Leiðrétting

Í grein minni frá því í gær, um áhættuna vegna Icesave samningsdraganna, víxluðust Landsbankinn og Glitnir. Fjármálaráðuneytið hefur sent frá sér tilkynningu vegna þessa.

Það er ánægjulegt að sjá að ríkisstjórnin skuli gefa mér þann gaum að þegar birtist villa í grein eftir mig sjái fjármálaráðuneytið ástæðu til að senda frá sér sérstaka tilkynningu. Jafnframt er leiðréttingin ánægjuefni því að hún sýnir að búið sé að taka tillit til heildsöluinnlána við mat á greiðslugetu þrotabúsins til að standa undir kröfum Breta og Hollendinga.

Það þýðir að jafnvel þótt málið færi fyrir dómstóla (sem er ólíklegt) og það tapaðist (sem er ólíklegt) og Íslendingar væru af einhverjum óskiljanlegum ástæðum dæmdir til að ábyrgjast allar innistæður Landsbankans (sem er mjög ólíklegt þótt sumir hafi leyft sér að halda því fram) á þrotabúið að geta staðið undir kostnaðinum að mestu enda búið að taka tillit til allra innistæðna (líka heildsöluinnlána) við mat á greiðslugetu þrotabúsins.