Stjórnvöld eiga að sjálfsögðu að nýta ráð þeirra sem best þekkja til, leyfa stofnunum að rækja hlutverk sitt og byggja ákvarðanir á bestu fáanlegu upplýsingum. Við þær aðstæður sem nú hafa skapast þarf framlag ráðherra hins vegar að vera meira en að mæta sem áhorfendur á blaðamannafundi.
Staðan
Langfjölmennasta og efnahagslega mikilvægasta hérað Ítalíu hefur verið sett í sóttkví, lokað fyrir umheiminum, skólum hefur verið lokað í 13 löndum, í heild eða að hluta, atvinnu- og menningarlíf er víða í lamasessi, olíuverð féll um 10% á einum degi, verðmæti flugfélaga og annarra ferðaþjónustufyrirtækja hefur fallið um nærri þriðjung á tveimur vikum, verðmæti fyrirtækja á öðrum sviðum hríðfellur líka. Hagkerfi heimsins er hætt komið.Hvort sem menn telja þetta yfirdrifin viðbrögð eða ekki er þetta orðið raunveruleiki. Við blasir alvarleg heimskrísa. Efnahagslegu áhrifin eru jafnvel talin geta orðið meiri en af alþjóða-fjármálakrísunni fyrir rúmum áratug.
Viðbrögð í öðrum löndum
Í flestum löndum er sterk krafa um að stjórnvöld leggi línurnar um hvernig tekist verði á við þennan vanda. Víðast hvar hafa forsetar og ráðherrar kynnt aðgerðir til að takast á við vandann. Róttækar aðgerðir til að fást við ástandið, heilbrigðislega og efnahagslega.Miðað við íbúatölu er fjöldi skráðra smita í Bretlandi aðeins brot af því sem er hér á Íslandi. Þó er langt síðan ríkisstjórn Bretlands fór að upplýsa fólk um til hvaða aðgerða yrði gripið. Nýjar upplýsingar berast á hverjum degi. Áformað er að fá allt að 3 milljónir sjálfboðaliða til starfa fyrir heilbrigðiskerfið (í öðrum löndum hafa nemar fengið tímabundið leyfi til að létta undir með heilbrigðisstarfsmönnum). Fyrir liggur áætlun um hvernig matvælum verði komið til fólks á mestu smitsvæðunum. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki sem lenda í skakkaföllum vegna faraldursins fái frest til að standa skil á sköttum. Þannig mætti telja áfram.
Efnahagsleg áhrif á Íslandi
Ljóst er að efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar geta orðið gríðarlega mikil, meðal annars á Íslandi. Hagkerfi heimsins var veikt fyrir. Eins og íslenskum ráðamönnum er tíðrætt um erum við í betri stöðu en flest lönd til að takast á við efnahagsleg skakkaföll. Sú staða er til komin vegna þess að fyrir nokkrum árum gripum við til fordæmalausra aðgerða til að bregðast við fordæmalausum vanda. Þær báru þann árangur að ekkert ríki hefur náð viðlíka efnahagslegum viðsnúningi eins hratt og Ísland.Nú ríkir annars konar vandi og hann kallar á aðgerðir sem sniðnar eru að þeim vanda.
Ferðaþjónustan, stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar, lendir nú í verulegu áfalli í beinu framhaldi af öðrum skakkaföllum. Lítil og meðalstór fyrirtæki landsins hafa mörg verið sett í nauðvörn vegna síhækkandi skatta og annarra útgjalda, sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir loðnubresti og á nú á hættu að markaðsverð afurða lækki verulega, tekjur orkufyrirtækja munu dragast verulega saman ef hráefnaverð lækkar. Ekkert svið íslensks atvinnulífs mun fara varhluta af slíkri þróun.
Nauðsynlegar aðgerðir
Þetta kallar á afdráttarlaust inngrip stjórnvalda. Það mun þurfa að lækka skatta á fyrirtæki og e.t.v. veita þeim aukið svigrúm til skila. Bankar þurfa að vinna með fyrirtækjum til að gera þeim kleift að standa í skilum frekar en að yfirtaka þau.Íslensk fyrirtæki hafa lengi ofgreitt tryggingagjald. Nú þarf að snúa því dæmi við og leyfa fyrirtækjunum að njóta góðs af þeim tryggingum sem þau hafa lagt inn fyrir til að lágmarka uppsagnir.
Kerfið mun þurfa að sýna aukið svigrúm og sveigjanleika. Ryðja þarf úr vegi hindrunum. Hætta að eltast við menn eins og bóndann sem var að rækta silung til sjálfsþurftar í eigin tjörn. Leggja þess í stað áherslu á að þjónusta þá sem vilja framkvæma og framleiða.
Ríkið mun þurfa að auka fjárfestingu í innviðum til að viðhalda fjárfestingu og atvinnustigi en á sama tíma þarf það að spara annars staðar, draga úr ímyndarpólitík og öðru prjáli.
Nú hlýtur að vera komið að því að við lærum að meta mikilvægi íslensks landbúnaðar. Aðstæður nú veita okkur sem fullvalda ríki heimild til að endurskoða ráðstafanir með það að markmiði að verja eigin matvæla- og fæðuöryggi. Það tækifæri þarf að nýta hratt og vel. Setja þarf saman neyðarlög til að verja íslenskan landbúnað og innlenda framleiðslu matvæla. Þau þurfa að fela í sér fjárhagslegan stuðning og endurskoðun þeirra samninga og regluverks sem þrengt hefur að greininni.
Aðilar vinnumarkaðarins ættu að fresta kjaradeilum fram á haust, e.t.v. með skammtímasamningum.
Margt fleira þarf að koma til. Aðalatriðið er að ríkisstjórnin sýni viðbrögð sem eru í samræmi við umfang vandans og til þess fallin að takast á við hann.
Þrístökk í þágu atvinnulífs
Áður en kórónuveirufaraldurinn og áhrif hans tóku að birtast var ljóst að íslenskt atvinnulíf væri í vanda sem þyrfti að bregðast við. Við upphaf þings eftir áramót ræddu þingmenn Miðflokksins þetta og boðuðu aðgerðir til að bregðast við ástandinu.Afraksturinn var meðal annars áætlun sem við kölluðum „þrístökk í þágu atvinnulífsins“.
Megininntak áætlunarinnar er eftirfarandi.
1. 150 milljarða króna viðbót verði sett í innviðauppbyggingu á næstu þremur árum. Áhersla verði lögð á framkvæmdir við samgöngumannvirki, flutningskerfi raforku og ferðamannastaði auk átaks í byggingu hjúkrunarheimila. Lánakjör íslenska ríkisins hafa aldrei verið eins góð og að undanförnu og það ástand sem nú ríkir í efnahagsmálum heimsins mun enn styrkja þá stöðu.
2. Tryggingagjald verði lækkað um heilt prósentustig umfram núverandi áform og gistináttagjald afnumið.
3. Bindiskylda bankanna verði lækkuð til að ýta undir lánveitingar til fyrirtækja.
Þótt við höfum lagt drög að þessum tillögum og talið mikla þörf fyrir þær strax í þingbyrjun eru þær nú orðnar nauðsyn ásamt öðrum aðgerðum til að bregðast við því ástandi sem blasir við.
Aðgerðir strax
Þegar mikið liggur við þarf ríkisstjórn að taka af skarið, taka ákvarðanir og þora að bera ábyrgð á þeim, enda þótt allt sem gjört er við slíkar aðstæður orki tvímælis.Við munum veita ríkisstjórninni allan stuðning við að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir til að takast á við þennan fordæmalausa vanda. Við Íslendingar höfum áður náð einstökum árangri í að takast á við einstakan vanda. Nú er aftur þörf á slíkum aðgerðum.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9.3.2020