Icesave: Niðurstaðan

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. febrúar 2011

Hindranir við endurreisn

Hvað sem líður réttlæti hafa menn velt því fyrir sér hvort rétt sé að fallast á kröfur Breta og Hollendinga af hagkvæmnisástæðum –  kaupa sig frá vandræðum.

Margar órökstuddar og fráleitar staðhæfingar hafa fallið um kostnaðinn við að hafa ekki greitt Icesave. Sú umræða er eitthvert besta dæmið um hvernig stjórnmálaumræða fer fram með innistæðulausum frösum fremur en rökum.

Alþjóðaviðskipti ráðast af áhættu- og hagkvæmnismati. Að halda því fram að fjárfestar líti ekki við Íslandi vegna þess að Íslendingar vilja leysa mál að lögum (hjá dómstólum ef með þarf) stenst ekki skoðun. Fjölmörg dæmi sanna að Icesavemálið hefur hvergi haft áhrif nema hjá pólitískum stofnunum eins og Evrópska fjárfestingabankanum þar sem fjármálaráðherrar Breta og Hollendinga eiga sæti. Hins vegar er ljóst að óvissa um að reglur réttarríkisins, á borð við eignarrétt, séu í heiðri hafðar svo ekki sé minnst á skattahækkunarstefnu undir kjörorðinu ,,you aint seen nothing yet“ hefur reynst stórskaðleg. Það eru hinar raunverulegu hindranir.

 Gjaldeyrishöft

Svo kann það að hafa farið framhjá þeim sem halda að ráðuneytadeilan um Icesave skaði ímynd landsins sem fjárfestingakosts að í landinu eru í gildi ströng gjaldeyrishöft í trássi við eina af meginstoðum EES-samningsins. Eðli málsins samkvæmt er fátt sem heldur erlendu fjármagni jafnrækilega frá ríki eins og gjaldeyrishöft. Þá er rétt að minnast þess að almennt virðast menn sammála um það, hvort sem litið er til Arion-banka eða ráðgjafa fjárlaganefndar, að áframhaldandi gjaldeyrishöft séu forsenda Icesave-samninganna. Að vísu voru fulltrúar Seðlabankans ekki vissir um að sú yrði raunin. Varla var þó við öðru að búast af stofnuninni sem tekið hefur að sér að vera kynningardeild ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum með þeim afleiðingum að að „upp“ þarf að þýða sem „niður“, „já“ sem „nei“ og öfugt. Með öðrum orðum: Þau lög sem eru beinlínis til þess fallin að halda fjárfestum í burtu þurfa að gilda áfram eigi að fallast á Icesave samningana og við horfum þá fram á áframhaldandi stöðnun, landflótta og gríðarlegt tjón fyrir íslenskt efnahagslíf.

 Hrakspárnar

Heimsendaspárnar sem ráðherrar og ýmsir álitsgjafar héldu mjög á lofti í umræðu um Icesave málið á árunum 2009 og 2010 hafa allar reynst rangar. Margar voru þær fullkomlega órökréttar en því miður kom það ekki í veg fyrir að þær tröllriðu umræðunni. Ísland yrði Kúba norðursins eða Norður-Kórea vestursins ef við gæfum ekki eftir. Gengi krónunnar félli ef við bættum ekki við gríðarlegum skuldum í erlendri mynt (jafnvel hagfræðingar leyfðu sér að halda fram slíkri þversögn). Enginn myndi vilja lána Íslendingum peninga, og svona hélt söngurinn áfram dágóða stund.

Þegar kannanir fóru að sýna að almenningur myndi hafna Icesavelögunum tók gengi krónunnar hins vegar að styrkjast og skuldatryggingaálag (mælikvarði á áreiðanleika lántaka) Íslands að lagast hratt. Ísland hefur svo farið fram úr hverju landinu á eftir öðru og þykir nú traustari lántaki en t.d. Grikkland, Írland, Portúgal og Spánn. Í því felst raunverulegur sparnaður sem skiptir öllu máli í landi þar sem skuldsetning er helsta fyrirstaða efnahagslegrar endurreisnar.

Það sem skiptir máli í efnahagsmálum er nefnilega að halda skuldum lágum en ekki hversu mörg hundruð milljörðum er varið í að kaupa sér vini í erlendum ráðuneytum.

Tökum afstöðu á grundvelli staðreynda

Nú þegar kemur enn og aftur að því að taka afstöðu til Icesave málsins er mikilvægt að menn geri sér grein fyrir því um hvað valið raunverulega snýst. Það snýst ekki um að uppfylla lagalegar skyldur eða að ýta undir erlenda fjárfestingu. Í erlendum fjölmiðlum hefur enda komið fram að Bretar og Hollendingar ætlist til þess af Íslendingum að þeir fallist á kröfur sem aldrei myndi hvarfla að þeim sjálfum að samþykkja væru þeir í okkar stöðu. Það kann hins vegar að vera að einhverjir telji rétt að fallast á kröfur Breta og Hollendinga til þess að komast hjá því að þeir beiti áhrifum sínum í alþjóðastofnunum eða vegna þess að menn telja rétt að hlaupa undir bagga með breska og hollenska ríkinu, en bæði lönd standa frammi fyrir miklum niðurskurði. Aðalatriðið er að menn taki afstöðu á grundvelli staðreynda.

Að losna við umræðuna

Svo kann að vera enn ein ástæða fyrir því að einhverjir vilji klára málið, þ.e. að viðkomandi sé orðinn svo þreyttur á umfjöllun um Icesave að sá hinn sami sé reiðubúinn til að samþykkja málið til að losna við umræðuna. Eða eins og það væri þá líklega orðað: ,,Menn vilji bara sjá eitthvað klárast“. Það kann reyndar að reynast erfitt að útskýra fyrir framtíðarkynslóðum að fallist hafi verið á himinháar ólögvarðar kröfur vegna þess að allir voru orðnir svo þreyttir á umræðunni. Hin endalausa umræða hefur reyndar verið að mestu leyti óþörf og til þess fallin að draga athyglina frá staðreyndum.

Verra er þó að með því að fallast á núverandi tilboð eru menn ekki lausir við Icesave, þvert á móti: Með samþykkt Icesave-kröfunnar verður íslenska ríkið orðið áhættufjárfestir þar sem sveiflur í verðmæti einstaka fyrirtækja geta verið jafnmiklar og allur niðurskurður hinna svo kölluðu ,,kreppufjárlaga“. Fjármálaráðherra þarf þá að fylgjast með markaðsfréttum á Bloomberg og Financial Times um leið og hann vinnur að fjárlagagerð til að reyna að átta sig á því hversu mikið hann þarf að skera niður á heilbrigðisstofnunum eða hjá lögreglunni. Verðmæti Hamley‘s féll, þar fóru samgöngubæturnar.

Ein af ástæðum bankahrunsins var óábyrg hegðun í áhættufjárfestingum. Menn fjárfestu bara og vonuðu svo að allt færi á besta veg. Engum datt á þeim tíma í hug að einn banki gæti fallið, hvað þá þrír eða fleiri, en það gerðist nú samt. Með því að samþykkja Icesave kröfurnar er ríkið farið að haga sér á sama hátt. Samþykkja kröfur sem bera í sér gríðarlega áhættu og vona svo að allt fari á besta veg. En eitt af því sem við Íslendingar eigum að vera búin að læra af biturri reynslu er að það miðar ekki alltaf allt að hinu besta í besta heimi allra heima. 

Niðurstaðan

Nú kann að vera að einhverjir geti fallist á að ríkið spili rúllettu með almannafé og taki á sig kröfur sem ekki er lagastoð fyrir. Þingmönnum er hins vegar ekki stætt á því að undirrita óútfylltan tékka í nafni umbjóðenda sinna að þeim forspurðum, allra síst eftir að búið var að vísa málinu til þjóðarinnar og hún búin að skila mjög afdráttarlausri niðurstöðu.

Þá kann að vera að einhverjir svari því til að fólk nenni ekki að kjósa um þetta mál, ekki frekar en það nenni að hlusta á fréttir af því. Sé það raunin geta þeir hinir sömu hætt að tala um eflingu beins lýðræðis því eigi almenningur ekki að hafa síðasta orðið í þessu máli, sem þegar hefur verið vísað til þjóðarinnar og snýst um að skattgreiðendur taki á sig byrðar umfram lagaskyldu, þá ættu ekki mörg mál heima í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tíminn vinnur með okkur í þessu máli. Stöðugt hafa nýjar upplýsingar verið að koma fram sem hjálpa okkur að taka upplýsta afstöðu. Það liggur því ekki á að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna. Ætli þingið hins vegar að taka málið til sín og samþykkja það með allri þeirri áhættu, óvissu og skorti á upplýsingum sem við stöndum frammi fyrir er það framhald á því fúski sem hingað til hefur leitt af sér endalaust klúður.

Lærum af reynslunni og vinnum málið almennilega. Tökum afstöðu byggða á öllum upplýsingum. Þjóðin kveður svo að lokum upp sinn dóm.