Á mánudaginn tilkynnir EFTA dómstóllinn um niðurstöðu sína í Icesave-málinu. Flestir muna þann gengdarlausa hræðsluáróður sem rekinn var fyrir undirritun Icesave-samninganna og átti ekki við nein haldbær rök að styðjast. Þrátt fyrir þann áróður gaf íslenska þjóðin skýr skilaboð í málinu í tvígang. Nú þegar niðurstaða er á næsta leiti er farið að bera á sams konar orðræðu. Í fréttum birtast tilvitnanir úr skýrslum frá AGS og lánshæfismatsfyrirtækjum sem eins og áður hóta ógurlegum skuldum með refsivöxtum verði niðurstaða dómstólsins óhagstæð.
Rétt er að staldra stuttlega við þessar tölur sem nú sveima um fréttamiðla um hugsanlegan „kostnað Íslands af Icesave málinu“. Tölurnar eru teknar upp úr skýrslu AGS, en þar stendur að þær séu byggðar á upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum. Því miður virðist enginn hafa bent fulltrúum AGS á þá staðreynd að upplýsingar sem íslensk stjórnvöld hafa látið frá sér fara um Iceasve málið hafa oft á tíðum reynst í litlu samhengi við staðreyndir málsins. Nægir þar að rifja upp mat Seðlabanka Íslands á skuldastöðu ríkisins sem notað var til að réttlæta samþykkt Icesave 2 fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, en tók skyndilega dramatískum breytingum til hins verra eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er því eðlilegt að velta fyrir sér á hvaða forsendum frá stjórnvöldum mat AGS er byggt nú?
Hvað gerist eftir mánudaginn?
Nú þegar von er á niðurstöðu EFTA dómstólsins er gott að rifja upp nokkur grunnatriði málsins og minna á hverju er við að búast þegar dómur hefur verið kveðinn upp. Við skulum byrja á nokkrum mikilvægum staðreyndum:
- Íslensku neyðarlögin tryggðu Bretum og Hollendingum mun meiri heimtur úr þrotabúi Landsbankans en þeir hefðu annars getað vonast eftir. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda bættu þannig rétt Icesave innistæðueigenda mikið.
- Þrotabú Landsbankans hefur þegar greitt út rúmlega 600 milljarða króna til kröfuhafa, Breta og Hollendinga. Það er 50% af öllum forgangskröfum í þrotabúið, helmingurinn af öllum Icesave innistæðunum.
- Bretar og Hollendingar hafa fengið upphæð lágmarkstryggingarinnar vegna Icesave (upphæðina sem samningarnir snerust um) greidda út hraðar heldur en ef Icesave samningar hefðu verið í gildi. Sú tala er nú nálægt 70% lágmarkstryggingarinnar.
- Nú virðist loks öruggt að þrotabú Landsbankans muni geta greitt allar forgangskröfur í búið, þar á meðal allar kröfur vegna Icesave, einnig kröfur breskra sveitarfélaga og annarra lögaðila.
- Þrotabú Landsbankans mun greiða þessa upphæð út hver sem niðurstaða EFTA dómstólsins verður. Það er því ljóst að Bretar og Hollendingar munu fá allar Icesave innistæðurnar greiddar að fullu án þess að íslenskir skattgreiðendur þurfi að veita ríkisábyrgð fyrir einni einustu krónu.
Hvað með fullyrðinguna „Við munum þurfa að borga meira ef við töpum“?
Eftir að þriðja Icesave samningnum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu reis upp mikill örlagakór (sem enn lætur á sér kræla) og hélt því fram að ef Ísland tapaði málinu myndi það kosta íslenska skattgreiðendur helmingi meira en Icesave kröfur Breta og Hollendinga hljóðuðu upp á til að byrja með. Því var haldið fram að „Íslendingar yrðu þá að borga 1300 milljarða“, allar Icesave innistæður upp í topp í stað lágmarkstryggingarinnar sem var um helmingur þeirrar upphæðar.
Þessi hræðsluáróður hefur því miður ekki enn verið kveðinn alveg niður. Enn er til fólk sem heldur þessu blákalt fram. Því er mikilvægt að minna á að þetta er rangt. Við skulum rifja upp nokkrar staðreyndir um það hvaða þýðingu það hefur í raun og veru fyrir Ísland ef EFTA dómstóllinn dæmir Íslandi í óhag:
- Engin greiðsluskylda felst í slíkum dómi. EFTA dómstóllinn mun aðeins skera úr um það hvort Ísland hafi brotið gegn EES samningnum, þ.e. hvort tilskipun ESB um innistæðutryggingar hafi verið uppfyllt.
- Ef dómurinn kemst að því að um brot hafi verið að ræða kemur málið aftur á borð íslenskra stjórnvalda sem þá þurfa að bregðast við.
- Einfaldasta leiðin fyrir íslenska ríkið til að bregðast við er að benda á að Bretar og Hollendingar muni fá allar Icesave innistæðurnar greiddar úr þrotabúi Landsbankans, ekki aðeins lágmarksupphæðina.
- Vilji Bretar og Hollendingar láta reyna á skaðabótarétt sinn, t.d. til að knýja fram vexti, geta þeir höfðað skaðabótamál gegn íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
- Í slíku máli þyrftu Bretar og Hollendingar hins vegar að sýna fram á að aðgerðir íslenskra stjórnvalda hafi valdið þeim tjóni. Það er hins vegar vandséð hvernig sýnt verður fram á slíkt tjón, því eins og bent var á hér í upphafi bættu aðgerðir íslenskra stjórnvalda rétt Breta og Hollendinga umtalsvert með setningu neyðarlaganna.
- Allar hugsanlegar kostnaðartölur sem settar eru fram um slíkt skaðabótamál er gott að skoða í samhengi við kostnað Icesave samninganna. Samkvæmt mati sem fjármálaráðuneytið vann fyrir Svavar Gestsson og miðast við 7. maí 2012 (miðað við gengi krónunnar 1. mars 2012) var heildarvaxtakostnaður íslenska ríkisins vegna Icesave 3 samningsins, hefði hann verið samþykktur, kominn í um 80 milljarða. Vaxtakostnaður af Icesave 2 (vaxtahlé) var kominn í 182 milljarða og Icesave 1 í 248 milljarða. Allt auðvitað í erlendri mynt sem ekki er til þ.a. gengið hefði veikst enn meira og kostnaðurinn orðið enn meiri.
Mikilvægast að stjórnvöld haldi ró sinni
Það sem er mikilvægast í Icesave málinu nú er að íslensk stjórnvöld haldi ró sinni hver sem niðurstaðan verður. Tíminn hefur alltaf unnið með Íslendingum í Icesave málinu. Hann mun gera það áfram.
Íslensk stjórnvöld hafa því miður haldið frámunalega illa á Icesave málinu frá upphafi þess, hundsað faglegar og fræðilegar ráðleggingar, leynt efnisatriðum samninga og ítrekað reynt að þvinga málið í gegn á allt of miklum hraða, svo eitthvað sé nefnt. Þessi vinnubrögð mega ekki endurtaka sig.
Þegar niðurstaða EFTA dómstólsins liggur fyrir þurfa íslensk stjórnvöld að sýna það í verki að þau hafi lært af mistökunum. Ef niðurstaðan verður Íslandi í óhag mega stjórnvöld ekki hlaupa upp til handa og fóta í von um að Bretar og Hollendingar „leyfi“ þeim að skrifa undir fjórða Icesave samninginn sem veiti ríkisábyrgð á himinháum vaxtagreiðslum. Staðreyndir málsins og tvístaðfestur vilji íslensku þjóðarinnar leyfir ekki slík vinnubrögð.
Nú, eins og áður, er mikilvægt að umræða og umfjöllun um Icesave málið byggi á staðreyndum. Og staðreyndirnar gefa Íslendingum ekki tilefni til að óttast niðurstöðu málsins.