Í gær flutti ég ræðu á Alþingi um það ábyrgðarleysi sem nú einkennir ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Fyrir rúmri viku sögðu tveir þingmenn sig úr þingflokki Vinstri grænna og þá fengum við að heyra að með því hefði ríkisstjórnin styrkst. Í framhaldi af því fór forsætisráðherra fram á heimild til að leggja niður landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, væntanlega til að styrkja ríkisstjórnina enn meira. Nú virðist það mál hafa verið stöðvað í þingflokki Vinstri grænna í bili enda ólíklegt að forsætisráðherra hafi meiri hluta fyrir því máli á þinginu, sem betur fer.
Fyrir nokkrum dögum kom líka í ljós að forsætis- og jafnréttisráðherra hefði brotið jafnréttislög. Ekki hefur gefist svigrúm til að ræða þetta við ráðherra á Alþingi og spyrja hvort forsætisráðherra ætlaði ekki örugglega að segja af sér eins og hún hefði örugglega krafist af öllum öðrum í sömu stöðu, vegna þess að ekki hafði forsætisráðherra fyrr verið staðin að því að brjóta jafnréttislög en fjármálaráðherra var kominn í stríð.
Nýtt kjörorð þessarar ríkisstjórnar hlýtur að vera: “Svo skal böl bæta að bíða annað tjón verra”, vegna þess að ekki er svigrúm til að taka á einu vandræðamáli, þá er annað stærra komið upp. Í hverju einasta tilviki virðast ráðherrar ekki ætla að taka ábyrgð á neinu, ekki kannast við neitt. Fjármálaráðherra segist ekki bera neina ábyrgð á ákvörðunum eigin ríkisstjórnar varðandi heimild til NATO til að halda áfram hernaði í Líbíu. Hið sama á við um forsætisráðherra í jafnréttismálum.
Svörin eru alltaf á sömu leið: “Myndi einhver trúa þessu upp á mig, að ég mundi gera svona?” Sama fólk og fordæmir alla aðra ætlar ekki að taka ábyrgð á neinu sjálft.