Nú þarf stjórnin að stjórna

Hvað sem fólki finnst um umræðuna um kór­ónu­veiruna er ljóst að áhrif­in af út­breiðslu veirunn­ar eru þegar orðin slík að stjórn­völd þurfa að bregðast við með mjög af­ger­andi hætti. Það dug­ar ekki leng­ur að fela sig á bak við sér­fræðinga.

Stjórn­völd eiga að sjálf­sögðu að nýta ráð þeirra sem best þekkja til, leyfa stofn­un­um að rækja hlut­verk sitt og byggja ákv­arðanir á bestu fá­an­legu upp­lýs­ing­um. Við þær aðstæður sem nú hafa skap­ast þarf fram­lag ráðherra hins veg­ar að vera meira en að mæta sem áhorf­end­ur á blaðamanna­fundi.

Staðan

Lang­fjöl­menn­asta og efna­hags­lega mik­il­væg­asta hérað Ítal­íu hef­ur verið sett í sótt­kví, lokað fyr­ir um­heim­in­um, skól­um hef­ur verið lokað í 13 lönd­um, í heild eða að hluta, at­vinnu- og menn­ing­ar­líf er víða í lamasessi, olíu­verð féll um 10% á ein­um degi, verðmæti flug­fé­laga og annarra ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækja hef­ur fallið um nærri þriðjung á tveim­ur vik­um, verðmæti fyr­ir­tækja á öðrum sviðum hríðfell­ur líka. Hag­kerfi heims­ins er hætt komið.Hvort sem menn telja þetta yf­ir­drif­in viðbrögð eða ekki er þetta orðið raun­veru­leiki. Við blas­ir al­var­leg heimskrísa. Efna­hags­legu áhrif­in eru jafn­vel tal­in geta orðið meiri en af alþjóða-fjár­málakrís­unni fyr­ir rúm­um ára­tug.

Viðbrögð í öðrum lönd­um

Í flest­um lönd­um er sterk krafa um að stjórn­völd leggi lín­urn­ar um hvernig tek­ist verði á við þenn­an vanda. Víðast hvar hafa for­set­ar og ráðherr­ar kynnt aðgerðir til að tak­ast á við vand­ann. Rót­tæk­ar aðgerðir til að fást við ástandið, heil­brigðis­lega og efna­hags­lega.Miðað við íbúa­tölu er fjöldi skráðra smita í Bretlandi aðeins brot af því sem er hér á Íslandi. Þó er langt síðan rík­is­stjórn Bret­lands fór að upp­lýsa fólk um til hvaða aðgerða yrði gripið. Nýj­ar upp­lýs­ing­ar ber­ast á hverj­um degi. Áformað er að fá allt að 3 millj­ón­ir sjálf­boðaliða til starfa fyr­ir heil­brigðis­kerfið (í öðrum lönd­um hafa nem­ar fengið tíma­bundið leyfi til að létta und­ir með heil­brigðis­starfs­mönn­um). Fyr­ir ligg­ur áætl­un um hvernig mat­væl­um verði komið til fólks á mestu smitsvæðunum. Gert er ráð fyr­ir að fyr­ir­tæki sem lenda í skakka­föll­um vegna far­ald­urs­ins fái frest til að standa skil á skött­um. Þannig mætti telja áfram.

Efna­hags­leg áhrif á Íslandi

Ljóst er að efna­hags­leg áhrif kór­ónu­veirunn­ar geta orðið gríðarlega mik­il, meðal ann­ars á Íslandi. Hag­kerfi heims­ins var veikt fyr­ir. Eins og ís­lensk­um ráðamönn­um er tíðrætt um erum við í betri stöðu en flest lönd til að tak­ast á við efna­hags­leg skakka­föll. Sú staða er til kom­in vegna þess að fyr­ir nokkr­um árum grip­um við til for­dæma­lausra aðgerða til að bregðast við for­dæma­laus­um vanda. Þær báru þann ár­ang­ur að ekk­ert ríki hef­ur náð viðlíka efna­hags­leg­um viðsnún­ingi eins hratt og Ísland.Nú rík­ir ann­ars kon­ar vandi og hann kall­ar á aðgerðir sem sniðnar eru að þeim vanda.

Ferðaþjón­ust­an, stærsta út­flutn­ings­grein þjóðar­inn­ar, lend­ir nú í veru­legu áfalli í beinu fram­haldi af öðrum skakka­föll­um. Lít­il og meðal­stór fyr­ir­tæki lands­ins hafa mörg verið sett í nauðvörn vegna sí­hækk­andi skatta og annarra út­gjalda, sjáv­ar­út­veg­ur­inn stend­ur frammi fyr­ir loðnu­bresti og á nú á hættu að markaðsverð afurða lækki veru­lega, tekj­ur orku­fyr­ir­tækja munu drag­ast veru­lega sam­an ef hrá­efna­verð lækk­ar. Ekk­ert svið ís­lensks at­vinnu­lífs mun fara var­hluta af slíkri þróun.

Nauðsyn­leg­ar aðgerðir

Þetta kall­ar á af­drátt­ar­laust inn­grip stjórn­valda. Það mun þurfa að lækka skatta á fyr­ir­tæki og e.t.v. veita þeim aukið svig­rúm til skila. Bank­ar þurfa að vinna með fyr­ir­tækj­um til að gera þeim kleift að standa í skil­um frek­ar en að yf­ir­taka þau.Íslensk fyr­ir­tæki hafa lengi of­greitt trygg­inga­gjald. Nú þarf að snúa því dæmi við og leyfa fyr­ir­tækj­un­um að njóta góðs af þeim trygg­ing­um sem þau hafa lagt inn fyr­ir til að lág­marka upp­sagn­ir.

Kerfið mun þurfa að sýna aukið svig­rúm og sveigj­an­leika. Ryðja þarf úr vegi hindr­un­um. Hætta að elt­ast við menn eins og bónd­ann sem var að rækta sil­ung til sjálfsþurft­ar í eig­in tjörn. Leggja þess í stað áherslu á að þjón­usta þá sem vilja fram­kvæma og fram­leiða.

Ríkið mun þurfa að auka fjár­fest­ingu í innviðum til að viðhalda fjár­fest­ingu og at­vinnu­stigi en á sama tíma þarf það að spara ann­ars staðar, draga úr ímynd­ar­póli­tík og öðru prjáli.

Nú hlýt­ur að vera komið að því að við lær­um að meta mik­il­vægi ís­lensks land­búnaðar. Aðstæður nú veita okk­ur sem full­valda ríki heim­ild til að end­ur­skoða ráðstaf­an­ir með það að mark­miði að verja eig­in mat­væla- og fæðuör­yggi. Það tæki­færi þarf að nýta hratt og vel. Setja þarf sam­an neyðarlög til að verja ís­lensk­an land­búnað og inn­lenda fram­leiðslu mat­væla. Þau þurfa að fela í sér fjár­hags­leg­an stuðning og end­ur­skoðun þeirra samn­inga og reglu­verks sem þrengt hef­ur að grein­inni.

Aðilar vinnu­markaðar­ins ættu að fresta kjara­deil­um fram á haust, e.t.v. með skamm­tíma­samn­ing­um.

Margt fleira þarf að koma til. Aðal­atriðið er að rík­is­stjórn­in sýni viðbrögð sem eru í sam­ræmi við um­fang vand­ans og til þess fall­in að tak­ast á við hann.

Þrístökk í þágu at­vinnu­lífs

Áður en kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn og áhrif hans tóku að birt­ast var ljóst að ís­lenskt at­vinnu­líf væri í vanda sem þyrfti að bregðast við. Við upp­haf þings eft­ir ára­mót ræddu þing­menn Miðflokks­ins þetta og boðuðu aðgerðir til að bregðast við ástand­inu.Afrakst­ur­inn var meðal ann­ars áætl­un sem við kölluðum „þrístökk í þágu at­vinnu­lífs­ins“.

Meg­in­inn­tak áætl­un­ar­inn­ar er eft­ir­far­andi.

1. 150 millj­arða króna viðbót verði sett í innviðaupp­bygg­ingu á næstu þrem­ur árum. Áhersla verði lögð á fram­kvæmd­ir við sam­göngu­mann­virki, flutn­ings­kerfi raf­orku og ferðamannastaði auk átaks í bygg­ingu hjúkr­un­ar­heim­ila. Lána­kjör ís­lenska rík­is­ins hafa aldrei verið eins góð og að und­an­förnu og það ástand sem nú rík­ir í efna­hags­mál­um heims­ins mun enn styrkja þá stöðu.

2. Trygg­inga­gjald verði lækkað um heilt pró­sentu­stig um­fram nú­ver­andi áform og gistinátta­gjald af­numið.

3. Bindiskylda bank­anna verði lækkuð til að ýta und­ir lán­veit­ing­ar til fyr­ir­tækja.

Þótt við höf­um lagt drög að þess­um til­lög­um og talið mikla þörf fyr­ir þær strax í þing­byrj­un eru þær nú orðnar nauðsyn ásamt öðrum aðgerðum til að bregðast við því ástandi sem blas­ir við.

Aðgerðir strax

Þegar mikið ligg­ur við þarf rík­is­stjórn að taka af skarið, taka ákv­arðanir og þora að bera ábyrgð á þeim, enda þótt allt sem gjört er við slík­ar aðstæður orki tví­mæl­is.Við mun­um veita rík­is­stjórn­inni all­an stuðning við að ráðast í nauðsyn­leg­ar aðgerðir til að tak­ast á við þenn­an for­dæma­lausa vanda. Við Íslend­ing­ar höf­um áður náð ein­stök­um ár­angri í að tak­ast á við ein­stak­an vanda. Nú er aft­ur þörf á slík­um aðgerðum.

 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9.3.2020