikilvægi samgöngubóta. Frá þeirri áherslu má ekki hvika.
Við þurfum að skapa grunnatvinnuvegunum stöðugt starfsumhverfi. Þannig nýtast þeir samfélaginu best og þannig geta þeir myndað undirstöðu fyrir nýsköpun og rannsóknir. Um allan heim leggja menn áherslu á mikilvægi sprota- og tæknifyrirtækja.
Það er hins vegar dýrt að byggja upp slík fyrirtæki. Þau þurfa því skjól af öflugum framleiðslugreinum. Grunnatvinnuvegirnir og nýsköpun eru því ekki andstæður, þær styðja og efla hvora aðra. Þannig byggjum við upp fjölbreyttar og sterkar útflutningsgreinar.
Við þurfum að fara yfir verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tryggja að tekjuskipting endurspegli verkaskiptingu. Eðlilegt er að Framsóknarflokkurinn láti sig málefni sveitarfélaganna sig miklu varða.
Löggæslumál þarf og að styrkja. Hér á skipulögð glæpastarfsemi og fíkniefnasala ekki að fá þrifist. Á Íslandi á öllum að finnast þeir öruggir hvar sem þeir eru og á öllum tímum sólarhrings.
Í utanríkismálum eigum við áfram að eiga frjáls viðskipti við sem flesta og efla tengsl okkar við lönd í austri og vestri. Framsóknarmenn leggja mikla áherslu á gildi norræns samstarfs.
Okkur ber skylda til að láta gott af okkur leiða í þróunaraðstoð og ættum að marka okkur enn frekar sess sem land friðar.
Nýta okkur stöðu Íslands sem herlaust land til að tala máli friðar á alþjóðavettvangi. Gaman væri að sjá Ísland verða í framtíðinni vettvang fleiri viðburða á borð við leiðtogafundinn í Höfða.
Nú eru liðin hátt í tvö ár frá því að lögð var fram umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Ótal vankantar eru á því hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á því máli.
Annar stjórnarflokkurinn virðist ætla að ganga í sambandið hvað sem það kostar. Hinn samþykkti umsóknina en sagðist jafnframt ætla að berjast gegn henni.
Verst er þó að tímasetningin var einstaklega óheppileg eins og komið hefur á daginn. Málið klýfur þjóðina og virðist hafa áhrif á nánast öll önnur mál.
Annar ríkisstjórnarflokkana vanrækir hættur og kastar tækifærum á glæ vegna þess að allt má víkja fyrir Evrópusambandsumsókninni. Hinn stjórnarflokkurinn er nánast óstarfhæfur vegna málsins.
Á síðustu tveimur árum hefur mikið verið fundað vegna aðildarumsóknarinnar. Á þeim fundum hefur ítrekað komið fram óánægja hjá fulltrúum Evrópusambandsins með það á hvaða forsendum umsóknin er rædd á Íslandi.
Það er nánast að mönnum sárni að hér á landi sé fyrst og fremst rætt um Evrópusambandsaðild út frá því hvað hægt sé að græða á aðild eða að aðild sé lausnin á kreppunni.
Innan ESB vilja menn að sótt sé um vegna þess að þeir sem það geri trúi á hugsjónina um sameinaða Evrópu.
Þær skýringar að Íslendingar hafi sótt um til þess að sjá hvað þeim verður boðið mæta ekki skilningi. Ósjaldan hefur okkur verið bent á að þegar 300.000 manna þjóð sæki um að ganga í samband 27 ríkja og 500 milljóna manna hljóti það að fela í sér að við viljum verða þátttakendur í því sem það samband byggist á.
Á síðasta flokksþingi var samþykkt ályktun um Evrópusambandið sem fól í sér að fólk með ólíkar skoðanir á málinu gat leyft sér að túlka ályktunina með mjög ólíkum hætti.
Í ljósi reynslunnar hefðum við þurft að ræða meira um það hvort við vildum vera þátttakendur í því sem Evrópusambandið snýst um fremur en hvaða breytingar við vildum gera á því.
Ef í aðild að Evrópusambandinu felst eftirgjöf óskoraðra yfirráða yfir auðlindum erum við væntanlega nánast öll sammála um að það henti ekki Íslandi.
Á fundum mínum með framsóknarmönnum um land allt hafa menn ítrekað áréttað að mikilvægt sé að skýra afstöðu Framsóknarflokksins til aðildar að Evrópusambandinu.
Sá vilji birtist líka í því málefnastarfi sem fram hefur farið í flokksfélögunum í aðdraganda flokksþingsins og endurspeglast í tillögum málefnanefndar sem svo munu fá ítarlega umfjöllun hér á þinginu.
…
Til þess að ná markmiðunum um lífsgæði fyrir alla Íslendinga, í krafti öflugrar atvinnu uppbyggingar, þarf Framsóknarflokkurinn að ná árangri í þeim átökum sem nú standa um hvert Ísland skuli stefna.
Það að vera miðflokkur felur ekki í sér að vera laus við pólitískar skoðanir. Það snýst um að meta hvert mál fyrir sig út frá rökum og staðreyndum en ekki út frá fyrirfram gefinni hugmyndafræði. Því þarf svo að fylgja að menn séu tilbúnir að berjast fyrir því sem þeir telja rétt hverju sinni.
Flokkur sem kennir sig við hina rökréttu leið verður líka að vera prinsippflokkur. Prinsippstefna er hin parktíska stefna til langs tíma. Því að ef menn standa ekki fastir á grundvallaratriðum í samtímanum eru þeir að auka á vanda framtíðarinnar.
Við eigum að vera tilbúin til að samþykkja góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma og alltaf reiðubúin til að ræða kosti og galla ólíkra leiða.
Flokkurinn má hins vegar ekki vera tilbúinn til að fallast á hvað sem er fyrir það eitt að fá sæti við borðið.
Framsóknarflokkurinn má aldrei haga sér eins og pólitískt uppfyllingarefni, sem hjálparkokkur við þá hugmyndafræði sem ræður hverju sinni.
Framsóknarflokkurinn verður að skilgreina sig sem forystuflokk sem hvikar ekki á óvissutímum, heldur tekur af skarið og berst hart fyrir því sem er rétt.
Framsóknarflokkurinn hefur haft mestan stuðning þegar hann hefur verið afdráttarlaus. Um leið hefur hann verið umdeildur. Hjá því verður ekki komist.
Framsóknarflokkurinn hefur t.d. alltaf verið harður þegar kemur að því að gæta hagsmuna þjóðarinnar útávið. Það er heldur ekki nýtt að við þær aðstæður sé vegið að flokknum í ræðu og riti og hann sakaður um óbilgirni, enda þótt flokkurinn beiti sér jafnan fyrir samstöðu innávið samhliða öflugri málsvörn útávið.
Þegar framsóknarmenn ákváðu, með stuðningi sósíalista, að segja upp samningi við Breta frá 1901 sem gerði þeim kleift að veiða við strendur landsins, brást þriðji stjórnarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn, ókvæða við og hótaði margsinnis að slíta stjórnarsamstarfinu ef ekki yrði fallið frá áformunum.
Rökin voru þau að ekki mætti ögra alþjóðasamfélaginu, mikilvægir markaðir í Bretlandi og víðar voru í húfi, lánafyrirgreiðsla osfrv. Framsókn fór sínu fram og þjóðin hafði sigur.
Íslendingar hafa oft staðið frammi fyrir því að þurfa berjast hart fyrir réttindum sínum en ávallt gert það með rökum fremur en ofbeldi.
Það er við hæfi að minnast stjórnmálabaráttu Jóns Sigurðssonar nú þegar 200 ár eru frá fæðingu hans. Jón Sigurðsson var ekki óumdeildur. Hann var jafnvel sagður ofstækisfullur öfgamaður.
Krafa hans um að Íslendingar fengju að halda eigið þing á eigin tungumáli var sögð óraunhæf en markmiðið náðist.
Jón Sigurðsson byggði málflutning sinn á þrotlausum rannsóknum. Hann vísaði í mörghundruð ára gamla sáttmála og sagði ,,lög skulu standa”.
Undir forystu hans losnuðu Íslendingar undan oki erlends kaupmannaveldis og fengu frelsi til að versla við allar þjóðir.
Þegar rætt var um fjárhagslegan aðskilnað Íslands og Danmerkur lét hann sér ekki nægja að fara fram á að Íslendingar réðu eigin efnahag, hann hélt því fram að Danir skulduðu Íslendingum himinháar upphæðir.
Reikningskrafan svo kallaða var ekki samþykkt en hún stappaði stálinu í Íslendinga og styrkti þá í sjálfstæðisbaráttunni.
Jón Sigurðsson vék ekki frá grundvallaratriðum en var ávallt tilbúinn til málamiðlana til að ná áföngum á réttri braut.
Það væri ekki við hæfi að einhver þeirra stjórnmálaflokka sem starfa nú, 200 árum eftir fæðingu Jóns Sigurðssonar, reyndi að gera tilkall til Jóns eða stjórnmálastefnu hans. Innra með mér þykist ég hins vegar vita hvar í flokki hann ætti heima.
…
Kæru framsóknarmenn.
Nú ríður á að íslensk stjórnvöld gæti hagsmuna landsins.
Við okkur blasa bæði ógnir og ómæld tækifæri.
En ógnin er smávægileg og tækifærin gífurleg í samanburði við það sem Íslendingar stóðu frammi fyrir á meðan Jón Sigurðsson háði baráttu sína.
Við þurfum stjórnvöld sem efla með íslensku þjóðinni kjark og von. Stjórnvöld sem veita stöðugleika og sýn á framtíðina.
Það er engin ástæða til að Íslendingar geti ekki nú, eins og áður, fyllst bjartsýni og von en í raun eigum við að hafa meira en von.
Við eigum að hafa trú. Óbilandi trú á bjarta framtíð Íslands.
Framsóknarflokkurinn er stofnaður í krafti þeirrar vissu að íslenskri þjóð væru allir vegir færir. Það á jafn vel við í dag eins og áður.
Og við ætlum að standa undir nafni sem framsóknarmenn, við ætlum að vísa veginn fram á við, ganga á undan með trú á eigin mátt og bjarta framtíð Íslands að vopni.
Kæru félagar !
Eftir fimm ár verður Framsóknarflokkurinn aldargamall.
Það er hægt að breyta miklu á fimm árum.
Einsetjum okkur nú að fyrir aldarafmælið verðum við byrjuð að leiða íslenskt samfélag eftir þeim gullna meðalvegi sem liggur að landi vona okkar.
Og gerum það í fullvissu þess að að engin sú hindrun sem á þeim vegi kann að verða sé svo stór að einbeittur framsóknarvilji fái ekki við hana ráðið.
Í dag hefjum við vegferð til bjartra tíma.
Í dag hefjum við á ný framsókn Íslands.