Forseti Íslands ákvað að veita íslensku þjóðinni tækifærið sem meirihluti Alþingis vildi ekki veita henni, til að taka sjálf ákvörðun um hvort ríkisábyrgð verður sett á Icesave reikningana. Því ber að fagna. Ég hef áður sagt að þegar ætlunin er að setja tugmilljarða áhættu á hendur borgurum þessa lands án þess að lagastoð sé fyrir því, þá sé algert lágmark að borgararnir séu sjálfir spurðir álits.
Það er ekki síður mikilvægt, nú þegar ljóst er að þjóðin fær að ákveða það sjálf hvort hún vill afgreiða Icesave málið með núverandi samningi, að umræðan sem fer fram í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði málefnaleg og byggist á staðreyndum.
Við höfum því miður upplifað það á fyrri stigum Icesave málsins að ýmsir, og þá sérstaklega talsmenn og álitsgjafar ríkisstjórnarinnar, hafa haldið úti gengdarlausum hræðsluáróðri til að skelfa þjóðina til hlýðni. Nú er mikilvægt að muna að engin af þeim heimsendaspám hefur ræst. Þvert á móti hefur tíminn unnið með okkur Íslendingum og hagur okkar vænkast.
Skuldatryggingaálagið hefur lækkað, fyrirtæki eins og Marel og Landsvirkjun hafa fengið fjármögnun frá erlendum aðilum og Ísland er ekki útskúfað úr alþjóðasamfélaginu, eins og margir spáðu þó svo eftirminnilega.
Svona yfirlýsingum og hræðsluáróðri verður að linna og þess í stað verður að leggja áherslu á að afla betri upplýsinga um möguleg áhrif og áhættur hvors möguleika fyrir sig, já eða nei. Þessar upplýsingar, ásamt þeim sem nú þegar liggja fyrir, þarf þjóðin svo að kynna sér og ganga að því loknu til atkvæða.